Sálmar og bænalíf – 1. kafli

Tilfinningar og stef í Davíðssálmum og söngvar kirkjunnar

Með nokkrum dæmum er gerð grein fyrir þeim sterku og djúpu trúartilfinningum sem bænir Jesú og Davíðssálmar geyma. Þjóðsöngurinn og sálmurinn Indælan, blíðan eru dæmi um það. Þessir sálmar m. a. tjá þennann trúararf sem sálmabækurnar geyma og lifir í söfnuðunum.

Hlusta á 2. þátt:

Sálmar og bænalíf er viðfangsefni okkar. Kannski ekki það vinsælasta um okkar daga. Það er ekki víst að ég komist að með þessi erindi mín á TED. Nú tala menn fjálglega um alls konar heilsurækt, andlega og líkamlega, heilsufæði, ræktina o.s.frv. Talað er um kynlíf svo opinskátt að menn með tilhneigingu til einlífis og hreinlífis eins og ég fara auðveldlega hjá sér. En flestir fara í hnút ef bænalíf þeirra ber á góma! Jú, menn lærðu bænir sem börn, þó ekki allir. Sum fermingarbörn sem mæta í fræðsluna kunna ekki einu sinni Faðir vorið. Það fer þó ekkert á milli mála að bæn og tilbeiðsla eru þær æfingar, vil ég segja eða iðkun svo ég noti gamalt og gott orð, sem er kristnu fólki nauðsynlegar til að lifa heilbrigðu trúarlífi. 

Ein athyglisverðasta bók sem hefur verið skrifuð um bænina er eftir Friedrick Heiler sem hann nefndi einfaldlega Das Gebet, eða Bænin. Sigurbjörn Einarsson, biskup, sá mikli bænarinnar maður, dregur þá ályktun með þá bók í huga sem hefur að geyma fjölda dæma um bænaiðkun að „kristin trú hefur fætt af sér og mótað þróttmeira, innilegra og persónulegra bænalíf en nokkur önnur trúarbrögð“.

Það sem ég ætla að færa rök fyrir og kenni í þessum fyrsta hluta (bókarinnar) er að ástæðan fyrir þessum innileika bænalífsins er arfurinn sem Jesús hafði þegið með móðurmjólk-inni þegar hann lærði að biðja Davíðssálma hjá Maríu móður sinni, eins og ég kom inn á (í innganginum) í fyrsta þætti. Með nokkrum dæmum ætla ég að leiða í ljós þær sterku og djúpu trúartilfinningar sem bænir Jesú og Davíðssálmar geyma. Svo læt ég fylgja með nokkur dæmi sálmaskáldanna okkar sem tjá þennan trúararf sem eru við höndina í sálmabókum og lifir í söfnuðunum. Þá hef ég tekið nokkuð af eigin kveðskap til að skýra enn betur tilfinningar bænalífsins þar sem ég þekki bakgrunn þeirra sálma best sjálfur.

Davíðssálmar bænabók gyðinga og kristinna

Davíðssálmarnir eru sameign gyðinga og kristinna manna. Þeir hafa verið bænabók þessara trúarbragða frá upphafi í nær 3000 ár. Sumum finnst þeir kannski sundurlaus samtíningur af ljóðum og bænum. En ef fólk biður þessar bænir fær það fljótlega aðra tilfinningu, trúi ég. Kaþólskir kollegar mínir og reglufólk sumt hvert biðja Davíðssálmana 150 á einum mánuði í tíðargjörð sinni. Og ég reyni að lesa nokkra á mánuði í úrvali! 

(Jesús notaði Davíðssálma í sinni bænagjörð, lífi og starfi, eins og við höfum séð útskýrði hann dauða sinn og upprisu með orðum sálmanna m.a. Bænarorð sín tók hann af Davíðs munni á krossinum, bænaorð, sem móðir hans hafði vafalaust kennt honum.)

Bænalífið sem birtist í sálmunum er guðdómlegir lofsöngvar, ærleg iðrun og eftirsjá, angurværð yfir stöðu sinni, angist vegna hættu og ofbeldis. Í sálmunum birtist mjög raunsæ sýn á veröldina og menn og málefni, það er með ólíkindum, nokkuð sem næst ekki nema að menn lifi með Guði í bæn. En þó eru sálmarnir dýpst undrun yfir verkum Guðs og þakklæti.

Í lofsöngvunum fléttast þessar tilfinningar saman eins og reyndar í öðrum flokkum sálmanna eins og anguljóðum og þakkarsálmum. Ég hef nefnt það stef sem takast á í þeim. 

Sá lofsöngur sem við þekkjum hvað best er náttúrulega þjóðsöngurinn eftir Matthías Jochumsson sem var saminn út frá Davíðssálmi 90. Hann er ágætt dæmi um þær trúartilfinningar sem ég er að fjalla um og innilegt samband við Guð. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi lagið í Edenborg 1873 að beiðni Matthíasar sem var með þjóðhátíðina í huga 1874. Pétur Pétursson biskup hafði lagt til að nokkur vers úr Davíðssálminum yrðu texti hátíðardagsins sem átti að vera 2. ágúst 1874.  Þá um sumarið voru haldnar þjóðhátíðar út um allt land en Vestmannaeyingar einir hafa haldið því áfram. 

Matthías Jochumsson á skrifstofu sinni í Sigurhæðum. Bænalíf hans var mjög auðugt eins og þýðingar hans og sálmar sýna, lifði í íslensku bænahefðinni og vann í sálmabókanefndinni 1886

Tilfinningin í lofsöngnum túlkar annars vegar hátign Guðs og hins vegar smæð mannsins sem tilbiður Guð sinn, eins og kemur svo sterkt fram í Davíðssálminum: „Drottinn, þú hefur verið okkur athvarf frá kyni til kyns… því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… ævidagar okkar … líða í skyndi“ (Slm 90.1, 4, 10). Guð er tilbeðinn sem er utan við tímaramma okkar manna. Það var nýstárleg hugsun í fornheiminum, þar mætast eilífur Guð og tímans börn.

Hlusta á sálminn á YouTube

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Dæmi um tilfinningar

Það er mikið verk að fara yfir alla sálmana svo ég hef valið nokkur dæmi, fáein vers úr nokkrum þeirra, til að vekja athygli þína á þessum tilfinningum. Í Sálmunum sjáum við inn í hjarta manns sem kemur fram fyrir Guð. Það má segja að sálmarnir geyma tilfinningar bænalífsins á litríku máli. Úrvalið sem við förum yfir á að endurspegla þessar fjölbreyttu tilfinningar. 

Spurningarnar sem við ætlum að fást við hér í þessum hluta eru: 

  1. Hvaða tilfinningar endurspeglast í þeim? (1. kafli)
  2. Hvernig samsvara form sálmanna þessum djúpu mannlegu tilfinningum? (2. kafli) 

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla  testamentisfræðum við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ, hefur gefið út mikið verk þar sem hann ritskýrir nokkra af sálmunum, vandlega valin dæmi, gerir grein fyrir áhrifum þeirra á menningu okkar Íslendinga og Vesturlanda, sem eru ekki lítil. Þá tekur hann dæmi úr kvikmyndum, sem sýna áhrif sálmanna í nútímanum, svo nærtæk eru dæmin að sálmarnir hljóta að snerta við manni. Bók hans er líka listilega falleg með velvöldu myndefni og sálmum úr okkar trúararfi sem má rekja til Davíðssálma. Manni finnst eftir lestur bókarinnar þær háværu raddir sem vilja gerilsneyða samfélagið af öllu trúarlegu og sérstaklega hinum gyðing – kristna arfi grátbrosleg heimska og á skjön við veruleika okkar og menningu. Ég byggi mikið á þessu riti Gunnlaugs í erindum mínum (bókinni).

Bænalíf og kristin trú

Ég hef fjallað um bænalíf Jesú eins og sagt er frá því í guðspjöllunum í þáttum hér á Lindinni um Eftirfylgdina (bókinni Fylg þú mér) en mín niðurstaða þar var að Jesús bað í anda Davíðssálma og kenndi lærisveinum sínum að biðja þannig. (Ég hef birt grein á heimasíðu minni ef einhver hefur áhuga sem ber heitið Bæn eins og Jesús kenndi). Andinn er hinn sami. Ég mun í umfjölluninni um Davíðssálma fjalla um Krist í Davíðssálmum og tel að þeir verði varla skiljanlegir fyrr en við komum auga á spádómana um Krist sem þeir fela í sér.

Kirkjan er oft misskilin og litið er á hana sem þjónustustofnun en hún er fyrst og fremst bænasamfélag. Ef hún er það ekki þá er hún engin kirkja Krists. Bænin er kjarni trúariðkunar sem ætti að vera öllum ljóst eftir umfjöllun mína. 

Sálmarnir hvetja til bænalífs: 

„Sæll er sá sem… hefur yndi af leiðsögn Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt“.  

Þannig byrja fyrsti sálmurinn (Slm 1.1-2). Gunnlaugs A. Jónssonar vill túlka lögmálið (torah) ekki sem Mósesbækurnar fimm heldur í víðari merkingu sem leiðbeining Guðs og þess vegna þessi þýðing „leiðsögn Drottins“. Það er þá leiðarstefið í framsetningu Davíðssálma eins og við höfum þá í Biblíunni. „Ég elska Drottinn af því að hann heyrir grátbeiðni mína“, segir í Slm 116.1. Jesús kennir í Fjallræðunni: „Biðjið og ykkur mun gefast“ (Mt 7.7). Þar kennir hann líka Faðir vorið og að Guð sé okkar himneski faðir (Mt 6.3, 6, 8, 9-15). Og postulinn Páll kennir: „Biðjið án afláts“ (1Þess 5.17). Svo það er mikil hvatning til þess að biðja vegna þess að í bæn eigum við samfélag við Guð og um það snýst kristin trú. Þess vegna var Jesús trúarbragða gagnrýnandi á gyðingdóm og öll trúarbrögð í raun. Kristindómur er engin undantekning því orð Jesú hrína á honum einnig þegar hann verður trénuð trúarbrögð á kostnað frelsis og trúartrausts, bænalífs. Jesús kenndi að „tilbiðja föðurinn í anda og  sannleika“ og setur bænalíf Davíðssálmanna sem fordæmi um það að mínu viti (Jh 4.23 og Mt 26.30). 

Niðurstaða mín um Davíðssálma er að þeir eins og við höfum þá eru kennslubók í því að biðja. Gunnlaugur A. Jónsson bendir á að það er ákveðið samhengi í framsetningu sálmanna frá Sálmi 1 sem byrjar með spekisálmi en endar á lofgjörð í síðasta Sálmi 150. Það er leið biðjandi manns frá því að þiggja leiðsögn Guðs og endar í tilbeiðslu Drottins og lofgjörð um hann. Á þeirri leið hefur hann lært að ákall Guð í neyð og erfiðleikum, fundið traust og öryggi hjá honum og að lokum lært að lifa með Guði í innilegu bænasamfélagi. Ég ætla að draga upp þá kennslufræði bænarinnar sem leynist í þessari samsetningu eða uppröðun Davíðssálma. Það er þetta sem ég kallaði í (innganginum) síðasta þætti bænahring eða spíral um þroskaferil biðjandi manns.

Davíðssálmar hafa farið í gegnum ferli í gegnum tíðina. Þeir eru sumir tileinkaðir spámönnum, sálmaskáldum eða söngmeisturum musterins. Sumir hafa verið tengdir við sögu Davíðs konungs. Salómon og Móses eru einnig nefndir til. Þeir voru svo notaðir og urðu sumir til í helgihaldinu í Musterinu eftir herleiðinguna til Babýlóníu. Það hefur verið nefnt „Sitz in Leben“ eða staða þeirra í lífinu „sem vísar til stöðu og hlutverks sálmanna í helgihaldi hins forna safnaðar“. Staða þeirra og hlutverk í helgihaldinu var svo notað til að flokka þá saman af einum helsta fræðimanni í sálmunum, Herman Gunkel. Svo enduðu þeir með einhverjum hætti í sálmasafninu. En með þessari samantekt og uppröðun á þeim hefur orðið til þessi dýrmæta bænabók sem hefur mótað innilegt bænalíf um aldaraðir.  

Bæn í hjarta kristins manns

Það sem við sjáum í Davíðssálmunum er inn í hjarta trúaðs manns. Það er svo sem ekki mikill munur á trúartilfinningunum þegar Guð er annars vegar. Það má sjá ótrúlega sterkar hliðstæður milli trúarbragðanna, eins og Heiler sýndi fram á. Þó verður meira ljós með komu Krists og leiðbeiningum hans um bæn. Enda lesa gyðingar og kristnir menn Davíðssálma með mismunandi gleraugum.

Árið 2017 var haldið upp á að 500 ár voru frá upphafi siðbótar. Vonandi uppgötvar kirkjan enn á ný einkenni sitt að vera „evangelísk“. Það er að fagnaðarerindið um Jesú Krist verði okkur leiðarljós, að við njótum náðar Guðs óverðskuldað fyrir hjálpræðisverk Jesú. Bæn kristins manns er að tileinka sér þá hugsun. Það er „að biðja í anda og sannleika“, að treysta því að við eigum himneskan föður, þrátt fyrir allt og allt. Frá upphafi siðbótar var það markmið að leggja fólki þessa iðju á hjarta með biblíuþýðingu og þar með þýðingu Davíðssálma og með nýjum sálmum sem söfnuðirnir sungu. Í (innganginum) fyrsta þætti sagði ég frá að þegar 1622 var fyrsta heildarþýðing á Davíðssálmum gerð með íslenskum ljóðaháttum eins og siðbótarkirkjan hafði gert í Evrópu með Genfar saltaranum svo kallaða til þess að hægt væri að syngja Davíðssálma. (Claude Goudimel hafði sett lög við textana. Þýðinguna á íslensku gerði Jón Þorsteinsson píslarvottur en hún var ekki prentuð fyrr en 1662).

Þetta var stefna siðbótarmannsins Lúthers sem var minni kenningasmiður og meiri bænarinnar maður þó öðru sé  gjarnan haldið fram. Hann elskaði það að biðja við glugga. Það er til  trérista sem sýna hann þannig á bæn. Tréristur mætti kalla ljósmyndir þess tíma því þær voru notaðar til prenta myndir. Hann skrifaði líka Einfaldar leiðbeiningar um bæn til Péturs bartskera síns. Minni fræði hans bera þess einnig merki. Þar er hann að kenna bæn og þau eru sprottinn upp af auðugu bænalífi hans. Hann vildi halda fram að kirkjan væri „evangelísk“ og kunni því frekar illa að lútherska kirkjan var kennd við hann. Honum var það alveg ljóst að það lítur út fyrir að vera þverstæða í því að við njótum náðar Guðs án nokkurra verka okkar samtímis þurfum við að tileinka okkur trúna í bæninni. Þar notar hann orðið að „tileinka“ sér eða eins og hann orðaði það á einfaldari hátt að segja við sjálfan sig að orð Guðs er „fyrir mig“. Það er eins og mótmælendakirkjurnar hafi gleymt því. Við lúthersku prestarnir drekkum okkar kaffi á meðan kaþólskir kollegar  okkar biðja tíðabænir dag og nótt liggur mér við að segja.

Lúther á bæn við glugga. Trérista sótti í bókina Frelsi kristnis manns

En það sem ég vil benda á er að bænalíf Davíðssálma og Jesú brýst fram í sálmaarfi kirkjunnar þegar söfnuðirnir fara að syngja bænirnar. Það var markmið siðbótarinnar að leggja orðin á varir almennings og á hjarta hvers og eins með tileinkun. Það er tvennt ólíkt að fara í kirkju til að gera sína bæn en að fara til að njóta fallegrar tónlistar og hlusta á listilega vel samdar prédikanir! Það er og á að vera bónus. Ef kirkjan er bænasamfélag þá á það líka að móta safnaðarlífið.

Davíðssálmar bænabók kristinna manna

Það er merkilegt að Davíðssálmar er þannig enn þann dag í dag bænabók kristinna manna. Sálmabækur okkar eru sprottnir úr bænaarfi Davíðssálma og bænalífs Jesú. Því er það nauðsynlegt að læra þessa iðju að biðja. Og leiðbeiningarnar liggja fyrir í sálmabókum kirkjunnar.

Tvö dæmi vil ég nefna um sálma sem eru vaxnir upp úr jarðvegi Davíðssálma. Auðvitað bera þeir sín sérkenni. Fyrir nokkru var ég að skoða myndlistasýningu Jóhannesar Kjarvals þar sem krassblöðin hans voru til sýnis. Þar útskýrði hann hvers  vegna hann málaði oft sama mótífið. Það eru ekki sömu myndirnar vegna þess að hver mynd hefur sinn eigin karakter þó að mótífið sé það sama. Eins getum við sagt um þessa sálma þó að þeir hafi sama trúarmótív og Davíðssálmarnir sem þeir byggja á hafa þeir sinn karakter.

Tvö dæmi vil ég nefna hér:

  1. Við höfum þegar skoðað fyrra dæmið: Lofsöng Matthíasar Jochumssonar, þjóðsönginn okkar. Þetta er meiri útlegging á texta Davíðssálmsins, stefin úr honum, en áherslan er í anda rómantísku stefnunnar, tilbeiðsla og eilífðarþrá.
  2. Hitt dæmið er úr Sálmabókinni 1886: Indælan, blíðan bústaðinn þinn er upphaflega eftir Grundtvig í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Lagið er eftir Weise frá 1836. Davíðssálmur 84 er lagður til grundvallar. Hér syngur Kór Möðruvallaklausturskirkju sálminn við undirleik Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, upptakan var gerð á námskeið í Glerárkirkju þar sem var spilað á gamalt fótstígið harmoníum en þau voru að koma til landsins á 19. öld.  Flutningurinn gefur okkur tilfinningu fyrir þessum nýja söng á 19. öld, rétt eins og við séum stödd í gamalli kirkju. Upptakan mætti vera betri. Grundvig og Helgi fylgja Davíðssálminum nákvæmlega án þess að vera á kostnað skáldskaparmálsins sem sýnir skáldagáfu þeirra.

Í þessum sálmum er íslenskur veruleiki 19. aldar sem gefur þeim eigin karakter en trúarstefið eða mótívið er úr Davíðssálmunum sem þessir sálmar byggja á.

Rómantíska stefnan hafði veruleg áhrif á sálmabókin 1886 og mótaði bókina. Það er áhugavert að skoða áhrif Davíðssálma á sálmabækur kristninnar. Sálmar kirkjunnar eiga það sammerkt með Davíðssálmum að þeir eru sungnir í helgihaldinu og notaðir heima við bænaiðkun.

Hlusta á sálminn:

Indælan, blíðan bústaðinn þinn – Davíðssálmur 84

Indælan, blíðan, blessaðan, fríðan
bústaðinn þinn,
Drottinn minn, þrái’ eg, þar kýs að fái’ eg
þrátt komið inn.
Lifandi Guð, í þíns helgidóms hús
hugurinn stefnir, til lofgjörðar fús.

(Alheimi kunnur algæsku brunnur
ertu, Guð, hreinn,
fuglum þú skýli fær, svo þeir hvíli
fullrótt hver einn.
Húsið þú opnar mér heilaga þitt,
hjartað svo friðarins njóti þar mitt.)

Hingað að snúa, hér inni’ að búa
hagsæld er mest,
tungunni’ er kæti, Guð ef hér gæti
göfgað sem best.
Sæll er sá maður, sem fögnuð þinn fær
fundið, þú Guðs barna lofsöngur skær.

(Þúsundir daga, holdið er haga
hyggur best sér,
geta líkst eigi Guðs einum degi,
glaðir þá vér
lyftum í hæðir með heilögum söng
hjörtum úr veraldar umsvifaþröng.)

Heimsdrottna’ að vitja heimboðs og sitja
háborð við mitt,
einskis það met ég mót því, ef get ég
musteri þitt
fengið að sækja. Þótt sæti’ eg þar neðst,
sit ég þér nærri, minn Drottinn, og gleðst.

Sl 84 – Grundtvig – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: