Gleði í skugga ógnar- páskaræða

Gleðilega páska!

Við erum að halda mestu gleðihátíð í heimi! Vissuðið það?

Það er önnur gleði en þegar fólk gengur syngjandi glatt úr bænum eftir ballið. Eða þegar liðinn fagna sigri. Eða þegar stríðslokum er fagnað.

Gleði páskanna er annars kona og dýpri gleði og innilegri. 

Það er meira eins og fagna vini eftir langan aðskilnað. 

Ég sá krúttlegt myndband um daginn á samfélagsmiðlum þar sem tveir, tveggja til þriggja ára dregnir, hlaupa á móts við hvorn annan með útréttar hendur á gagnstétt og knúsast innilegar. Meira þannig gleði.

Vafalaust er skörpustu líkindin við þrautir konu við fæðingu en eftir að barnið er fætt minnist hún ekki þeirra framar. Það var líkingin sem Jesús valdi til að lýsa komu Guðs ríkis. Þá talaði hann um fögnuð, fullkominn fögnuð.

Ágætu maður sagði: Gleðin er alvörumál himinsins. Vel að orði komist um þá spennu sem ég vil gera að umtalsefi í dag. Svo er það ljóst á kristin trú eru einu trúarbrögðin sem ég veit um sem kennd eru við gleði. Við tölum um fagnaðarerindi, gleðiboðskap, evangelíum sem við þýðum guðspjall en þýðir eiginlega gleðifréttir. 

Það sem vekur þessa djúpu gleði er frásagnir eins og sú sem ég las áðan um Maríu Magdalenu, Pétur og Jóhannes á páskadagsmorgni. Þær eru mjög persónulegar sögur, merkilegar, trúarsögur. Við höfum rifjað upp þessar helgustu sögur kristninnar hér í kirkjunni nú um hátíðina.  Á skírdagskvöld endurlifðum við síðustu kvöldmáltíð Drottins, afskrýddum svo altarið til að undirbúa okkur undir föstudaginn langa. Þá var píslarsagan lesin og sungin litanían með ákallinu: “Frelsa oss, Drottinn!”  Í nótt var svo páskavaka þar sem páskaljósið var blessað og tendrað af frumglæði als ljóss til að minna okkur á eilífðarljósið sem lýsir upp allt myrkur. Og nú á páskadagsmorgni lesum við upprisufrásagnirnar.

Þannig eru þessar frásagnir um gleði í skugga ógnar. Gleði páskanna er þannig dýpri og annars konar en hvað veldur því? Hvað merkja þessar sögur? Hvað eru upprisufrásagnirnar að segja okkur?

Upprisufrásagnirnar

Uppristufrásagnirnar eru persónulegar og innilegar sögur. Meir að segja dálítið skoplegar. Vitnisburður þeirra Maríu Magdalenu, Péturs og Jóhannesar bera með sér glaðværa undrun og skopskyn. 

Það er mikill hraði í sögunni. Þau eru á hlaupum. Þegar María uppgötvar að steininum hafði verið velt frá hleypur hún til að segja lærisveinunum frá þessu. Hún var föst í þeirri hugsun að andstæðingar Jesú hefði tekið líkama hans úr gröfinni. Pétur og Jóhannes hlaupa út að gröfinni. Pétur verður að láta sér lynda að ungi maður verður fyrri til út að gröfinni. Hann lítur inn í gröfina en hinkrar eftir þeim eldri sem gengur inn í gröfina en sér þá sér til undrunar að eitthvað annað hefur átt sér stað en María hélt. Línblæjurnar láu þar en sveitadúkurinn sem verið hafði um höfuð hans hafði verið brotinn saman og á öðrum stað. Þá gekk Jóhannes inn á sá og trúði en skildi engan veginn það sem hafði gerst. María hafði farið í humátt eftir þeim en kom þegar þeir voru farnir.

Ég sé Maríu Magdalenu segja frá þessu með bros á vör. Hún lítur inn í gröfina, en grafir í þá daga voru grafhvelfingar, hún sér tvo hvítklædda engla þar sem líkami Jesú hafði legið. Þeir segja við hana: “Hví grætur þú?” Og hún er föst í þeirri hugsun að böðlar hans hafa svívirt gröfina með grimmd. Þannig var sorg hennar. Svo koma þessi skemmtilegu samskipti Maríu og Jesú, sem óneitanlega eru dálítið brosleg. “Þeir hafa tekið burt Drottinn minn”, segir hún. Snýr sér frá gröfinni og þá stendur Jesú þar en hún þekkir hann ekki. Jesús ávarpar hana: “Hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?”  

Fyrir táraflóði þekkir hún hann ekki en heldur að hann sé grasgarðsvörðurinn. Hún er áfram föst í sorg sinni: “Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur látið hann, svo ég geti sótt hann”. 

Jesús ávarpar hana þá með nafni: “María”. 

Þá þekkir hún hann og segir: “Rabbúní”, sem þýðir Meistari á hebresku.

Ætli María hafi ekki oft sagt þessa sögu í frumsöfnuðinum og svo hefur hún endað með þessum hætti í guðspjallinu. Þessi persónulega saga og innilega verður frásaga af því hvernig Drottinn mætir fólki eftir upprisuna. Það verður ljóst af framhaldinu. 

Jesús segir við hana þessi dularfullu orð: “Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stíginn upp til föður míns”. Eflaust hefði María viljað faðma vin sinn að sér en það var eitthvað meira um að vera en endurfundir. Jesús sendir hana af stað með þann boðskap. Jesús segir: “Farðu til systkina minna og segðu þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar”. 

Jesús segir með þessum orðum að faðir hans er faðir okkar, Guð hans er Guðs okkar. Við erum börn Guðs eins og hann er sonur Guðs. Hann gefur það með sér að við megum hafa sömu stöðu gagnvart Guði og hann, að vera elskuð börn hans. Samstaða Drottins er fullkomin með okkur svo að hann hefur tekið dauða okkar á sig og gefið okkur líf sitt með sér svo við megum lifa með Guði, eilíflega, getum þekkt Guð og lifað í samfélagi við hann. Það sem þessi frásaga er að segja þér er að þú ert einstakt barn Guðs sem hann vill eiga samskipti við í bæn og iðju þinni. Rétt eins og þú værir Jesús. Það er ástæða til að gleðjast yfir því!

Saga okkar og Guðs

Þannig gerist upprisan í daglegu lífi. Hún á sér stað í okkar sögum ef við vöknum upp til að sjá undrið gerast. Upprisan er ekki furðusögur úr fortíðinni heldur það sem Guð er að gera í lífinu. 

Í vetur tók ég viðtal við konu sem hefur lengi starfað í tólf spora starfinu – andlegt ferðalag. Hún sagði mér frá því hvernig fólk hefði risið upp til nýs lífs, úr fýkn, áráttubundinni hegðun, ótta og angist. Fólkið öðlaðist nýtt upphaf. Það er upprisa að setja traust sitt á æðri veruleika sem getur leyst mann úr fjötrum og losað um hnúta sem aðrir og maður sjálfur hefur búið sér til og ógnar lífi okkar. Þegar við uppgötvun að við erum svo mikils virði að Guð vill eiga samfélag við okkur og gefa okkur að vera börn hans gerist þetta undur, upprisa. Samfélagið í tólf spora starfinu er einmitt að vinna að því að byggja upp sjálfstraust og öryggi sem Guð veitir með því sem hann gerir í lífi okkar.

Önnur hlið upprisutrúarinnar er þegar við stöndum við dauðans dyr. Svo ég gefi ykkur hlut í minni persónulegu sögu. Ég missti föður minn eftir bílslys. Í hálfan mánuð lá hann á gjörgæslu, líkami hans var illa farinn, von um bata var lítil. Morguninn sem hann dó las ég frásögnina um uppvakningu Lasarusar. Auðvitað óskaði ég mér og bað að hann mætti lifa. Í þessum texta segir Jesús: “Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi” (Jóh 11.25). Seinna um daginn stóðum við systkinin með móður okkar við dánarbeð hans. Ég presturinn fór með bæn og fól pabba í Guðs hendur. Með sársauka bað ég: “Verði þinn vilji”. Það tók við langt sorgarferli og andleg þjáning. Nokkrum árum seinna stóð ég við leiða hans og rifjaði þá upp huggunarorð sem ég hafði gefið móður minni. Hann var læknir og hafði helgað lífi sitt að berjast gegn krabbameini meðal annars. Það varð mér hvatning til að ganga leið kærleikans að þjóna eins og hann hafði gert og Drottinn hafði kennt okkur. Það varð mér upprisa þegar þunglyndið ógnaði lífinu.

Við útför hjá okkur minnumst við þessara orða Jesú: “Ég er upprisan og lífið”. Samstaða hans er þannig að hann gengur með okkur í dauðann til að gefa okkur lífið eilífa með sér. Þér er óhætt að trúa því vegna þess að það hefur hann sagt og gert svo augljóst er það orðið. 

En hvað gagnast þessar persónulegu sögur þegar við stöndum frammi fyrir stríðsógn eins og í dag? Þegar lífinu er ógnað í raun og veru. 

Við sjáum fólk tárast undan þjáningunni. Listafólk er áttavillt í tjáningu sinni á ógninni. Fólk spyr sig hvers vegna? Hvað höfum við til unnið? Eyðileggingin blasir við. Illskan og grimmdin virðist hafa náð yfirtökum. 

Ég rifja upp fyrir mér 500 ára gömul skrif Erasmusar frá Rotterdam Gegn stríði, þar sem hann sýndi fram á fáránleika stríðsins og hvað menn voru þá vitlausir að lofa heimskuna. Menn virðast lítið hafa vitkast. Líf einræðisherrans, sem tekur sér guðlegt vald yfir líf og dauða er ekki meira virði en barnsins sem hann sprengir upp sofandi. Það barn var barn Guðs. Viljið þið fylgja mér lengra í þessum hugsanagangi? Hvenær fyrirgera menn sér rétti sínum til lífsins? Er ekki glæpurinn samur á friðar og stríðstímum? Hvers vegna eru ekki allir herir heimsins notaðir til að vinna gegn lofslagsvánni með öllu sínu hugvita snúið frá illskunni til góðs? Væri það ekki eitthvað vit?

Stríðsógnin leiðir hugann að stóru sögu Guðs sem birtist í persónulegum sögum okkar. 

Merking stóru sögu Guðs

Í bæninni og tilbeiðslunni horfumst við í augu við ógnina við lífið. Við komum fram á eftir í almennu bæninni með neyð heimsins. Guð tekur sér alltaf stöðu með hinum þjáða og gegn ofbeldismanninum. Í okkar litlu sögu og stórviðburðum heimssögunnar er það staða Guðs að hann er að reisa við þau þjáðu og kúguðu. Þá förum við að skynja hvað upprisa Drottins felur í sér, að hvert mannsbarn er óendanlega mikils virði í augum Guðs. Guð kallar okkur til að elska náunga okkar sem líður og lifir við neyð.

Þegar við göngum til altaris erum við að játast Guði eins og Jesús hefur birt okkur hann. Guð sem elskar börnin sín. Guð sem heldur uppi sköpun sinni og náttúrunni, Guð sem stendur með þeim sem standa höllum fæti, líða og þjást. Í grunni tilveru okkar er Guð sem elskar og þannig á veröld okkar að verða

Engin ræða, engin orð ná að skýra það fyllilega hvað upprisa Drottins felur í sér, en atburðurinn sjálfur, að Guðs sonur varð maður, gekk dauðans veg til að leiða alla með sér til lífsins, er merking veraldar, leyndardómur, sem var hulinn og þráður, en birtist í honum til þess að vera opinber og öllum augljós sem heyra orðið. Því er páskakveðjan forna þessi lífsjátning og trúarjátning, í henni játast trúin Guði lífsins, hún er grunntónn í laginu sem lífið er: „Drottinn er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.“ Þannig heilsaði kristið fólk hvert öðru á upprisudeginum um páska. Látum þá kveðju berast áfram.

(Endum við þessar hugleiðingar um upprisuna með sálminum: Drottinn vor er upprisinn. Sálmurinn er aðeins endurómur af vitnisburði þeirra kvenna og karla sem Drottinn birtist og öllum trúuðum sem reyna nærveru Guðs í orðinu. 

Drottinn vor er upprisinn.
Upphaf nýtt það merkir.
Hann lifir, sigrar, Lausnarinn,
losna fjötrar sterkir.

Öldum saman óljós þrá
um að Drottinn birtist
er uppfyllt nú er upp rís sá
er í glötun virtist.

Sköpunin sér bjarta brún
birta yfir löndum,
því leyst er hennar leynda rún,
losna skal úr böndum.

Allar þjóðir hylli hann,
himna ljósið skæra,
sem frelsa mannkyn fallið kann,
Frelsarann vorn kæra.

Sannarlega upprisinn
er vor Drottinn Kristur,
með honum rís upp heimurinn,
hverfur dauðans mistur.

Guðm. G.

Dýrð sé Guði.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: