Sálmar og bænalíf – 5. kafli – Bæn og angur

Í 9. þætti er bænin rannsökuð og skilgreind sem ákall til Guðs í neyð. Í innilegu samfélagi við Guð horfist biðjandi maður í augu við raunverulegar aðstæður sínar í trúnaðartrausti. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur ræðir um bæn og sálgæslu.

9. þáttur

Bæn og angur – Sálmur 116

Í þessum 9. þætti verður fjallað um bæn og angur. Síðast talaði ég um iðrun og angist. Þar fórum við á dýpið, alveg til botns í bænalífinu, en hér er leiðin aðeins upp á við. Með því að skoða betur bænalífið í heild fáum við nauðsynlega yfirsýn sem hjálpar okkur. Vonandi komumst við svo langt í þessum þætti.

Eins og öllum ætti að vera ljóst er Lúther sá sem hefur kennt mér hvað mest um bæn. Hann var orðhákur og sagði hlutina blátt áfram. Þetta sagði hann við hrelldan vin sinn sem var að vandræðast í bæn sinni: „Þú verður að láta þér lærast að ákalla og ekki sitja auðum höndum og láta hugsanirnar naga hugskot þitt … Nei, upp með þig, letingi, krjúptu á kné, lyftu höndum og augum til himins, lestu einn Davíðssálm eða Faðir vor og leggðu neyð þín fram fyrir Guð“. Hér er athyglisvert að Lúther setur ákallið í allri þörf í samband við bæn, lofgjörð og þakkargjörð en fyrst og fremst er það Guðs orð sem hjálpar. Lærdómurinn sem Lúther dró af angurljóðum sálmanna eða bænasálmunum er að „leggja neyð sína fram fyrir Guð“. Lýsingin á neyðinni, angur sálmaskáldsins, er svakaleg, eins og við eigum eftir að skoða, en raunveruleg, þó erfitt sé í öllum tilfellum að átta sig á aðstæðum skáldsins. Þannig megum við einnig tjá neyð okkar og það er sáluhjálp í því, að biðja til Guðs föður og himnum, að tala við Jesú sem bróður sinn. Þannig talar Biblían um innilegt samband við Guð. Í bæn er sem sagt tekist á við lífið eins og það er með Guði.

Sumir fræðimenn tala um bænasálma. Gunkel skipti sálmunum í tvo grunnflokka, bænir og lofsöngva. Bænin er að fara með neyð sína fram fyrir Guð, biðja hann. Annars verður það áframhaldandi angur og getur leitt til þunglyndis og örvæntingar. Lúther átti þannig tímabil og eflaust við mörg hver. Sálfræðimeðferðir eru stundum þetta að koma af stað innra samtali við sjálfan sig (sálina), það sem fólk hefur gert í bæninni öldum saman nema þá talar það við Guð. Bænin tengist öllum gerðum sálma að mínu viti. Það er sambandið milli hymna eða lofsöngva, angurljóða, bæna eða beiðna og þakkarsálma eins og ég hef bent á. Davíðssálmar eru andsvar sálmaskáldanna við Guð sem opinberar sig. Biðjandi kristin maður játast Guði sem birtir ásjónu sína.

Sá sálmur sem ég hef valið að fjalla um að þessu sinni er flokkaður sem þakkarsálmur en bænastefið kemur svo sterkt fram í honum. Það er Slm 116. Síðast lásum við saman iðrunarsálm (Slm 51) og eigum eftir að skoða angursálm í næsta þætti (kafla). Enda erum við að spyrna okkur aðeins upp frá botninum og átta okkur á hvað bæn er í eðli sínu. Skilgreiningin sem ég hef hamrað á er að bæn er að ákalla Guð í neyð sinni. Það hefur tvær hliðar annars vegar neyðina hins vegar bæn til Guðs sem getur hjálpað. 

Við skulum hlusta á þennan tilfinningaríka og átakanlega þakkarsálm. Munurinn á angurljóðum og þakkarsálmum er að skáldið er í miðri neyðinni í angurljóðinu en lítur til baka í þakkarsálmi eftir að hafa fengið hjálp. Á meðan við hlustum á hluta af Slm 116 heyrum við bænaákall „Frelsa mig Drottinn“ í gregorsöng af diskinum Immortel Gregorien. Á latínu heitir lagið Libera me Domine: (Í helgihaldi er bæn faðir vorsins “frelsa oss” útfærð í svokallaðri litaníu þar sem söfnuðurinn tekur undir ákallað: “frelsa mig” eða “libera me”.)

Ég elska Drottin,
af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
Hann hefir hneigt eyra sitt að mér,
og alla ævi vil ég ákalla hann.
Snörur dauðans umkringdu mig,
angist Heljar mætti mér,
ég mætti nauðum og harmi.
Þá ákallaði ég nafn Drottins:
„Ó, Drottinn, bjarga sál minni!“
Náðugur er Drottinn og réttlátur,
og vor Guð er miskunnsamur.
Drottinn varðveitir varnarlausa,
þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
Verð þú aftur róleg, sála mín,
– því að Drottinn gjörir vel til þín. 

Slm 116.1-7

Ávarpið – Sambandið ÉG – ÞÚ 

Þetta er þakkarsálmur að formi og inntaki eins og ég hef bent á. Í þessum sálmi fara saman bæn, angur og þökk eins og víðar í Davíðssálmum. Slm 116 er talandi dæmi um bæn vegna þessi að hann hefur að geyma ágæta skilgreiningu á bæn: „Ég elska Drottin, (það er þetta innilega samband) af því að hann heyrir grátbeiðni mína. Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann“ (v. 1-2). Við skoðum aðeins fyrstu sjö versin en lesið allan sálminn. 

Þakkarsálmar byrja gjarnan með ávarpi. Hér hefst sálmurinn með játningu um Guð eða tengsl sálmaskáldsins við Guð en hann ávarpar sál sína. Sálmaskáldið játast Guði vegna þess að hann nýtur náðar hans. Guð hlustar á bænir hans. Það er litið til baka á bænheyrslu frá fyrri tíð. Bæn er persónulegt samband við Guð þar sem við ávörpum hann og hann talar til okkar í sínu orði. Ég segi stundum að bænin er það persónulegasta og innilegasta sem við lifum, þar erum við með leyndustu hugsunum okkar, sem við ein vitum um og Guð. Orð Ágústínusar kirkjuföður eiga hér við að sálin er óróleg uns hún hvílir í Guði. 

Bæn er ákall í neyð

Lúther skilgreindi bænina með sama hætti og sálmaskáldið: „Bæn er eins og annað boðorðið kennir að ákalla Guð í allri neyð“. Hann hefur þessa skilgreiningu úr Davíðssálmum reyndar ekki aðeins úr þessum heldur svipuðum orðum t.d. í Slm 50.15: „Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig.“ Hann er hér að útleggja boðorðin í Fræðunum meiri. Fyrsta boðorðið beinir hjartanu og trúnni að Guði og annað boðorðið heldur svo áfram og snýr máli og tungu að Guði. Nafn Guðs hefur með bænina að gera í fræðunum hjá Lúther. Þannig kenndi hann að fræða ætti börn í Fræðunum minni: „Við eigum að óttast og elska Guð, svo að við … biðjum … í hans nafni, … áköllum það í allri þörf, biðjum, lofum og þökkum“. 

Raunverulegar aðstæður

Ég nefndi í upphafi að Lúther benti vini sínum á að leggja neyð sína fram fyrir Guð á kröftugan hátt. Á öðrum stað, í skýringum sínum á Faðir vorinu, kennir hann að við eigum að biðja um eitthvað ákveðið og vænta svars, annars erum við eins og betlari sem réttir fram betliskálina sína en heldur henni ekki kjurri, svo hann nær ekki að taka við neinum gjöfum. 

Annan bænarinnar mann vil ég nefna sen dæmi. C. S. Lewis skrifaði bók aðallega um bæn sem bréf til vinar. Þá bók hef ég nefnt áður. Í þeirri bók dregur hann lesendur sína inn í raunveruleikann og opnar augu okkar fyrir aðstæðum okkar. Bæn okkar í vandræðum okkar og angri er í eðli sínu ákveðið form af angist. Svo útskýrir hann þessar aðstæður okkar fyrir vini sínum útfrá bænabaráttu Jesú í Getsemane. Þar brást allt. Hann veltir því fyrir sér hvort Jesús hlyti ekki að hafa séð það sem möguleika að Guð tæki bikar þjáningarinnar frá honum. Annars hefði bænin ekki verið raunveruleg bæn heldur yfirvarp og leikaraskapur. Þannig var sonur Guðs maður eins og við. Lewis orðar það þannig: „að lifa í fullkomlega fyrirsjáanlegri veröld er ekki mannlegt“. (bls. 57) Í Getsemane frásögninni er sagt frá engli sem kemur til hjálpar og huggar Jesú, en það ætti eiginlega að standa að styrkja hann. Í því fólst að endurnýja í trúartraustið til að halda út og geta þannig gert vilja Guðs. Í næsta kafla bókarinnar hefur sonur vinar hans veikst alvarlega og hann er í óvissu um afdrif hans og bíður niðurstöðu læknanna. Allt í einu reynir á orð hans og bænir þeirra fyrir syninum. Þannig tekst Lewis að segja að bænin er alltaf persónuleg glíma með Drottni við raunverulegar aðstæður þar sem við áköllum Guð og biðjum um það sem á okkur brennur hverju sinni.

Traust vegna þess að Guð er Guð

Bæn í þessu skilningi er ekki flótti frá lífinu heldur gæfuleg leið til að takast á við það eins og það kemur fyrir. Lúther kennir eins og Sálmarnir okkur að ganga út frá trúnni á Guð. Hann kennir okkur að ákalla Guð í allri neyð en líka að þakka og lofa hann í meðlæti og velgengni. 

Við sjáum í Slm 116 að þar er neyðinni lýst og hjálparleysinu og björgun Guðs úr neyðinni, „þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér“, það er ástæðan fyrir þakklætinu. Sá sem glatar trúnni í mótlætinu beygist inn í sjálfan sig. Það kallaði Lúther að örvænta. En hann þekkti eins og sálmaskáldið þá togstreitu sem angistin getur vakið eins og kemur fram í 10. og 11. versinu í Davíðssálminum: 

Ég trúði, þó ég segði: “Ég er mjög beygður.” 
Ég sagði í angist minni: “Allir menn ljúga”. 

Slm 116.10-11

Hér er enn verið að lýsa því sem var. Þannig er trúin oft að túlka reynslu sína eftir á. Það einkennir þakkarsálmana að þeir eru þessi lýsing á velgjörðum Guðs en enda svo á heiti um þakkarfórn og vitnisburð í söfnuðinum. 

Lítum aðeins á útskýringar Páls postula í Rómverjabréfinu 10. kafla. Hann segir þar um það að ákalla Guð:

Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða. Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; því að hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða.

Róm 10.10-13

Hér vitnar Páll í Slm 86.5. Sá sem ákallar Guð væntir alls góðs af honum. Það er að trúa sér til réttlætis. Bænin og trúin heyra þannig saman. Hvers vegna elskar sálmaskáldið Guð? Hann elskar Guð vegna þess að Guð heyrir grátbeiðni hans. Á þeirri sömu forsendur játar sálmaskáldið trú sína: „Ég trúði…“. Hann trúði í „angist sinni“ (Slm 116.10). Það er mikil mildi að varðveita trúna þegar á reynir.

Dæmi úr eigin sálmasafni

Ein af þeim trúarraunum sem við heyrum um í Davíðssálmum er, eins og kemur fram í Slm 116, efi annarra um bænheyrslu Drottins. Sálmaskáldið segir: “Allir menn ljúga”. Spurt er hvort Guð hjálpi nokkuð og angurfullur syngur ljóðaskáldið: „Heimskinginn segir í hjarta sínu enginn Guð“ (Slm 14.1). Angistin er sú að ná ekki til Guðs, að hann sé fjarlægur, handan við stjörnur og himinn. 

Sú hugsun sótti á mig í Vatnaskógi eitt kvöld og gerði mig angurværan. Ég horfði upp í stjörnubjartan himin. Ég rifjaði upp orð úr gamalli kirkjusögu þar sem sagt var frá því að ennþá lifði vitnisburður þeirra sem höfðu mætt Jesú augliti til auglitis. Það var þeim ógleymanleg reynsla. Hugsunin kom til mín: Í augum Jesú birtist auglit Guðs okkur sem er ofar himni og jörðu, Faðirinn kæri sér okkur. Jesús er bróðir okkar sem við getum talað við. Lífsreynslan mín er þessi að leita Guðs og ná ekki upp en að Guð kemur til okkar. Lagið samdi Åshild Watne, norskt tónskáld, fyrir mig fyrir mörgum árum. Við sungum saman í kór í Lilli-Borg kirkju í Osló. Helga Vilborg Sigurjónsdóttir syngur hér lagið.

HÁTT YFIR STJÖRNU HIMIN (16.00 mín)

(Lag: Með sínu lagi – Åshild Watne)

Hátt yfir stjörnu himin,
hærra en augsýn nær,
djúpt inn í blámann bjarta,
nær bæn til þín, Faðir kær.
Leit ég í ástaraugum
ómælisdjúpið það,
sem að mér áður sýndist
í stjörnuvídd, er ég bað.

Jesús á okkar jörðu
jafningi manna er,
samt er hann öllum æðri
af englunum hæstu ber.
Leyndustu dóma lífsins
leit ég í augum hans,
ómælisdjúpið opnast
í ásjónu þessa manns.

Bænin er tal við bróður,
blessaðan Jesúm Krist.
Faðirinn börn sín blessar,
sem biðja af hjartans list.
Hátt yfir stjörnu himin,
hærra en augsýn nær,
djúpt inn í blámann bjarta,
nær bæn til þín, Faðir kær.

Samtal við Sindra Geir Óskarsson um bæn og angur, og Brueggermann (18:30 mín)

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: