Fimm stef í viðbót: Játning, viska, blessun og böl, þjáning, Messías
Í þessum þætti er haldið áfram að flokka sálmana eftir stefum og tilfinningum með dæmum um túlkun þeirra í tónlist. Játning trúar á Guði sem konungi, íhugun viskunnar í lögmáli Guðs, blessunaróskir og bölbænir, vandamál bænarinnar og þjáningin, Kristur í Davíðssálmum.
Hlusta á þáttinn:
Játning trúar á Guði sem konungi
Fimmta stefið er trúarjátning um það að Guð er konungur, drottnari, dómari og Drottinn veraldarinnar (Harrison). Við skiljum trúarjátning yfirleitt sem röklega framsetningu trúarinnar í fastmótaðar setningar en trúarjátning Davíðssálma beinir huga okkar að upphafinu að játast Guði í trú og trausti.
Þroskaferill bænalífsins: Traustið á Guði leiðir til játningar sem snýr annars vegar að Guði, hver hann er, og hins vegar að stöðu biðjandi manns, að hann er Guðs. Játningin treystir sambandið milli Guðs og manns. Sá flokkur sálma sem nefndur hefur verið athvarfssálmar spretta af þessu trúartrausti og öryggi í návist Guðs. Flokkun Gunkels og lærisveins hans Movinkels, sem hélt því fram að haldin var sáttmálshátíð eða endurnýjun sáttmála Guðs, setur sálmana í samhengi helgihaldsins (litúrgíur) í Musterinu og verður augljós í þessum sálmum sem þeir kölluðu Síonarljóð og Hásætissálma.
Nú má ég til að taka dæmi frá konungsríkinu Bretlandi en þar hafa Davíðssálmarnir verið sungnir um aldaraðir af vel þjálfuðum kórum við kirkjurnar. Konungssálmur 24 er gott dæmi um slíkan sálm. Þar er konunginum fagnað og dyrum Jerúsalem lokið upp fyrir honum. Guð er konungur þjóðarinnar. Gunkel telur að sálmurinn hafi verið notaður við helgihaldið og lokið hafi verið upp dyrum “að konungur dýrðarinnar megi ganga inn”. Þá hefur verið sungið á víxl og með tignarlegum hætti. Tónlistin er frá tíðarsöng í ensku biskupakirkjunni úr einni af höfuðkirkjunum af diskinum Favorit Psalms for Great Cathedrals.
Þér hlið, lyftið höfðum yðar
Slm 24.7-10
hefjið yður, þér öldnu dyr,
svo að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
Hver er þessi konungur dýrðarinnar?
Það er Drottinn, hin volduga hetja,
Drottinn, bardagahetjan.
Þér hlið, lyftið höfðum yðar,
hefjið yður, þér öldnu dyr,
svo að konugur dýrðarinnar megi inn ganga.
Hver er þessi konungur dýrðarinnar?
Það er Drottinn hersveitanna,
hann er konungur dýrðarinnar.
Íhugun og viskan í lögmáli Guðs:
Íhugun og viskan í lögmáli Guðs
Sjötta stefið hverfist um íhugun viskunnar, (það eru) ritskýringarsálmar, varðandi vísdóm, guðlegt vald, sanna þjónustu við Guð, og stöðu lögmálsins í lífi þjóðar og einstaklinga (Harrison). Vísdómssálmar eða spekiljóðin byggja á Guðs orði, lögmálinu og starfi Guðs í sögunni.
Þroskaferill bænalífsins: Hugsunin er sú að viska Guðs er í sköpun hans (Slm 19). Við eigum og okkur ber að lifa í samræmi við visku Guðs. Við getum talað um vísdóms- eða speki- og fræðsluljóð. Gunnlaugur A. Jónsson bendir á að í spekiljóðunum er hinn réttláti að leita eftir leiðsögn Guðs í lífinu. Hjá kristnum mönnum bólgnar þessi flokkur út og verður að íhugun Guðs orðs. Guðspjöllin eru að nokkru leyti spekirit, Kristur er spekin. Þetta er flokkur sem nefndur er spekiljóð og er í anda alþjóðlegustu áhrifa í Biblíunni spekistefnunni eins og Speki Salómons, Orðskviðirnir og Prédikarinn.
Tóndæmið hef ég valið frá Þýskalandi. Það er sálmur eftir Lúther út frá Davíðssálmi 82 sem er einn af spekisálmunum. Það er kór frá Hollandi sem syngur, Camerata Trajectina. Ég les úr öðrum spekisálmi nr. 49 þar sem talað er um spekina, þetta er íhugun ljóðasöngvarans:
Heyrið þetta, allar þjóðir,
hlustið, allir heimsbúar,bæði háir og lágir,
jafnt ríkir sem fátækir.Munnur minn mælir speki
og ígrundun hjarta míns er hyggindi.Ég hneigi eyra mitt að spakmæli,
Slm 49.2-5
ræð gátu mína við hörpuhljóm.
Blessunaróskir og bölbænir
Sjöunda stefið er skelfilegar bölbænir, innhalda andmæli gegn óvinveittum þjóðum og ákall til Guðs um hefnd gegn þeim (Harrison). Formælingar eiga rætur í frumstæðum trúarbrögðum og frumlægum trúartilfinningum en hafa tekið verulegum breytingum hjá Hebreum. Við þurfum að átta okkur á að sálmaskáldin áttu raunverulega óvini og það mótaði heimsmynd þeirra. En það réttlætir ekki þessar bænir sem sýna okkur hvað býr innra með líka biðjandi fólki. Við eigum eftir að sjá hvernig Jesús leiðréttir vondar og illar bænir, enda kemur hann með meira ljós. Út frá því þurfum við að skoða Davíðssálmana. Víða koma hugtökin blessun og bölvun fyrir í Davíðssálmum. Guðfræði Deutronomistans eða 5. Mósebókar skín í gegn víða sem byggir á því að blessun hlotnast þeim sem óttast Drottin en bölvun er yfir þeim sem óhlýðnast Guði. Það er svört – hvít afstaða og passar ekki alveg við reynsluna af lífinu og það áttar sálmaskáldin sig á í angri sínu ef ekki angist, eins og ég hef bent á. Þetta er vandamál bænarinnar og þjáningarinnar sem Harrison kemur að í næsta stefi. Það þýðir samt ekki að við getum horft fram hjá því að í Davíðssálmum höfum við bæði blessunaróskir og bölbænir.
Þroskaferill bænalífsins: Okkur kann að virðast þetta frekar ógeðfelldar hugsanir en við skiljum þetta helst í bæninni. Bænin er ákall í raunverulegri neyð. Sálmaskáldin biðja góðan Guð að bjarga sér úr neyð sem á oft tíðum átti upptök sín í alvöru ofsóknum óvina sem eru á eftir lífi þeirra og í öðrum tilfellum verða þau fyrir rógi, logið er upp á þau og mannorð og virðing dregin í svaðið. Blessunarorð Guðs hljóma í eyrum biðjandi manns en hann óttast ógæfuna, bölið og bölvunina, að Guð yfirgefi hann, skilji einan eftir í neyðinni, glötunargröfinni, eins og sálmaskáldin nefna á fleiri stöðum. Það leiðir okkur að næsta efni sem er vandamál siðferðisins. Þessar hugleiðingar koma víða fyrir í angurljóðunum í mjög átakanlegri mynd, ógæfan og óvinirnir eru oft yfirþyrmandi nálægir jafnvel með vopnaskaki og yfirburðarstöðu. En við eigum eftir að skoða að þessar tilfinningar eru ekki eins fjarri okkur og við ímyndum okkur.
Það hafa komið þeir tímar þegar átök og stríð hafa brotist út. Siðbótartíminn var þannig tímabil og þá reyndi á að menn stæðu við trú sína og gildismat. Hér höfum við dæmi frá siðbótarmanninum Lúther. Með trumbuslætti og baráttuhug er Davíðssálmu 46, “Guð er oss hæli og styrkur”, túlkaður í þessari útsetningu. Sálmur Lúthers byrjar svona: “Óvinnanleg borg er vor Guð”. Ég les niðurlagið úr Davíðssálmi 46. Aftur eru það tilfinningar sem við könnumst lítið við, friðsæl þjóð, en ég vil ítreka að þær eru kannski nær okkur en við viljum viðurkenna. Lagið er flutt af sama kór og síðast lag Carerata Trajatina frá Hollandi.
Komið, sjáið dáðir Drottins,
hann veldur eyðingu á jörðu.Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar,
brýtur bogann, mölvar spjótið,
brennir skildi í eldi.Hættið og játið að ég er Guð,
hafinn yfir þjóðir, upphafinn á jörðu.Drottinn hersveitanna er með oss,
Slm 46.9-12
Jakobs Guð vort vígi. (Sela)
Vandamál bænarinnar og þjáningin
Áttunda stefið snýst um vandamál siðferðisins, felur í sér þjáningar hins réttláta, velgengni hins rangláta, og von um ódauðleika (Harrison). Við erum hér að fást við þær djúpu spurningarnar sem sálmarnir vekja og eru sprottnar af vandamáli biðjandi manns. Það eru ákveðnar þverstæður sem vara við eins og spurningin um þjáningu réttláts manns og Guðs útvöldu þjóðar. Við kjósum að hafa það undir fyrirsögninni: Vandamál bænarinnar og þjáning í Sálmunum.
Þroskaferill bænalífsins: Biðjandi maður stendur frammi fyrir þeim vanda að treysta á góðan Guð í neyðinni miðri, raunveruleikanum eins og hann blasir við. Þar er ákallað úr djúpinu sem brýst fram en er í grunninn alstaðar í sálmunum jafnvel í lofssöngvunum. Biðjandi maður heldur í Guð þrátt fyrir allt og allt. Þetta stef kemur sterkast fram í angurljóðunum og spekiljóðunum.
Dæmið sem ég les er angursálmur þar sem Guð er spurður og sársauki biðjandans er átakanlegur: „Hversu lengi, Drottinn”? Nemendur við African Bible University í Kampala í Úganda hafa sett lög sín við Davíðssálma. Hópurinn hefur farið um og kennt söfnuðum söngva sína við sálmana. Hér er enn eitt dæmi um útbreiðslu Davíðssálma í nútímanum. Hér syngja þau Davíðssálm 13 sem er spurning, jafnvel ásökun í bæn til Guðs: „Hve lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér“?
Hve lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu?
Hve lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?Hve lengi á ég að hafa beyg í brjósti,
sorg í hjarta dag frá degi?
Hve lengi á fjandmaður minn að hrósa sigri yfir mér?Lít til mín, svara mér, Drottinn, Guð minn.
Slm 13.2-4
Tendra ljós augna minna…
Kristur í Sálmunum
Hér hef ég bætt við einu stefi, því níunda. Það er aftur úr fórum Lúthers sem ritskýrði Davíðssálmar út frá Kristi, stjörnu sinni og túlkunarlykli Ritningarinnar.

Þroskaferill bænalífsins: Raunsæi Davíðssálmanna, eins og Guðs orðs yfir höfuð, er nærgöngult. Við lítum inn í dýpstu hugsanir manna um Guð, sjálfa sig og veröldina. Við erum ekki að fást við Guðs orð klárt og hreint heldur Guðs orð í glímu manna í ógnvænlegri veröld. Guð opinberar sig og menn birtast eins og þeir eru. Það er engin leið að greina á milli Guðs orðs og manna orða í þeim enda væri það að eyðileggja sálmana að endurskrifa þá eða velja aðeins það af þeim sem manni hugnast í það og það skiptið. Það er kross í Davíðssálmum sem við þurfum að bera og finna til sem vísar okkur að krossi Krists. Vandi bænarinnar er þessi djúpu mannlegu tilfinningar gagnvart Guði, spurningin um miskunn hans og náð sem á sér úrlausn í Kristi og honum einum. Þess vegna ljúkum við þessari umfjöllun um Krist í Davíðssálmum. Þetta stef birtist í mörgum flokkum sálmanna eins og hymnum, Síonarljóðum, hásætissálmum, anguljóðum. Þannig séð sprengir Kristur ramma sálmanna og birtir okkur Guð sjálfan eins og Lúther skrifaði um þegar hann fjallaði um sálmana.
Lofsöngur Símeons er gott dæmi um þetta. Eins og lofsöngur Maríu er lofsöngur Símeons öldungsins í anda Davíðssálma. Símeon hélt á Jesú þegar hann var borinn í Musterið átta daga gamall og lofaði Guð fyrir að mega halda á frelsara sínum um leið og hann spáði um þann sársauka sem María átti að reyna. Nunc Dimittis eins og lofsöngurinn er nefndur eftir fyrsti orðum hans á latínu hefur ótal sinnum verið túlkaður í tónlist. Alexander Borodin túlkaði lausnin með stórkostlegum hætti sem Simeon öldungurinn í Musterinu tjáði með þessum orðum. Og með þeim orðum enda ég umfjöllunina um stefin og tilfinningarnar í Davíðssálmum en í seinni hluta erindanna mun ég taka dæmi um og fjalla betur um þessi stef og tilfinningar.
Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mérþví að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,ljós til opinberunar heiðingjum
Lk 2.29-32
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.