Lofgjörð og gleði
Með 7. þætti byrjar nýr hluti. Fyrst er skoðað dæmi um lofgjörð, þá iðrun, síðan bæn og að lokum fyrirbæn og þakkargjörð. Gleðin er grunntilfinning trúarinnar. Anna Júlíana Þórólfsdóttir kemur í viðtal en hún er lofgjörðarleiðtogi Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri. Flutt verður lag eftir hana við stysta Davíðssálminn 117.
Finnst ykkur það ekki skrýtið að Guð fer fram á að við lofum hann og sálmaskáldin hvetja okkur til að lofa Guð? Hvaða Guð er það sem hefur ánægju af lofgjörð? Maður sem færi þannig fram að hann heimtaði af öllum að vera lofaður myndum við kalla hégómlegan og hann myndi fljótlega fara í taugarna á okkur.
C. S. Lewis, sem ég hef nefnt áður, fannst þetta skrýtið, þegar hann var guðleysingi, en þegar hann snérist til trúar breyttist sjónarmið hans. Hann segir frá því í bók sinni um Sálmana. Hann fór að hugsa öðru vísi vegna þess að Guð er ekki maður eins og við. Þegar Guð fer fram á að við lofum hann þá er það „rétt, sómasamlegt og viðeigandi“ en ef við látum það vera missum við af einhverju mikilvægu. Guð er sá æðri veruleika sem á skilið aðdáun okkar og tilbeiðslu, með því vöknum við til heimsins eins og hann er. Ef við látum það undir höfðu leggjast missum við af dýrmætri reynslu og í rauninni öllu að lokum. Lewis skrifaði: „Ég sá það ekki að það er með því að Guð er tilbeðinn að hann miðlar nærveru sinni meðal manna / nálgast okkur fólkið“. Og hann hélt því fram að í tilbeiðslu okkar kristinna manna verður það augljóst jafnvel áþreifanlega að Guð er sá sem gefur og við þiggjum.
Lofgjörðin snýst því ekki um það að við upphefjum Guð þó að stundum gæti það litið þannig út í helgihald kirknanna sérstaklega ef ekki sé gert ráð fyrir neinum á himni. Við þurfum að vakna upp til vitundar þvert á móti að lofgjörð snýr öll að Guði. Það sem er svo skemmtilegt við lof sálmana er að þeir eru svo barnslega gleðlilegir. Ástæðan fyrir því er náttúrulega Guð sjálfur sem er verður aðdáunar og tilbeiðslu okkar. Guð er kveikjan að lofgjörðinni. Einn þekktasti lofsálmurinn er Slm 103. Við skulum heyra lesin nokkur vers úr honum meðan við heyrum lag Mendelssohn við einn af lofsöngvunum sem gefur þessa gleðilegu tilfinningu (Slm 100 Mendelssohn – Kreek: Psalms. Daniel Reuss, Estonian Philharmonic Chamber Choir and Tiit Kogerman):
Lofa þú Drottin, sála mín,
Slm 103.1-5, 10-11, 13
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn….
Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum
og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni,
svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann…
Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,
eins hefir Drottinn sýnt miskunn
þeim er óttast hann.
Lofgjörðin snýr að Guði og velgjörðum hans
Guð er lofaður fyrir það sem hann er og gerir, nafn hans og velgjörðir vekja lofgjörðina. Það eru eiginleikar Guðs, verk hans í sögunni og hjálp hans við sálmaskáldið sem er lofað. Orðið hymni er stundum notað um lofsálma sem er íslenskuð orðmynd úr latínu. Þeir tengja okkur við Guð. Með þeim viðurkennum við að við erum Guðs sem einn á skilið lofgjörð okkar vegna miskunnar hans.
Það kemur í ljós þegar við skoðum form lofsálmanna eða hymna.
- Fyrst kemur hvatning til að lofa Guð. Ýmsir eru hvattir til þess: Hinir réttlátu (33:1), Synir Jakobs (105:6), allt sem anda dregur (150:6), öll jörðin (66:1). Þegar við hlustum vel á lofgjörðina í Sálmunum heyrum við að dýpst í tilveru okkar hljómar lofgjörðin til Guðs sem allt hefur skapað, drottnar og bjargar. Því er svo eðlilegt að tónlist og söngur samtvinnast sálmunum. Hebreska orðið yfir sálmasafnið „tehilla“ merkti upphaflega gítarleikur (33:2n.; 150:3-5), og kórar leiddu sönginn í Musterinu (30:5; 134:1; sbr. Ex. 15:20n. og 1. Kron. 15:16).
- Oft fylgir tengiorð við meginhlutann „sem“ eða „því að“. Athyglin er öll á Guði. (8:2; 30:1; 135:3). Stundum kemur millispil eins og í þessum Slm 103, en einnig er farið beint yfir í meginhluta sálmsins (29:2-3).
- Meginhluti hymna fjallar um eiginleika Drottins og verk hans. Vera hans er svo dýrleg og verk hans svo stórkostleg að lofsöngurinn brýst fram (103:8). Auk mikilleika Guðs og gæsku er veraldarstjórnun hans lofsungin (33:13n.). Þá koma til tals undur hans í hjálpræðissögunni (105; 106; 135:4-12). Horft er yfir sjónarrönd til komu Guðs ríkis (46; 47; 93; 96-99).
- Hymnar enda á mismunandi hátt. Stundum er snúið til baka til upphafsins (8¸103; 145) eða bæn (19:13n.; 29:11; 104:35). Hymni getur líka verið án upphafs og enda. (Dæmi um það er Jes. 6:3).
Lofsöngvarnir geta bæði við almennir en líka einstaklingsbundnir.
Gleðin í Guði, styrkir tengslin
Skoðum núna Slm 103 út frá þessum ramma. Fyrst er upphafsstef lofsöngvanna (v. 1-2): Hvatningin til lofgjörðar er beint að sálmaskáldinu sjálfu í þessum sálmi. Það eru nokkur dæmi þess í sálmunum (104:1, 35; 146:1). Endurtekningin á upphafsstefinu í lokin skapar ljúf áhrif og hrífandi (v. 1-2, 22). Sálmurinn er miðleitinn og speglast (Chiasm), nær hápunkti um miðjan sálminn með versinu: „Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann“ (Slm 103.12-13). Í því innilega sambandi við Guð flæðir lofgjörðin fram.
Upphafsstefið felur í sér löngun að koma fram fyrir auglit Guðs enn og aftur. Sálmaskáldið vill hlusta á orðið, opna sál sína fyrir áhrifum af nærveru Guðs. Það er ekki nægilegt að uppfylla skyldur sínar við Guð í guðsþjónustu og daglegu lífi, sálmaskáldið vill nálgast Guð með öllum sér, allt á að lofa nafn Guðs.
Löngunin er tvíhliða og samsvarar tveim hliðum guðdómsins eða reynslu manna af Guði. Sálmaskáldið mætir heilagleika Guðs með ótta og virðingu en um leið gefur hann Guði sjálfan sig í kærleika vegna þess að Guð hefur opinberast honum í hjálpræðissögunni. Guð hefur ekki breytt við hann eftir syndum hans eins og hann hefði átti skilið heldur hefur hann fyrirgefið og „eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, – eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann“ (Salm 103.13). Þessar tvær tilfinningar spinnast saman í þennan magnaða sálm.
Frelsið og friðinn eigum við í lofgjörðinni þegar hugurinn er allur hjá Guði. Sambandið við Guð stígur ekki yfir þau mörk sem okkur eru sett sem manneskjur, Guð er Guð, og við menn erum menn, en í Guði, í samfélaginu við hann lifum við hann. Þær tvær djúpu tilfinningar sem liggja hér að baki eru undrun og þakklæti. Undrun, tilbeiðsla og dýrkun Guðs eru frelsandi tilfinningar og þessi hugsun að Guð er faðir, myndin af móðurinni er einnig að finna í Gt., foreldrinu, sem elskar, fyllir okkur undrun og þakklæti, tengir okkur við Guð. Af þeim tilfinningum sprettur fram lind sem flæðir yfir barma sína eins og Jesús hafði orð á að úr hjarta þess sem trúir renni lækir lifandi vatns og um líf í fyllstu gnægð (Jh 7.38, 10.10). Bænalífið streymir fram af þessum tilfinningum.
Annað dæmi getum við tekið af innilegu sambandi við Guð í lofsöngvum sálmanna, þar sem Drottin er ávarpaður ÞÚ. Slm 104.1-2, 24. Lagið er lofgjörð eftir Dvorak síðasta af 10 biblíuljóðum hans:
„Lofa þú Drottin, sála mín.
Slm 104. 1-2, 24.
Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill.
Þú ert skrýddur dýrð og hátign,
sveipaður ljósi sem skikkju…
Hversu mörg eru verk þín, Drottinn?
Þú vannst þau öll af speki.“
Sjá sjálfan sig í ljósi Guðs
Sálmaskáldið sér sig í nýjan hátt í ljósi Guðs. Við höfum séð hvernig tilfinningarnar spinnast saman í bænalífinu af þessum sálmum.
Sálmaskáldið sér Guð hátt upp hafin sem vekur samviskuna svo að syndin verður stór en um leið er Guð nálægur og er annt um hann. Viðfangsefni sálmsins er þessi spenna milli þessara ómstríðu tilfinninga sem fara þó saman í bænalífinu. Það stafar af því að Guð er hinn sami þó að hann virðist okkur samtímis fjarri og nærri, hátt upp hafinn en samt nær en eigin hjartsláttur. Það er í trú og trausti að okkur tekst að halda þessum gagnstæðu tilfinningum saman en skynsemin ræður ekki við þessa þverstæðu hugsunarinnar. Þetta er hið guðlega við Guð að hann þar sem menn sjá aðeins hyldjúpan aðskilnað brúar bilið með brennandi ást sinni. Það vekur öryggi, gleði og sælu svo mikla að sálmaskáldið hvetur alla til að lofa Guð og allt, tilveruna alla. Þannig leiðir lofgjörðin af sér djúpa samkennd en ekki samruna. Svo það er mjög eðlilegt að þeir sem trúa á skynsemi sína ofar öllu botni ekkert í Guði.
Ekkert af þessu atriðum standa ein út af fyrir sig: Það er í ást Guðs til syndarans að einskær heilagleiki Guðs birtir sig. Ást Guðs er heilög og því kröftug og frelsandi fyrir þau sem tilbiðja hann og lofa.
Dæmi úr sálmabókinni
Ég hef komið að því áður að í sálmabókum kristinna manna er byrjað með lofsöng. Við byrjum á að koma fram fyrir Guð. Í fyrsta hluta sálmabókar þjóðkirkjunnar eru lofsöngvar: I. LOFGJÖRÐ OG TILBEIÐSLA. Það er umhugsunarvert að Sálmabók okkar snýr öfugt miðað við Davíðssálma. Þeir byrja með spekiljóði, vinna sig í gegnum angrið og angistina, játningu og íhugun, og enda í lofgjörð. Meðan byrjar Sálmabókin með lofsöngvum og endar í sorg og dauða og ættjarðarsálmum. Ég myndi líka vilja enda með þakkar- og lofgjörð.
Lofsöngurinn nær hæstu hæðum í Davíðssálmur 103. Sigurbjörn Einarsson hefur túlkað hann í sálmi sem er hér fluttur með hátíðarbrag af Scola Cantorum.
Lofa, sál mín, lofa Drottin,
lífsins föður himnum á,
sem þín mein og lýti læknar,
leysir synd og dauða frá.
Allt sem í mér er og lifir,
eilíft lof skal honum tjá.
Mannlegt eðli þitt hann þekkir,
þú ert moldarstrá og blóm,
fætt í gær og fölt á morgun,
fokið, gleymt sem dust og hjóm.
Drottinn man þig, Drottinn opnar
dýrðar sinnar helgidóm.
Vakna, lifna, lífið kallar,
ljóssins ríki frelsarans,
bróðurfórnin brúað hefur
bilið milli Guðs og manns.
Opna hjartað, elska, þjóna
anda, vilja, kærleik hans.
Heyr þú, sál mín, himnar syngja,
heilög ómar þakkargjörð,
sjá, Guðs ríki opnast yfir
upprisunnar nýju jörð.
Hallelúja, lofi Drottin,
lífsins konung, öll hans hjörð.
Sb. 734 – Slm 103 – Sigurbjörn Einarsson
(Dæmi úr eigin sálmasafni
Ég samdi þennan sálm um áramót þegar ég leit yfir farinn veg. Tengiorðið lét ég koma fyrir í öllum erindunum, tengiorðið sem er að finna í lofsöngvum Davíðssálma, „því að“. Fyrsta vísuorðið í öllum erindunum er hvatningin til að lofa Guð fyrir „liðinn dag“ (1. er.), fyrir „lífsins orð“ (2. er.), „fyrir ljóssins hjörð“ – kirkjuna (3. er.) og fyrir „líkn og náð“ (4. er.). Annað vísuorðið er frekari ítrekun, svo þarna var ég að nota hugsanarímið úr hebreska kveðskapnum. Í 1. er. rímar hugsunin „Lofum Guð fyrir liðinn dagur“ við „lítum upp í þökk og von“. Hugsunin er þróuð áfram að líta upp til Guðs í þökk fyrir liðinn dag og von til hans um bjarta framtíð. Svo kemur ástæðan fyrir lofgjörðinni, þakklætinu og voninni, „því að Guð oss gaf sinn son“ og sú hugsun eða undrun rímar við og er þróuð áfram, „gjörvalt færir hann í lag“. Þannig er hvert erindi mótað af þessum forna kveðskap en jafnframt rímað og stuðlað eftir íslenskum bragreglum. Tilfinningin er lofgjörðin og gleðin yfir Guði, þar sem ég leyfi mér að gleyma mér um stund með honum einum sem elskar svona heitt. 3. er. eins og reyndar öll eru í anda Nýja testamentisins, í því erindi hugleiði ég játningu trúarinnar um kirkjuna. Ljóssins hjörð lýtur við náðarborðið, ástæða lofgjörðar og tilbeiðslu kirkjunnar eða safnaðarins er „því að Jesú andi og orð er í kirkju Guðs á jörð“. Á grísku er tilbeiðsla í merkingunni að falla niður fyrir konungi sínum og Drottni (gr. proskyneo) eins og vitringarnir gerðu sem komu og tilbáðu Jesú-barnið hin fyrstu jól. Síðasta erindið snýst um þá miklu náð, líkn og miskunn, sem er að umbreyta veröldinni. Það er ástæða til að lofa Guð. (Læt ég lagið fylgja með á nótum og hljóðskrá en það er ekki til í upptöku. Lagið á að vera í lofgjörðarstíl, glaðvært og létt, í þeirri von að það beri birtu til þeirra sem heyra, lofgjörð og gleði.)
Lag: Með sínu lagi

Lofum Guð fyrir liðinn dag,
lítum upp í þökk og von,
því að Guð oss gaf sinn son,
gjörvalt færir hann í lag.Lofum Guð fyrir lífsins orð,
ljósið, sem í myrkri skín,
því að orðið opnar sýn
yfir Drottins blessað storð.Lofum Guð fyrir ljóssins hjörð,
lýtur hún við náðarborð,
því að Jesú andi´ og orð
er í kirkju Guðs á jörð.Lofum Guð fyrir líkn og náð,
Guðm. Guðmundsson)
lúti Kristi veröldin,
því að mikil miskunnin
megnar allt í lengd og bráð.
Viðtal við Önnu Júlíönu Þórólfsdóttir
Hún er lofgjörðarleiðtoga Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri og hefur gefið út nokkra diska með lögum eftir ýmsa m.a. Hauk Pálmason. Eitt er eftir hana við Davíðssálm 117. Það er stysti sálmurinn. Við ætlum að ræða um lofgjörð í söfnuðinum.