Merkilegt að sitja á steini við ysta haf,
sem er það varla lengur,
en þar lenti ég á vegferð minni.
Þar hugleiði ég tilvist þína, Guð,
eða tilvistarleysi við öldurgjálfrið.
Þegar bænin var þögnuð um tíma,
þá lifði áfram minning um þig
í gömlum hugleiðingum og reynslublossum.
Getur þú verið viðfangsefni hugsunar?
Þegar hugsunin er brjáluð
vegna rofinna tengsla
við upphafið, ranghvolfist allt,
svo að við menn verðum frumforsenda fyrir tilvist þinni.
Þannig ályktaði ég með heimspekingnum:
„Ég hugsa þess vegna er ég“,
en ekki: „Þú Guð er vitið í tilverunni þess vegna hugsa ég“.
Er það ekki merking þess
að vera skapaður í Guðs mynd?
Þar sem ég er að koma út úr þögninni
líður mér stundum eins og gesti
innan um hugsanir um Guð
sem voru mér svo eiginlegar áður.
Ég hugsa meira eins og almennt gerist
í veröldinni á síðustu tímum,
án þess að stærðin, fyrirbærið,
hugsunin um Guð hvarfli að mér,
hvað þá meira.
Og á steininum í fjörunni velti ég því fyrir mér
hvaða þýðingu tal við Guð hefur?
Er einhver kostur á samtali við Guð?