Ég var orðinn leiður á Meistara mínum
og mátti til að reyna eitthvað nýtt.
Ég kvaddi með virtum og hélt út í heiminn,
en himininn brosti þó við mér blítt.
Á göngunni mætti ég manni sem sagði,
að mín uppljómun væri að losa mig
frá öllu sem tengdi mig tilveru lífsins
og takmarkið væri að finna sig.
Svo skildu að leiðir og einmana átti
ég óljósan draum um að verða ég,
en fjarrænn ég varð og mjög firrtur frá öllu.
Ég fann ekki sjálfið á þennan veg.
Þá mætti ég öðrum, sem angistin hafði
í örlagahendi og skellihló
að vonlausri trú hans, sem vinur minn henti.
Hann varð eftir það bara skin sem dó.
Ég hugleiddi allar þær hugsanabrautir,
sem heimsbyggðin aldi í góðri trú,
en allt fannst mér ganga á glötunarvegi
og guðleysið kallaði: Bænheyr þú.
En Meistarinn gamli, sem mætti ég forðum
var meira en hugmynd í góðri trú.
Hann lifði með mér gegnum mannlífsins strauma,
nú mætti ég Guði, –
sem ÉG og ÞÚ.
(um 1979) Guðm. G.