Mér brá dálítið þegar var farið að tala um “dag dauðra” í kringum allra sálna messu. Það var í morgunútvarpinu og barnatímanum. Minnt var á sið m.a. í Mexíkó að halda veislu við leiði látinna ástvina þar um slóðir. Mér fannst þetta dálítið ónærgætið og krassandi að orða þetta svona „dagur dauðra“. Kannski minn tepruskapur. Mér fannst það ónærgætið þar sem maður sjálfur gengur stundum inn í þessar viðkvæmu aðstæður þar sem fólk hefur misst ástvin og hef misst sjálfur. Sumir setja á sig sorgarmerki til að gera fólki viðvart að umgangast sig mig nærgætni. Orð verða svo máttlaus í sorgarhúsi, þá er það nærveran sem gildir. Þess vegna erum við líka saman komin hér í kirkjunni í dag, ekki með mörg orð, heldur meiri tónlist, til að kveikja á kertum til minningar um ástvini sem hafa kvatt þennan heim. Biðja, minnast og þakka.
1.
Þeir fylgjast að þessir messudagar allra sálna messa (2. nóv) og allra heilagra messa (fyrsta sunnudag í nóvember). Við heyrum þessa texta allra heilagra messu sem opna okkur sýn til himins. Ég las aðeins síðustu vers sæluboðanna um ofsóknir til að minna okkur á píslarvottana sem minnst er á allra heilagra messu. Með fordæmi sínu styrkja þau okkur í trú, von og kærleika. Það eru síður en svo fallegar sögur eins og Una Margrét hefur verið að rifja upp í útvarpsþáttum sínum um helga menn og konur.
Einhvern veginn verða skilin milli himins og jarðar svo þunn þessa daga. Jóhannes bregður upp mynd af miklum fjölda frammi fyrir hásæti lambsins. Allir féllu fram á ásjónu sína og tilbáðu Guð. Guð er ekki hégómlegur maður sem hefur unun af að láta dáðst að sér heldur er hann Guð sem einn er verður þess að vera tilbeðinn. Kolbeinn Tumason skrifaði Heyr himna smiður í þeim anda sem Þorkell Sigurbjörnsson hefur gert þetta þekkta lag við. Elsti Norræni sálmurinn. “Öll er hjálp af þér”, segir hann, “ryð hverri sorg úr hjartaborg”. Þegar við erum að ræða um Guð þá er það ekkert minna en mildur himna smiður sem er til tals. Þess vegna er gagn í hjálp hans.
Tökum einn píslarvott sem dæmi. Matteus guðspjallamaður sem skrifaði sæluboðunina og þetta um ofsóknir endaði líf sitt sem píslarvottur samkvæmt helgisögninni. Hann á að hafa farið alla leið til Eþíópíu og þar var illur konungur sem lét taka hann af lífi vegna þess að honum stóð ógn af honum. Ég ákvað að bera þennan kross í dag sem er frá Eþíópíu til að benda á tengslin milli allra heilagra messu og allra sálna messu. Við játum trú á heilaga, almenna kirkju. Því miður virðist kirkjan oft vera í einhverju stigveldi en Jesús kenndi að sá sem vill verða mestur á að vera þjónn eða þræll allra. Það var kona að nafni Desta sem gaf mér þennan kross. Leiðir okkar lágu saman í London. Þar var hún 1989 sem flóttamaður vegna átaka milli Eritreu og Eþíópíu. Hún var kristinn kona og notaði tímann til að mennta sig í hjúkrun í von um að geta snúið aftur til heimalands síns. Upphaflegi krossinn var gerður úr blýi svo ég fékk bróður minn gullsmiðinn til að gera afsteypu. Í Eþíópíu er listgrein sem er kölluð leir og gull. Þetta tákn var steypt úr blýi en segir merka hluti. Ef þið virðið hann fyrir ykkur þá er þetta kross sem minnir á þjáningu og dauða Jesú Krists, en um leið er krossinn stjarna, geilsarnir ganga í allar áttir, og ef betur er skoðað má sjá tré, lífsins tré, sem sprettur upp af því sem Jesús gerði. Þannig verður þessi kross LÍFSINS tákn.

2.
Þegar ég lít yfir söguna og eigin ævi finnst mér lífið oft átakanlegra en leikritin eða kvikmyndir sem maður sér. Þau eru aðeins endurspeglun af raunverulegu lífi og þannig geta þau hjálpað okkur. En sú saga sem stendur upp úr er sagan af Jesú vegna þess að hún sýnir okkur Guð eins og hann er. Hún er ekki bara leikrit eða skuggsjá heldur tilfinningar Guðs gagnvart fólkinu sínu í raunverulegri sögu, veröldinni okkar. Hvar sérðu dýpri samkennd? Hvar er að finna samúð sem líkist umhyggju Jesú fyrir fólkinu? Hvar mætir þú annarri eins mildi eins og í orðum hans og verkum? Hann gengur á undan þér í dauðann til að vera með þér þar þegar að þér kemur. Það er sú saga að segja þér. Og það skiptir máli, vegna þess að það er hjálp Guðs, þegar myrkrið sækir að.
3.
Þegar dauðinn er nærri þá finnum við til. Ég missti föður minn í bílslysi. Í hálfan mánuð lá hann á gjörgæsludeild. Það var áfall. Reynslan verðu svo yfirþyrmandi að við náum ekki utan um tilfinningarnar. Þá er það að orð geta, jú, hjálpað en það er nærveran sem bjargar. Þannig gekk ég til prests sem gætti að sál minni þessar vikur. Hann hlustaði á mig, angur mitt og angist, Guð fékk líka að heyra það, hvorki presturinn né Guð hurfu mér alveg en þetta voru dimmir tímar.
Það er talað um sorgarferli en það er kannski nær að tala um tilfinningar sorgarinnar vegna þess að þær eru margskonar og ólíkar. Ég held að við lærum að þekkja okkur upp á nýtt í sporum sorgarinnar. Auðveldast er að neita því að eitthvað hafi gerst og vilja ekki horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Sannleikurinn er sá að aðstæðurnar eru stundum of erfiðar til að taka það allt inn á sig. Svo er það blessuð reiðin eða þunglyndið, tvær leiðir, en hjálplegar tilfinningar og eðlilegar við missi. Í sorginni verður rökhugsunin með öðrum hætti. Ætli við getum ekki talað um rök tilfinninganna vegna þess að við erum að fást við samskipti, dýpstu og innilegustu, sem maður vonar að haldi áfram en óttast að séu að slitna, þráðurinn að bresta. Milli þessara póla milli reiði og þunglyndis berst viljinn um. Það er hollt að láta hann birtast í bæn og þá verður bæn Drottins „verði þinni vilji“ bæn okkar, samkennd hans, hjálp okkar, leið hans, leið okkar. Við horfumst í augu við dauðann, eigin dauða með dauða horfins ástvina, óttalaus eða kvíðin, lærum að sleppa, fela Guði líf okkar, líf ástvina okkar, allt, hvíla í von, þrátt fyrir allt og allt.
4.
Það tók mig nokkur ár að vinna úr þessari reynslu. Minnist þess að ég stóð við legstein föður míns mörgum árum seinna eftir oft átakanlega tilfinningaglímur. Hugsaði um líf hans. Hann var læknir. Ég vissi að hann hafði bjargað mörgum og hjálpað. Þá rann upp fyrir mér að þanning gæti ég best heiðrað minningu hans með því að hjálpa öðrum. Við höfðum svo sem tekist á um það hvort það væri betur gert sem prestur eða læknir. Skrýtið hvað foreldrar hafa mikil áhrifa á mann eftir að þau eru farin. Smátt og smátt lærði maður að þakka fyrir LÍFIÐ. Það er ekki sjálfgefið.
Við syngjum á eftir sálm eftir Þorstein Valdimarsson, skáld, guðfræðing og tónlistarmann. Í þeim sálmi hugsar hann út frá þessu sjónarhorni. Það er ekkert sjálfgefið. En það sem er gefið er LÍFIÐ og það er til þess að undrast og þakka, þær stuttu stundir sem við njótum þess. Síðustu erindin eru svona:
Og gamaltroðna gatan mín
í geislaljóma nýjum skín.
Ég lýt að blómi í lágum reit
og les þar tákn og fyrirheit
þess dags, er ekkert auga leit.Ég svara, Drottinn, þökk sé þér!
Þorsteinn Valdimarsson – Sb. 410
Af þínu ljósi skugginn er
vor veröld öll, vort verk, vor þrá
að vinna þér til lofs sem má
þá stund, er fögur hverfur hjá.
5.
Þessa kvöldstund viljum við helga minningu látinna ástvina. Ég veit ekki hvar þú ert staddur eða stödd, hver þín reynsla er, en það veit ég að Guð er með okkur. Um það snýst þessi stund. Einsemdin er rofinn með kom Jesú. Þér hefur hann lofað að vera nærri þér hverja stund, alla tíð, með því að deyja sem maður, gengur Guð með þér, jafnvel um dauðans skugga dal.
Ég sýndi þér krossinn minn. Minnstu þess að krossinn er tákn lífsins, ljóssins eilífa, sem skín eins og sólinn og þegar sólinn er sloknuð skín sú sól. Krossinn er lífsins tré sem gefur okkur von um eilíft líf. Ekki ætla ég að þessu sinni að fara að tala um hugmyndir okkar um himnaríki. Þær eru skemmtileg hugarleikfimi en það sem skiptir mestu er að lífið hefur sigrað, Guð er að skapa nýjan himinn og nýja jörð. Ekki kann ég að skýra það, en þar mun ekki vera sorg og tár, heldur eilíft ljós.
Dýrð sé Guði.
Ljós tendrað í minningu látinna ástvina (Bænir úr Bænabók):
Drottinn, hjá þér er uppspretta lífsins í í þínu ljósi sjáum vér ljós. (Slm 36)
- Ljós: Guð minn, ég tendra þetta
litla ljós sem bæn til þín. - Ljós: Allar góðar minningar
sem hjarta mitt geymir fel ég þér. - Ljós: Allt sem vermir, allt sem lýsir,
allt sem gleður,
og allt hið sára, allan söknuð,
öll mín tár, fel ég þér. - Ljós: Allar bænir mínar, andvörp,
þrá, fel ég þér. - Ljós: Láttu nú ljósið þitt lýsa hér,
og lýsa í hjarta mínu. - Ljós: Láttu það umvefja ástvini mína,
og mig, og öll þín börn. - Ljós: Láttu ljós þitt skína sem aldrei slokknar
og aldrei deyr í frelsarans Jesú nafni. Amen.
Biðjum saman:
Guð, láttu ljósin sem hér loga glæða ljósið innra með okkur. Þegar myrkur sorgarinnar fyllir hugann, láttu þá ljós minninganna rúma því burt.
Guð, lát það góða og kæra sem við höfum misst dvelja með okkur og lýsa okkur og vekja vilja, þrótt og þrek til að halda áfram.
Guð, við þökkum þér allt sem var okur ljós á vegi og lýst heur upp í erfiðleikum, angist og ógn.
Guð í þínu ljósi sjáum við ljós. Við þökkum þér fyrir þau öll, lífs og liðin sem lifa í ljósi kærleika þíns, í Jesú nafni. Amen.
Allar bænir felur við í bæninni sem þú kenndir og segjum saman:
Faðir vor.