Sálmurinn hefur fengið sitt eigið lag núna í maí 2021. Ég samdi það við slaghörpuna síðustu vikur. Mér fannst hann ætti það skilið við uppáhalds bragarháttinn minn, ljóðaháttinn:
Í þínar hendur, hirðir minn,
ég hvert mitt fótmál fel,
þú geymir mig, minn Guð, á vegi.
Og þegar sækir þreytan að
og þyngir ferðalag,
þú berð mig uppi dag frá degi.
Er áhyggjurnar mæða mig
– að mörgu hyggja þarf –
þú segir við mig sama orðið
og systrum þeim í þorpinu
sem þótti afar vænt
um þig, – þú varst við veisluborðið.
Og önnur þeirra hlustaði´ hljóð
en hin á þönum var,
hún þjóna vildi þér með sóma.
Það Marta þurfti’ að nema þó
að nauðsynlegast sé
að hlýða á þitt orðið hljóma.
Þar María við fætur þér
með fylgjendunum hljóð
þig hlýddi á og virðing veitti.
Hún mætti þér á þeirri stund
og þína heyrði rödd,
það augnablik þitt öllu breytti.
Í þinni hendi hamingja
og heill um eilífð er.
Hjá þér ég hvíli grænar grundir.
Þú brynnir mér við lífsins lind,
þar ljómar þú við mér,
minn góði hirðir, sælustundir.
Guðm. G.
Lagið samdi ég í maí 2021. Hér má hlusta á það í rafrænni útgáfu en gaman væri ef einhver vildi nota það við helgihald. Myndi gjarnan vilja vita af því.

Lagið á Pdf-formi er fáanlegt hjá mér.
