Ræða – Davíðssálmar sungnir

Davíðssálmar hafa verið lesnir og sungnir við tíðargjörð í kirkjum um víða veröld í gegnum aldirnar alveg frá upphafi hennar. Tíðargjörð er reglulegt bænahald sem munkar og nunnur og vígðir þjónar kirkjunnar iðkuðu í það minnsta tvisvar á dag. Þannig voru dagarnir rammaðir inn með bæn. Eftir siðbót var tíðargjörð við dómkirkjurnar og í Skálholti standa enn neðanjarðargöng úr húsum í kirkju sem voru notuð til að komast til tíða í öllum veðrum. Húslestrarnir voru einhvers konar almenn bænagjörð. Mikið er til af bænaversum og sálmum á íslensku sem voru notuð við bænalesturinn einslega og við heimilishelgihaldið.

Í helgihaldinu í dag hér í Kaupangskirkju hef ég valið eintóma Davíðssálma sem hafa verið þýddir á íslenskt ljóðamál. Það var eitt af því sem siðbótamennirnir vildu koma á að syngja þessa gömlu sálma. Við eigum þrjár heildarþýðingar á sálmunum 150. Og vinsælasti sálmur í þjóðkirkjunni í dag er Slm 23, “Drottinn er minn hirðir”, sem við höfum þegar sungið. En hver skyldi hafa verið ástæðan fyrir því að þessir nær þrjú þúsund ára gömlu sálmar voru svona lífsseigir? Ég tel það vera bænalífið sem þeir fela í sér. Í haust hef ég verið með útvarpserindi á Lindinni um Sálma og bænalíf þar sem ég fjalla ítarlega um sálmana. Með þessu spjalli hér langar mig að gefa ykkur dálitla innsýn í sálmana. Það má geta þess að meira að segja orðið sálmar eru úr grísku og átti upphaflega við Davíðssálma.

Málverk í Kaupangskirkju eftir óþekktan málara

Inngangssálmur

Sb. 212. Lofgjörð – konungssálmur: Komum, fögnum fyrir Drottni – Slm 95

Inngangssálmurinn sem við sungum er út frá Davíðssálmi 95. Hann er mikið notaður í tíðargjörð kirkjunnar og sem inngangsálmur. Þar er þessi hvatning: “Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors” (Slm 95.1). Þannig er takturinn sleginn inn. Tilbeiðsla kristinnar kirkju snýst um GLEÐI. Ágætur maður sagði: “Alvörumál kristinnar trúar er gleðin”. Því miður vantar dálítið upp á það hjá okkur. Það er svo auðvelt að gera helgihald leiðinlegt. Ég er kannski ekki að tala um að við förum að hoppa og dansa þó að það væri allt í lagi heldur að Guð hefur með lífsgleðina að gera, vegna þess að tilvera okkar öll snýst um hann. Í næsta versi sálmsins er það tjáð: “Göngum fyrir auglit hans með þakkargjörð, syngjum gleðiljóð fyrir honum” (Slm. 95.2).

Þegar ég hef verið að lesa Davíðssálmana hef ég reynt að gera mér í hugarlund helgihaldið í Musterinu. Þessi sálmur hefur vafalaust verið notaðar við helgihaldið eins og enn í dag meðal gyðinga og kristinna manna. En hann á líka við bæn í einrúmi. Við morgunbæn mína sit ég við glugga og sé yfir Pollinn og Vaðlaheiðina þar yfir. Allt þetta gerði Guð eins og segir í sálminum. Það er grunntónninn í bænalífi trúaðra, gleðin, að eiga Guð, sem umlikur okkur með sköpun sinni og hans erum við. Þannig sjáum við litróf tilfinninganna og innilegt samband við Guð í þessum sálmum. Það gerir þá að einstakri bænabók.

Lofgjörðarvers – Athvarfssálmur

Sb. 762. Drottinn er minn hirðir – Slm 23

Næst sungum við svo mest notaða sálm í þjóðkirkjunni, Slm 23, “Drottinn er minn hirðir”. Ég les hann stundum við dánarbeð, hann er notaður við jarðarfarir og á unglingasamkomum og lofgerðarstundum. Við sungum hann sem lofgerðarvers, þó að það vanti Hallelúja, þá geymir hann lofgjörðina í sér. Lofgjörð er þegar við gleymum okkur í umhugsun okkar um Guð og hann verður okkur allt í öllu: “Mig mun ekkert bresta, á grænum grundum lætur hann mig hvílast”. Sálmurinn er í flokki athvarfssálma. Eins og nafnið gefur til kynna er það önnur trúarleg tilfinning en lofgjörðarsálmarnir að finna öryggi og traust hjá Guði, að hvíla í Guði. Það minnir á orð Ágústínusar í Játningum hans: “Sál mín er óró uns hún hvílir í Guði”. Guð hefur með grundvallartraust okkar í lífinu að gera. Það er öryggið sem við finnum þegar við biðjum fyrir og með börnunum okkar. Þetta barnslega traust að Guð geymir okkur.

Myndin af hirðinum góða er dreginn upp í þessum sálmi og okkur sem sauðunum hans. Og svo af veisluborði sem okkur er búið, “bikar minn er barmafullur”. Þannig tjáir sálmaskáldið ekki aðeins gleði heldur líka lífsfyllingu sem Guð einn getur veitt þrátt fyrir allt: “Þótt ég fari um dimman dal (dauðans skugga dal) óttast ég ekkert illt því þú ert hjá mér” (Slm 23.4).

En hvernig má það vera?

Guðspjallssálmur – Angurljóð

Sb. 394. Anguljóð – iðrunarsálmur: Úr hryggðardjúpi hátt til þín – Slm 130 – Helgi Hálfdanarson þýddi lúther-sálm

Rétt í þessu vorum við að syngja þýðingu Helga Hálfdanarsonar á sálmi Lúthers út af 130 Davíðssálmi sem byrjar svona: “Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn” (Slm 130.1). Svo við sveiblumst í þessum sálmum frá hæstu gleði í dýpstu angist. Það er einmitt það sem gerir þá svo lífsseiga og kennslubók í því að biðja.

Þetta er einn af iðrunarsálmunum. Áður höfum við heyrt lofsöngva um mikilleik Guðs og um öryggið hjá Guði. Það jaðrar við sjálfsréttlæti og falskt öryggi. Lánast trúuðum manni allt sem hann gerir? Eitt af skáldunum íslensku sem gaf út þýðingu sína á Davíðssálmum fékk bágt fyrir einmitt þetta að setja sig á háan hest gagnvart öðrum, eins og sálmarnir gera á vissan hátt. En í seinni tíð hafa menn viljað sjá ákveðin gang eða feril í sálmasafninu frá Slm 1 sem fullyrðir í gleði sinni “allt lánast” þeim sem lætur leiðast af Drottni. En svo koma angurljóðin eins og þessi sálmur úr djúpinu og strax í Slm 13 er Guð spurður þessarar sáru spurningar: “hversu lengi ætlar þú að gleyma mér með öllu?” (Slm 13.2). Það er þessi vídd og átakanlega tilfinningaglíma sem gerir sálmasafnið að hollri lesningu fyrir biðjandi mann því þanngi reynist líf okkar vera.

Þegar við komum fram fyrir Guð í bæn og njótum nærveru hans, gleymum okkur í lofgjörð til hans, fer að renna á okkur tvær grímur eða lumskur grunar að ekki sé allt með felldu (Slm 95, Slm 23). Við förum að horfa inn á við og í kringum okkur og sjáum þá að dalurinn er dimmur, óréttlæti blasir við, við stöndum í alls konar glímum og innra með okkur er einhver brestur eins og sálmaskáldið orðar það: “Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning svo að menn óttast þig” (Slm 130.3-4). Eins og talað út úr mínu hjarta.

Mikið hefur verið fjallað um trúarreynslu Lúthers. En við þurfum svo sem ekki annað en að horfa aðeins inn á við held ég til að finna fyrir því saman. Það er eins og tilveran sé gegn trúnni. Þegar við mætum mótlæti, þjáningum og ég tala nú ekki um þegar við stöndum andspænis dauða náinna ástvina eða þegar lífi okkar er ógnað, þá eru það þessar erfiðu tilfinningar sem sálmaskáldin tjá svo óheft sem við lifum. Það er eitthvað harmsögulegt við lífið. Við upplifum mótsagnir, þverstæður. Postulinn Páll sá lengra og hafði meira ljós með því sem Jesús Kristur hafði birt honum þegar hann skrifaði í pistli dagsins: “Nú er ég glaður í þjáningum mínum ykkar vegna og uppfylli með þjáningum líkama míns það sem enn vantar á þjáningar Krists til heilla fyrir líkama hans, kirkjuna.” (Kól. 1.24).

Nú segi ég eflaust eitthvað sem kemur þér á óvart eða kannski veistu þetta eins vel og ég. Lúther skilgreindi bænina eins og í þessum sálmi “Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn”. Bæn er að ákalla Guð í allri neyð sinni og vænta alls góðs af honum, að koma með vandræði sín til Guðs. Sálmaskáldið ávarpar Guð “þú, Drottinn”. Það er lítið mál að trúa þegar allt leikur í lyndi en öllu verra þegar maður stendur gagnvart ógn, niðurlægingu, ógæfunni. Upplifum óreiðu og ótta. Óttinn er hluti af trúarlífi og bænalífi. Biðjandi maður áræðir að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru og koma þannig til Guðs.

Niðurstaða Lúthers í trúarglímu hans er orðuð í þýðingu hans á sálminum með þessum orðum: “Allt mitt traust set æ á þig” og svo kemur þetta erindi:

Þótt dragist, Guð, þín hjálp um hríð
og hagsæld lífs mig bresti,
í trú og von þíns tíma’ eg bíð,
þinn tími’ er æ hinn besti.
Þú veist nær hjálpin hollust er,
í hverri neyð þá vissu mér
í huga fast ég festi.

Sb. 394

Þannig höldum við gleðinni í dauðans skugga dal. Og þess vegna lítum við á þessa sköpun Guðs sem blasir við okkur sem tímabundna, lærdómstíma, vegferð, sem hefur æðra mið, sem snýst um góðan Guð, sem gefur örlátlega, líf í fullri gnægð. En við losnum ekki við þessa spennu í lífinu en getum lifað með henni í trú og von.

Eftir prédikun

Sb. 35. Drottinn minn, Guð, þú ert bjarg mitt og borg – Slm 28

Hér á eftir syngjum við sálm sem staðfestir þessa trú sem er þýðing út frá Slm 28. Grundvallartraust okkar kristinna manna byggir ekki á náttúrunni eða eigin þekkingu heldur á Guði: “Drottinn minn, Guð, þú ert bjarg mitt og borg”. Og skáldið hefur orðað það svo: “Ég hlaut hjálp, því fagna hjarta mitt, / og með ljóðum mínum lofa ég hann” (Slm 28.7). Það er víða talað um “nýjan söng” í Davíðssálmum og sálmaskáldin hvetja okkur til að taka undir hann. Það er söngurinn sem ber þess vitna að trúin hefur gengið í gegnum þessa reynslu og haldið í Guð. Valdimar Briem umorðar sálminn en hans eigin trúarreynsla liggur í orðunum. Um hana gæti ég haft mörg orð en hér er ekki rúm fyrir það. Látum þessar hendingar duga:

Drottinn minn, Guð, þú ert bjarg mitt og borg,
brugðist þú getur mér eigi.
Þú ert mitt athvarf í sérhverri sorg,
sól mín á harmanna degi.

Sb. 35

Það er komin reynsla af Guði, sem er bjarg og borg og þessi sannfæring: “brugðist þú getur mér eigi” og “þú ert mitt athvarf”. Sambandið við Guð er reynt, hreinsað eins og gull í deiglu reynslunnar.

Svo við getum ályktað sem svo að það er ekki víst að allt lánist en eftir reynsluna er engu að síður sambandið við Guð meira virði en allt í veröldinni.

Útgöngusálmur – Lofsöngur í algleymi

Sb. 706. Logjörðin nýja: Syngið Drottni sól og máni – Slm 148

Í lokasálminum er lofgjörð og við hvött til að taka undir í þýðingu Kristjáns Vals Ingólfssonar: “Syngið Drottni sól og máni”. Samfélagið við Guð í bæn er með þeim hætti. Allt eins og syngur Guði lofgjörð þó að reyni smá á okkur í veröldinni. Það þarf ekkert meira til að biðja en að vera til, vegna þess að við eru sköpun Guðs, hans eru við. Þegar við ávörpum hann þá er hann þegar hér. Við reynum samband við hann sem gengur út yfir þessa veröld sem við lifum og reynum, en Guð veitir okkur öryggi og traust, jafnvel í “dauðans skugga dal”.

Þannig lifum við Guð í tilverunni eins og hún er við undrun og þakklæti:

Syngið Drottni, sól og máni,
sérhvert ljós sem kveikir hann.
Syngið Drottni, himnar háir,
hljómi allt sem lofa kann.

Sb. 706

Þegar ég hugsa til baka þá sé ég að Davíðssálmar hafa mótað bænalíf mitt mikið bæði gleði, lofgjörð, angist, ákalli, visku, þekkingu, undrun og þakklæti. Ég orðað það svo í bæn í eigin ljóði:

Með börnum þínum biðja vil
að betur leyndardóminn skil,
að þjáning Drottins vísar veg
til visku ljós að sjái ég.
Það ljós Guðs anda ljáðu mér
að lifi ég þér eins og ber
og andlit mitt skíni skært af þér.

GG

Dýrð sé Guði.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: