Jesús er hjá okkur, fylgir okkur og fer á undan – Ræða á kristniboðsdegi 2021

Ræða birt en ekki flutt vegna Covid.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1. Inngangur

Það er kristniboðsdagur. Ekki veit ég hvaða hugrenningartengsl þetta orð hefur í þínum huga? Kannski sérðu fyrir þér trúboða í gresjum Afríku í steikjandi hita undir tré að prédika fyrir hópi fólks. Kannski þekkir þú eitthvað til Ólafs Ólafssonar kristniboða í Kína og Herborgar konu hans sem Kristniboðsfélag kvenna á Akureyri studdu með ráðum og dáð. Eða kannski sérðu fyrir þér trúboðsbiskupana sem fóru hér um land fyrir meir en þúsund árum og nánast neyddu menn til að skírast með sverðin á lofti yfir höfðum þeirra. Eða þá jafnvel krossferðirnar til að frelsa Jerúsalem úr höndum heiðingjanna. Eða landvinningamenn í Vestur-Indíum og Suður-Ameríku. Þeir réðu lögum og lofum en munkar fóru inn í frumskóga að boða fólkinu Krist.

 Sama hvaða hugmynd við gerum okkur um trúboð þá hefur eitt leitt af öðru en staðreyndin er sú að hér sitjum við í þessari kirkju í dag, Kaupangskirkju, vegna þess að Meistarinn frá Nasaret bauð lærisveinum sínum að fara til endimarka jarðarinnar. Við erum þar, út við Ballarhaf, nyrsta haf, það eru bara Grænland og Svalbarði fyrir norðan okkur og þar eru líka kirkjur. Kristniboðsskipunina læra fermingarbörnin sem er líka kölluð skírnarskipunin. Orð Jesú Krists sem voru lesin hérna áðan í guðspjallinu. 

 Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ 

 Þetta er kristniboð. Það er hlutverk kirkjunnar, okkar sem viljum hafa Jesú að leiðtoga lífsins. Það snýst ekki um það að ráða. Stundum hefur kirkjan misskilið það og ímyndað sér að hún væri valdastofnun, vegna þess að Jesús sagði, að allt vald sé honum gefið. Nú, ef honum er gefið allt vald, þá erum við valdalaus. Það er ágætt. Það er fagnaðarefni. Hugsið ykkur að allir leiðtogarnir á loftslagsráðstefnunni eru valdalausir líka. Vegna þess að Jesú er gefið allt vald. Það sama á við um alla einræðisherra og harðstjóra heimsins, allir valdalausir, vegna þess að Jesús hefur farið með allt vald til himna. 

 Æðsta valdið er hans. Ég lít engum öðrum. Það er frelsi mitt og heiður. Ég játa Jesú sem Drottinn minn. Það er ekki merkingarlaust orðagjálfur heldur kristin trú sem stundum hefur misskilið hlutverk sitt og rænt þessu valdi frá Drottni en þá erum við að villast. Þá erum við ekki að fylgja honum sem lærisveinar.

 1. Kom til þeirra – HJÁ

 Guðspjallið segir að Jesús kom til þeirra. Þannig endar guðspjallið reyndar eins og það byrjar, vegna þess að í fyrstu köflum í guðspjalli Matteusar er sagt frá fæðingu Jesú og hann nefndur „Immanúel“. Við syngjum stundum sálm á aðventunni sem byrjar með þessum orðum: „Kom þú, kom vor Immanúel“. En Immanúel þýðir Guð hjá okkur. Það var það sem gerðist. Guð varð maður. 

 Svo dó Jesús á krossi. En hann kom aftur til lærisveinanna og sagði þá: „Allt vald er mér gefið“. Þetta er siguryfirlýsing. Mér finnst siguryfirlýsingar stjórnmálamanna eftir kosningar verða lélegar samanbornar við yfirlýsingu Jesú. Enda lá meira undir hjá honum. Það var lífið sjálft, merking þess og markmið, sem Guð var að koma til skila til okkar með því að senda son sinn. Hann var að segja að lífið sigrar og ljósið. Jesús vill segja það við þig: Ég hef vald á því. Það er í minni hendi. Það fær ekkert vald, hversu illt sem það kanna að vera, að slökkva það. Því er þér óhætt að trúa. 

 Þá uppgötvum við að það er gott að vera í þeim flokki sem er í ljósinu og talar fyrir lífinu. Jesús er hjá okkur, fer aldrei frá okkur, stendur með okkur, hvað sem gengur á, lifir með okkur, hrærist í þessari tilveru okkar með okkur. Hann lofaði þér því að vera með þér allt til enda veraldar. Trúir þú því? 

Ég leyfi mér stundum að hugsa sem svo. Skapari alheimsins og öreindanna, sá sem hefur allt í hendi sér, ræður lífi og dauða, ljósi og myrkri, hann er hjá mér í Jesúbarninu, Meistaranum frá Nasaret. Þegar ég bið í Jesú nafni er hann hjá mér og biður með mér. 

 Þetta var erindið sem lærisveinarnir áttu að boða allt það sem Meistarinn hafði kennt þeim.

 2. Farið og gjörið að lærisveinum – MEÐ

 Og verkefnið sem þeir fengu var dálítið stórt: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum“. Þarna voru ellefu postular, fylgismenn nokkrir og konur sem fylgdu honum og studdu starf hans. Allar þjóðir! Já, síðustu tvö hundruð árin hefur kirkjan orðið alþjóðleg svo eitthvað hefur miðað en það hefur tekið tvö þúsund ár. Og enn ekki lokið.

 En hvað er að vera lærisveinn eða að fylgja Jesú? Það er ekki þannig að við drögum hann þangað sem við viljum heldur er það hann sem gengur á undan og leiðir okkur áfram. Við förum stundum í óvissuferðir og vitum ekki hvert er verið að fara. Stundum er það þannig að fylgja Jesú. Síðustu vikurnar hafa fermingarkrakkar tekið þátt í því  að safna fyrir vatnsverkefnum í Afríku. Það er að taka þátt í kristniboði. Móttökurnar eru ýmis konar, þegar þau fara með söfnunarbauka milli húsa. Sumir týndu til aura og seðla, aðrir komu með einhverjar athugasemdir eða héldu einhverjar ræður. En árangurinn að fara af stað verður til þess að samferðafólk okkar í Afríku getur sótt sér hreint vatn í brunn í þorpinu sínu. Þetta er valdeflingin sem Jesús kemur til leiðar með okkur. Það er ekki vald til að ráð heldur vald kærleikans. Hann snýr gildismati okkar á hvolf. Það sem okkur þykir sumum mest og best að ráða og stjórnast í öðrum telur hann lítils virði. En það sem lætur lífið dafna, frelsið og kærleikann, það skiptir mestu. Þess vegna fór hann með valdið til himna og skyldi okkur eftir með verkefnið að elska hvert annað. 

 Hann sýndi okkur líka fyrirmynd með lífi sínu. Hann fann til með fólki, hjálpaði því með því að tala við það og lækna það, var til staðar fyrir það. Svo prédikaði hann og kenndi. Orðin hans eru athyglisverð vegna þess að þau eru öll á þennan sama veg. Þau leiða okkur til Guðs, sýna okkur hvernig Guð er, og svo segir hann okkur að við eigum að vera góð eins og Guð. 

 Er það ekki það besta sem við getum gert við líf okkar? Notað það til þess sem gott er, láta gott af okkur leiða, standa með þeim sem eru hjálparþurfi. Svo getur vel verið að við þurfum sjálf á hjálp að halda. Þá erum við í mannúðlegu samfélagi sem vill hag allra sem bestan.

 3. Ég er með til enda veraldar – Á UNDAN

 Er þessi ræða mín eintómir draumórar? Trúir þú að heimurinn geti orðið betri staður að lifa í? Heldur þú að Guð geti gert eitthvað í því?

 Nokkuð margar spurningar í einu. Það er ekki hver sem er sem segir þessi orð, kristniboðsskipunina. Það er Jesús Kristur, Drottinn okkar og frelsari. Á Austurvelli á fótastalli Jóns Sigurðssonar forseta er lágmynd eftir Einar Jónsson sem heitir Brautryðjandinn. Þar er maður sem gengur á undan og ryður björgunum frá fyrir fólkið sem kemur á eftir. Þannig er mynd mín af Jesú. Hann hefur sigrað dauðann þessa vegna lýsir hann yfir því að allt vald er honum gefið. Hann segir við okkur að hann er hjá okkur og það er í bæninni. Hann segir að hann gangi með okkur, fylgi okkur og við honum. Þannig störfum við og tölum um það sem er dýrmætast í lífinu, trúin, vonin og kærleikurinn. Svo gengur hann á undan ekki bara með góðu fordæmi heldur Guðs sonur sjálfur sem er með okkur.

 Trúin er bundinn við hann að hann leiði okkur til betri framtíðar, þar sem kærleikurinn sigrar og ljósið. Það gerist náttúrulega ekki af sjálfu sér. Ekki ef við leggjumst í sjálfselsku og hálfkæring. En leiðin sem ég sé er að Jesús gengur á undan og ryður okkur leið. Við fylgjum honum í von og trú. Auðvitað getum við villst af vegi, það er áhætta sem við verður að taka, en með því að leita eftir vilja hans þá er ekki að vita nema við rötum þá leið sem er okkur og heimi öllum til blessunar. Því trúi ég.

 Það er kristniboð að treysta orðum Jesú, að hann sé HJÁ okkur, FYLGI okkur og við honum, og hann gengur á UNDAN til að leiða okkur og heim allan til blessunar. Þessi trú varð til þess að Ólafur Ólafsson og Herborg fóru á sínum tíma til Kína, að hafist var handa um trúboð í Konsó í Eþíópíu, að söfnuðir hafa sprottið fram í Kenía fyrir starf Íslendinga m.a. á þeim slóðum sem vinasöfnuðir Akureyrarkirkju eru í Kapkoris, eins og hér við nyrsta haf, þar sem við hlustum á Jesú og tilbiðjum hann og þjónum öðrum.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Bæn fyrir kristniboðinu

1. Góði Guð við biðjum fyrir kirkju þinni um víðan veröld. Sérstaklega felum vér þér á kristniboðsdeginum vinasöfnuðina í Kenía. Við felum prestana og prédikarana í þína hendur, veit þeim visku og náð til að efla söfnuðina í Kapkoris, Riponywa, Chemwochoi, Kamito og Kiwanja ndege. Blessa þessar gjafir okkar að þær mættu styrkja bræður okkar og systur í trú og þjónustu.  

2. Við biðjum þig að rétta fram hönd þína til hjálpar þeim. Þú hefur allt í hendi þér og hefur áform um líf okkar. Þakka þér fyrir að við megum vera verkfæri í þinni hendi til að breiða út trú, von og kærleika, þar sem óvissa, vonleysi og skeytingarleysi hefur náð tökum. Við þökkum fyrir að æskan hér og þar fær tækifæri til að heyra sögurnar af þér í sunnudagaskólum og kórar okkar og þeirra syngja þér lofsöng. Efldu okkur í umhyggju og kærleika sem þú skapaðir okkur til. Gerðu okkur að góðum vitnisburði í lífinu þar sem við erum stödd.

3. Við biðjum þig fyrir stjórnvöldum að þau vinni ekki gegn náðarríki þínu heldur styðji við það. Forðaðu okkur frá ofsóknum og erfiðleikum, skapaðu þann frið milli þjóða og þjóðflokka að lífið sem þú vilt sjá vaxa og dafna með réttlæti og mannúð. Við vonum að ríki þitt komi gefðu okkur náð að vinna að betra mannúðlegra samfélagi eins og þú munt skapa í eilífðinni.

4. Við biðjum þig að blessa þá fjármuni sem fermingarbörnin söfnuði fyrir vatnsverkefnin í Afríku á vegum Hjálparstarfsins. Efldu konur til uppbyggingar á samfélagunum í Afríku eins og hér og hindra að ungar stúlkur séu giftar, gefðu þeim tækifæri til að menntast og njóta lífsins sem þú hefur skapað þær til og okkur öll. 

5. Við biðjum fyrir börnum sem gleymast og fá ekki tækifæri til að þroskast eðlilega vegna fátæktar og örbyrgðar. Við felum þér sjúka og biðjum þig að efla heilsugæslu meðal bræðra okkar og systra í jaðarsamfélögum. Við þökkum þér að þú opnar augu okkur til að sjá í samferðafólki lifandi persónur sem þú elskar og telur dýrmætari en perlur. Gerðu okkur að verkfæri friðar þíns.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: