Sálmar og bænalíf – 4. kafli – Iðrun og angist

Í þessum 8. þætti eru iðrunarsálmarnir skoðaðir og sérstaklega 51. sálmur. Þegar biðjandi maður lítur inn á við frammi fyrir Guði sér hann sjálfan sig í nýju ljósi. Syndajátning, iðrun og bót er leið til bata fyrir fyrirgefningu Guðs. Margrét Eggertsdóttir sem leitt hefur tólf spora starf – andlegt ferðalag kemur í viðtal og lýsir hvernig iðrunargangan hjálpar fólki.

8. þáttur

Í fyrri þætti (kafla 2) las ég úr inngangi Lúthers í ritskýringu hans við Davíðssálma. Hann talaði um tvær hliðar annars vegar að í þeim lítum við inn í hjarta dýrlinga og líkti  þeim gleðilegu hugsunum við fallegan garð. Hins vegar er varla að finna orð sem tjá sorg á dýpri hátt og mála upp þjáningu og umkomuleysi á meira talandi máta. Þessar tvær hliðar fela í sér andstæðar tilfinningar og einkenndi það trúarlíf hans, trúarraun og togstreitu. Þar segir hann þessi orð sem við skulum hafa að leiðarljósi að þessu sinni: „já, þú finnur sjálfan þig í þessum sálmum og kynnist sjálfum þér í sannleika, og Guði sjálfum og allri hans sköpun sömuleiðis.“ 

Ég hef talað um Lúther áður í erindunum. Ástæðan er vafalaust sú að trúarreynsla hans eða afturhvarf mótaði mótmælendakirkjurnar umtalsvert. Þeir sem fylgdu honum að málum gengu margir lengra í að búa til kerfi og kenningar en hann, því hann var bænarinnar maður fyrst og fremst, því hef ég haldið fram. Í Davíðssálmum fann hann ljós í trúarglímu sinni sem var angistarfull og nær sturlun. Maður sem segir að þú kynnist sjálfum þér í sannleika og Guði sjálfum í sálmunum hefur reynt eitthvað sem skiptir hann sjálfan máli í það minnsta. Þá komum við að skilgreiningu hans á bæninni að hún sé að ákall Guð í neyð sinni og að eiga Guð merkir eftifarandi: „Þú væntir alls góðs af guði þínum og snýrð þér alltaf til hans í vandræðum þínum.“ Það felur í sér trú á að Guð geti gert eitthvað fyrir menn. Hann réttir fram hönd til hjálpar. Í Fræðunum minni segir hann: „Ég trúi að ég geti ekki trúað heldur hafi Guð kallað mig með fagnaðarerindinu. Og hann hefur mig glataðan frelsað.“ Það er varla hægt að segja það skýrar að Guð er að verki. Það er Guð sem frelsar, enda kenndi Jesú okkur að biðja: Frelsa okkur frá illu. Það er deginum ljósara að Lúther gerði ráð fyrir innilegu sambandi við Guð í bænalífi trúaðs manns. Jafnframt þekkti hann þá líka angistina sem þögn Guðs veldur og talaði um það að Guð hylji sig. Einsemdin er versti óvinurinn, að vera skilinn eftir einn eða ein er tortímingin sjálf, okkar dýpsti ótti. 

Þar með hef ég sagt það að það dugar ekki að herma eftir Lúther né nokkrum öðrum prédikara eða presti, leiðtoga eða andans fólki, heldur verður hver og einn að eiga samfélag við Guð sjálfan. Það sem er gleðilegt í því sambandi er að öllum er það gefið. Það er kallað fagnaðarerindi. Þú þarft ekki annað til en að vera til, því þar sem þú ert, þar er Guð. Þannig á ég mína sögu með Guði og þú þína. Ég gæti sagt þér mína sögu hvernig ég sem unglingur missti fótanna þar sem það sem ég treysti á frama í íþróttum brást mér eftir óhappi og slys. Þannig brustu framavonir mínar. Ég eignaðist vini sem hjálpuðu mér að sjá eitthvað meira og æðra þegar ég leitaði í angist minni. Við fljótið sat ég í örvæntingu og tómleika en bænir afa míns sem ég dvaldi hjá á Selfossi urðu björgun mín og hans nærgætni og umhyggja og vitnisburður um Guð. Þetta er mín saga í stuttu máli en þú átt þína sögu með Guði og auðvitað er eitthvað fólk í þeirri sögu, orð Guðs og taktu eftir því „Guð sjálfur“. 

Þegar við speglum okkur þannig í augum Guðs rennur upp fyrir okkur að við treystum ekki Guði. Það er okkur ekki eðlislægt, þvert á móti, búum við til alls konar skrýpamyndir af Guði í huga okkar, ef við skerum þær ekki út í tréstubba eða teikningum þær upp í stórkostlegum hugmyndakerfum. Það er falska öryggið sem við búum til svo við getum forðast Guð, skrýtið að við viljum frekar engjast í ótta en njóta öryggis hjá Guði sjálfum. Þannig berum við blendnar tilfinningar í brjósti gagnvart Guði. Ég veit ekki hvort þú áttir þig á því sem ég er að segja. En prófaðu sjálfan þig með spurningunni: Treysti ég Guði? Fer ég með vandræði mín til Guðs? Það er glíman sem birtist í sálminum sem við ætlum að skoða að þessu sinni, Slm 51. 

Sálmaskáldin voru mörg sem sömdu Davíðssálma, þau eru nefnd í yfirskriftum eins og ég hef bent á. Allmargir eru kenndir við Davíð konung eins og þessi. En hann er líka settur í samband við sögu Davíðs, eins og skrifað er í yfirskriftinni: “er Natan spámaður kom til hans…”. Hér er vísað í frásöguna í 2. Sam 12. Sú trúarsaga skýrir sálminn út frá ákveðnum aðstæðum. Davíð hafði komið því þannig fyrir að einn af samherjum hans og stríðshetjum féll í átökum til þess að hylja yfir að hann hafði tekið konu hans Batsebu og barnað hana á meðan maðurinn hennar var í hernaði. Davíð sálmaskáldið er með samviskubit og kvalir og finnur að samband hans við Guð er að bresta. Í ljósi Guðs játar hann brot sín og sekt. Auðvitað óttast hann afleiðingarnar og þær fær hann ekki umflúið. Þetta átti eftir að skemma samskipti hans við marga. Sálmurinn er einn af iðrunarsálmunum en það voru sálmar notaðir við skriftir, iðrun og bót. En við skulum lesa hluta af sálminum svo hlustum við á Rebekku Ingibjartsdóttur túlka seinnihluta sálmsins:

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar,
afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
Þvo mig hreinan af misgjörð minni,
hreinsa mig af synd minni,
því að ég þekki sjálfur afbrot mín,
og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum…

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
og veit mér nýjan, stöðugan anda.
Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
og styð mig með fúsleiksanda… 

Slm 51.3-5, 12-14.

Lofgjörðin miklar Guð svo biðjandinn sér sig í nýju ljósi

Ákall til Guðs um fyrirgefningu (v. 3-5): Í miðri angistinni út af synd sinni ákallar syndarinn Guð. Iðrunin vaknar við það að syndarinn nálgast Guð eins og við sjáum í þessu átakanlega dæmi sem við höfum fyrir okkur. Sálmaskáldið hefði örmagnast og örvænt í angist sinni ef hann hefði horfst í augu við synd sína eins og hann gerir hér án þess að treysta á miskunn Guðs. Eða við getum snúið því á hinn veginn að vegna náðar Guðs, elsku og miskunnsemi, áræðir sálmaskáldið að horfast í augu við synd sína, játa hana og biðja Guð um fyrirgefningu á misgjörðum sínum. Annar kostur er að afneita syndinni eða milda hana og það velja flestir og sitja því með líf sitt í hnút vegna þess að þeir iðrast ekki. Iðrun er að koma fram fyrir Guð kærleikans eins og maður er án undanbragða.

Það leiðir til iðrunar, syndajátningar og jafnvel angistar

Í sálminum sjálfum sjáum við ekki neina sérstaka tilvísun í atvik sem vekur þennan sársauka og samviskubit. Sálmaskáldið glímir við andlega freistingu. Hann gengur fram fyrir Guð ærlegur, veit og skilur að allt líf hans er augljóst í augum Guðs, iðrunin er því í eðli sínu játning til Guðs að vera honum algjörlega háður eins og er grunntónn í öllum sálminum og nær hápunkti í niðurstöðunni sálmsins, að Guð fyrirlítur ekki sundurmarinn anda og hjarta (Slm 51.19).

(Í bókinni um bæn eftir Fredrick Heiler lýsir hann vel angistinni sem ég er að ræða um með tilvísun í sögu Calvin siðbótarmanns og Jeremía spámanns: 

Þarfir manna eru tjáðar með umkvörtun. Í bænum persóna biblíunnar eru spurningar beint til Guðs fullar af efa og andmælum. 

„Í botnlausu djúpi“, skrifar Calvin, „úr kjafti dauðans senda þjónar Guðs upp bænahróp til Drottins“. Jeremía hrópar: „Hvers vegna hefur þú sært oss sári sem ekki verður grætt?“ (Jer. 14.19). Sálmaskáldið segir: „Hví hefur þú gleymt mér? Hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?“ (Slm 42.10). Sumar spurningarnar í angistinni snúast í bitra ásökun: „Hve lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?“ (Slm 13.2). 

Heiler, F. Prayer. A Study in the History and Psychology of Religion. Oneworld, Oxford. 1932. S. 240-241. 

Þetta eru líka stef og tilfinningar vísdómssálmanna. Þá fjöllum við um síðar og nefnum vandamál siðferðisins. Þetta er fyrsta atriðið sem Heiler nefnir sem innihald bænarinnar: (a) Umhvörtun eða angur og spurningar (e. Complaint and Question). Ástæðan fyrir því er vafalaust áherslan á raunverulegar aðstæður og skilgreining spámannlegrar bænar sem hann sækir til Lúthers, neyðir knýr til bæna. Þar er hann í anda Davíðssálma sem byrja með mikið af angurljóðum en stoppar ekki þar þó að einstaka sálmar enda í myrkir eins og Slm 88: „Myrkið er minn nánasti vinur“ (Slm 88.19 sjá Brueggermann). Annað atriði nefnir svo Heiler: (b) Bæn. Það er vanalegra að neyðin er tjáð í bæn á neikvæðan hátt sem frelsun frá einhverju og á jákvæðan hátt sem hjálp og stuðningur. Og vísar hann til Lúthers sem talaði um að koma til Guðs sem betlari sem „opnar hendur sínar vel (skjóðu) til að fá mikið“. )

Hann stenst ekki án Guðs og fyrirgefningar

Það er í þessu ljósi að Guð verður Guð fyrir sálmaskáldinu og hann sjálfur sekur syndari. Þess vegna er bæn syndarans um fyrirgefningu ósk um að sambandið við Guð verður endurnýjað. Það er lífsspurning fyrir sálmaskáldinu, það sem allt snýst um, að öðrum kosti brotnar líf hans saman þar sem hann hefur séð glötunardjúpið. 

Ef við drögum þetta saman: Um leið og sálmaskáldið kemur fram fyrir Guð í iðrun bindur hann sig algjörlega við Guð, minnir hann á náð hans, elsku og miskunn. Hann biður Guð um að afmá, þvo og hreinsa sig af syndinni. Hugmyndin er að syndin sé afmáð af syndaregistri (sbr. 2. Mós. 32:32; Sálm. 69:28). Vísa orðin til helgihaldsins. En spurningin fyrir sálmaskáldið er upp á líf og dauða. Játning sálmaskáldsins í versi 5 er undanbragðalaus og ærleg; „Ég þekki sjálfur afbrot mín og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum“ (Slm 51.5). 

Þetta er ekki óljós óþægindi af vondri samvisku heldur þekking þess sem hefur verið sleginn af ofurþunga ábyrgðar sinnar. Lúther orðaði þessi sannindi svo í Fræðunum minni

Ég trúi, að Jesús Kristur, sé minn Drottinn, sem mig, glataðan og fyrirdæmdan mann, hefur endurleyst… 

Luther, M. Fræðin minni.

Trúaður maður með þessi afstöðu er frelsaður frá  sjálfsblekkingu þó að freistingin sé nærri og sér hlutina eins og þeir eru í raun. Við erum hér að tala um samvisku sem er upplýst af Guðs orði. Það þarf hugrekki til þess að taka sér þessa stöðu, að takast á við sjálfan sig hlutdrægnislaust, meðvitaður um takmarkanir sínar og dæma eigin verk í ljósi Guðs. Sá sem gengur fram fyrir Guð í bæn nálgast þessa stöðu og þegar þangað er komið verður hann þar, vegna þess að hann hefur mætt hinum lifanda Guði, í augum hans er hann glataður samt er hann Guði bundinn órjúfanlegum böndum. Við þá togstreitu verðum við víst að lifa og deyja. En okkur er gefið að hvíla í trausti til Guðs.

Bæn um endurnýjun (v. 12-15): Fyrirgefning syndanna og endurnýjun samfélagsins við Guð þýðir ekki að iðrunarleiðinni sé lokið. Sálmskáldið hefur öðlast nýja afstöðu til lífsins, það hefur öðlast furðulega bjartsýni og lífsgleði, sem liggur á bakvið þessi orð þar sem það tjáir iðrun sína með allri sinn hjartans löngun. En meira en það hann hefur í gegnum bitra reynslu sína komist að raun um að hann sé vanmegnugur að bæta sig, því snýr hann sér til Guðs og biður hann að skapa í sér hreint hjarta. Guð er sá sem gefur stöðugan anda, það er Guð sem gefur nýtt hjarta (Jer. 31:31nn.; Esek. 11:17nn.; 36:25nn.). Þau sannindi eru meðtekin hér og tileinkuð.

Í versi 13, „tak ekki þinn heilaga anda frá mér“, er ekki litið á gjöf andans sem einstakan atburður heldur að andinn skapar samfélag við Guð sem varir við og má fyrir enga muni rofna. Það er þetta stöðuga samband við Guð sem veitir fögnuðinn og helgunina sem talað er um í versi 12 og 14, „veit mér að nýju, stöðugan anda“ og „veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis“. Gleðin er aflið til hlýðni við Guð sem gengur út yfir skylduræknina sem er ágæt í sjálfri sér. Það er Guð sem gefur þessa gleði. 

Vers 15, „þá mun ég vísa brotlegum vegu þína“, bendir á það að trúarlíf er ekki einkamál. Gleðin finnur sig ekki í því að snúast inn á við. Við gleðjumst með öðrum, gleðin er smitandi eins og hláturinn. Þess vegna leiðir iðrunin til þess að vilja leiða aðra inn í það ljós sem maður hefur sjálfur öðlast. Hér eiga við orð postulans: „Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt“ (Post. 4:20). Það er eðli trúarinnar að deila með sér þeirri gleði sem Guð gefur manni.

Uppbygging angurljóða

(Angurljóð er stærsti flokkur sálma í Davíðssálmum. Einstaklings- og samfélagssálmar hafa sömu gerð.

  1. Angurljóð hefjast með ákalli til Guðs (44:2; 60:3). Í tengslum við Guðs nafn getur komið hymnastef (94:2; 80:2) en það er ekki alltaf. Oft er inngangurinn ákall um bænheyrslu og frelsun (12:2; 69:2) eða brennandi spurning, “hvers vegna?” (22:2; 74:1). Tilbrigð eru að finna í Sálmi 14 og 58 þar sem enginn inngangur er, og í Sálmi 44:2-4 og 89:2-10 er inngangurinn hymni um Guð. 
  2. Meginhluti angurljóðanna hefur yfirleitt að geyma þrjú stef:
    • Neyðinni lýst: Atriði sem koma aftur og aftur er ofríki óvinanna, þungi syndar og sektar, réttlátir verða fyrir háði. Neyðin stefnir sálmaskáldinu í dauðann. En í hnotskurn er neyðin sú að Guð er fjarri.
    • Ákall um hjálp: Til að styrkja ákallið er vísað til þess að biðjandinn er aumkunarverður, hann heldur sig við Guð og höfðar til miskunnar hans og náðar. Guð verður að hjálpa vegna nafns síns (31:4; 69:17; 86:2; 88:16). 
    • Vissa um bænheyrslu: Vissan er allt frá því að vera veik og óbein eins og í Sálmi 143 til þess að vera fagnandi gleði eins og í Sálmi 22. Hjá Guði er þrátt fyrir allt öryggi að finna.
  3. Niðurlag er gjarnan heit um þakkarfórn eða þakkarsálmur (51:17-18; 22:26). Loforðið er ekki meðal til að hafa áhrif á Guð eins og var í nærliggjandi trúarbrögðum heldur þökk eftir að fullvissa er fengin um bænheyrslu.)

Dæmi úr sálmaarfi

Kvöldbæn Hallgríms Péturssonar Nú vil ég enn í nafni þínu, er dæmi um syndajátningu. Ellen Kristjánsdóttir syngur hér sálminn. Hún lætur fylgja frásögn séra Bjarna Þorsteinssonar af guðrækni sem hann vandist heima fyrir á ungum aldri: „Þetta lag við hina gömlu og góðu kvöldbæn Hallgríms sáluga Péturssonar heyrði ég raulað oft í ungdæmi mínu bæði af móður minni og öðrum; var öll bænin sungin eða rauluð með þessu lagi til enda og morgunbænin einnig: Í þínu nafni uppvaknaður.“ Við skulum hlusta á kvöldsálminn sem er dæmi um syndajátningu.

Nú vil eg enn í nafni þínu,
Náðugi Guð sem léttir pínu,
Mér að minni hvílu halla
Og heiðra þig fyrir gæsku alla

Þáða af þér á þessum degi,
því er skylt eg gleymi eigi.
Enn það má eg aumur játa,
Angri vafinn, sýta og gráta:

Móðgað hef eg margfaldlega
Mildi þína guðdómlega.
Útslétt mínar syndir svartar,
Sundurkramið lækna hjarta

Síðasta hendingin er tilvísun í niðurlagið og niðurstöðu Slm 51, að Guði líkar sundurkramið hjarta og Guð er beðin að afmá eða útslétta syndir svartar. Þá er líka sú hugsun að frammi fyrir Guði hefur hann móðgað guðdómlega mildi Guðs. Syndajátningu höfum við í öðru versi en hún vaknar út af náð Guðs og gæsku en ekki hræðslu. Það er innilegt samband við Guð sem Hallgrímur er að rækta og kenna með kvöldsálminum. 

Samtal við Margréti Eggertsdóttur um tólf spora starfið – andlegt ferðalag

Hlusta á samtalið hér: Það byrjar á mín. 21:15

Margrét Eggertsdóttir er með þætti á Lindinni um Tólf sporin – andlegt ferðalag. Þá má finna undir þættir á appinu

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: