Ljóðlist hebreanna og þroskaferill bænalífsins.
Í þessum 6. þætti er ljóðlist Davíðssálma skoðuð út frá fyrsta sálminum. Innihald sálmanna er angur, bæn, þökk og lof sem eru stef bænlífsins og trúarþroskans. Innilegt samband við Guð vex og þroskast þegar Guð er ákallaður og tilbeðinn í ógnvænlegri veröld þannig læra þau sem treysta Drottni að þekkja hann, miskunnsaman og góðan Guð.
Hlusta á þáttinn:
Form: Ljóðlist hebreanna Sálmur 1
Ég komst að því eins og ég hef sagt frá að það er regla í skáldskaparmáli hebreanna. Ég hallast að því að það hafi mótast af bænaiðkun og íhugun meira en nokkru öðru enda trúarlegur kveðskapur fyrst og fremst. Skáldskaparmál þeirra hefur verið kallað hugsanarím þar sem það eru hugmyndirnar sem ríma en ekki orðin eins og hjá okkur. Hugsanirnar eru þróaðar áfram. Þó er ytra form eins og við myndum segja ákveðin taktur og bragliðir. Stuðlar og höfuðstafir eru ekki en stafrófslóð eru að finna og ýmislegt annað sem of langt mál er að fara út í hér. Tökum fyrsta sálmin sem dæmi sem hefur fengið þá stöðu að vera inngangur að sálmasafninu. Um leið skulum við heyra hann sunginn af Benediktusar munkum í Sussex á Bretlandi.
Sæll er sá maður,
– er eigi fer að ráðum óguðlegra,
– eigi gengur á vegi syndaranna
– og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,heldur hefir yndi af lögmáli Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum,
er ber ávöxt sinn á réttum tíma,
og blöð þess visna ekki.Allt er hann gjörir lánast honum.
Slm 1
– Svo fer eigi hinum óguðlega,
– heldur sem sáðum, er vindur feykir.
Skáldskaparmál hebrea
Bókmenntafræðingurinn og trúarvarnarmaðurinn C. S. Lewis talaði um listina í Davíðssálmum í umfjöllun sinni um þá. List er að eitthvað tvennt er sett hlið við hlið. Skáldið segir eitthvað eitt og svo endurtekur hann það með öðrum orðum. Tengslin milli setninganna verður listin. Í tónlist kemur eitt stef og svo annað sem tengist því með einhverjum hætti eða það heyrist okkur. Ef við höfum ekki eyra fyrir tónlist er hún aðeins hljóð jafnvel óhljóð. Stefunum er svo raðað upp svo tónverkið verður listræn heild. Stef A kemur fyrst svo stef B sem andsvar, svo er b endurtekið aðeins breytt og svarað með a sem hefur tekið smá breytingu sem dæmi. Eitthvað samhengi er milli stefanna sem við heyrum. Gunkel benti á eitthvað svipað í umfjöllun sinni um sálmana að stuttu setningarnar sem er raðað saman í Davíðssálmum eru öðru vísi en rökræða grísku heimspekinganna en skapa þessi listaverk sem þeir eru.
- Lítum fyrst á hliðstæður í herbreskum kveðskap – sama hugsun er endurtekin með öðrum orðum: Í Slm 1 er setningarnar hliðstæðar: “hefir yndi af lögmáli Drottins” og “hugleiðir lögmál hans dag og nótt”.
- En sálmurinn er spekiljóð sem leggur áherslu á Andstæður – þ.e.a.s. andstaða við fyrri hugsun: Fyrsta hugsun sálmsins er “Sæll er sá maður” en svo er strax haldið áfram með andstæðuna, “er eigi fer að ráðum óguðlegra”, og enn frekar “eigi gengur á vegi syndaranna” og endar með “og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði”, eftir þessar þrjár lýsingar á andstæðunni við sæla manninn, kemur lýsingin á honum sem felur í sér andstæðu við það sem er á undan “heldur hefir yndi af lögmáli Drottins” eða “leiðsögn Drottins” og svo kemur hliðstæðan við það eins og ég hef þegar bent á “hugleiðir lögmál hans dag og nótt”.
- Næst kemur svo rísandi samstæður – hugsunin er þróuð áfram:
Enn skulum við skoða fyrstu versin. Sæll er sá maður, 1. er eigi fer að ráðum óguðlegra, 2. eigi gengur á vegi syndaranna 3. og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði. Hugsunin er þróuð áfram fyrst er varað við að fara að ráðum óguðlegra vegna þess að það leiðir til þess að menn ganga og vegum syndaranna og endar svo með því að menn sitja í hópi þeirra og finna sig heima í þeim hópi sem hæðast að Guði og visku hans. Í þessu tilfelli væri kannski réttara að tala um fallandi samstæðu. Við getum líkt þessu við styrkleikabreytingar í tónlist. - Og að lokum er svo myndræn samstæða – hugsunin er myndgerð: Í þessum fyrstu versum er sæla manninum eftir anstæðurnar þrjár og samstæðurnar tvær líkt við tré og sú mynd lyftir ljóðinu: “Hann er sem tré, (myndlíking) gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki”. Ef menn þekkja trúarlegt myndmál Biblíunnar og jafnvel annarra trúarbragða vekur þessi mynd kröftuga sælutilfinningu af að allt er gott, gróandi og líf.

Um form og innihald
Rannsóknir síðusta áratuga hafa beinst meira að því að skoða sálmasafnið í heild og rýni meira í innihald þeirra en form og flokkun. Fyrsti sálmurinn hefur verið flokkaður sem spekisálmur eða vísdómssálmur. Staða hans í upphafi leggur línuna – „að hafa yndi af leiðsögn Drottins“ – en það er ekki allt eins slétt og fellt og virðist. Er það víst að sá sem hugleiðir lögmálið dag og nótt að hann sé svo sæll og allt sem hann geri lánist honum? Þegar lesið er áfram koma angurssálmar inn á milli og meira en minna af þeim, eins og ég hef þegar bent á. Þeir eru meirihluti sálmasafnsins, bænir, eldheitar og sumar beittar ef ekki beiskar, íhugun um þjáningu hins réttláta, en enda oftast á bæn og þakkargjörð og lofgjörð, en einstaka í svartnætti sálarinnar, í dauðans skugga dal. Síðustu sálmarnir eru lofsöngvar. Það er þetta sem ég hef kallað litrófu trúarlegra tilfinninga sem birtist í Davíðssálmum.
Valdimar Briem sem þýddi alla sálmana 150 yfir á íslenskt ljóðamál og gaf út á bók Davíðssálmar í íslenzkum sálmabúningi (1898), nær fram þessum lífsvanda í þýðingu sinni á sálmunum og munum við taka síðar annað dæmi frá honum. Hér er myndmálið í Slm 1 í hans búningi, dásamleg náttúrumynd frá Davíðssálmum. Valdimar hefur valið lag við trúarjátningarsálm frá Wittenberg sem sumir meina að sé eftir Lúther. Hér spilað af lúðrasveit frá Leibzig en lagið er frá Wittenberg 1524 og þessi túlkun gefur okkur tilfinningu fyrir tíðarandanum en á ágætlega við texta Valdimars um eikina sem blómgast og stendur ár og síð:
Sem eik hann blómgast ung og bein,
Valdimar Briem. Davíðs sálmar í íslenzkum sálmabúningi. Reykjavík 1898. Bls. 1.
upp er vex á bakka grænum,
og limi þjettu’ á laufgri grein
lyptir hátt í morgunblænum,
speglar sig í fögru fljóti,
fagurt brosir sólu móti,
angar blítt af grænum greinum,
glitrar skært af döggum hreinum.
Hún aldin ber í tæka tíð
og traust hún stendur ár og síð.
Innihald sálmanna angur, bæn, þökk og lof
Innihald sálmanna eru angur yfir veröldinni, bænir til Guðs um hjálp, þökk fyrir björgun og lofgjörð til Guðs. Í þessu er ákveðið ferli bænalífsins og tilfinninga þess. Það styður þessa umfjöllun mína og skýringar á sálmasafninu. Og sama ferli sjáum við í Nt. hjá Páli postula í Rómverjabréfinu 5. kafla. Þar höfum við það sem ég kalla reynsluhringinn. Versið er svona:
Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki.
Rm 5.2-5a
Þetta er fyrsta ástæðan til að byrja á lofgjörð og gleði. Við „lifum í og við fögnum í voninni”. Gleðin munið þið er grunntónn eða meginstef kristninnar. „Alvörumál kristinnar trúar er gleðin,” sagði C. S. Lewis. Eða eins og segir í einum sálminum: „Njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjartað þitt þráir” (Slm 37.4). Ef við stillum þessu saman þá sjáum við sama hringinn og þroskaferil eða spíral í trúarþroskanum. Ég tala um spíral vegna þess að við förum gjarnan hring eftir hring í þessu ferli en vonandi aðeins upp á við, nálgumst Guð betur og betur. Berum þetta saman:
- Þrenging og angur.
- Þolgæði og bæn.
- Fullreynd og þökk.
- Von og lofgjörð.
Sömu upptalningu er að finna í útskýringum Lúthes á 2 boðorðinu í Fræðunum minni:
Við eigum að óttast og elska Guð svo að við biðjum ekki óbæna í nafni hans, sverjum, fremjum fjölkynngi, ljúgum eða svíkjum með nafn Guðs á vörunum, heldur áköllum það í allri neyð (angur), biðjum (bæn), lofum (lof) og þökkum (þökk).
Marteinn Lúther. Úrval rita 2. 1524-1545. Fræðin minni. Skálholtsútgáfan: Reykjavík. 2018. Bls. 284-285.
Þetta lærði Lúther af Davíðssálmum m.a. en einnig af guðspjöllunum. En fyrst og fremst með því “að biðja í anda og sannleika” eins og Jesús kenndi.
Í bæn er tekist á við lífið eins og það er
Uppgötvun Lúthers snérist um það að trúin sé traust til Guðs. Það fann hann í Davíðssálmum. Þar segir „treyst Drottni (Slm 37.3). Þess vegna er þessi áhersla hjá honum á bænina sem trúariðkun.
Það sem allt snýst um er að varðveit trúna: Á ég sannan Guð sem ég óttast og elska? Lúther skilgreinir Guð með þessum orðum:
Spurning: Hvað er átt við með þessum orðum? Hvernig eigum við að skilja þau? Hvað merkir það að eiga Guð? Hvað er Guð?
– Svar: Að eiga Guð merkir eftirfarandi: Þú væntir alls góðs af guði þínum og snýrð þér alltaf til hans í vandræðum þínum. Já, að eiga Guð þýðir það að þú treystir og trúir á hann af öllu hjarta þínu. Ég hef margoft sagt það að aðeins traustið og trúin gerir bæði Guð og hjáguð. Ef traust þitt og trú þín er sönn, þá er líka Guð þinn sannur. En hins vegar ef traustið er falskt, illt, þá átt þú ekki heldur sannan Guð. Trú og Guð lifa saman. Ég segi þér, það sem þú festir hjarta þitt við og treystir á er í sannleika guð þinn.
Eigin þýðing úr Lutherskirfter i urval. Luthers Katekeser. Svenska kyrkans diakonstyrelses bokforlag: Stockholm. 1957. Bls. 57. Sjá einnig Marteinn Lúther. Úrval rita 2. 1524-1545. Fræðin meiri. Skálholtsútgáfan: Reykjavík. 2018. Bls. 152.
Hér höfum við boðskap spámanna Gt. í hnotskurn og er um leið trúarreynslan í grunninn. Spurningin sem sækir stöðugt á er þessi: Trúi ég á Guð? Eða er ég bundinn einhverjum eða einhverju öðru. Hún á það til að leiða menn til vanmættis en ef ég kann leið bænarinnar þá fer ég með vanmátt minn til Guðs, eins og Lúther hvetur til með þessum orðum: „Þú væntir alls góðs af Guði og snýrð þér alltaf til hans í vandræðum þínum“.
Þegar við í bæn glímum við angur okkar og angist þá er glíman þessi: Treysti ég og trúi ég á Guð þrátt fyrir allt? Það er, ákalla ég hann í neyð minni eða þakka ég honum bara velgengnina og bölva svo og ragna þegar illa gengur. Gef ég mig á vald illskunni og myrkrinu? Þannig á bænina að byrja og enda hjá Guði í lofgjörð og gleði. Það gefur okkur fullvissu trúarinnar svo við getum hvílt í Guði. Annars getur bæn okkar orðið vond og ill, áður en við vitum af snýst hún í vantrú eða ranghugmynd um Guð.
Ég þýddi fyrir nokkrum árum bænasálm sem ég held mikið upp á vegna þess að hann skilgreinir svo vel bænina. Bænin er að ákall Guð í allri neyð. Hann var með efni samkirkjulegu bænavikunnar 2018. Textinn er eftir Patrick Prescod og lagið gerði Noel Dexter frá Jamaika. Efni bænavikunnar er undirbúið á einhverjum einu landi og það hefur verið farið víða þessi meira en hundrað ár sem hún hefur verið haldin. Þema vikunnar þá var: “Þú réttir fram hönd”. Það eru þær Helga Vilborg Sigurjónsdóttir og Rúna Þráinsdóttir sem flytja okkur lagið. Fyrsta erindið er svona: (Hlusta á lagið: Réttu mér hönd til hjálpar):
Þú réttir fram hönd til hjálpar, Drottinn minn,
heyrir bæn og ákall fólks í neyð.
Þú þekkir sorg og tár,
þú þjáning hlaust og sár,
kom og þrautir lina, faðm mót oss breið.Þú réttir fram hönd að leiða, Lausnari,
lýð þinn réttan veg sem hirðir hjörð.
Í þoku er vor leið
og engan veginn greið,
en þú einn oss leiðir fram ófær skörð.Þú réttir fram hönd, leiðréttir, Frelsari,
rangindin öll, illsku, hatur, stríð.
Sjálfselsku hindra þú,
og efldu með oss trú
að þú öllu snýrð til góðs svo um síð.Þú réttir fram hönd til hjálpar, Drottinn minn,
hefur oss upp niðurlæging úr.
Þú þekkir hvern einn mann,
með nafni nefnir hann,
ástar njótum þinnar, því þú ert trúr.
Niðurstaða á greiningu Davíðssálma e. stefum:
Niðurstaða mín er þessi um stefin í Daðíðssálmum: Bænin er samfélag mannsins við Guð. Í bæn ræktum við innilegt samband við Guð. Frammi fyrir Guði sjáum við hátign hans. Þegar við lítum í eigin barm óttumst við stöðu okkar gagnvart Guði og mönnum. En guðsamfélagið leiðir til þekkingar sem er einstök. Orðið þekking á hebresku er ekki þekkingaratriði heldur felur í sér innilegt samband, notað t.d. um náið samband karls og konu. Trúarreynslan leiðir okkur til þekkingar á Guði.
Nú hef ég skilgreint þessar fjórar grunntilfinningar bænalífsins angur, angist, þökk og gleði. Og veltum því nú við í gleði, angist, angur og þökk vegna þess að það sýnir okkur betur bænahringin eða þroska bænalífsins. (Hér kýs ég að fara að ráði Jesú í Faðir vorinu. Þar byrjar bænin með ávarpi og þrefaldri lofgjörð, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji. Og þannig er haldið frá hátign Guðs inn í mannlegt líf sem botnar á bænum um daglegt brauð, fyrirgefningu, varðveislu og frelsun frá illu. Svo endar bænin með lofgjörð, „þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin“.

Það er röklegt samband milli stefa í Davíðssálmum. Þegar maður biður til Guðs, hefst það með ávarpi, það er hymni eða lofgjörð, Guð er tignaður og tilbeðinn. Ávarpið byggir á orði Guðs eða opinberun (epíphanía). Í hymna er athyglin öll á hátign Guðs eins og form þessara sálma undirstrikar. Gleðin er barnsleg í lofgjörðinni. Þegar manninum verður svo litið í eigin barm frammi fyrir Guði allsherjar vekur það angist og iðrun og angurljóðið verður til þar sem óttinn er tjáður í ógnvænlegum heimi. Það hefur tilvísun inn á við í hjarta þess sem biður þar sem skuggahliðar sálarinnar verða augljósar eða aðstæðna hennar þar sem hún með trúarsamfélaginu ákallar Guð þegar ógnin steðjar að. Spurningarnar stóru um að njóta blessunar Guðs og óttast bölvunina, bölið og ógæfuna vekur angist sem er tjáð í angurljóðunum. Í þeim þáttum sálmanna sjáum við inn í mannshjartað frammi fyrir Guði sínum. Iðrunin og íhugun neyðarinnar leiðir til bænar og fyrirbænar. Neyðin kennir okkur hvað við þurfum að biðja um. Bæn er ákall í neyð svo ég segi það einu sinni enn. Bænin gefur kyrrð hugans og sannfæringu um það að sá Guð sem ákallaður er getur leyst úr vanda einstaklingsins og samfélagsins. Þar höfum við athvarfssálmana og vísdómssálmana sem er þessi úrvinnsla sálarinnar og svar Guðs til mannsins í neyð hans. Sú þekking sem af þessari bænaiðju hlýst knýr til þakkargjörðar mannsins með trúarsamfélaginu í ógnvænlegum heimi. En þakkargjörðin beinist að Guði sem endar í lofgjörð. Guði einum ber dýrðin. Þannig lokast bænahringurinn eða samtal mannsins við Guð sem varir að eilífu, byrjar og endar í lofgjörð um Guð einan. Svo það skiptir ekki máli hvar í hringnum við byrjum aðeins að við endum hjá Guði. Þess vegna er líka kennt í kristninni að ævin sé lærdómstími sem hefur dýrð Guðs að markmiði.
Þetta er ástæðan fyrir því að erfitt er að greina sálmana í flokka því að þeir eru meira byggðir upp á þessum stefum. Þau koma hvert á eftir öðru í sama sálminum, fléttast saman á mismunandi hátt, þannig að hver sálmur hefur sín einkenni, þó getum við flokkað sálmana eftir megináherslu. En afl þeirra og kraftur er einmitt fólgin í því að sálmaskáldin lifðu þessu litríka bænalífi sem þau tjá í sálmum sínum með öllum sér, öllu litrófi tilfinninganna. Það gerir sálmana svona kröftuga og lífsseiga.
Marteinn Lúther var mikill bænarinnar maður eins og ég hef sagt og rannsakaði sálmana. Hann bendir á í bréfi til Péturs bartskera síns á sama röklega gang bænaiðjunnar. Það eru hans Einföldu leiðbeiningar um bæn. Nú má ekki misskilja mig að þetta sé eins og æfingaplan í vaxtarækt sem bara er að fara eftir og þá verður maður hraustur. Sá sem ætlar það fer alveg á mis við að „biðja í anda og sannleika“ vegna þess að bænin er raunverulegt samband Guðs og manns. Það endurspeglast í sálmunum. Einn daginn byrjar bænin á angurljóði annan á þakkargjörð allt eftir því hvernig stendur á. Það skýrir einnig mismunandi áherslur í Davíðssálmum. En það sem gerir þá að ódauðlegri bænabók gyðingdómsins og kristninnar er einmitt vídd þeirra og dýpt, bænaiðja trúaðra í gegnum margar aldir. Sálmabækur kristninnar enduróma af Davíðssálmum þegar best tekst til. Í seinni hluta erindanna í næstu þáttum (hér á eftir) ætlum við að skoða dæmi um stef í Davíðssálmum og benda á ákveðnar hliðstæður sem við höfum í sálmum kirkjunnar til að festa þau enn betur í huga og hjarta.