Ofbeldi eða frelsi – Ræða í Akureyrarkirkju 12. sd. eftir trin., 22. ágúst 2021

TEXTAR:

Lexía: Slm 86.9-13, 15
Pistill: Post 9.1-20
Guðspjall: Mrk 8.22-27

„Þegar Kristur kallar mann til fylgdar við sig 
kallar hann mann til að deyja“ D. Bonhoeffer

Það er ótrúlega mikið af ofbeldi í veröldinni. Ekki þarf mikinn lestur í blöðum eða hlustun á fréttir að sú alvarlega staðreynd renni upp fyrir manni. Stundum eru þær svo yfirþyrmandi að ég slekk á fréttunum og kveiki á einhverri ljúfri tónlist í staðinn. Það er ofbeldi framið í stríðshrjáðum löndum, einræðisherrar eru með þjóðir sínar í böndum, heimilisofbeldi er hjá okkur. Svo er líka sagt frá ofbeldi í Biblíunni.

Sögu Páls postula eða Sáls eins og hann hét áður heyrðum við í pistli dagsins. Hún er sláandi dæmi um mann sem var svo sannfærður um ágæti trúar sinnar að hann var tilbúinn að ofsækja fólk af annarri trú. Það var reyndar svo að kristni var eiginlega hópur innan gyðingdómsins í þá daga en það getur verið verra varðandi andstæðurnar. Kristnir menn eru því miður ekki undanskildir ofsóknum af þessu tagi gegn trúbræðrum og systrum. Það er ýmis dæmi um það úr kirkjusögunni. Nú blasa við ógn Talibana í Afganistan. Ef þeir myndu ná yfirhöndinni á Íslandi yrði ég líklega í stórkostlegri lífshættu. Fyrirgefið mér en ég óttast að það sé raunhæft mat. Harðlínumenn eru hættulegir öðrum eins og Páll áður fyrr og Talibanar og einræðisherra sem gera allt til að halda völdum. 

En eru það bara þeir sem hafa völd sem kúga aðra eða reyna ná tökum á öðrum? Auðvitað eru mörk á ofbeldi og valdbeitingu. Í mannlegum samskiptum erum við oft að koma okkur áfram, brennandi hugsjónum eða visku okkar, sem við vitum að er til góðs eða teljum svo vera. Einu sinni varð ég við annan mann að ganga á milli drengja í sumarbúðum sem ætluðu að kála hvor öðrum. Það var ekki um annað að ræða en að halda þeim niðri uns reiðin var runnin af þeim. Í uppeldi barna sinna hefur maður þurft að ganga yfir mörk svo að maður skammast sín eftir á en afsakar það með því að ekki var annað hægt. Þannig getur kærleikurinn farið fram með valdi. En þar erum við komin inn á mjög viðkvæmt svið. Í samskiptum hjóna kemur stundum eða oft upp togstreita hver á að ráð, meira að segja var myndasería fyrir mörgum árum sem bar það heiti. Svo að þetta er almennur vandi með valdið frá samskiptum í fjölskyldum og upp í stórveldi, varðandi trúarbrögð, vísindi og pólitík, mannfélagið eins og það leggur sig.

1. Guð og valdið

Caravaggio, ítalski endurreisnarmálarinn, gerði tvær myndir af afturhvarfi Páls postula. Hann hafði verið beðinn um að skreyta fræga kapellu í Róm þar sem áhersla var lögð á köllun og fórn.

Fyrri myndin var stórkostleg þar sem Kristur birtist í skýjum og Páll fellur af baki af miklum hesti og herfylkingin stöðvaðist sem var með honum í för að ofsækja kristna menn. Guð birtist þar með miklu valdi svo Páll fellur af baki og blindast af guðlegri birtu. Caravaggio leikur sér þar að birtu og skugga, eins og honum var lagið.

Afturhvarf heilags Páls
c. 1600
Olía á við, 237 x 189 cm
Odescalchi Balbi Collection, Róm (Web Gallery of art)

En seinni myndin sem endaði í kapellunni er meira inn á við. Þar liggur blindaður maður á bakinu nánast undir hestinum og ef maður þekkti ekki söguna gæti maður haldið að verið væri að lýsa slysi á hesti. Auk Páls er eldri maður sem grípur í tauminn á hestinum og má vera vísun í Ananías sem leiddi svo Pál til trúar. Myndin tjáir þannig innri trúarbaráttu Páls. Vald Guðs er kannski betur tjáð með seinni myndinni, að kljást við Guð er innri barátta hvers manns.

Afturhvafið á leið til Damaskus
1600-01
Olía á striga, 230 x 175 cm
Cerasi Chapel, Santa Maria del Popolo, Róm (Web Gallery of art)

Enda verður valdaspurningin skopleg þegar við erum að fást við Guð sjálfan, Guð skapara himins og jarðar, sem hefur allt vald. Í Davíðssálmum er dreginn upp mynd af Guði hlægjandi af konungum jarðarinnar þegar þeir safna liði gegn honum (Slm. 2.1-4). Við menn stöndumst engan samjöfnuð við Guð. En við óttumst að Guð fari fram með valdi eins og okkar herrar og drottnarar. Við búum jafnvel til myndir af honum sem einræðisherra einræðisherranna. Það er ein af ranghugmyndum okkar um Guð.

En hvernig er Guð þá sem birtist Páli á veginum til Damaskus? Guð spyr Sál með nafni: „Hvers vegna ofsækir þú mig?“ Svo Guð tekur stöðu með þeim ofsóttu og kúguðu. Hvað segir það okkur? Jú, ef við beitum ofbeldi og kúgum aðra þá gögnum við gegn Guði. Kúgun og niðurlæging dregur fram illsku í okkur vegna þess að við vitum innst inni að það er rangt að fara þannig fram, hvort sem við völdum eða verðum fyrir niðurlægingu. Svo spyrja menn sig og láta eins og ekkert sé rétt og rangt. Guð hefur skapað okkur þannig að við vitum nokkuð hvernig við eigum að lifa. Það veit hvert barn að kærleikurinn glæðir lífið og gleðina. Jesús mætti Páli á veginum í ljósinu af himni sem birtist honum. Hann leiddi Pál áfram og Ananías leiðbeindi honum um það sem hann átti að gera. Kristnir menn óttuðust Pál eins og kemur fram í frásögninni svo Ananías möglaði við Guð en fór þó eftir boði hans. Það fer best á því að hlusta á Guð og gera eins og hann leiðbeinir okkur. Páll varð blindur og bað í neyð sinn. Hann lærði veg auðmýktarinnar í gegnum þessa reynslu. Ananías bað fyrir honum og hann fékk sjónina aftur og var skírður. Páll fylgdi meistaranum og varð að þola margt fyrir það að prédika hann og kenna fagnaðarerindið. Guð hafði valið hann til að bera heiðingjunum vitni sem hann gerði. Talið er að hann hafi farið til Rómar og jafnvel til Spánar með boðskapinn. Og þá voru engar hraðlestir né flugvélar, oft var hann í sjávarháska, barðist við villidýr, var ofsóttur og húðstrýktur, í fangelsi og fjötrum.

2. Frelsi og vald

Þessi maður er einn helsti höfundur Nýja testamentisins. Bréf hans til safnaðanna sem hann stofnaði og samstarfsmanna hafa varðveist. Það varð algjör viðsnúningur hjá Páli enda tók hann upp nýtt nafn. Hann skrifaði í elsta bréfinu til Þessaloníkumanna í Grikklandi:

Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu, en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra. Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með ykkur í Kristi Jesú. 

(1. Þess. 5.15-18)

Páll tók kúvendingu við þessa reynslu. Ofsækjandinn, ofbeldismaðurinn, boðaði fagnaðarerindi um Jesús sem dó á krossi og reis upp frá dauðum með krafti andans. Hann fylltist andanum eins og lesa má í bréfum hans enn þann dag í dag. Hann skrifaði Óðinn um kærleikann, eitt magnaðast ljóð um kærleikann sem til er (1. Kor. 13), hann skrifaði bréfið um gleðina, Filippíbréfið, vegna þess að hann var svo glaður í trúnni, hann skrifað bréfið um frelsið, Galatabréfið. 

Og hvað sagði hann um frelsið sem hafði verið að fjötra kristna menn og fara með þá í böndum til Jerúsalem? 

Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.

(Gal. 5.1)

Hvað á hann við með frelsi hér? Það er aðeins í tilbeiðslu og trausti til Jesú Krists að við eigum frelsi að hans mati. Borgaralegt frelsi sem talað er um í mannréttindayfirlýsingu gerir hann svo sem ráð fyrir en það var ekki mikið né margra á hans tímum. Aftur á móti talaði hann um að kristnir menn eru frelsaðir frá öllu mannlegu valdi vegna þess að hollusta þeirra er aðeins bundinn Drottni. Það er miklu dýpra og mikilvægara frelsi en mannréttindayfirlýsingar tala um. Við getum til skýringar talað um ytra frelsi þeirra en Páll er að tala um innra frelsi sem við höfum tryggt reyndar með trúarbragðafrelsi í stjórnarskrá samfélags okkar. Það frelsi er heilagt að menn mega velja á hvað þeir setja traust sitt. Enginn valdhafi, enginn maður má fara yfir þau mörk. Það er brot gegn einstaklingsfrelsinu. Kristin trú tel ég að leggi það til út frá þessum skilningi á frelsinu sem Páll talaði fyrir. Það þoldi Páll ekki þegar hann blés ógn og ofsóknum gegn kristnum mönnum vegna þess að það var gegn harða trúarsamfélaginu. Rökleiðslur Páls í bréfum hans sýna virðingu hans fyrir frelsi manna að velja enda er það Drottins og anda hans að sannfæra menn. En sannfærandi er hann ef við þorum að lesa hann. 

Hin hliðin á frelsinu eins og Páll kenndi er ábyrgðin, að við berum ábyrgð á eilífri velferð okkar og tímanlegri. Frelsið leiðir til ábyrgðar. Við erum frelsuð frá vondri kynslóð segir Páll og við eigum að hafna því að lifa eftir mannlegum mælikvarða sem er mótaður af eigingirni, eins og eigingirni og græðgi geti leitt okkur til blessunar. Hann segir í sama bréfi: 

Bræður og systur, þið voruð kölluð til að vera frjáls. Misnotið ekki frelsið í þágu eigin girnda heldur þjónið hvert öðru í kærleika.

(Gal. 5.13)

Við erum sem sagt frelsuð frá eigingirni og græðgi, sem við eigum að deyða í okkur í og með Kristi, eins og hann gerði á ýtrasta hátt með því að deyja á krossi fyrir aðra, til þess að lifa kærleikann. Það að lifa í andanum felur þannig í sér að við göngumst í ábyrgð fyrir því sem við hugsum, segjum og gerum. Við afsökum okkur ekki, ekki vanrækslu okkar, ekki mistök, ekki illan ásetning, heldur lifum í ærlegu samfélagi við Drottinn Guð í bæn og játningu.

3. Vald kærleikans

Við höfum sungið nokkra nýja sálma. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson á angursálminn sem við sungum hér á undan nr. 905. Flettið aðeins upp á honum. Ég held að hann lýsi vel samtíma okkar þegar hann skrifar: „Ég geng um grýtta vegi og glata minni trú í kynjaheimi. Hvar ertu Guð minn nú?“ Þetta er sú sára spurning þegar við eigum ekki frelsið í trúnni eða þegar tilvera okkar verður ógnvænleg og við finnum okkur í myrkri. Hann heldur áfram: „Ég treysti ekki lengur að taki þú við mér og traðka því á öllu sem mönnum heilagt er“. Því miður held ég að það sé raunin að þegar við týnum Guði þá gerist það að helgi lífsins dofnar, jafnvel hverfur. Þá er ég að tala um Guð í raun og veru eins og hann er. Þannig þekkjum við hann aðeins fyrir orð Jesú og fordæmi. Ég vona að þú skiljir mig ekki svo að ég sé að niðurlægja aðra með þessum orðum. Ég er aðeins að vísa í ljósið sem birtist af himni, við þurfum að koma auga á það, eins og Páll og meðtaka það í bæn. Það er lífsglíman sjálf. Það varð trúarjátning efasemdamannsins í þessum sálmi: 

Þú lýsir mér í dimmu og læknar hverja sorg.
Mig leiðir fram um vegu og ert mín traust borg.
Mér undur lífsins færir þá ást sem best ég skil.
Svo ef ég opna augun, þá ertu, Guð minn til.

(Sálmar 2013, nr. 905, 4. erindi)

Eða hvað er trúarjátning Sigurbjörns Einarssonar biskups um þann mikli draum:

Hann (Drottinn) las minn hug. Hann leit til mín
og lét mig horfa í augu sér:
„Þú varst sjúkur, blessað barn, 
þá bar ég þig á herðum mér.“

(Sálmar 2013, nr. 910, 5. erindi)

Dýrð sé Guði.

Sálmar sem voru sungnir við guðsþjónustuna:

Upphafssálmur nr. 880: Kom, lát oss syngja söng

(Lofgjörðarvers) nr. 910: Mig dreymdi mikinn draum

Guðspjallssálmur nr. 905: Það sækir að mér uggur

Eftir prédikun nr. 902: Herra og Guð, ver þú heilsulind mín

Lokasálmur nr. 912: Góði Guð, er ég bið

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: