Sumardagurinn fyrsti,
fönninn gefur sig,
hér brýst úr ísaböndum áin,
vorsól yljar mönnum,
magnar fuglasöng,
nú ljósið skín og lífsins þráin.
Geng ég gegnum skóginn,
geislar lífga brum,
og moldin ilmar, vil ég vinna
þarfaverk af krafti,
kallar jörð á mig,
ég glaður vil því verki sinna.
Lítil skógarplanta,
leyndist undir snjó,
og birkikvistinn braut ég næstum.
Blasti við mér saga
sönn af græðgi fólks
sem gleymdi flest allt Guði hæstum.
Hét ég sjálfum mér þá
heilagleik að þrá,
að vera eitt með veröldinni,
næmur á allt LÍFIÐ,
lífsins rækta tré,
sjá framtíð bjarta’ í fegurð sinni.