Sálmar og bænalíf – 6. kafli – Fyrirbæn og þakkargjörð

Í 10. þætti er fjallað um fyrirbæn sem vaknar hjá biðjandi manni þegar hann áttar sig á eigin neyð og annarra. Þegar við reynum bænheyrslu brýst þakklætið fram. Rætt var við Jóhönnu Norðfjörð forstöðumann Hvítasunnukirkjuna á Akureyri um fyrirbænaþjónustu og bænheyrslu.

10. þáttur

Í þessum 10. þætti verður fjallað um fyrirbæn og þakkargjörð. Það má skipta sálmunum á einfaldan hátt í tvennt, lofgjörð og bænasálma. Í síðasta þætti ræddum við um þroskaferil trúarinnar frá lofgjörð sem leiðir okkur til að sjá neyð okkur og annarra þegar við snúum okkur að veröld okkar eftir að hafa mætt Guði. Þá vaknar bænin. Það kallaði ég í síðasta þætti að spyrna sér upp af botninum. Svo kemur undrunin yfir hjálp Guðs sem dregur sálmaskáldið upp úr glötunardjúpinu og veitir því fótfestu á kletti, svo við notum orðafæri Davíðssálma. Og undruninni fylgir þakklæti. Þetta er trúarreynslan sem leiðir okkur svo til Guðs að nýju og þá syngjum við Guði nýju söng um skaparann og frelsarann. Nýji söngurinn er annað en upphafleg lofgjörð vegna þess að hann vaknar eftir reynslutíma, eins og hreinsað gull. Þá kemur þessi áhersla að kalla alla til lofgjörðar og þakklætis. Við förum að heyra djúpa samkennd með öllum og öllu sem knýr okkur til fyrirbænar. Það er ekki sterkt stef í Davíðssálmum svo maður veður að hlusta vel eftir því til að heyra það. Því sterkara er það í kennslu Jesú um bænina sem við skoðum og ræðum hér á eftir. En fyrst skulum við skoða eitt dæmi um fyrirbæn í Slm 80.

Guð fyrirgefningarinnar og miskunnseminnar vekur þakklæti og fyrirbæn fyrir sjálfum sér og þjóð sinni og konunginum. Við heyrum á meðan hluti af sálminum verður lesinn tónlist og söng eftir Francoir Couperin við konunglegu kapelluna í Versölum. Angurvært lagið túlkar bænina fyrir þjóð og konungi. (1:96 mín).

Bæn um endurlausn, v. 1-4

4 Guð, snú oss til þín aftur
og lát ásjónu þína lýsa,
að vér megum frelsast. 

Hversu lengi, Drottinn? v. 5-8 

5 Drottinn, Guð hersveitanna,
hversu lengi ætlar þú að vera reiður
þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta
og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra,
og óvinir vorir gjöra gys að oss.

Bæn um hjálp Guðs og frelsun, v. 13-20

15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur,
lít niður af himni og sjá
og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það
sem hægri hönd þín hefir plantað,
og son þann, er þú hefir
styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn,
fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum
við þína hægri hönd,
yfir mannsins barni,
er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér.
Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt. 

20 Drottinn, Guð hersveitanna,
snú oss til þín aftur,
lát ásjónu þína lýsa,
að vér megum frelsast.

Slm 80. Logos – Psalm Explorer: Psalm 80. Yfirskriftirnar og skipting sálmsins mín þýðing af þessari netútgáfu.

Biðjandi maður sér raunverulega neyð sína og annarra

Slm 80 er gjarnan flokkaður sem angurljóð lýðsins eða þjóðarinnar. Fyrstu versin eru dæmigerð. Í síðasta þætti fjölluðum við um angurstef í þakkarsálmi (Slm 116). Þannig að ég hef ruglað dálítið í flokkun sálmanna enda bendi ég á að stefin eru fléttuð saman af trúartilfinningum. Það gerir listfengi þeirra.

Í þessum sálmi birtist okkur myndin af trénu aftur eins og í Slm 1, hér sem táknmynd fyrir þjóðina. Guð hefur yfirgefið vínvið sinn. Dýrin naga hann. Kórinn er endurtekinn og að lokum er hann sveigður að myndmálinu: „Guð hersveitanna, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa“ (Slm 80.15). Það er fyrirbænin fyrir þjóðinni í sálminum.

Fyrirbæn er ekki fyrirferðamikil í Davíðssálmum eins og ég nefndi en hér höfum við dæmi um það „varðveit það sem hægri hönd þín hefur plantað, og son þann, er þú hefur styrkan gjört þér til handa“ (v. 16). 

Hér er bæn fyrir þjóðinni og svo fyrir konunginum. Hugsunin er sú að konungurinn er fulltrúi þjóðarinnar eða samnefnari þjóðarinnar í seinni bæninni: „Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa, þá skulum vér eigi víkja frá þér“ (v. 18-19).

Harrison talaði um „fyrirbænir, fyrir konunginum, Jerúsalem, þjóðinni og öðrum þjóðum“. Þessi hluti sálmsins er dæmi um þetta. Með gleraugum kristninnar sjá menn gjarnan Slm 80.18 einn af spádómunum um Krist eða lesa sálminn út frá píslarsögunni og konungsdæmi Krists. Jafnframt verður skýrari með komu Krists köllunin til fyrirbænar fyrir öllum þjóðum. Það er hlutverk safnaðanna þar sem Meistarinn sjálfur er fyrirmynd með bæninni sinni Faðir vor. Eigin neyð, kirkjunnar, samferðafólks og alls heimsins er lögð á hjarta okkar þar sem við höfum Krist sem fyrirmynd.

Heiler sem ég hef nefnt áður sem skrifaði stórmerka bók um bænina bendir á að fyrirbænin hefur fengið aukið vægi í bænagjörð kristinna manna og að Jesús er fyrirmynd í því. Bölvun eða formælingjar eins og finna má hjá Jeremía og í Davíðssálmum viku fyrir því að elska óvini sína og biðja fyrir þeim eins og Jesús kenndi (Mt 5.44). Við eigum eftir að skoða betur blessun og bölbænir í Davíðssálmum í síðara erindi. Heiler nefnir þakklæti eða þakkargjörð (e. thanksgiving) sem eina af tilfinningum bænalífsins. Í þeim hluta ræðir hann um aðgreiningu milli lofgjörðar og bæna eins og ég hef bent á. Hann vitnar þar til siðbótarmannanna Calvins og Zwingli: 

Það er réttlætanlegt að tala um aðgreiningu milli bænar og lofgjörðar eins og alvanalegt er. Calvin staðhæfir í sinni guðfræði: “Það eru tvær hliðar á bæn þ.e. beiðni og þakkargjörð”. Skilgreining Zwingli er á þessa leið: “Bæn er fyrst lof og dýrkun, og svo örugg beiðni um hjálp í þörf okkar”. Þakkargjörðin er gleðileg viðurkenning á að Guð hefur gefið af náð sinni og gæsku. Biðjandi fólk játar að ytri og innri hamningja þess stafi af Guðs frjálsu gjafmildi, þakklæti þeirra er tákn um að það er algjörlega háð Guði.

Heiler, F. Prayer. A Study in the History and Psychology of Religion. Oneworld, Oxford. 1932. S. 246-248.

Í framhaldinu nefnir hann þakkargjörð í Davíðssálmum og þakkarbænir fyrir daglegu brauði og borðbæn (Slm 104, 107) sem varð veigamikill þáttur í helgihaldi kristinna manna með altarisgöngunni sem nefnd er þakkargjörðarbæn. Á grísku er altarisgangan „eucharistia“ og þýðir einfaldlega þakkargjörð og byggir þá á atferli Jesú þegar hann „gjörði þakkir“ við síðustu kvöldmáltíðina og bauð lærisveinum sínum að halda máltíðina í sína minningu (1. Kor 11.23-24).

Það vekur þakklæti að njóta fyrirgefningar og miskunnar

Orðalag Slm 80 kann að hljóma eins og verslunarafstaða til Guðs, ef þú þá skulum við, „þá skulum við ekki víkja frá þér“. Ef við setjum þessi orð í okkar samhengi gætu þau hljómað svona í almennri kirkjubæn: „Við biðjum fyrir þjóð okkar að þú varðveitir hana frá efnahagshruni svo hún visni ekki upp, láttu ríkisstjórn okkar njóta leiðsagnar þinnar og leiða okkur til farsældar þá skulum við vinna að því með leiðtogum okkar“. Spurning hvort við sjáum ekki hér mannlegar tilfinningar, sem við könnumst vafalaust við, bæn sem leiðréttist í ljósi Guðs. 

Svo má jafnframt sjá það í tengslum þjóðarinnar og Guðs, að sálmaskáldið er að tjá iðrun þjóðarinnar með orðunum: „Viðhald lífi okkar, þá skulum við ákalla nafn þitt“. Það hefur lokist upp fyrir sálmaskáldinu að Guð er gæfuleiðin eins og stefið klifar á „Guð, snú þú oss til þín aftur… lát ásjónu þína lýsa“ (80.4)

Hér kemur í ljós munurinn á angurljóðinu og þakkar-sálmunum. Angurljóðið horfist í augu við raunveruleikann og tjáir neyðina sem blasir við meðan í þakkarsálmunum er Guði þökkuð hjálpin og skáldið hugleiðir hjálpina jafnvel frá fyrri tíð til að styrkja trúna í andartaki bænarinnar.

Leiðsöguorðið „því að…“

Þakkarsálmarnir hafa því leiðarorðið „því að…“ eins og í Slm 116 sem við skoðuðum í síðasta þætti (kafla). Hann er dæmi um þakkarsálm sem byrjar svona „Ég elska Drottinn því að hann heyrir grátbeiðni mína“ (Slm 116.1). Leiðarorðin koma svo aftur „Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín“ (Slm 116.7). Í Slm 80 má því segja að Guð er ástæðan fyrir velgengninni svo verslunarsjónarmiðið er ekki svo sterkt heldur hugsunin að binda sig við Guð með bæn um gæsku hans og blessun eins og Heilar útskýrði að sé eðli bænarinnar. 

Dæmi úr sálmabókinni

Nú gjaldið Guði þökk eftir Rinckart í þýðingu Helga Hálfdanarsonar er dæmi um þakkarsálm kirkjunnar. Höfundur lags er Johann Crüger (1647). – Brueggermann sem var rætt um í síðasta þætti, talar um „nýja söngin“ eftir reynsluna, þessi djúpa þökk fyrir hjálpina en mest fyrir að vera Guðs eins og segir í þessum sálmi „hans gjörvöll barna hjörðin“. Hann tekur þetta sem dæmi um einmitt „nýja söngin“ og „þakklætið“.

Við höfum skoðað Slm 1 þar sem talað er um að allt lánist þeim sem njóta leiðbeiningar Drottins og í Slm 112 er stígið enn legra: „réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu“ (Slm 112.9). Það er óraunsæ sýn á lífið. Það má kalla dýrðargruðfræði og Lúther gagnrýndi þann þankagang og boðaði guðfræði krossins. Reynslan kennir okkur að hlutirnir eru ekki svo einfaldir heldur er lífið reynslutími sem Guð leggur á okkur og Jesús kenndi okkur að biðja: „Ekki leið þú oss í freistni“, þ.e. að reynslan verði okkur ekki ofraun heldur að hann frelsi okkur frá illu. Guð gefur okkur að reyna fyrirgefningu, miskunn og hjálp í erfiðleikum okkar. Það er uppspretta þakklætisins sem er tjáð í þessum sálmi kirkjunnar: „í náð og sátt við sig oss seka taki hann“… og „Guð faðir, þökk sé þér og þínum dýrsta syni og æðstum anda skýrð af engla’ og manna kyni.“ (3. erindi). Guð er lofaður fyrir það sem hann gerir. Þökkin er fyrir það sem hann hefur gert og gerir, þríeinn Guð, til bjargar okkur. Þannig kveiknar „nýr söngur“ eða eins og við höfum í þekktum þakkarsálmi: „Ég vil ljóða um Drottinn meðan lifi“ (Slm 104.33) og „Syngið Drottni nýjan sögn“ (Slm 149.1). 

Hlustum á þenna magnaða þakkarsálm í fluttningi Scola Cantorum

Nú gjaldi Guði þökk
hans gjörvöll barnahjörðin,
um dýrð og hátign hans
ber himinn vott og jörðin.
Frá æsku vorri var
oss vernd og skjól hans náð,
og allt vort bætti böl
hans blessað líknarráð.

Vor Guð, sem gjörvallt á,
oss gefi snauðum mönnum
í hjörtun æðstan auð
af andans gæðum sönnum,
í náð og sátt við sig
oss seka taki hann
og leiði loks til sín
í ljóss og dýrðar rann.

Guð faðir, þökk sé þér
og þínum dýrsta syni
og æðstum anda skýrð
af engla’ og manna kyni.
Þitt vald, sem var og er
og verður alla tíð,
sé heiðrað hátt um jörð
og himin ár og síð.

Rinckart – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson

Samtal við Jóhönnu Norðfjörð forstöðumann Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri um fyrirbæn og þakkargjörð

Samtalið má hlusta á í hljóðskránni hér efst á síðunni á 16:15 mín.

Hvítasunnukirkjan á Akureyri

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: