Tal við Guð um möguleika þess

Súlur, Kerling og Hlíðarfjall séð frá Svalbarðsströnd. Ljósmynd: Guðm. G.

Guð, eftir orðum spekinganna,
sem ég hef verið að takast á við í huga mínum,
þá á ég varla að geta átt í samskiptum við þig.

Skynsemin frá tímum upplýsingarinnar
er löngu búin að afgreiða þig
og senda þig handan við eða út fyrir skynsemina.
Ekki beint þakklæti fyrir vitið sem þú gafst okkur hlutdeild í.

Siðferðið þarf stundum á þér að halda,
til að hlýða einhverju skylduboði,
sem á að vera æðri en mannlegar hugmyndir,
sprottið af réttri breytni,
en aðrir segja það mesta óþarfa,
mannúðin ein nægi og er miklu betri.
Ekki mikil virðing fyrir því sem þú hefur sagt
í mannlegri sögu og birtist í trúarbrögðunum.

Hvorutveggja krefst frumkvæðis af manninum,
sem hugsandi veru, siðferðisveru og samfélagsveru.
Kannski er það þess vegna sem þú mátt ekki vera með.
Þú truflar hugsanir okkar. 

En tilfinningarnar eru með öðrum hætti.
Þær bregðast við einhverju ytra áreiti.
Varðandi tilfinningarnar er maðurinn þiggjandi,
undrast og þakkar.
Með tilfinningunum reynir maðurinn
að tilveran er heild.

Sumir meina að með þeim greinum við þig
sem skapara og endurlausnara,
vegna þess að þú gefur okkur tilfinningu fyrir þér.
Það er eitthvað til í því að með hjartanu skynjum við þig.
Með einhverjum hætti þekki ég þig,
þannig að ég er að tala við þig.

Er það sjálfsblekking sálar minnar
eða er það á hinn veginn,
að ég þekki þig af verkum þínum? 

Ég trúi því að þú sért góður,
þess vegna vil ég vera mannúðlegur,
og ég bind mig við þig og orð þín,
vegna þess að þar veitir þú mér þekkingu
á veruleikanum eins og hann er,
með skynsamlegum orðum,
þannig að ég sé í gegnum blekkinguna,
sé þig í ljósinu og lífinu,
svo að ég átti mig á myrkri skynseminnar,
viljans og tilfinninganna, eins og Páll postuli talaði um. 

Það eru hin miklu umskipti í hugsun minni,
hvort ég sé einn eða að þú ert og ég þess vegna.

Published
Categorized as Bænir

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: