Í 11. þætti er tekinn annar hringur í reynslu bænalífsins. Lofgjörðin og gleðin heldur áfram í játningu trúar að Drottinn er konungur. Það stef í tilbeiðslu Davíðssálma og sálmaarfi kirkjunnar er skoðað, t.d. í elsta sálmi Norðurlanda: Heyr himna smiður. Í þessum þriðja og síðasta hluta erindanna skoðum við fimm stef eða viðfangsefni, eitt í hverjum þætti: (1) Játning trúar – Drottinn er konungur. (2) Íhugun og viskan í lögmáli Guðs. (3) Blessunaróskir og bölbænir. (4) Vandamál bænarinnar og þjáningin. (5) Kristur í Davíðssálmum.
Við tökum annan snúning í hringdansi bænalífsins. Vonandi fer það ekki fyrir brjóstið á neinum að ég líki því að biðja við dans. Mér finnst það svo góð líking vegna þess að því meir sem maður dansar því betri verður maður. Og ekki síður að það er svo gaman að dansa. Kristin trú eru einu trúarbrögðin sem kennd eru við gleði, svo ég viti, við tölum um fagnaðarerindi Jesú Krists. Bænalífið dýpkar reynslu okkar og um leið verður Guð meiri í huga okkar og hjarta við tilbeiðslu. Viðfagnsefnið í 7. kalfa (dag) er áframhald af þættinum um lofgjörð og gleði (3. kafli). Það sem við tökum okkur fyrir hendur er að skoða játningu trúarinnar að Guð er Drottinn og konungur, skaparinn og frelsarinn.
Guð er hátt upp hafinn í konungssálmunum sem við ætlum að rannsaka að þessu sinni. Það hljómar kannski framandi að tala um konung í lýðræðissamfélagi eins og sálmarnir gera svo við verðum að líta á það sem myndmál og setja okkur inn í framandi menningu sem lifir þó áfram í sálmum kirkjunnar, eins og ég ætla að benda á, t.d. í sálminum Víst ertu, Jesú, kóngur klár.
Ég vil minna okkur á vers í Davíðssálmum sem leiðarstef: „Drottinn er hár en lítur þó til hins lága“ (Slm 138.6). Í þessum sálmum sjáum við hátign Guðs á skýran hátt en um leið auðmýkt safnaðanna sem játa trú á hann. Þeir taka stöðu biðjandi samfélags meðal fólks og þjóða.
Trúarjátning er ekki aðeins orð á blaði né kenningar heldur þekking á Guði. Guðfræði vil ég skilgreina sem þekkingu á Guði sem við öðlumst í bæninni. Innilegt samband okkar við Guð játum við í trú, sem er tjáð með ljóðum í sálmunum, lofgjörð eftir reynsluna af Guði. Það er nýi söngurinn sem ég hef verið að tala um. Sá söngur er kröftugur í konungs-sálmunum.
Dæmið sem ég ætla að taka er Slm 95. Það er hymni eða lofsöngur að hluta til. Fyrri hlutinn er þannig en svo kemur spádómsorð sem hefur líklega verið flutt af presti eða spámanni. Ég les aðeins upphafið að þeim (v. 7b-11). Við getum séð fyrir okkur að söfnuðurinn er að ganga inn til helgihaldsins og hvattur til að fagna yfir Drottni, sem er konungur yfir öllum guðum, skapari og hirðir hjarðar sinnar. Svo er söfnuðurinn áminntur: „Ó, að þér í dag vilduð heyra raust hans. Herðið ekki hjörtu ykkar…“ (v. 7b-8a). Þá hefur verið haldið inn í helgidóminn.
Ég les fyrri hluta sálmsins á meðan við hlustum á túlkun Arve Pärt (f. 1935) sem er þekkt finnskt núlifandi tónskáld á Cantate Dominum (Slm 96) sem er einn af þessum konungssálmum:
Komið, fögnum fyrir Drottni,
látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
Komum með lofsöng fyrir auglit hans,
syngjum gleðiljóð fyrir honum.
Því að Drottinn er mikill Guð
og mikill konungur yfir öllum guðum.
Í hans hendi eru jarðardjúpin,
og fjallatindarnir heyra honum til.
Hans er hafið, hann hefir skapað það,
og hendur hans mynduðu þurrlendið.
Komið, föllum fram og krjúpum niður,
beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
því að hann er vor Guð,
og vér erum gæslulýður hans
og hjörð sú, er hann leiðir.Ó, að þér í dag vilduð heyra raust hans.
Slm 95.1-8
Herðið ekki hjörtu ykkar.
Drottinn er konungur er játning um tengsl biðjandi samfélags við Guð
Þessi hugsun um Guð sem konung er gömul og má rekja til Móse. Guð kallaði á Móse til að leiða þjóðina og þegar Móse spurði um nafn hans var svarið: ÉG ER, SÁ SEM ÉG ER. Á hebresku er það JHVH sem var svo heilagt nafn fyrir gyðingum að þeir nefndu það ekki þegar þeir lásu úr Biblíunni heldur sögðu adonai eða herra í staðinn. Í íslensku Biblíunni er það þýtt Drottinn en hefur líka verið þýtt Jehóva í þýðingunni frá 1912. Hugleiðum það: GUÐ ER. Þaðan er hugsun sem er síendurtekin í helgihaldi að Guð er frá eilífð til eilífðar, áður en nokkuð var o.s.frv. Við erum sem sagt að fást við þessar stóru hugsanir í þessum sálmum um Guð sem ómögulegt er að grípa og ná utan um, en Guð hefur gefið okkur kost að nálgast sig í tilbeiðslu, m.a. í þessum merkilegu sálmum.
Guð leiddi svo Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi og gekk á undan henni í skýstólpa. Trúarjátning sálmanna endurómar af gyðinglegri trúarjátningu sem geymd er í Fimmtu Mósebók: „Drottinn flutti oss af Egyptalandi með sterkri hendi og útréttum armlegg“ (5 Mós 6.20-25, 25.5-10). Það var sáttmálinn sem Guð gerði við þjóðina. Þrátt fyrir það óhlýðnaðist fólkið Guði í eyðimörkinn við vötnin. Áminningin í Slm 95 vísar til þeirrar sögu. Engu að síður er Guð að verki með fólkinu sem hann valdi.
Sumir fræðimenn tala um hyllingarhátíð eða nýjárshátíð en það hefur reynst erfitt að slá nokkru föstu um hvort þær hafa verið haldnar og ef svo þá hvernig. Í seinni tíð hefur því áherslan verið á trúarlífið sem birtist í sálmunum eins og ég hef kosið að gera. En það er augljóst að margir sálmar og sérstaklega konungssálmarnir eiga uppruna sinn í helgihaldinu í Musterinu eða hafa mótast af því.
Slm 24 er annað dæmi um sálm sem tengist helgihaldinu. Þar má sjá fyrir sér helgigöng inn um hlið Musterisins á meðan sungið var: „Þið hlið, lyftið höfðum ykkar, hefjið ykkur, þið öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. Hver er þessi konungur dýrðarinnar. Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýðarinnar“ (Slm 24.5-6). Kristið fólk sér fyrir sér innreið Jesú í Jerúsalem sem sagt er frá í guðspjalli fyrsta sunnudags í aðventu. Þá er þessi sálmur gjarnan lesinn eða sunginn víða í kirkjunum. Þá hefst nýtt kirkjuár. Og einn þekktasti aðventusálmurinn byrjar svon: „Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt“. Hann byggir á Slm 24. Við skulum hlusta á fyrstu erindin. (Með Dómkórnum í Reykjavík):
Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt.
Þú, Herrans kristni, fagna mátt,
því kóngur dýrðar kemur hér
og kýs að eiga dvöl hjá þér.Hann býður líknar blessað ár,
hann býður dýpst að græða sár,
hann býður þyngstu’ að borga sekt,
hann býður aumra’ að skýla nekt.Sjá, mildi’ er lögmál lausnarans.
Sl 24 – Weissel – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson.
Sjá, líkn er veldissproti hans.
Því kom þú, lýður kristinn, nú
og kóngi dýrðar fagna þú…
Í helgihaldinu mætum við Guði
Í þá daga mætti fólkið Guði í Musterinu við helgihaldið. Og þannig held ég að það sé enn þann dag í dag. Þegar söfnuðurnir koma saman frammi fyrir Guði fyrir auglit hans eins og Slm 95 hvetur til þá er Guð þar, vegna þess að hann ER, þannig hefur hann opinberað sig. Þegar við heyrum orð Guðs sem er boðað og syngjum sálmana þá þarf ekkert meira. Hvað viltu meira? Að Guð birtist þér sem engill og segir þér afdráttarlaust eitthvað sem þú átt að gera. Ísraelsþjóðin átti í erfiðleikum með Móses og spámenn sína þegar þeir gerði kröfu til þeirra. Fólkið vildu fá veraldlega konunga og verða mikil þjóð á pari við nágrannaþjóðirnar, verða mikil. Svo kom Jesú með sín mildu lögmál og veldisprota sem heitir líkn. Hvað viltu meira?
Guð er skaparinn. Sálmur 95 er mikið lesin við tíðargjörð sem upphafshvatning að koma fyrir auglit Guðs. Þegar ég sit í bænastólnum mínum heima horfi ég á Vaðlaheiðina og Pollinn og fer með þessi orð: „Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til. Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið“ (Slm 95). Guð umlykur mig og þig með því að vera skapari okkar, allt eigum við undir honum, hvert andartak, hvert hjartaslag, fólkið í kringum okkur, umhverfið allt. Þegar við erum í söfnuðunum erum við einnig umlukin Guði af fólkinu okkar sem biður með okkur og fyrir okkur og við með þeim. „Beygjum kné okkar fyrir Drottni, skapara vorum, því hann er vor Guð, og við erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir“ (Slm 95.6-7).
Ölturin í kirkjunum eða kross minna okkur á konung okkar. Ef við höfum altaristöflu túlkar hún gjarnan konung okkar og Drottinn, t.d. með upprisumynd. Við höfum orðið drótt, sem merkir hirð. Orðið drottning er af sama stofni. Þannig geta þessar gömlu myndir hjálpað okkur að skilja, jafnvel þó að engir væru konungarnir. Nóg höfum við af þjóðhöfðingjum og þjóðirnar eru fjölmargar. Söfnuðurnir eru þjóð og hjörð Guðs. Þegar við játumst Guði, ein út af fyrir okkur eða með bræðrum og systrum okkar í trúnni, þá erum við að segja við Guð ég er þinn, við erum þín. Við erum að rækta innilegt samband við Guð.
Einhver gæti þá spurt: Er þá Guð bara í samfélaginu og ekkert meira? Það vill svo til að Guð hefur opinberað sig í orði sínu sem er lifandi í samfélaginu. Ef við játumst honum eins og sálmarnir kenna okkur þá reynum við hann af því sem hann er, miskunnsamur og trúfastur Guð. Hugsaðu um samfélagið sem þú tilheyrir, sérðu ekki Guð að verki þar? Hugsaðu um náttúruna, ekki er það bara efnahvörf og rafboð, þar er Guð að verki hvert augnablik. Við höfum alla ástæða til að undrast Drottinn og þakka. Í því að við tilbiðjum Guð mætir hann okkur. Það er leyndardómur trúarinnar. Ef við verðum ofurandleg getum við týnt þessum einföldu sannindum trúarinnar og bænalífsins.
Séra Friðrik Friðriksson, æskulýðsleiðtoginn, orti marga konungssálma eins og Áfram kristsmenn krossmenn, kóngsmenn erum vér. Drottinnvald Krists er tengt við sáttmála Guðs sem er svarað af söfnuðinum, hirðinni hans, með játningu, eins og í þessum krýningarsálmi. Hér sunginn af Magnúsi Baldvinssyni við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar:
Ó, krýnið konung lífs
Sr. Friðrik Friðriksson – G. J. Elvery
í kærleik hjartans nú,
og látið svella sönginn hátt
með sigurvon og trú.
Ó, hyllið, krýnið hann,
sem hefur gefið oss
sinn konungdóm og dýrðartign:
Hin dýrstu andans hnoss.
Þakkargjörð fyrir verk hans á fyrri tíð og í sköpuninni
Það má flokka konungssálmana í tvennt. Það eru konungssálmar og JHVH konungssálmar. Fyrri flokkurinn er fjölbreyttur að gerð. Í þeim flokki eru lofsálmar, anguljóð, þakkarsálmar, fyrirbæn og einnig konunglegt brúðkaupskvæði. Þeir endurspegla konungdæmi Davíðs og konunga eftir hans tíma. JHVH konungsálmarnir eru allt hymnar eða lofsöngvar. Fyrri hluti Slm 95 er í þeim anda enda sálmarnir á undan og eftir af þeirri gerð. Einkenni þeirra er að JHVH er konungur yfir allri jörðinni, hann er skrýddur hátign, frá eilífð er hann, hásæti hans stendur stöðugt. Um hann er nýji söngurinn. Hann er umlukinn skýi, réttlæti og réttur er grundvöllur ríkis hans, heilagur er hann. Hann er ástæða gleðinnar. Tónlist sem hefur verið samin við þessa sálma er því oft tignarleg og konungleg.
Það er ástæðan fyrir því að allt skapað og allt fólk er hvatt til að beygji kné sín fyrir Drottni vegna þess að hann er skapari og frelsari. Og auk þess lýtur honum allur lýður hans í auðmjúkri lotningu og bæn. Í þessu samhengi skiljum við betur myndmálið um konungdóm Drottins. Söfnuðurinn tilbiður ekki Guð bara vegna þess að hann er almáttugur skapari heldur einnig vegna þess að hann hefur gert sáttmála við hjörð sína, hann er ekki aðeins skapari heldur einnig Drottinn. Í v. 7a er sáttmálsorðin úr gömlu trúarjátningunni notuð: “Jahve er Guð Ísraels og Ísrael er hjörð / þjóð Guðs”, hann hefur valið þá og lofað að leiða þá í náð sinni í gegnum alla söguna. Weiser einn af fremstu sérfræðingum í Sálmunum skrifaði:
„Þýðing hátíðar helgihaldsins var fólgin í því að mæta Guði og þannig fann hjörð hans fyllingu í þeirri staðreynd hjálpræðissögunnar að sköpun, útvalning og sáttmálsgerðin á Sínaí var endurnýjuð í helgihaldinu (sbr. „í dag“ í v. 7b), og að kraftur Guðs og frelsandi náð var opinberuð með því frammi fyrir augum fólksins, sem svara því með að auðmýkja sig í nálægð hans, með því að gefa honum heiðurinn og dýrðina, gleði og traust, undirgefni og hlýðni“
Weiser, A. The Psalms. A Commentary. SCM Press Ltd. : London. 1962. Bls. 626.
Dæmi um konungssálm – Heyr, himna smiður
Í innganginum fjallaði ég um kveðskap út frá Davíðssálmum eftir siðbót. Elsti norræni sálmurinn frá 1208 eftir Kolbein Tumason (1171-1208) Heyr himna smiður er í þessum anda konungssálmanna. Bent hefur verið á þegar stendur „hvers skáldið biður“ þá er Kolbeinn ekki að vísa til sín heldur Davíðs konungs.
Þegar þessi gamli sálmur er lesinn blasa við þessi tvö meginstef úr Slm 95, annars vegar sköpunartrúin, þegar hann ávarpar Guð „himna smið“, hins vegar endurlausnin og játninginn að Guð er Drottinn og konungur. Skáldið heitir á Guð skapara sinn. Hann játar að hann sé „þræll“ Guðs og einnig „þú ert Drottinn minn“. Guð er nefndur „röðla gramur“, sem þýðir sólar konungur sem er kenning um Krist. Öll er hjálpin frá honum, miskunn Guðs er nefnd, mildi, ríklyndi, huggun, málefnin fögur. Guð einn er tilbeðinn.
Heyrum þennan sálm fluttann af Ellen Kristjánsdóttur. Lagið er eftir Þorkel Sigurbjörnsson og var fyrst fluttur á Skálholtshátíð 1973 í tilefni af 10 ára afmæli Skálholtskirkju.
Heyr, himna smiður,
hvers skáldið biður,
komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heit eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.Guð, heit eg á þig,
að græðir mig,
minnst, mildingur, mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú, röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjartaborg.Gæt, mildingur, mín,
Sb. 1981, nr. 308. Fyrst í Sb. 1945 – Kolbeinn Tumason
mest þurfum þín
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
máls efni fögur,
öll er hjálp af þér,
í hjarta mér.
Hallgrímur Pétursson yrkir um Krist sem konung
Fyrir og eftir siðbót á Íslandi var Kristur tignaður sem sonur Guðs og konungur kirkjunnar og alheimsins. Í síðasta erindi Kolbeins er Drottinn Kristur tilbeðinn sem mildingur sem mest er þörf á meðal manna. Hann er nefndur „meyjar mögur“, sem þýðir sonur Maríu, öll er hjálpin frá honum.
Ég bent á hér á undan að Slm 24 um „konung dýrðarinnar“ er í kirkjunum víða sunginn og lesinn í upphafi aðventu þegar við kristið fólk minnumst innreiðar Jesú inn í Jerúsalem. Hann kemur ekki ríðandi á hvítum hesti heldur asna, í auðmýkt og hógværð. Hann er líðandi þjónn Drottins, svo konungdómur hans er annars konar en Davíðs konungs. Það túlkaði Hallgrímur Pétursson í Passíusálmum sínum. Um miðbygg þeirra er konungssálmurinn Víst ertu, Jesús, kóngur klár. Íslenska þjóðlagið við sálminn hljómar yfir Reykjavíkurborg frá klukkuspilinu í Hallgrímskirkju sem kennd er við píslarskáldið.
Jesús er ávarpaður kóngur, klár, kóngur dýrðar um eilífð, engla og manna, „almættis tingnarstór“. Þannig er tilbeiðsla Drottins. Játningin fylgir svo að skáldið treystir því að það muni njóta hans, „dýrðar Drottinn minn,“ í dóminum á efsta degi. Hann játar svo stöðu sína, Jesús er konungur hans, hann vill að hann kalli sig „þræl“ en hann er „frelsaður“. Það felur í sér að hann vill vera Drottins. Það er nýji sáttmálinn sem kom með Jesú. Og eins og í Davíðssálmunum sér hann samfélagið fyrir sér sem „kýs“ Jesú sem konung sinn. Sálmur Hallgríms endar með hirðishugsuninni og hjörð Drottins.
Hlustum á þennan vel þekkta sálm sem við erum kannski hætt að heyra almennilega. Þetta er játning trúar á Guði sem konungi og Drottni eins og konungssálmarnir í Davíðssálmum. Það er Jón Þorsteinsson og Eyþór Ingi Jónsson sem flytja okkur sálminn.
Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.Ó, Jesús, það er játning mín,
ég mun um síðir njóta þín,
þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri’ eg róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér.Kóng minn, Jesús, ég kalla þig,
kalla þú þræl þinn aftur mig.
Herratign enga’ að heimsins sið
held ég þar mega jafnast við.Jesús, þín kristni kýs þig nú,
Hallgrímur Pétursson (Ps. 27) Sb. 41
kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðar frið.