Hugvekja um íhugun og bæn

Kyrrðarstund við íhugun – Ræða í Saurbæjarkirkju að kvöldi dags, 16. sd. eftir þrenningar, 19. sept. 2021

TEXTAR:

Lexía: Job 5. 8-11, 17-18
Pistill: Fil 1.20-26 
Guðspjall: Jóh 11.32-45

„Það hugsar enginn annar þínar hugsanir í alheimi. Það biður enginn annar þína bæn til Guðs.“
Sálmar og bænalíf

Hugvekja um íhugun og bæn

Það er komið kvöld og við sitjum hér saman í þessari gömlu torfikirkju, Saurbæjarkirkju, sem hefur þjónað kynslóðunum sem komið hafa hingað til bæna. Ég ætla ekki að flytja neina ræðu í kvöld heldur langar mig til að leiða íhugun. Kirkjan býr yfir margreyndum fjársjóði íhugunar og bæna sem ætlun mín er að ljúka upp og sýna ykkur í von um að það verði til að auðga bænalíf ykkar. Til þess komum við í kirkju, ekki til að hlusta á vel samdar ræður né að hlusta á fallegan söng, heldur til að leita samfélags við Guð.

Í tíðargörð kirkjunnar er gjarnan lesið eða sungin Davíðssálmur 100 í upphafi til að setja okkur í réttar stellingar:

Öll veröldin fagni fyrir Drottni.
Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng.
Játið að Drottinn er Guð,
hann hefur skapað oss og hans erum vér,
lýður han og gæsluhjörð.

Slm 100.1-3

Hvaða bænastellingar er ég að tala um? Hvaða tilfinning er það? Jú, það er gleðin að mæta Guði. En það getur svo sem líka verið samviskubit og kannski er það algengara. Okkur líður stundum eins og styttunni “samviskubit” eftir Einar Jónsson, augun uppglent og höfuðið beint að óvarlegum orðum, athöfnum eða aðgerðarleysi okkar. En hvort sem er þá er það eina nauðsynlega að koma fram fyrir Guð í bæn og íhugun. Íhugun kristninnar er þarna. Það er ekki bara að kyrra hugann eða tæma heldur að vera frammi fyrir Guði eins og maður kemur fyrir, eins og maður er. Við eigum ekki aðeins að vera við sjálf, við komumst líklega ekki hjá því, heldur áræða að vera í ljósi Guðs. Það bæði til að finna fyrir því sem við höfum gert rangt en það er líka forsenda gleðinnar að þjóna Guði.

Við þurfum ekkert til þess að vera Guðs. Hann hefur skapað okkur og hans erum við. Þá gerum við eins og sálmaskáldið segir, játum að Drottinn er Guð. Þá er ágætt að nota íhugunaraðferðir til þess að vera til staðar, staldra við, hugsa inn á við. Það er enginn galdur. Öll öndum við á meðan við lifum og súrefnið leikur um líkama okkar. Við íhugun getum við beint athyglinni að önduninni, inn- og útöndun. Sálmur Valdimars Bríms var kannski ekki hugsaður sem leiðbeining í íhugun en merkilegt þó að hann segir við Guð sinn: “Sá andans andardráttur sé óslítandi þáttur á milli mín og þín”. Biskupinn og listamaður Martin Lönnebo útbjó litríkt bænaband til að leiða íhugun sem ég ætla ekki að fara í að þessu sinni en er íhugun um lífið frá fæðingu og skírn, til dauða og upprisu. Það gerum við gjarna í íhugun að sjá líf okkar í heild og í samhengi trúarinnar. En hann leiðbeinir með öndunina með þessari fjallegu bæn:

Bænaband – Lönnebo. Sjá Kirkjuhúsið

Faðir, ég anda frá mér þreytu minni,
ég anda að mér krafti þínum.
Ég anda frá mér einsemd minn,
ég anda að mér návist þinni.
Heilagur andi, ég anda frá mér óró minni,
ég anda að mér friði þínum.

Martin Lönnebo, úr Bænabókin tekin saman af Karli Sigurbjörnssyni, bls. 363

(Prófum þetta smá stund við út- og innöndun)

En til hvers að anda svona í íhugun? Það er ekki hægt að tæma hugann held ég. Meir að segja í svefni þegar við erum eins og meðvitundarlaus er hugurinn að starfa og vinna úr reynslu vökustundanna. Það er til að stilla hugann. Vatn í stormi gruggast en í kyrrðinni verður það tært, eins er það með hugann. Stundum þegar ég get ekki sofið fyrir áhyggjum eða umhugsun síðla nætur eða mjög snemma morguns nota ég þessa aðferð með ágætum árangri og sofna aftur og nýt draumanna, oftast nær.

Kyrrðarbænin sem sumir hafa líklega heyrt um er önnur leið til að stilla hugann. Huganum er líkt við fljót sem rennur hjá með alls konar þönkum og áhyggjum og verkefnum, en við látum það allt bara líða hjá. Þá er hvatt til að velja sér eitthvað einfallt orð: kærleikur, umhyggja, náð, friður. Þegar eitthvað leitar á hugann er blíðlega snúið sér að orðinu sem valið hefur verið, dvalið við það og annað látið líða hjá. Mér finnst þetta vera að sleppa krampakenndu taki okkar á tilverunni og það látið duga að vera, vera til staðar. Þá uppgötvum við líka að Guð er þar, skapari okkar og lausnari, eins og við gerum í bæn Lönnebo: “Heilagur andi, ég anda að mér friði þínum”.  

Taizé söngvarnir (sem við höfum verið að syngja í kvöldkyrrðinni) hafa þetta sama markmið að kyrra hugann til að geta hlustað á Guð. Og hvar tala Guð? Hann talar í orði sínu en líka í huga og hjarta okkar. Orðið fær enduróm í okkur. Það voru nokkrir menn sem tóku sig saman í Frakklandi og stofnuðu þessa reglu, þar sem einfaldur söngur og regluleg bænagjörð var iðkuð. Það er það sem var gert í klaustrunum. Fólk vildi leita Guðs í alvöru og það er sjálfgefið að hjá þeim er Guð sem leita hans eins og orðið kennir. Svo það þarf ekki meira til þess að biðja en þessa hugsun: ég er til vegna þess að Guð hefur skapað mig. Ég á hvert hjartaslag undir Guði, Guð gefur mér hvert andartak. Öll kristin íhugun hefur það markmið, leiðirnar eða aðferðirnar eru margar, en markmiðið er að eiga samfélag við Guð. 

Skiptir það eihverju máli fyrir okkur? Ágústínus kirkjufaðir skrifaði játningar sem er eiginlega bænir hans til Guðs og íhugun um eigið líf. Í upphafi bókarinnar fullyrðir hann að sál hans sé óró uns hún hvílir í Guði. Ég er með þætti á útvarpsstöðinni Lindinni um Davíðssálma þetta haustið (kl. 9 á miðvikudagsmorgnum endurtekið á sunnudögum kl. 10 og mánudögum kl. 14, svo birti ég erindin hér á bloggsíðu minni). Það er til málverk þar sem Davíð konungur, spámaðurinn og sálmaskáldið er túlkaður á bæn. Hann er málaður krjúpandi sem öldungur. Á himni birtist honum engill með hauskúpu, tákn dauðans. Þessi mynd túlkar biðjandi mann, það er í bæn til Guðs að við áræðum að horfast í augu við tilveruna eins og hún er, áræðum að vera sönn og æðrulaus, horfast í augu við skuggahliðarnar í okkur og að við erum dauðleg. Það er okkar dýpsti ótti en öryggið er í Guði að við erum hans um eilífð (eins og við lesum um í textum dagsins sem ég las fyrir okkur). 

Davíð konungur á bæn eftir Pieter de Grebber (f. ca 1600, d. 1652/53) af Web Gallery og Art

Ég hef stundum sagt það svo að við gætum skipt út orðinu Guð fyrir traust og öryggi. Hugsaðu aðeins um það! Guð skapar og gefur öryggi þegar við losum aðeins um bindingu okkar við veröldina og leitum Guðs. Íhugun er leið til þess en bæn er að stíga skrefi lengra. Það er að ávarpa Guð gjafara lífsins. Sumum finnst það kannski dálítið frekt að ég þessi smáa mannvera skuli vera að trufla almáttugan skapara stjarnanna og himingeimsins með mínar áhyggjur og raunir. Sigurbjörn Einarsson biskup leiddi kyrrðardaga í Skálholti sem ég naut að taka þátt í. Íhuganir hans frá kyrrðardögum hafa verið gefnar út á diski. Þar talaði hann m.a. um að hann hafi heilsað kvöldstjörnuna sem blasti við honum þar sem hann bjó en hann hafi svo sem ekki reiknað með að hún tæki undir kveðju hans. En þegar hann ávarpaði Guð þá áttaði hann sig á að tilveran var ekki bara kaldur raunveruleiki heldur stæði hugur á bak sem bar umhyggju fyrir honum. Í grunni tilveru okkar er hugur, skapari, sem elskar börnin sín. Þess vegna ávörpum við Guð föður á himnum í Faðir vorinu. Það er umhugsunarvert að það var Sigurbjörn sem þýddi játningar Ágústínusar á íslensku. Honum hefur þótt ástæða til.

Við megum ekki týna niður þessum arfi kynslóðanna sem er að finna í bænaiðkun kynslóðanna í gömlu kirkjunum í sveitum landsins. Leggjum því frekar rækt við íhugun og bæn.

Dýrð sé Guði.

Hér á eftir bænasöng ætlum við að taka okkur stund í stað almennu kirkjubænarinnar og eiga hvert fyrir sig íhugunarstund með þessum hætti. Það er talað um að taka sér 20 mínútur á dag en við skulum láta 5 mínútur duga. Það sem gerist við íhugun og bæn er að við tengjums Guð, sjálfum okkur á miklu dýpri hátt en í önnum hversdagsins og förum að sjá samferðafólk okkar með nýjum hætti með samúð og umhyggju.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: