Gleði og dans. Ræða um verslunarmannahelgi 1. ágúst 2021

TEXTAR:

Sálmur 100
Fil. 4.4-7
Lk. 10.21-22

„Joy is the serious business of heaven“

„Gleði er alvörumál himinsins“

C. S. Lewis

Landinn átti von á því að geta skemmt sér konunglega um Verslunarmannahelgina. En vegna Covid-19 til 21 er líklega óhætt að kalla það verða engar stórhátíðir þetta árið frekar en í fyrra. Margir sitja því heima undir svörtu skýi vonbrigða. Það er kannski illa gert af mér að halda mínu striki að fjalla um gleði og dans í hugvekju minni á þessum degi en það hef ég mér til afsökunar að ég var löngu búinn að ákveða efnið í tilefni af Verslunarmannahelgi.

Svo bæti ég gráu ofan á svart með að lesa helstu gleðitexta Biblíunnar fyrir ykkur, Davíðssálm 100, Filippíbréfið 4 og frásögn Lúkasar af Jesús „fyllast fagnandi gleði heilags anda“ (Lk. 10.21). En allir þessir textar eru andstef sem svara angri, ótta og angist með gleði. Það er einkenni gleðinnar í Biblíunni að hún er þrátt fyrir allt. Svo aðstæður okkar gefa sérstakt tilefni til að fjalla um gleðina og dansinn. Og ég ætla að sýna fram á að það er ekki bara eitthvað sykursætt krem ofan á vondri köku, heldur líf í fullri gnægð sem fær okkur til að gleðjast ærlega og svífa um í gleðidansi (Jh. 10.10).

1.

Breski eða írski bókmenntafræðingurinn C. S. Lewis skrifaði athyglisverða setningu um gleðina: „Gleði er alvörumál himinsins“. Dálítið tvíræð fullyrðing og erfið að þýða. Í þessari bók mest um bæn læst hann skrifast á við Malcolm vin sinn. Hann segir að hann hafi kennt honum mest um bæn með því á gönguferð þeirra út í náttúrunni hafði hann kennt honum að byrja þar sem hann er. Malcolm þessi átti þá að hafa stungið höndum í fossandi læk og slett framan í sig og sagt: Af hverju ekki að byrja á þessu? Það varð svo umræða Lewis hvernig bænin er einmitt þetta að reyna nærveru Guðs í því sem gerist og í hinum smáa. Hann á að hafa gengið fram af Malcolm áður með því að líkja hinu himneska við spil eða dans vegna þess að þar ríkir frjálsræðið. Malcolm augljóslega nokkuð alvarlega þenkjandi trúmaður. En Lewis stríðir vini sínum og lætur í veðri vaka að þannig hafi hann kennt honum sjálfur. Það er ómögulegt að tilbiðja Guð í hástemmdum athöfnum ef maður kann ekki að gera það í hinum smáa með því að smakka og sjá, verst að oft skorti vakandi huga hjá okkur: „Þessi sanna og skyndilega nautn eru ‚spor guðdómsins’ í skógi reynslu okkar“. Svo klikkir hann út þessu bréfi til vinar síns með þessu orðum: „Gleði er alvörumál himinsins“.

Getur verið að þessi háalvarlega bók, Biblían, sem veitir sýn til himins, fjalli aðallega um gleði? Er það stór misskilningur að hún sé alvarleg? Hún ætti alls ekki að vera svört heldur gul eða appesínugul, með glaðlegri litum en venjan er í það minnsta.

Ég las Davíðssálm 100 hér áðan: „Öll veröldin fagni fyrir Drottni, þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng“ (Sl. 100.1-2). Það er aldeilis hvattning til gleði, þrítekið fagnið, með gleði, með fagnaðarsöng. Það er bara meiri og meiri gleði. Það minnir mig á fermingarbarnamót sem ég starfaði við fyrr á árum þar sem þessi kór var sunginn af krafti: „Gleði, gleði, gleði, líf mitt er“. Davíðssálmar eru merkilegt dæmi. Þeir byrja með visku um að íhuga lögmál Guðs dag og nótt svo koma angursálmar þar sem Guð er spurður: „Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma okkur með öllu?“ (Sl. 13.2). Og það er meira að segja beiskja í næsta sálmi: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: ‚Enginn Guð‘.“ (Sl. 14.1). Og ömurlegum aðstæðum er lýst: „Tár mín urðu fæða mín dag og nótt því daglangt var ég spurður: ‚Hvar er Guð þinn‘?“ (Sl. 42.4). Það er eins og andhverfa gleðinnar í sumum sálmanna: „Misgjörðir mínar hafa vaxið mér yfir höfuð, þær eru byrði sem ég fæ ekki borið“ (Sl. 38.5). En inn á milli koma þakkarsálmar og í lokin koma slíkir gleði og lofsöngvar að við sem erum vön kristilegum sálmum finnst um og ó. T.d. síðasti sálmurinn nr. 150:

Hallelúja.
Lofið Guð í helgidómi hans,
lofið hann í voldugri festingu hans.

Lofið hann fyrir máttarverk hans,
lofið hann vegna mikillar hátignar hans.

Lofið hann með lúðurhljómi,
lofið hann með hörpu og gígju.

Lofið hann með bumbum og gleðidansi,
lofið hann með flautum og strengjaleik.

Lofið hann með hljómandi skálabumbum,
lofið hann með hvellum skálabumbum.

Allt, sem andardrátt hefur, lofi Drottin.
Hallelúja. (Sl. 150)

Þetta hefur verið skemmtilegt hjá þeim í musterinu með öll þessi hljóðfæri. Við Eyþór Ingi organisti reyndum að velja tónlist og sálma með líflegum takti til að ná þessu aðeins fram. Orgelið með öllum sínum röddum er tilraun í þessa vera. En hvað veldur þessari stórkostlegu breytingu frá angrinu og angistinni til gleðisöngsins? Í sálmunum er talað um „nýjan söng“. Það gerist þegar við fylgjum sporum guðdómsins í tilverunni og hugur okkar vaknar þannig að við sjáum ljósgeislana og fylgjum þeim upp á við þannig að við sjáum sólina, Guð sjálfan, þá gerist þetta að hjá okkur vaknar „nýr söngur“. Hallelúja, heitir hann á hebresku, sem merkir lofum Guð. Þetta er dálítið öfgafullt. En er ekki lífið þannig? Þrátt fyrir djúpu dalina og dimmu játumst við Guði með sálmaskáldinu:

Guð er oss hæli og styrkur,
örugg hjálp í nauðum.

Því óttumst vér eigi þótt jörðin haggist
og fjöllin steypist í djúp hafsins,

þótt vötnin dynji og ólgi,
þótt fjöllin riði af ofsa þeirra. (Sela) (Sl. 46.2-4).

2.

Lítum þá á pistilinn úr Filippíubréfinu. Páll postuli er stundum talinn alvörugefinn kenningarsmiður en það er öðru nær þegar hann er lesinn fyrir alvöru. Hann skrifaði Óðinn um kærleikann: „Þótt ég talaði tungum manna og engla en hefði ekki kærleika væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla“ (1. Kor. 13.1). Í bréfum hans eru margar eldheitar bænir og fyrirbænir fyrir bræðrum og systrum í söfnuðunum. Svo er hann hugrakkur og glaðvær eins og við heyrum: „Verið ávallt glöð!“ það er varla fýlupúki sem hvetur vini sína þannig. Ljúflindi á að einkenna kristið fólk, ekki hugsýki yfir ástandinu eins og það er. Vandamálin í söfnuðunum sem Páll hafði stofnað voru alveg af þeirri stærðargráðu að best hefði verið frá mannlegu sjónarmiði að leggja þá niður en Páll kennir þeim og okkur að biðja, gera óskir okkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Það er nákvæmlega það sem sálmaskáldið gerði þegar það söng með trúnaðartrausti „Guð er okkur hæli og styrkur“ (Sl. 46.2). Það á svo dæmalaust við kristna söfnuði að friður Guðs skuli búa þar þegar þeir eru eins og þeir eru í raun. Friður Guðs er nefnilega eins og Páll segir æðri öllum skilningi. Og hver er ástæðan fyrir því samkvæmt því sem Páll heldur fram? Það er Guð með friði sínum sem varðveitir hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú.

Jæja, lítum þá til frelsarans. Þá þurfum við að fletta upp í guðspjöllunum. Þau heita á grísku „evangelion“ sem þýðir gleðilegur boðskapur. Svo að heiti sögunnar af Jesú er á sömu lund gleðilegt. Við höfum guðspjall úr enskunni og í fornensku var það gott spjall en ekki spjall um Guð eins og maður gantast stundum með.

Meistarinn frá Nasaret virðist við fyrstu sín nokkuð alvarlegur, stundum með djúpri samkennd en stundum heldur afundinn og jafnvel reiður. Það helgast vafalaust af erfiðu verkefni hans að frelsa heiminn frá sjálfum sér sem kostaði hann lífið. En á hinn veginn er gleði þarna og glens, liggur mér við að segja. Það er sagt frá ófáum veislum svo að meinalætamenn eins og lærisveinar Jóhannesar skírara gerðu athugsemdir við lífsnautn lærisveina Jesú (Mt. 9.14). Ég tala nú ekki um lærifeðurna og faríseana sem ásökuðu Jesú fyrir að vera mathák og vínsvelg (Mt. 11.19, Lk. 7.33-34). Hann kenndi okkur að vaka og biðja, sjá og heyra, líta til fugla himinsins og sjá liljur vallarins.

Svo höfum við lýsingu á gleði Jesú hjá Lúkasi: „Á sömu stundu fylltist Jesús af fagnandi gleði heilags anda…“ (Lk. 10.21). Ég sé hann fyrir mér skælbrosandi og fagnandi þegar hann lofar Guð fyrir það að opinbera fagnaðarerindið fyrir smælingjum en hafa hulið það spekingum og hyggindamönnum. Þeir sem líta svo stórt á sig að þeir geta ekki hlustað á Guðs orð fara mikils á mis. Þeir finna aldrei þessa djúpu gleði sem samfélagið við Guð veitir. Heimurinn sem við lifum í lítur nefnilega öðru vísi út frá Guðs ríki séð en með berum augum okkar manna. Það þarf eitthvað að opnast fyrir okkur og það gerði Jesú. Hann einfaldlega lauk upp himnunum fyrir okkur. Hann sagði líka á þessari stundu með lærisveinum sínum: „Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þið sjáið en sáu það ekki og heyra það sem þið heyrið en heyrðu það ekki“ (Lk. 10.24).

Það á þá líka við hér að byrja þar sem þú ert. Biddu Guð að birtast þér svo að þú megir sjá og heyra það sem Guð vill segja þér og birta þér.

3.

Hvað hef ég eiginlega verið að segja? Er ég að tala í kross? Tilvera okkar eins og hún blasir við er á skjön við Guð. Þannig er reynsla okkar. Þess vegna tjáðu sálmaskáld Davíðssálma sig um sársauka lífsins. Og það er ekki þannig að þá hverfur Guð út í blámóðuna heldur Guð þolir alvega að heyra ákall okkar úr neyðinni. Það er bæn í sinni sönnustu mynd. Við biðjum í raun ekki fyrr en við horfumst í augu við hlutina eins og þeir eru en þá reynum við líka að Guð er í þjáningunni, sorginni og dauðanum. Guð er á krossinum með okkur og fyrir okkur, til þess að við verðum aldrei viðskila við hann. Svo þar vaknar „nýi söngurinn“ þegar Guð hefur dregið þig upp úr „glötunargröfinni“, svo ég noti orð sálmaskáldsins, þegar þú uppgötvar að Guð er með þrátt fyrir allt.

Þannig getur þú tjáð Guði í bæn óheft allar þær tilfinningar sem bærast með þér, ógæfu, beiskju, hatur, sorg, vanlíðan, hvaðeina sem bærist innra með þér. En um leið vonina að Guð gengur með þér vegna þess að Drottinn lifir og þú með honum. Hann er þér „hæli og styrkur“.

Saga Davíðs konungs var margslungin og sálmarnir sem eru kenndir við hann litast óneitanlega af sögu hans. Þegar hann kom með örk Drottins til Gat þá er sagt að hann „dansaði af miklum móð“ í línhökli. Lýsingin heldur áfram örkin var flutt norður með „fagnaðarópum og hafurshornablæstri“. Eitthvað fór gleðin fram úr hófi því Davíð „hoppaði og dansaði“ svo dóttir Sáls hneikslaðist þegar hún leit hann útum gluggann. (2. Sam. 6.10-16). Dansinn tjáir guðlega gleði. Davíð var sagður maður eftir Guðs hjarta, ekki vegna þess að hann væri gallalaus, síður en svo, heldur vegna þess að hann var ærlegur við Guð sinn, þakkaði honum og lofaði hann. Af slíku sambandi við Guð sprettur þessi gleði trúarinnar sem horfir upp eftir ljósgeislunum og sér þá sólina að lokum skína við sér.

Dýrð sé Guði.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: