Sálmar og bænalíf – 2. kafli (framhald 1)

Flokkun sálmanna eftir stefum – 1. hluti

Hvernig má flokka sálmana eftir stefum og tilfinningum trúarlífsins. Davíðsálmar hafa verið sungnir um víða veröld í kristninni og um aldir. Í þessum þætti er farið um heiminn og tekin dæmi um bænir og angur, lofgjörð og gleði, iðrun og angist, fyrirbæn og þakklæti.

Hlusta á þáttinn:

4. þáttur

Það er vandasamt að flokka sálma eftir gerð þeirra enda voru þeir ekki samdir með það í huga að falla að fræðilegu flokkunarkerfi. Um það fjallaði ég í síðasta þætti (1. kafla). Þess vegna er heppilegra að tala um stef eða tilfinningar. Sálmarnir eru samsettir úr þessum stefum eins og tónverk, hver sálmur með sín sérkenni og samsetningu eða karakter eins og ég nefndi síðast. Sálmakveðskapurinn sprettur úr margra alda bænaiðju sem á rætur að rekja til helgihaldsins í Musterinu fyrir og eftir herleiðingu en er afar persónulegur á stundum og ekki síður sígildar bænir fyrir söfnuðinn. Þetta eru gyðinglegar og kristilegar bænir vil ég segja sem spretta fram sem andsvar við orði Guðs og verkum í sögunni. Það á því vel við að nálgast Davíðssálma eins og hér er gert út frá stefum sem samsvara  tilfinningum bænalífsins. Við rannsökum þessi stef í nokkrum dæmigerðum sálmum til að dýpka eigin bæn og íhugun frammi fyrir Guði. 

R. K. Harrison gerir tillögu um flokkun sálmanna eftir trúarlegum viðfangsefnum frekar en að greina þá eftir notkun þeirra og stöðu í helgihaldi. Hann nefnir átta stef sem við berum saman við aðrar rannsóknir á sálmunum hér á eftir. Þeir strengir sem hann leikur á eru líka strengir trúarlífsins. Það er ákveðin vandi að rit hans er inngangsfræði Gt. og því ekki mjög ítarleg umfjöllun en ég hef unnið út frá þessari hugsun greiningu á nokkrum sálmum og sýnist mér hún gagnleg í þessu tilliti til þess að fjalla um tilfinningar bænalífsins. Einnig hafa rannsóknir á Davíðssálmum snúist meira að eðli bænalífsins eða „spirituality“ sálmanna í seinni tíð og vikið frá áherslu á flokkun sálmanna eftir notkun þeirra í helgihaldinu sem auðvitað er gagnleg og dregur fram þessar grunntilfinningar sem ég hef gert grein fyrir áður gleði, angist, angur og þökk. 

Hér fylgi ég röðinni hjá Harrison en vík að því seinna að ástæða er til að breyta henni nokkuð út frá þroskaferli bænalífsins sem ég hef rætt um. Yfirskriftirnar eru mótaðar nokkuð eftir skilgreiningum hans sem ég hef orðrétt frá honum í byrjun hvers undirkafla (undirstrikaðar). Ég hef valið að kalla meginstefin lof, iðrun, bæn og fyrirbæn og tengt tilfinningum bænalífsins gleði, angist, angri og þakklæti. Auðvitað grípa tilfinningarnar hver inn í aðra en oftast berum við eina tilfinningu í brjósti nema við séum í tilfinningalegri glímu eða berum blendnar tilfinningar í brjósti. Þroskaferill bænalífsins er eins og tilfinningarnar, vaktar af ytra áreiti, en einnig innri veruleika sem við getum kallað sálarlíf og æðri, innilegu sambandi við Guð. Ég reyni að gera grein fyrir þessum ólgusjó tilfinninganna og lifandi lind með því að lýsa þroskaferli bænalífsins sem ég dreg upp hér en fjalla ítarlegar um í seinni hlutanum þegar ég tek fyrir stef í einstaka sálmum. 

Þá nefni ég flokkun Gunkels á Davíðssálmum út frá notkun þeirra í helgihaldi og bendi á ítarlegri flokkun hjá Gunnlaugi A. Jónssyni. Hermann Gunkel (1862-1932) var upphafsmaður að þessari flokkun Davíðssálma eftir notkun þeirra. (Flokkun hans hef ég skáletraða inn í textanum). Nánar verður sú flokkun skoðuð þegar stefin og tilfinningar bænalífsins verðar tekin til umfjöllunar í seinni hluta (bókarinnar) erindanna þegar við skoðum betur valda Davíðssálma. 

Ég tek með hverju stefi nokkur vers úr Davíðssálmum sem dæmi og hvernig þessir sálmar hafa verið túlkaðir í tónlist sem ætti að vekja tilfinningarnar sem ég er að tala um. (Á Spotifier má finna samantekt á tónlist við sálmana 150.) Það segir okkur þá einnig nokkuð um hvað þessir textar Davíðssálmar hafa verið listamönnum mikill innblástur í gegnum tíðina og eru ennþá og í allri kristninni frá Íslandi til Úganda.

Bænir og angur 

Fyrsta stefið sem Harrison nefnir er bænin, um forsjón Guðs, frelsun, inngrip eða blessun (Harrison): Davíðssálmar kenna okkur að bæn er ákall til Guðs í neyð. 

Davíð konungur á bæn efitr Pieter de Grebber frá 1635-40

Þroskaferill bænalífsins: Það er eðli bænarinnar að koma fram fyrir Guð og leggja mál sitt fram fyrir hann, vænta úrlausnar hans, þiggja hana og þakka. Þetta stef er ráðandi í angurljóðunum eða harmsálmunum en þeir enda oft í þakklæti fyrir björgun Guðs. Það eins og verða umskipti í mörgum sálmum og talið er að flutt hafi verið einstaklingum eða söfnuðinum huggunarorð Guðs í helgihaldinu. Það þekkjum við í kirkjunni við syndajátningu og boðun fyrirgefningar. Þar með breytist tilfinningin í þessum sálmum og enda þeir oft sem þakkarsálmar. Gunnlaugur A. Jónsson bendir á að sumir fræðimenn vilji tala um bænasálma.

Tónlistin sem við heyrum er eftir ítalskt endurreisnar tónskáld Andreas Gabrieli flutt af þekktum hollenskum Kammerkór af diskingum Psalmi Davidici eða Sálmar Davíðs. Þetta er Davíðssálmur 102 sem er dæmigerður bænasálmur með yfirskrif sem hljómar svona: „Bæn hrjáðs manns þá er hann örmagnast og úthellir harmi sínum fyrir augliti Drottin“ (Slm 102.1). Tónlistin er úr kaþólskri trúarhefð í þeim anda sem sálmarnir voru og eru notaðir í helgihaldi þeirra. Ég les úr Davíðssálmi 40  um bæn og angur.

Stöðugt vonaði ég á Drottin
og hann laut niður að mér og heyrði ákall mitt.

Hann dró mig upp úr glötunargröfinni,
upp úr fúafeni,
veitti mér fótfestu á kletti
og gerði mig styrkan í gangi.

Hann lagði mér ný ljóð í munn,
lofsöng til Guðs vors.
Margir sjá það og óttast
og treysta Drottni.

Slm 40.2-4.

Lofgjörð og gleði: 

Næsta stef er lofgjörð, bæði almenn / fólksins og sértæk / einstaklinga (Harrisson). Þakkargjörðin er fyrir eitthvað sem Guð hefur gert en lofgjörðin er næsta skref þar sem dvalið er við íhugun um Guð einan, eiginleika hans, verk og dýrð. Í því er frelsun að mega gleyma sér og heiminum og dvelja hjá Guði. 

Þroskaferill bænalífsins: Mikilleikur Guðs leiðir til iðrunar vegna fátæktar mannsins. Hymnar eða lofsöngvar er fyrsti flokkurinn hjá Gunkel, þeir snúa að Guði. Svo hann fylgir kristinni trúarhefð sem byrjar gjarnan sálmabækur sínar með lofsöngvum. Gunnlaugur A. Jónsson nefnir að sumir fræðimenn hafa viljað setja þar með sálma trúartrausts eins og Davíðssálm 23 sem byrjar: „Drottinn er minn hirðir“. Það styður þessa greiningu að lofsöngvar og athvarfssálmar eins og þeir eru oft nefndir tjá best þetta stef trúartraustsins og tilfinningu fyrir öryggi hjá Guði.

Næst heyrum við söng frá rétttrúnaðarkirkjunni. Það er kvöldsöngur eða næturvaka þar sem rússneska tónskáldið Rachmaninov túlkar Davíðssálm 103 sem er vel þekktur lofsöngur og dæmi um hvernig sú kirkjudeild syngur sálmana.  Hún hefur verið nefnd Austukirkjan en rómversk kaþólska kirkjan Vesturkirkjan eftir að kirkjan klofnaði í þessar tvær stóru kirkjudeildir. Ausutkirkjan er á Balkanskaganum og Eystarsaltslöndunum, Finnlandi og Rússlandi. Það er útvarpskórinn í Lettlandi sem flytur lagið. Ég les svo nokkur vers úr sálmi 103.

Lofið Drottin, þér englar hans,
þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans,
er þér heyrið hljóminn af orði hans. 

Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
þjónar hans er framkvæmið vilja hans. 

Lofið Drottin, öll verk hans,
á hverjum stað í ríki hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.

Slm 103.20-22.

Iðrun og angist: 

Þriðja stefið er iðrun: Iðrunarsálmar, þar á meðal syndajátning (Harrison). Lofgjörðin beinist til Guðs en angurljóðið að manninum og aðstæðum hans. Þetta stef birtir syndarann frammi fyrir heilögum Guði og á stöku sálmum jaðrar það við sturlaða angist og örvæntingu. 

Þroskaferill bænalífsins: Í þeim hugleiðingum sjáum við neyð okkur, sjáum og finnum óteljandi ástæðar að biðja til Guðs. Þetta stef kemur mest fram í angurljóðum einstaklinga eða þjóðarinnar. en líka í öðrum flokkum eins og þakkarsálmum og athvarfssálmum. Elsta flokkun sálma greindi svokallaða iðrunarsálma sem fela í sér syndajátningu og voru notaðir við skriftir kristinna manna eins og Davíðssálmur 51 sem byrjar með þessum orðu: „Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi“ (Slm 51.3).

Sálmaskáldin tala um ógnina sem ólgandi haf og þannig tjáir þetta stef erfiðar tilfinningar og átakanlegar (Slm 18.5-7, 46.3-4). Ég hef valið nútíma tónlist til að tjá þessa ógn. Það er af diskingum De Profundis eftir Sofia Gubaidulina sem er rússnekst nútímatónskáld. Á umslaginu er ólgandi haf vegna þess að heiti verksins er tilvísun í upphaf sálms 130 „Úr djúpinu“. Tónskáldið túlkar Sjö orðum Krists á krossinum með þessum tónum, ein þeirra eru upphafið að Davíðssálmi 22: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig“ (Slm 22). Þannig ákallaði Jesú Guð á krossinum. Ég les úr 130 sálminum þar sem horft er í ógnardjúpið og Drottinn ákallaður í djúpinu með Jesú:

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.

Slm 130.1-6.

Fyrirbæn og þakklæti 

Fjórða stefið er svo fyrirbænir, fyrir konunginum, Jerúsalem, þjóðinni og öðrum þjóðum (Harrison). Sá sem þroskast í bæninni lærir að biðja fyrir öðrum. Nokkur dæmi eru um fyrirbæn í sálmunum en styrkist mjög við kennslu Meistarans frá Nasaret. 

Þroskaferill bænalífsins: Fyrirbænin skapar samstöðu með þeim sem líða og kallar á umhyggju og kærleika. Bænheyrslan vekur svo þakklætið til Guðs og um leið bindur okkur við hann þannig að innilegt samband þroskast og styrkist. Þetta stef kemur fyrst og fremst í þakkarsálmunum en einnig í angurljóðum.

Ian Withe tónlistarmaður og guðfræðingur frá Aberdeen  á Bretlandi hefur samið lög við Davíðssálma. Hann hefur gefið þá út á þremur geilsadiskum. Svo við höfum einnig allt aðra túlkun á sálmunum en dæmin sem við höfum þegar heyrt, svo þeir höfða augljóslega til ólíkra hópa. Hér heyrum við lag hans við Davíðssálma 30 sem er einn þekktasti þakkarsálmurinn. Ég les nokkur vers úr þeim sálminum.

Heyr, Drottinn, ver mér náðugur,
Drottinn, kom mér til hjálpar.“

Þú breyttir gráti mínum í gleðidans,
leystir af mér hærusekkinn
og gyrtir mig fögnuði,

því vil ég syngja þér lof
og eigi þagna.
Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.

Slm 30.11-13.

Hér verða skil. Þessi fjögur stef eru grunntilfinningarnar en svo koma nokkur stef til viðbótar sem hafa ákveðið mótíf eða viðfangsefni. Þau skoðum við í næsta þætti. 

Það sem ég vil benda á að lokum í þessum þætti er að með þessum fjórum stefum og tilfinningum er bænahringnum lýst eða þroskaferli bænarinnar. Þess vegna vel ég að raða þeim upp með þessum hætti. Fyrst kemur lofgjörðin og að vera öruggur hjá Guði, gleyma sér um stund innra með sér, en þegar við mætum erfiðleikum eða jafnvel lífsógnandi atburðum eða veikindum vaknar angur og jafnvel angist að Guð yfirgefi, hverfi okkur, skilji okkur eftir ein. En Guðs orð boðar okkur að Guð er að verki, Guð kemur til hjálpar, líknar og læknar, stendur við orð sín, er með þangað til yfir lýkur, vegna þess að hann er trúr. Þar með vaknar þakklætið til hans. Við eignumst innilegt samband við Guð sem ekkert fær haggað, en það verður ekki fyllilega ljóst fyrr en við sjáum Krist, en þá getum við tekið undir með sálmaskáldinu: „Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu“ (Slm. 30.13). Bænalíf er að rækta þetta samband við Guð.

Kór Lindakirkju syngur hér lagið Takk fyrir allt eftir Áslaugu Helgu Hálfdánardóttur. 

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: