Innihald, flokkun og form
Davíðssálmar eru ljóðaform hjartans og bænalífsins. Þeir eru lofsöngvar, angurljóð og þakkagjörð. Þannig hafa þeir verið túlkaðir af tónskáldum og sálmaskáldin tjáð tilfnningar þeirra upp á nýtt. “Þú finnur sjálfan þig í þessum sálmum og kynnist sjálfum þér í sannleika, og Guði sjálfum og allri hans sköpun sömuleiðis” (Lúther).
Hlusta á þáttinn:
Í mínum huga fara sköpunargleðin og guðstrúin saman. Svo ég taki persónulegt dæmi. Þá er ég tómstundamálari. Þegar ég var 16 ára átti ég í mikilli trúarglímu. Þá málaði ég mynd af hind við vatnslindir. Ég var í angist og var að leita að tilgangi þar sem lífsgrundvöllur minn hafði brostið og myndefni úr Davíðssálmi sem ég hafði lesið leitaði á hugann. Davíðssálmur 42 tjáði tilfinningarnar sem ég bar í brjósti: „Eins og hindin sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó, Guð“ (Slm 42.1). Á sama tíma skrifaði ég trúarlega dagbók, samtöl mín við Guð. Þau voru í formi Davíðssálma. Eftir það hugsað ég sem svo að þetta form passaði vel til að tjá tilfinningar trúarinnar. Frjáls tjáning eins og nútímaljóð. Síðar lærði ég að það er meiri formfesta á hebreskum ljóðum. En hebreska er frummál Davíðssálma.
Ég held að ég hafi eitthvað þroskast trúarleg og orðið agaðri eða menntaðri með árunum, kannski. Það byrjaði með því að ég fór að þýða einstaka söngva fyrir kristilegan kór sem ég var í. Upp frá því hefur þetta verið áráttubundin hegðun hjá mér að verða að „syngja Guði lof“ (Slm 147.1) eða „syngja nýjan söng“ (Slm 144.9). Fyrir nokkru fór ég að glíma við að flokka þessa framleiðslu mína. Svo að vandi þeirra sem settu saman Davíðssálma eins og þeir eru í Biblíunni varð einhvern veginn ljóslifandi fyrir mér. Það er eitthvað röklegt samhengi í Davíðssálmum og sálmabókum kristinna manna sem hægt er að finna út frá stefum trúarlífsins frekar en nákvæmum flokkum. Enda gengur illa að flokka sálmana þó að megináherslur í hverjum þeirra séu nokkuð ljósar. Þeir voru ekki skrifaðir eins og tónskáld skrifar sonettur eða píanókonserta eftir ákveðnu formi heldur spruttu upp af innri þörf, bænalífi einstaklinga (Slm 51) og safnaða (Slm 80), samið stundum við hörpuhljóm (Slm 49.5). Söfnuðirnir hafa sem sagt átt ljóðasöngvara frá upphafi sem hafa tjáð tilfinningar sínar og samtíma síns í ljóði.
Ljóðaform hjartans og bænalífsins
Form Davíðssálmanna myndi ég vilja kalla ljóðaform hjartans og bænalífsins. Þeir vaxa upp af íhugun og bæn. Það eru nokkur grunnstef sem við getum greint en þau geta komið í sama sálminum og fléttast saman í þessi einstöku listaverkum sem sálmarnir eru hver fyrir sig. Eins er uppröðun þeirra með þeim hætti að hann þjónar bænalífinu. Við getum talað um þrjú eða fjögur meginstef:
Hymnar (lofsöngvar) og athvarfssálmar
Tilfinning skilgreind: Sú trúartilfinning sem ég vil nefna fyrst er trúnaðartraust. Leggðu þetta orð á minnið það er aðal í Davíðssálmum þó að það kann að hljóma eins og tvítekning þá er það í merkingunni að trúin er traust. Við erum að fást við samband við Guð sem byggir á gagnkvæmum trúnaði og trausti.
Hymnar er latneska heitið yfir lofsöngva en við höfum séð að allt sálmasafnið ber þetta heiti þó er það ekki stærsti flokkur sálmanna (Slm 103). Sálmar trúartrausts hafa sumir viljað hafa sem sér flokk (Slm 23). Sú trúartilfinning sem einkennir þetta stef er Guð í miskunn sinni. Guði er gefin dýrðin, Guð tilbeðinn og hátign nafns hans verður allt í öllu. Það er frelsandi tilfinning að mega gleyma sér um stund í lofgjörð. (Og það veitir öryggi að mega „kúra“ hjá Guði eða vera á „trúnó“ með Guði, svo ég lýsi athvarfssálmum með dýrmætum þáttum í mannlegu lífi.)
Tvo sálma vil ég taka sem dæmi til að tjá þessar trúartilfinningar (1) að lofa Guð og (2) að hvíla í Guði. Fyrra dæmið er lag úr Genfar saltaranum (1551) sem Sigurbjörn Einarsson hefur sett lofsöng við sem er í anda Davíðssálma Lof sér þér, Guð sungið af Scola Cantorum.
Lof sé þér, Guð, þín líkn ei þver,
lind allrar gæsku, dýrð sé þér.
Lof þér, sem veitir hjálp og hlíf,
himneska svölun, eilíft líf.Lofar þig sól, þér lýtur jörð.
Sigurbjörn Einarsson
Lífið þér færir þakkargjörð,
blessi þitt nafn um eilíf ár:
Einn sannur Guð og faðir hár.
Seinna dæmið er nýleg þýðing af Davíðssálmi 23 sem er athvarssálmur í þýðingu kollega míns sr. Svavars A. Jónssonar. Það er dæmi um þýðingu á Davíðssálmi í seinni tíð samkvæmt íslensku ljóðamáli. Lagið er að finna í heildarþýðingu Davíðssálma frá mótmælendakirkjunni á Írlandi (prespyterian). Það er einnig Scola Cantorum sem syngja þennan sálm.
Ég á mér hirði hér á jörð,
sem hefur gát mér á.
Hann blessar mig og býður nægð,
mig bresta ekkert má.Ef eigra ég um eyðisand
og enga leið ég finn,
hann leiðir mig á græna grund
og greiðir feril minn.Við vötnin hans ég næðis nýt,
svo nærist sál og líf,
hans helga nafn mér vísar veg,
og veitir skjól og hlíf.Þótt fari ég um dimman daler
Drottinn samt mér hjá.
Ég trúi’ á hann og ekkert illt
mér ótta vekur þá.Ég styðjast vil við staf þinn, Guð,
mig styrkir sproti þinn.
Í hverri neyð þú býr mér borð
og bikar fyllir minn.Já, fylgja mun mér gæfa Guðs,
Svavar A. Jónsson – Slm 23
sem gengur mér við hlið
og alla daga ævinnar
ég á hans náð og frið.
Angurljóð
Tilfinning skilgreind: Andhverfa þessara trúartilfinninga er svo anguljóðin sem tjá iðrun, sársauki lífsins, ótti og angist.
Angurljóðin eða harmsálmarnir er stærsti flokkur Davíðssálmanna (Slm 51, 137). Sú trúartilfinning sem einkennir þenna flokk vaknar þegar litið er til mannsins og heimsins. Ef lofsöngurinn er í dúr þá eru þessi stef í moll ef við líkjum muninum við vestræna tónlist. Raunveruleikanum, sársaukanum, óttanum og angistinni er lýst óheft og ærlega þannig að lesandinn finnur til, mannlegur veruleiki verður ljós. Það getur kennt okkur að við megum tjá okkur frjálslega við Guð. Hann er ekkert á förum. Af þessu angri og harmi vaknar svo iðrunin þegar hugurinn snýr sér til Guðs og biður. Sumir hafa viljað kalla þennan flokk „bænasálma“, maðurinn frammi fyrir Guði verður ein stór bæn í veruleika sínum. Iðrunarsálmarnir falla undir þennan flokk þar sem maðurinn játar syndir sínar og bresti fyrir Guði (Slm 51, 32).
Tónskáldið Dvorak samdi tíu sönglög við Davíðssálma. Eitt þeirra er við Davíðssálm 137. Sálmaskáldið lýsir þar allt annarri tilfinnigu en í lof- og athvarssálmunum. Það er djúpur harmur eftir að þjóðin hefur verið herleidd til Babýlónar sem Dvorsak nær að tjá með tónmáli sínu á átakanlegan hátt. Davíðssálmurinn byrjar með sárum söknuði og lýsingu á ofbeldi á kúgaðri þjóð (Spila lagið meðan lesið er Dvorak hér):
Við Babýlonsfljót sátum við og grétum
Slm 137.1-4.
er við minntumst Síonar.
Á pílviðina þar hengdum við upp gígjur okkar
því að þar heimtuðu verðir okkar söngljóð
og kúgarar okkar kæti:
„Syngið okkur Síonarkvæði“
Hvernig gætum við sungið Drottni ljóð
í framandi landi?
Þakkarsálmar
Tilfinning skilgreind: Það sem er svo athyglisvert við Davíðssálma er að þeir endi ekki í angrinu heldur halda áfram vegna sambandsins við Guð í bæn. Vegna þess að Guð heyrir bænir vaknar undrun og þakklæti.
Þakklæti til Guðs sem frelsar og undrun yfir hjálpræðisverki hans er sem sagt þriðji flokkurinn (Slm 118). Sú trúartilfinning sem einkennir þetta stef er maðurinn með Guði. Guði er þakkað fyrir hjálpina sem hann veitir. Sambandið við Guð einkennist af þessum tilfinningum, þakklæti og undrun. Þær tilfinningar leita útrásar í samfélaginu sem er hvatt til að þakka Guði, samkennd trúaðra, fyrirbæn og þjónusta, sprettur upp af þessu þakklæti. Það leiðir svo til þekkingar á Guði og samfélags við hann í daglegu lífi. Hvíldin fæst svo við það að dvelja hjá Guði, allt annað gleymist, Guð einn verður biðjandi manni allt í öllu, sem svo leiðir aftur til lofgjörðar, „nýji söngurinn“ hefst og sambandi við Guð dýpkar.
Það dæmi sem ég vil taka um þessa tilfinningu er þýðing Stefáns Thorarensen á Davíðssálmi 104. Það er einn af þekktustu þakkarsálmunum. Hann byrjar sálminn með þessum orðum: „Mín sál, þinn söngur hljómi… um Herrans tign og mátt“. Svo er tjáð djúpt þakklæti fyrir gjafir hans og hjálp þegar hann kemur á vagni sínum sem hetja til bjargar með englasveit. Þannig er bænheyrslan tjáð og sálmurinn endar: „Lof sé þér… og hjartans þakkargjörð“. (Sálminn syngur Kór Langholtskirkju hér. Sb. 213. Lagið er úr Gradual eða Grallaranum frá 1594 sem var messusöngbók siðbótarkirkjunnar á Íslandi, nr. 130: Christs er koma fyrir höndum).
Mín sál, þinn söngur hljómi,
þinn söng lát stíga hátt
frá Herrans helgidómi
um Herrans tign og mátt.
Hann skrúði ljóss er skrýddur,
og skýin vagn er hans,
og himinn hár og prýddur
er höllin skaparans.Á vængjum vinda fer hann
í voldugri’ engla sveit,
og hvarvetna’ ætíð er hann
og allt sér glöggt og veit.
Hann þrumur þungar sendir,
er þjóna’ hans vilja brátt;
hann sjó og bylgjum bendir,
er birta’ hans dóma’ og mátt.Ó, Drottinn dýrðarinnar,
Stefán Thorarensen – Slm 104 – Sb 1981 nr. 213
þín dásöm eru verk
og vottur visku þinnar.
Þín veldishönd er sterk
og gjafmild, full af gæðum,
ó, Guð, er þessi jörð.
Lof sé þér, Herra’ á hæðum,
og hjartans þakkargjörð.
Um tilfinningarnar í Davíðssálmum
Sjáið nú til að þetta er ekki eitthvað sem ég hef upphugsað um þessar ólíku og andstæðu tilfinningar í Davíðssálmum heldur hafði bænamaðurinn Lúther gert það fyrir löngu. Hann vann að ritskýringu Davíðssálma m.a. þegar hann uppgötvaði fagnaðarerindið með nýjum hætti. Það varð svo ástæða hans til að bæta trú kirkjunnar. Í inngangi á skýringum sínum segir hann:
Í þeim lítur þú inn í hjarta dýrlinganna eins og inn í fagran garð, já, eins og inn í himininn sjálfan; og í garðinum sérðu spretta upp fögur, björt og heillandi blóm, blóm allra gerða af fallegum og gleðilegum hugsunum um Guð og náð hans. Aftur á móti, hvar er að finna orð sem tjá sorg á dýpri hátt og mála upp þjáningu og umkomuleysi á meiri talandi máta en orðin sem mynda harmljóð sálmanna?
Drögum nú saman: Ef þú villt sjá heilaga kristna kirkju málað í glóandi litum og í raunverulegri lifandi mynd, og þetta allt með yfirsýn, þá verður þú að taka fram sálmana, og þar hefur þú í hendi þinni fínan, ljósan, hreinan spegil sem sýnir þér hvað kristindómurinn er í raun; já, þú finnur sjálfan þig í þessum sálmum og kynnist sjálfum þér í sannleika, og Guði sjálfum og allri hans sköpun sömuleiðis.
Marteinn Lúther
(Myndirnar sem ég hef valið með þessum kafla draga upp dökku hliðarnar, mín kannski björtu hliðina, fallegan garð. Turner dregur upp hinn órólega anda með mynd sinni af sjávarháskanum. Andi rómantísku stefnunnar svífur þar yfir sem endurspeglast í sálmaarfi okkar. En Chagall, sem var gyðingur, hann málaði oft Krist með bænasjal gyðinga, bendir með því á uppruna Jesú. Hér blasir við okkur raunsæismynd í sinni barnslegu framsetningu um stöðu gyðinga í Rússlandi, ofsóttir og hraktir voru þeir. En Kristur skapar festuna, Guð sem þjáist með börnum sínum.)

Í þessari lýsingu Lúthers á sálmunum birtist annars vegar mikilleiki Guðs og hins vegar raunveruleiki mannlegs lífs. Ég og þú kynnist í þeim “Guði sjálfum” og “sjálfum þér í sannleika”. Rannsóknir á Davíðssálmum hafa í seinni tíð þróast í þá átt að skoða andlegan þátt þeirra og þýðingu fyrir biðjandi mann meira en flokkun þeirra og hlutverk þeirra í helgihaldinu enda komin ágæt niðurstaða í þær rannsóknir. Jafnvel hafa sálfræðingar og guðfræðingar lagt saman til að rannsaka tilfinningarnar í sálmunum eins og ég geri í þessum erindum. Bæði tilvitnunin í Lúther og þessir meginstef sem ég hef gert grein fyrir hér á undan snúast um það sem ég kalla reynsluhring eða spíral um þroska trúarinnar. Í fyrsta sálminum (Slm 1) virðist allt vera slétt og felt, “allt sem hann gjörir lánast honum”. En í Davíðssálmi 13 er Guð spurður: “Hversu lengi ætlar þú (Guð) að gleymi mér með öllu?” Það er djúpur sársauki í orðunum. En víða í sálmunum verður eins og stemmnings breyting eða umbreyting. Það er erfitt að bera í brjósti blendnar tilfinningar. Guð hefur komið til hjálpar í miskunn sinni og gæsku. (Hann kemur á vagni sínum sem frelsishetja með englalið. Kröftug lýsing á Guði sem kemur til hjálpar. Þannig er Guði lýsti í Davíðssálmi 104.) Guði er þakkað fyrir björgunina og sá sem ákallar Guð í djúpinu stendur nú á bjargi vegna Guðs þrátt fyrir allt.
Þegar við fáum þessa yfirsýn á tilfinningar bænalífsins verður það deginum ljósara að bænalíf er ekki að svífa á bleiku skýi. Svo hér er rétt að taka það fram ef þú vilt ljúft líf þar sem þú þykist og allt er látið líta út fyrir að vera slétt og fellt, án erfiðleika, þá eru bænalífið ekki leið til þess. Heilbrigt bænalíf horfist í augu við raunveruleikann eins og hann er en örvæntir ekki þrátt fyrir það heldur vonar á Guð í trú og gengur svo út í raunveruleikann með þakklæti til að þjóna í kærleika í sköpun Guðs. Einmitt það er svo heilsusamlegt við bænalífið sem Jesús og Davíðssálmarnir kenna. Þannig hefur bænalífið þroskast og öðlast djúpan jarðveg að vaxa í. (Þessi skilningur á bæn gengur þvert á þær fullyrðingar guðleysingja að trúin sé einhvers konar taugaveiklun eða geðröskun.)
Við skulum heyra sálm sem lýsir þessari reynslu eða ólíku tilfinningum bænalífsins. Það er sálmurinn: „Ég vil ljóða um Drottinn meðan lifi“. Það er út frá þakkarsálminum Davíðssálmi 104, 33 versi: “Ég vil ljóða um Drottinn meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til”. Það er niðurstaða og lífsstefna biðjandi manns sem hefur sett traust sitt á Guð. Það Sálmavinafélagið sem flytur lagið. Höfundur lagsins er O. Ahnfelt og þýðinguna gerði Hugrún.
Ég vil ljóða‘ um Drottin meðan lifi,
lofsyng Guði meðan ég er til,
og með lofsöng líka héðan fara,
loks er endar jarðneskt tímabil.
Ég vil þakkir Guð þúsund færa,
þakka fyrir líf og hverja gjöf.
Þann vill Drottinn aga, sem hann elskar,
eilíf sólin ljómar bak við gröf.Ég vil leggja allt í Herrans hendur,
hann til lífs er eini vegurinn,
og með kærleiksraustu safnar saman
sínum börnum góði hirðirinn.
Láttu, Drottinn, tungu mína túlka
traustið sem í hjarta mínu býr,
og þá miklu sælu‘ og sigurgleði,
er syndari frá villu‘ og hroka snýr.Láttu Drottinn, orð mín elsku þína
Hugrún
opinbera hvar í heimi‘ eg fer.
Jesús, þú með kvöl og dauða‘ á krossi
keyptir líf og eilíft frelsi mér.
Látum hljóma sönginn, systur, bræður,
syngjum Drottni, meðan hjartað slær,
lof og þakkir, kveðjum heimsins hylli,
hún er tál, er enga gleði ljær.