Vorkoma

Bænabók Karls Sigurbjörnssonar biskup hefur fylgt mér um árabil og verið mér innblástur. Í vikunni las ég bæn um vorkomuna (Bænabók bls. 300). Hún varð mér innblástur að þessum erindum, líklega vegna þess að ég var að vinna að myndaseríu um vorkomuna og fylgir hér með síðasta myndin í seríunni, unnin með þurrpastel.

Drottinn minn og Guð minn,
ég gleðst við komu vorsins
á köldu landi í klaka böndum.
Vorboðinn nú syngur
mér söng um vorsins veldi
og sumarsól sem fer að höndum.

Þú ert sólnanna sól
sem sendir mér lífsylinn,
frumglæðir góði, skapari minn.
Ekkert auga sá það
og ekkert eyra heyrði
um eilífðarsumar, frelsari minn.

Þú einn vaktir vonir
að vetur tæki enda
með birting þinni bjartan morgun.
Engum kom til hugar
að hlýna tæki aftur,
þinn andi faðmar fólk í sorgum.

Ríki þitt svo kemur
með kærleiksljósið milda
sem sigrar, framtíð birtir bjarta.
Öruggari en vorið
þú ert, sólin þinn skuggi.
Gef mér þá vorsins von í hjarta.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd