Sálmar og bænalíf.

Davíðssálmar, bænabók Jesú og söngur kirkjunnar – 1. þáttur

Hér birti ég erindi sem flutt hafa verið og verða á úrvarpsstöðinni Lindinni nú í haust um Sálma og bænalíf. Það er hægt að hlusta á þau þar á miðvikudögum kl. 9, sunnudögum kl. 10 og mánudögum kl. 14. En einnig er hægt að hlusta á þau hér á vefnum með því að kveikja á hlóðskránum.

Lærisveinarnir sögðu eitt sinn við Jesú: „Kenndu okkur að biðja?“ Bænabók Jesú voru Davíðssálmarnir. Þar lesum við um alls konar bænir og allar þær tilfinningar sem bærast innra með þeim sem biðja. Þær höfum við líka í sálmum kirkjunnar. Sálmar og bænalíf hjálpa fylgjendum Drottins að rækta samband sitt við Jesú, kirkjuna og tilveruna. Með þessum erindum vil ég leiða þig hlustandi minn inn í heim bænarinnar eins og Jesús bað og kenndi lærisveinum sínum að biðja.

Inngangur

Davíðssálmar hafa verið sungnir á Íslandi í bænaiðkun kirkjunnar í gegnum tíðina. Margir sálmar og andlegar vísur eru ortar út frá þeim. Gleðin í Guði og lofgjörð er grunntilfinning bænalífs kristinna manna. Flutt nokkur dæmi um það úr ýmsum áttum: Regnart, Bach, Gregor söngur, Magrét Scheving og Þorvaldur Halldórsson.

Davið með tónlistarfólki sínu og prestum við helgihald
Sálmar og bænalíf. Inngangur – hljóðskrá

Þrír Íslendingar hafa tekið sér fyrir hendur að snúa Davíðssálmum í heild sinni yfir á íslenskt skáldskaparmál. 

Áður höfðu einstaka Davíðssálmar verið þýddir við þekkt sálmalög. Það var stefna siðbótarmannanna ekki aðeins að þýða Biblíuna á móðurmál svo allir gætu lesið sér til gagns heldur líka að láta semja Biblíuljóð og fyrst og fremst að „þýða“ Davíðssálma við söngvæna bragarhætti svo að almenningur gæti tileinkað sér trúna „líka í söng“. Bæði í sálmakveri Marteins Einarssonar frá 1555 eru slíkir sálmar og í fyrstu sálmabók á íslensku sem Guðbrandur Þorláksson biskup gaf út 1589 er þriðji hluti bókarinnar úrval af sálmum „þess konunglega spámanns Davíðs útlagða og snúna í andlega söngva og vísur“, eins og hann skrifaði í formála sálmabókarinnar.[1] Það var sem sagt eitt fyrsta verk siðbótarmannanna að gera Davíðssálma söngvæna.[2]

Jón Þorsteinsson (1570-1627), píslarvottur, gerði fyrstu heildarþýðingu Davíðssálma með þessum hætti. Hann var nefndur píslarvottur vegna þess að hann féll fyrir hendi mannræningja í Tyrkjaráninu í Vestmannaeyjum 1627. Hann hafði sett þýðingar sína á Davíðssálmum við þekkt sálmalög meðal Íslendinga en fyrirmyndin var svon nefndur Genfar saltarinn sem var gerð að frumkvæði siðbótarmannsins John Calvin. Nokkra sálma tók Jón þó úr sálmabók Guðbrands. Davíðssálmar voru líka nefndir saltari. Þannig var gríska heitið í nokkrum útgáfum Biblíunnar. Oddur Oddsson (1564-1649) hafði þýtt Genfar saltarann við lög hans sem Íslendingum þótti nýstárleg og náðu lítilli útbreiðslu og var þýðing hans aldrei gefin út á bók. Það var mikið verk að þýða Davíðssálma með þessum hætti vegna þess að þeir eru 150 að tölu og lengsta bók Biblíunnar.[3]

Í nýrri sálmabók þjóðkirkjunnar sem er verið að vinna að er Lofsöngur Matthíasar Jochumssonar fyrsti sálmur, þjóðsöngurinn. En hann er saminn út frá 90. Davíðssálmi. Í fyrri sálmabók hefur lengi fyrsti sálmurinn verið þýðing á Davíðssálmi 148 eftir Jón Þorsteinsson en Matthías endurorti sálminn í sálmabókin 1886 við sama bragarhátt og Jón hafði notað. Sálmurinn byrjar svona: „Sé Drottni lof og dýrð“.[4]

Orðið sálmur er íslensk mynd af gríska orðinu „psalmos“ sem er svo þýðing á hebreska orðinu „mizmor“ það merkir lofsöngur. En Davíðssálmar voru upphaflega samdir á hebresku eins og Gamla testamentið.

Í þessum (bók) erindum ætla ég ekki að fara yfir alla Davíðsálma né heldur að fara yfir alla sálmafræðina heldur að taka dæmi um samband Guðs og manna úr Davíðssálmum og sálmum kirkjunnar og andlegum vísum. Með því vonast ég til að auðga og dýpka bænalíf okkar, enda mikill sjóður að sækja í og eilíf uppsprettulind.

Áður en lengra er haldið skulum við heyra þessa þýðingu á Davíðssálmi 148 sungna. Davíðssálmar byrja með spekiljóði, svo koma angurljóð, bæna- og þakkarsálmar en enda svo í lofsöng og gleðidansi, svona í mjög grófum dráttum. Gleði þeirra er meiri en við getum ímyndað okkur held ég. Þar er Davíðssálmur 148 ágætt dæmi um. Í sálmabókum kristinna manna er röðin oft önnur. Byrjað með lofsöngvum o.s.frv. eins og við höfum séð en við komum að því síðar, spurningunni hvers vegna að byrja eða enda á lofsöng. Þessi endurorta útgáfa af sálminum eftir Matthías Jochumsson birtist í sálmabókinni 1886 en þýðing Jóns kom út á bók 1662 svo þessi Davíðssálmur hefur verið sunginn á íslensku skáldskaparmáli um langt skeið. (Hlusta á sálminn, sunginn af Scola Cantorum)

Sé Drottni lof og dýrð,
hans dásemd öllum skýrð,
hann lofi englar allir
og æðstu ljóssins hallir,
hann lofi hnatta hjólin
og heiðri tungl og sólin.

Hann lofi líf og hel
og loftsins bjarta hvel,
hann lofi lögmál tíða,
sem ljúft hans boði hlýða
og sýna veldis vottinn,
ó, veröld, lofa Drottin.

Með öllum heimsins her
þig, Herra, lofum vér
af innsta ástar grunni
með öndu, raust og munni.
Vort hjarta bljúgt sig hneigir
og hallelúja segir.[5]

Jón Þorsteinsson endurort af Matthíasi Jochumssyni Sb þjóðkirkjunnar 1981 nr. 1.

Genfar saltarinn sem ég nefndi hér á undan var fyrsta heildarþýðing Davíðssálma eftir siðbót. Sálmarnir voru samdir við lagboða og bragfræði Vesturland á frönsku, svo var hann þýddur á hollensku, þýsku og ensku o.s.frv. Frægt franskt endurreisnar tónskáld útsetti lögin sem sálmarnir voru samdir við, Claude Goudimel (f. d.) Einnig voru notuð þekkt sálmalög í hverju landi svo fólk gæti tekið undir sönginn eins og Jón píslarvottur kaus að gera. En helgihaldið í musterinu í Jerúsalem var kannski örlítið gleðilegra en þetta lag sem við heyrðum ber með sér þó að reynt sé að gefa í kraftinn undir síðasta versinu í þessum flutningi hjá Scola Cantorum.[6]

Í  sálmi 150 er þessi hvatning til lofsöngs og í þeim hápunkti enda Davíðssálmar þar sem þetta síðasti sálmurinn. Sjáið þetta fyrir ykkur: 

Lofið hann með lúðuhljómi,
lofið hann með hörpu og gígju.
Lofið hann með bumbum og gleðidansi, 
lofið hann með flautum og strengjaleik.[7]

Slm 150

Þetta hefur verið skemmtilegt og gleðilegt helgihald og trúarsamkomur. En meira um það síðar. 

Þriðja íslenska sálmaskáldið sem þýddi Davíðsálma yfir á íslenskt ljóðamál var Valdimar Briem (1848-1930), fyrsti vígslubiskup á Íslandi. Hann var eitt mikilvirkasta sálmaskáld Íslendinga. Hann gaf út Biblíuljóð í tveimur bindum og Davíðs sálma í íslenskum sálmabúningi 1898.[8] Allir sálmarnir í bókinni eru með lagboða og ætlaðir til söngs. Það er eðli sálma að syngja þá og helst með undirleik. Hebreska orðið yfir lofsöng merkir eiginlega með strengjaleik. Þannig voru Davíðssálmar sungnir og hafa meira að segja sumir þeirra lagboða, eins og „Liljur“ (Slm. 45) en því miður lagið er núna óþekkt. Bæði Valdimar og Jón píslarvottur vor með kveðskap sínum að leggja söfnuðunum sínum bænaorð Davíðssálma á hjarta vegna þess sem þeir hafa að geyma.

Bænalíf

Davíðssálmar voru fyrsta bænabók kristinna manna. Söngur þeirra er reyndar ekki aðalatriði heldur andi þeirra. Ófáir hafa þýtt sálmana með þessum hætti og víða eru Davíðssálmar sungnir í söfnuðum sem ég ætla að segja frá síðar. Ég tel ástæðuna fyrir því vera bænalífið sem við komumst í snertingu við með lestri þeirra og meira en það þegar við biðjum þá opnast heimur bænarinnar fyrir okkur, hvort sem það er með hebresku eða íslensku ljóðamáli. Þessi dæmi sem ég hef nefnt sanna fyrir okkur áhrif Davíðssálma á okkar menningu en þau eru miklu víðtækari.[9]

Þekktasti sálmurinn er vafalaust Davíðssálmur 23 sem allir þekkja svo ég ýki aðeins. Rannsókn hefur leitt í ljós að hann er mest notaði sálmur í helgihaldi þjóðkirkjunnar.[10] Lag Margrétar Scheving túlkar vel sálminn eins og hann kemur fyrir í biblíuþýðingu okkar. Þorvaldur Halldórsson, söngvari og eiginmaður Margrétar hefur sungið sálminn inn á plötu. Margrét hefur sagt frá því að sálmurinn varð henni orð frá Guði þegar hún glímdi við depurð og létti henni mjög.[11] Lagið túlkar vel traustið og öryggið. Sálmurinn er flokkaður sem athvarfssálmur þar sem trúnaðartraustið er tjáð: „Drottinn er minn hirðir – þú ert hjá mér“. (Hlusta á Slm 23 af disknum Drottinn er minn hirði með Þorvaldi Halldórssyni)

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum,
þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,
óttast ég ekkert illt,
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyr höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Já, gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína,
og í húsi Drottins bý ég langa ævi.[12]

Slm 23

Bænin, innilegt sambandið við Guð

Valdimar Briem á bænasálm í Sálmabók þjóðkirkjunnar. Hann orðar mun betur en mér er fært það sem ég vil koma á framfæri með þessum skrifum / erindum, þ.e. innileiki sambandsins við Guð. Hann biður til Guðs:

Sá andans andardráttur
sé óslítandi þáttur
á milli mín og þín.
Þá barnslegt hjarta biður,
þín blessun streymir niður. 
Ég fer til þín, kom þú til mín.[13]

Sb 338

Bænin er viðfangsefni okkar, almennt í mannlegu samfélagi, en fyrst og fremst eins og Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja. Það er ljóst af orðum hans að Davíðssálmar var bænabók hans sem María móðir hans hefur kennt honum. Magnificat eða lofsöngur Maríu í Lúkasarguðspjalli er í anda Davíðssálma (Lk. 1.46-55)[14], sem María fór með þegar hún fékk boð um að hún mætti fæða frelsara heimsins. Johann Sebastian Bach túlkar orð hennar nokkuð í anda Davíðssálma í Magnificat sem nefnist svo eftir upphafsorðið í ljóði hennar á latínu, “miklar önd mín Drottinn”. Hlustum á þau, bæði formi og innihaldi lofsöngs Maríu er í þessari bænahefð Davíðssálma (Hlusta á forspilið – upptaka):

Önd mín miklar Drottinn
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið 
til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.[15]

Lk 1

Þá tók Jesú bænaorð sín á krossinum af Davíðs munni: “Í þínar hendur fel ég anda minn” (Slm. 31) og “Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig” (Slm. 22). Það gerir okkur ljóst að guðspjallamennirnir skrifuðu frásögur sínar af Jesú með Davíðssálma í huga þó að önnur rit Gamla testamentisins komu einnig til greina voru Davíðssálmar og Jesaja spámaður þau rit sem þeir byggðu mest á. Davíðssálmar voru hluti af þeim flokki bóka sem voru kallaðar Ritningarnar og Jesús notaði til að útskýra fyrir lærisveinum sínum krossfestingu sína og upprisu (Lk. Emmausfararnir). Það sem einkennir kristna bæn, eins og Jesús kenndi, er innileiki sambandsins við Guð. Faðir vor, bæn Drottins, er nærtækasta dæmið og ávarp hans til Föður síns í bænabaráttu sinni í Getsemane: „Abba, faðir“ sem er innilegt ávarp barns til foreldri, samsvarar okkar „pabbi“. Bænasálmur Valdimars orðar vel þennan innileika – „barnslegt hjarta biður,“ skrifar hann.

Það útskýrir mikilvægi þessara 150 sálma fyrir kristna kirkju og söfnuði, sem mynda safnið sem kennt er við Davíð konung. Kristnir menn lesa þá út frá sögu Jesú og skilja þá þannig. Davíðssálmur 23, „Drottinn er minn hirðir“, sem við heyrðum áðan, verður mér játning og athvarf hjá Drottni Jesú, góða hirðinum. En jafnframt ætla ég að draga fram þýðingu þeirra í sínu upphaflega samhengi eins vel og mér er auðið.  Hvoru-tveggja lýkur upp fyrir okkur þeim bænaanda sem sálmarnir hafa að geyma. 

Ég hef komið auga á sérstakan bænahring eða spíral um þroskaferil trúarinnar. Vandi okkar varðandi þroska er að við höfum sjúklega tilhneiginu að bera okkur saman hvort við annað, er einhver komin lengra en maður sjálfur. Ef það gerist þá erum við að villast. Aftur á móti ef við skiljum þroska sem bætt samband okkar við Guð þá er andinn að leiða okkur. Samband við Guð tel ég þroskast með þessum hætti sem ég ætla að útskýra í erindum. Við þurfum hvert fyrir sig að skoða okkar eigið lifandi samband við góðan Guð. Ég útskýri það betur seinna. Tilfinningar bænalífsins eru fjölbreyttar eins og í mannlegum samskiptum. Þær birtast í sálmum á sérstakan hátt og hvað augljósast. Með því að skoða þær hjá sjálfum sér, eins og utan frá, hjálpar það okkur að vaxa í trausti til Guðs og öðlast dýpra bænalíf. Það að eiga Guð eða setja traust sitt á Guð felur í sér að maður öðlast sýn á sjálfum sér út frá sjónarmiði Guðs. Það að biðja til Guðs verður eins og Valdimar Briem segir við Drottin: „óslítandi þáttur milli mín og þín“ – „Ég kem til þín, kom þú til mín“.[16] Úrvalið af sálmum sem ég hef valið gegnir því hlutverki að varpa ljósi á þessar ólíku og margslungnu tilfinningar en þeir sem vilja geta haldið áfram  að rannsakað sálmana og verður það þeim ómæld hjálp í bænaiðkun, hef ég trú á. 

Í kaþólsku kirkjunni eru tíðarbænir á ákveðnum tíma dagsins og mótmælendur, sértaklega anglikanar og lútheranar hafa haldið í morgun og kvöldsöng í þessari bænaiðkun. Þar eru Davíðssálmar uppistaðan. Þeir eru beðnir og oft sungnir. Hér er eitt dæmi um slíkan söng, gregor söng, svo kölluðum. Söngurinn er vel til þess fallinn að íhuga enda sungið á víxl af tveimur hópum svo annar getur hlustað meðan hinn syngur og hugsað um orðin. Sálmur 95 er oft sunginn í tíðargjörðinn sem reglulegur liður. (Hlusta á sálmur 95 á Spotyfier eða Sálmur 95  á iTune):

Komið, fögnum fyrir Drottni,
látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
Komum með lofsöng fyrir augliti hans,
syngjum gleðiljóð fyrir honum.
Því að Drottinn er mikill Guð
og mikill konungur yfir öllum guðum.[17]

Slm 95

Tilfinningar bænalífsins

Hugleiðum aðeins samband okkar við Guð. Byggist það á orðum? Svarið er bæði já og nei. Sálmarnir bera vitni um lifandi og tilfinningaríkt samband við Guð. Davíðssálmar voru ætlaðir til söngs og bænalíf kirkjunnar einkennist af sálmasöng. Það felur í sér formfast mál með ákveðnum hrynjanda, fellt að mismunandi bragreglum. Davíðssálmar eru þannig kveðskapur með hugsanarími og hrynjandi sem næst ekki alveg með þýðingu. Tilraunir að fella þá að annarri bragfræði má segja að séu til þess að nálgast upprunalegt eðli Davíðssálma. En við skoðum það síðar. Hér vil ég vekja athygli þína á því að sálmar í öllum sínum fjölbreytileika, persónulegir og safnaðarsálmar, gengdu lykilhlutverki í helgihaldi frá upphafi og voru margir hverjir samdir fyrir helgihald. Engu að síður loga í þeim brennandi trúartilfinningar sem eiga uppruna sinn í persónulegu og innilegu sambandi við Guð í bænalífi. 

Þannig verðum við að skoða þessa texta sem hafa það að markmiði að auðga bænalíf okkar eða gefa okkur hlutdeild með sálmaskáldi af reynslu þess af Guði. En þeir koma aldrei í staðin fyrir eigið bænalíf. Bænin er því það al persónulegasta sem þú getur fengist við. Það biður aldrei neinn annar þína bæn til Guðs. Jesús orðaði það svo að við ættum að ganga inn í herbergi okkar og biðja til Guðs föður sem sér í leynum. 

Það er ágæt tilraun að stíga skrefi lengra svo að segja. Þannig getur viðfangsefni okkar orðið alveg ljóst. Bænamaður nokkur talaði um „orðalausa bæn“ og fyrirbæn. Þú þarft ekki að nefna þann á nafn sem þú biður fyrir. Kannski sérðu einhvern út á götu, sem þú ert minntur á að biðja fyrir. Guð þekkir nafn viðkomandi. Eins kenndi Jesús að Guð faðir heyrir ekki bænir okkar eftir orðafjölda eða mælsku okkar heldur vegna þess að hann elskar börnin sín.[18]

Það er gott að ganga út frá þessari hugsun í umfjöllun okkar um bænalíf. Sambandið við Guð ER einfaldlega vegna þess að Guð er Guð okkar, skapari og lausnari og sá sem helgar okkur. Við þurfum að vakna upp til vitundar um það og vera vakandi fyrir því í bænalífi okkar. Fyrr er það engin bæn aðeins þrá eftir lausn.

Um leið og við áköllum Guð er Guð þar og var þar hjá okkur áður en við báðum. Ég vona að þú náir þessu vegna þess að það er forsenda fyrir tilfinningasambandi við Guð. Ég gæti sagt ástarsambandi en það er kannski of mikið að svo stöddu.

Söngur kirkjunnar sprettur upp af þessari lind bænarinnar þegar vel er. Kristilegt bænalíf er þetta innilega samband þitt og mitt við Guð, algjörlega einstætt í alheimi. Það segir mikið um Guð, að hann geti verið í slíku sambandi við alla menn, hvern og einn, þannig kenndi Jesús okkur að þekkja Guð. Og út frá því ætla ég að fjalla um sálma og bænalíf. Sérstaklega Davíðssálma, sem var bænabók Jesú og söng kirkjunnar í gegnum aldirnar bæði nýrri og eldri sálma. 

Einn gleðilegasti Davíðssálmurinn sem mikið er lesinn við tíðarbænir er nr. 100. Þar er hvatningin: „Öll veröldin fagni fyrir Drottni“. Trúin snýst um gleði, eins og ég hef verið að benda á með dæmum, höfum það í huga. Þorvaldur Halldórsson söng þennan sálm við lag sem er aðeins öðru vísi en gregor söngur klaustranna en túlkar þó gleðina og kannski meira eins og Davíðssálmarnir voru sungnir, ímynda ég mér. Við skulum enda innganginn með þessum sálmi. Davíðssálmur 100 við lag Þorvalds Halldórssonar af plötunni Drottinn er minn hirðir:

Öll veröldin fagni fyrir Drottni.

Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng.

Játið að Drottinn er Guð,
hann hefur skapað oss og hans erum vér,
lýður hans og gæsluhjörð.

Gangið inn um hlið hans með þakkargjörð,
í forgarða hans með lofsöng.
Lofið hann, tignið nafn hans,

því að Drottinn er góður,
miskunn hans varir að eilífu
og trúfesti hans frá kyni til kyns.

Slm 100

Eftirmáls greinar:


[1] Gunnlaugur A. Jónsson. Áhrifasaga sálmanna. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. 2014. Bls. 82-83. 

[2] Loftur Guttormsson. Kristni á Íslandi III. Frá siðaskiptum til upplýsingar. Reykjavík: Alþingi. 2000. Bls. 68, 184-185. Sjá bækur.is. Bls. xcii. Gunnlaugur A. Jónsson. 2014. Bls. 82-83. Einar Sigurbjörnsson. “Davíðssálmar í Sálmabók Guðbrands”, í Studia theologica islandica 36. Reykjavík: Skálholtsútgáfan. 2013. Bls. 31-54.

[3] Gunnlaugur A. Jónsson. Áhrifasaga sálmanna. Sjá einnig Blik 1965. Jón lauk við Davíðssálma 1622. Hann á flestar þýðingarnar sjálfur en tók nokkrar frá öðrum. Sálmarnir voru gefnir út á Hólum 1662 og 1746. John Calvin siðbótarmaður vildi fá söngvæna útgáfu af Davíðssálmum sem kom út sem Genevan Psalter sem Húgenottarnir sungu og syngja víða enn. Claude Goudimel útsetti lög sem þeir voru settir við ásamt fleirum. Þýska þýðingu gerði Ambrosius Lobwasser (1515-1585) sem íslensku þýðingarnar styðjast við.

[4] Einar Sigurbjörnsson. 2013. Bls. 37.

[5] (Sb. 1981, sálmur nr. 1. Slm 148. – Sb. 1671 – Jón Þorsteinsson. Matthías Jochumsson. YouTube Scola Cantorum: https://www.youtube.com/watch?v=MmaFlrgIBdA )

[6] Gunnlaugur A. Jónsson. Áhrifasaga saltarans.

[7] Slm 150.3-4

[8] Valdimar Briem. Davíðs sálmar í íslenzkum sálmabúningi. Reykjavík: Fjelagsprentsmiðjan. 1898. 

[9] Gunnlaugs A. Jónssonar nefnir bók sína um sálmana Áhrifasaga Davíðssálma og sýnir fram á víðtæk áhrif þeirra á menningu Vesturland í skáldskap, myndlist og kvikmyndum.

[10] Jón Ómar Gunnarsson. Masterritgerð. 2017. (Master of Theology: Pastoral theology and ministry) við Luther Seminary, St. Paul, MN, BNA. Könnun: Predikun Gamla testamentisins í Þjóðkirkjunni.

[11] Samkvæmt frásögn.

[12] Sb. 2013, nr. 825. (Slm 23 af disknum Drottinn er minn hirði með Þorvaldi Halldórssyni)

[13] (Sálmabók 1997 nr. 338)

[14] Sigurbjörn Einarsson. Konur og Kristur. Um móður í Nasaret og aðrar. Reykjavík: Setberg. 1998. Bls. 7-12. Þar bendir hann á þetta samband Jesú og Maríu móður hans varðandi Davíðssálma. 

[15] (Lk. 46-48).

[16] Sjá bls. 7.

[17] Slm. 95.1-2

[18] Lewis, C. S. Letters to Malcom chiefly on Prayer. New York: Harper Collins. Bls. 11-12 .

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: