Á páskadag 2017 skrifaði ég síðasta þáttinn um persónur píslarsögunnar sem ég hafði alltaf ætlað mér að enda með vitnisburði upprisunnar. Ef það er sett á oddinn þá er upprisan miklu meira en að maður rísi upp frá dauðum. Ef menn hafna upprisu Krists og trúnni vegna þess að maður trúi ekki slíku fara þeir á mis við aðal atriði sem er lífið, páskaliljan sem vex þrátt fyrir allt, ljósið sem skín í myrkrinu. Það reyni ég að túlka í þessum texta um vitnisburð upprisunnar.
Fyrir páska 2022 var þessi þáttur tekinn upp á útvarpsstöðinni Lindinni. Það voru sömu lesararnir og höfðu lesið inn fyrri fjóra þættina um persónur píslarsögunnar 2017 og nokkrir í viðbót. Færi ég þeim bestu þakkir fyrir að gera þessar frásagnir lifandi fyrir áheyrendum sem var markmið mitt með þáttunum.
Það voru konur sem urðu fyrstu vitnin að upprisu Jesú. Eins og María móðir Drottins fékk það hlutverk að fæða frelsara heimsins, hún var af lágum stigum, en Guð upphóf hana, eins voru það konur sem flutti fyrstar vintisburðinn um upprisu Drottins frá dauðum þrátt fyrir það að þá voru konur ekki taldar hæfar til að bera vitni fyrir dómi. Konurnar höfðu farið út að gröfinni árla morguns í árdegissólinni að búa betur um líkama Drottins. María Magdalena fór ásamt konunum en snéri svo við þegar hún sá að steininum hafði verið velt frá og fór til lærisveinanna og sagði þeim: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.” Þeir Pétur og Jóhannes hlupu út að gröfinni. En María fór á eftir þeim. Jesús birtist þá Maríu Magdalenu. Hún hefur gert góðlátlegt grín að sér út af því að hún þekkti hann ekki í fyrstunni. Jóhannes postuli skrifar um þessa reynslu Maríu Magdalenu í guðspjalli sínu:
En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.
Jh. 20. 11-18
Við skulum íhuga um stund þessi augnablik þegar hún mætti Drottni sínum upprisnum og hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn meðan við hlustum á sálm höfundar sem hann samdi út frá sjónarhóli Maríu Magdalenu: Árdegis, röðull reis úr nótt. Sálminn er við fallegt sænskt lag eftir Olle Widenstrand.
Árdegis, röðull reis úr nótt,
í roða fór María að gröf Jesú hljótt,
felldi hún tár á föla jörð
sem fann ekkert til, en var náköld og hörð.Guð hennar var í gröf og svaf,
í guðsdýrkun sinni gaf þakklæti af
smyrsl, sem hún bar við barminn sinn,
en brynjaður vopnum var hermaðurinn.Gröfin var tóm og gatan auð,
og Guð hennar huldi sig, þar stóð hún snauð.
Felldi hún tár við fætur manns
sem fór þarna hjá, framhjá gröf Lausnarans.María spurði manninn þann
Guðm. Guðmundsson
um Meistara sinn, hvar hann lagt hefði hann.
„María, ég er upprisinn,
ég er alltaf hjá þér, ég, Drottinn Guð þinn.”
Nú skulum við lifa okkur inn í aðstæður frumsafnaðarins nokkrum árum síðar. Fylgjendur Drottins vitnuðu um hinn upprisna Drottinn sinn eftir páskana strókostlegu. Við leyfum okkur að ímynda okkur að haldin hafi verið samkoma við Genesaretvatnið. Margir komu langan veg til að vera viðstaddir. Sál skriftlærður maður úr skóla Gamalíel blés ógnunum gegn þeim kristnu, fólki vegarins, eins og þau voru kölluð í upphafi. Þessi ofsækjandi kirkjunnar hafði fengið bréf frá ráðinu til að handtaka þá sem fylgdu veginum og færa þau í böndum til Jerúsalem. Engu að síður var boðað til þessa fundar þar sem fylgjendur Jesú vitnuðu um upprisu Drottins fyrir söfnuðinum sem var saman kominn. Við sjáum Pétur postula fyrir okkur þar sem hann leiðir guðsþjónustuna, en þarna voru fleiri postular og konurnar sem fylgdu honum og voru vitni að upprisunni.
Stefán djákni hafði liðið píslarvætti af hendi þessa hræðilega manns og kristnir menn voru gerðir brottrækir úr synagógunum. En hinir kristnu komu saman í heimahúsum og höfðu kærleiksmáltíð þar sem þeir minntust orða Jesú við síðustu kvöldmáltíðina og borðuð brauðið og vínið eins og hann hafði boðið. Leiðtogar kristinna manna vildu nú uppörva bræðurna og systurnar í trúnni með því að prédika fyrir þeim fagnaðarerindið um Jesú enn á ný. Pétur byrjaði samkomuna.
Pétur leiðir samkomuna
Pétur: Náð og friður margfaldist með ykkur.
Það eru erfiðir tímar og sumir bræður og systur okkar hafa verið hneppt í varðhald. Við vildum boða til þessa fundar til að uppörva hvert annað. Það eru margir sem fylgja veginum núna en Drottinn var búinn að vara okkur við að ofsóknir myndu mæta okkur vegna nafns hans. Það erum við að reyna og sum á líkama okkar. Við ákváðum að betra væri að funda hér en í Jerúsalem vegna ógnarástandsins. Ég áminni ykkur að fagna yfir því að taka þátt í píslum Krists því að vonin um upprisu með Kristi mun ekki verða okkur til skammar. Kristur leið fyrir ykkur og skyldi ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð fylgja í fótspor hans. Hann er hirðirinn okkar eins og hann kenndi. Við megum treysta leiðsögn hans líka í erfiðleikum og þjáningu. Hann kenndi að hann hefði allt vald á himni og jörð. Hann reis upp og situr Guði á hægri hönd. Englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Við skulum halda saman. Við erum musteri Guðs á jörð, lifandi steinar, við eigum að byggjast upp og vera Guðs andlega hús til heilags prestdóms. Við eigum að vitna um hann með góðu líferni, vera til fyrirmyndar. Og ekki vinna hvert öðru mein með svikráðum á þessum erfiðu tímum. Við eigum að bera trúnni vitni óttalaus því við fylgjum Kristi. Þið eruð frjálst fólk. Notið frelsið til að þjóna Guði en ekki til að hylja vonsku.
Tíminn styttist þar til Drottinn kemur aftur, endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Við eigum eftir að ganga í gegnum eldraun en látið ekki það koma ykkur að óvörum, Drottinn hafði undirbúið okkur undir það. Gleðjist yfir því að taka þátt í píslum Krists til þess að þið megið gleðjast og fyllast fögnuði þegar dýrð hans birtist. Þið skuluð ekki fyrirverða ykkur fyrir nafnið heldur vegsama Guð fyrir að bera nafn Krists. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur. Um lítinn tíma munu þið þjást en Guð mun veita ykkur náð sem hefur kallað ykkur til sinnar dýrðar og fullkomnar ykkur, styrkir og eflir.
Lofaður sé Guð og faðir Drottins okkar Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt okkur til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum og veitt okkur arfleifð sína með sér á himnum.
Nú mun María Magdalena segja okkur frá því þegar Jesús birtist okkur fyrst upprisinn.
Vitnisburður Maríu Magdalenu
María Magdalena: Náð sé með ykkur og friður.
Ég hef notið miskunnar Guðs. Ég sem var síst allra fékk þá upphefð að Drottinn birtist mér fyrst. Það var skrýtið að ég skyldi ekki þekkja hann þegar hann birtist mér. Ég hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn. Ég hafði margoft séð hann áður. En ég grét svo að ég sá ekki fyrir tárum. Mér fannst það svo sárt að böðlar vinar míns gátu ekki látið hann hvíla í friði heldur hefðu rænt líkama hans. Ég var vitstola af sorg og örvæntingu þar sem ég vissi ekki hvað hefði komið fyrir Drottinn. Þegar ég laut inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum þar sem Jesús hafði legið og þeir spurðu mig hvers vegna ég væri að gráta, þá var þetta eina hugsunin sem komst að, „þeir hafa tekið brott Drottinn minn“. Svo gerðist það. Grátbroslegt er það. Þess vegna spurði ég hann sem ég hélt að væri grasgarðsvörðurinn: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“ Sorgin er ekki skynsamleg. Ég var yfirkomin af sorg og söknuði. Aldrei nokkurn tíman hef ég verið ávörpuð með slíkri hlýju og þá. Hann sagði nafnið mitt, Meistari okkar. „María,” sagði hann. Þá snéri ég mér að honum og sagði á hebresku: Rabbúní! Eða meistari. Ég varð svo glöð vegna þess að ég þekkti hann aftur. Hann var mér ekki lengur hulinn.
Svo sagði hann við mig undarlega hluti sem ég áttaði mig ekki á en við höfum rætt og Drottinn útskýrði fyrir mér seinna. „Snertu mig ekki. Ég er ekki stíginn upp til föður míns.“ Ég hefði eflaust faðmað hann og kysst. En hann var öðru vísi, hann var að stíga upp í dýrðina. Ég skildi ekki fyllilega hvað hafði gerst. Ég vissi bara að þetta var vinurinn minn og Drottinn okkar allra sem var að tala til mín og ég við hann. Þarna birtist hann mér vinur minn sem hafði pínst á krossi og dáið þremur dögum áður. Ég í minni sorg og myrkri mætti honum lifandi í táraflóði mínu. Það breytti öllu. Hann var að stíga upp til föðurins. Svo sagði hann við mig og sendi mig með boðin góðu: „En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“ Það var svo gott að fara með þessi boð frá Drottni. Hann sagði föður míns og föður ykkar. Það gerðist við upprisuna að hann opnaði okkur veginn til Guðs föður. Hann er líka faðir okkar og Guð okkar vegna þess að Jesús hefur gefið það með sér. Við erum hans börn.
Þegar ég kom til lærisveinanna sagði ég við þá: „Ég hef séð Drottin.“ Svo flutti ég þeim það sem hann hafði sagt við mig. Og það á við okkur öll að við erum Guðs, eigum hann fyrir föður vegna Jesú og þess sem hann gerði fyrir okkur. Guði sé lof.
Pétur: Við þökkum fyrir þessa frásögn, María, blessuð orð eru þetta, sem þú fluttir okkur fyrst frá Drottni upprisnum og nú eru kennd í söfnuðunum fyrir þinn vitnisburð. Næst ætlar Tómas postuli að flytja okkur sinn vitnisburð um Drottinn. En hann var ekki með okkur þegar Drottinn birtist okkur lærisveinunum tólf.
Vitnisburður Tómasar
Tómas: Já, þannig var það. Þið getið rétt ímyndað ykkur að það tók á mig að hinir lærisveinarnir sögðust hafa séð Drottinn að kvöldi páskadags eins og María Magdalena. Ég trúði þeim ekki. Enda var þetta of gott til að vera satt. Hverjum gat dottið annað eins í hug að maður rís upp frá dauðum? Ég hélt að þau væru búnir að missa vitið. Ég er frekar raunsær maður eins og Saddúkearnir sem trúa ekki á upprisu mannsins. Ég hef ekki haft neinar stórkostlegar hugmyndir um lífið eftir dauðann. Maður sofnar bara og þannig er það. Svo ég svaraði þeim: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Ég var svo sem í sömu hugleiðingum og María Magdalena. Einhverjir hefðu rænt líkama Drottins til að svívirða okkur fylgjendur hans en það var eitthvað sem gekk ekki upp með það vegna þess að Jesús hafði sagt að hann myndi líða og þjást og deyja en rísa upp á þriðja degi. Ég hafði aldrei heyrt það í raun eða aldrei meðtekið það. En við lærisveinarnir hefðum verið líklegastir til að láta líkama Jesú hverfa svo að orð hans gætu þó ræst en hvernig hefðum við þá átt að halda því fram sem sannleika sem við værum reiðubúin að deyja fyrir. Það sem mér fannst undarlegast var að hinir lærissveinarnir létu eins og Jesús væri hjá þeim. Þeir fóru meir að segja að biðja til hans og lofa hann eins og hann væri á veginum með þeim. Þessa viku var ég utanveltu í hópnum. Stundum reyndu þeir að sannfæra mig um að þeir hefðu séð Drottin. En ég lét mér ekki segjast heldur velti fyrir mér fram og aftur hvernig einhverjir hefðu tekið líkama Drottins. Það var orðin meinloka hjá mér.
Viku seinna rann upp dagurinn. Lærisveinarnir voru saman komnir inni þar sem þeir voru vanir. Ég var enn eitthvað á skjön við hina og vildi ekki láta af skoðun minni. Þeir voru hræddir og höfðu læst dyrunum. Þá gerðist það aftur að Jesús birtist okkur. Hann stóð mitt á meðal okkar og heilsaði okkur eins og vanalega. „Friður sé með ykkur,” sagði hann. Þarna var ég með efasemdir mínar og horfðist í augu við Drottinn minn. Við stóðum þarna þar sem við höfðum verið að ræða saman og þá var Jesús mitt á meðal okkar. Svo ávarpaði hann mig sérstaklega. Ég sá bros á vörum hans en skilningsríkur var hann og fullur samúðar eins og hann er. Hann sagði við mig: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Og orðin sönnuðust á mér. Þarna stóð hann og rétti fram hendur sínar með sáramerkjunum og undir klæðunum vissi ég af síðusárinu hans sem ég hafði heyrt um. Ég þurfti þess með að sjá hann augliti til auglitis en þá sá ég líka Guð minn, mætti Guði mínum. Það var allt að renna upp fyrir mér. Öll orð hans komu mér í hug. Öll kraftaverkin. Hvert einasta atvik sem við höfðum upplifað með honum varð satt. Þarna var hann kominn og ég játaðist honum í trausti og trú: „Drottinn minn og Guð minn!“
Ég ætla ekki að fjölyrða um allar þær hugmyndir mínar sem breyttust í framhaldi af þessu. En Jesús sagði við mig orð sem eiga við okkur hér í dag: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Ég fékk að sjá hann upprisinn. Hann birtist mér eins og hinum lærisveinunum og Maríu Magdalenu. Ég hef vitnað um þetta og farið í austurátt með þennan boðskap um Drottinn minn og Guð minn. Þið eruð hér mörg sem hafið trúað fyrir vitnisburð okkar sem sáum Drottinn. Hann lýsir ykkur sæl. Og ástæðan er sú að þó að við sjáum hann ekki þá er hann hér, nálægur og um leið við Guðs hægri hönd, eins og Stefán píslarvottur sagði, þegar hann dó við ofsókn Sáls og böðla sinna.
Pétur: Þakka þér fyrir þessa ærlegu játningu og vitnisburð. Ég minnist þess með þakklæti eins og Tómas lýsir Drottni okkar að mildi hans var alltaf að mæta. Eins og þið vitið brást ég Drottni mínum þó að ég hefði heitið honum fylgd allt til dauðans. En konurnar komu með boð sérstaklega til mín frá englunum að Drottinn væri upprisinn. Þannig er Drottinn, hann hugsar um börnin sín.
Okkur er það heiður að María móðir Drottins er hér á meðal okkar og flytur okkur kveðju sína. Gjörðu svo vel.
Vitnisburður Maríu, móður Drottins
María móðir Drottins: Komið þið sæl og blessuð. Jesús minn dó á krossi. Þannig rættust orð Símeons gamla í musterinu á mér. Ég var sverði níst. Ég hafði varðveitt orð hans í hjarta mínu og hann hafði sagt dauða sinn fyrir og upprisu. Við trúðum því ekki að það gæti gerst eða hvað það þýddi fyrir okkur og heim allan að hann ætti að rísa upp á þriðja degi. Ég heyrði frásagnirnar af upprisu hans en hann hafði aldrei farið frá mér þó að þjáning hans hefði verið mér óbærileg en það var vegurinn sem hann varð að ganga á undan okkur. Þannig hóf hann okkur upp með sér þegar hann sigraði ofríkisvaldið. Hann stóð með okkur. Svo birtist hann einnig mér og ég varð svo óumræðilega þakklát fyrir hann. Ég gerði mér grein fyrir því að drengurinn minn Jesús var ekki lengur minn heldur allra. Nú tala ég við hann eins og hann kenndi mér í bæninni. Þá er hann hjá mér og ég hjá honum. Nú veit ég að hann er frelsari heimsins og ég hef verið verkfæri Guðs að svo mætti verða. Það er mín hvatning til ykkar að biðja þess að okkur verði eftir orðum hans.
Pétur: Þakka þér fyrir María. Við fundum til með þér á píslargöngunni en gleðjumst því meira með þér núna að þú heimtir son þinn frá helju. Okkur er heiður af nærveru þinni og viljum auðmýkja okkur undir Guðs voldugu hönd eins og þú hvetur okkur til.
Mattheus postuli er nýkominn úr kristniboðsferð og bjóðum við hann velkominn. Hann ætlar að segja okkur frá starfi sínu.
Vitnisburður Matteusar
Matteus: Við höfum fengið að reyna stórkostlega hluti í kristniboðinu. Fólk vill hlusta og læra að fylgja Meistaranum. En orðið fær líka mótstöðu víða þegar við prédikum en Jesús undirbjó okkur fyrir það. Söfnuðunum fjölgar og trúnemarnir eru duglegir að læra orð Drottins. Við erum að koma á lærisveinaskólum þar sem við kennum trúnemunum að fylgja Drottni. Við förum þar eftir orðum Drottins sem hann flutti okkur hér í hlíðunum við Genesaretvatnið:
Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið ykkur. Sjá, ég er með ykkur alla daga allt til heimsins enda.
Mt 28.16-18
Nú erum við komin út fyrir Samaríu í allar heimsins áttir með kristniboða. Það sem er að gerast nú veldur vissulega vanda þar sem við erum ekki lengur velkomin í samkundur gyðinga. En við látum það ekki stöðva okkur. Við erum lærisveinar og þurfum ekkert nema söfnuð fólks til að vinna okkar verk. Drottinn kallaði okkur til að vera salt og ljós í heiminum. Við eigum prédikunarstaði við ár og undir trjám, úti við göturnar og á torgum bæjanna. Það er dýrmætt að safnast saman í heimasöfnuðunum og styðja hvert annað í trúnni. Svo megum við ekki gleyma þjónustunni við fátæka og nauðstadda eins og Drottinn kenndi okkur að þar er hann, þar finnum við nálægð hans í kærleiksþjónustunni.
Að lokum vil ég minna ykkur á orð Drottins þegar hann sagði: „Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal“. Biðjum og okkur mun gefast, tilbiðjum Drottinn meistara okkar, fylgjum honum á veginum í orði og verki.
Pétur: Það er ánægjulegt að heyra að kristniboðið er að eflast og ná út um allan heim eins og Drottinn sagði okkur. Það var magnað að heyra orð Drottins þegar hann sendi okkur af stað. Hann blés á okkur og gaf okkur andann til að halda af stað. Og hann hefur verið með í verki. Við skulum biðja fyrir því og öllum mönnum að ríki Guðs megi koma. Ég hef beðið Kleófas, annan þeirra sem var á leið til Emmausar eftir upprisu Jesú, að segja frá því þegar þeir mættu Meistaranum á veginum.
Vitnisburður Kleófasar
Kleófas annar Emmausfarinn: Komiði sæl og blessuð. Þið þekkið nú mörg hver frásögn okkar en sú stund var okkur ógleymanleg. Hún var miklu meira en helgiganga. Raunar var það svo að helgiganga okkar breyttist í flótta vegna þess að við vorum hræddir um líf okkar í Jerúsalem. Jesús meistari okkar var tekin af lífi, Lasarus í Betaníu var alvarlega ógnað og lærisveinahópurinn farinn í felur af ótti við leiðtoga þjóðarinnar. Hvað áttum við að gera? Af ótta fórum við frá Jerúsalem og stefndum að Emmaus þar sem við ætluðum að gista á leiðinni heim. Það var eins með okkur og Maríu Magdalenu að við þekktum hann ekki. Það voru ekki tár heldur ótti sem olli því. Svo var það of ótrúlegt til að geta gerst að maður rísi upp frá dauðum.
Það slóst maður í för með okkur. Það var eins og hann vissi ekkert um það sem hafði gerst í Jerúsalem þessa daga. Við höfðum verið niðursokknir í að ræða það á göngu okkar og hann hlustaði á. Við töldum hann vera eina aðkomumanninn frá Jerúsalem sem hefði ekki hugmynd um atburði páskanna. Hann spurði bara: „Hvað þá?“ Það óð á okkur og við rifjuðum upp allt það sem hafði gerst um páskana um Jesú frá Nasaret, sem hefði verið spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og mönnum. Æðstu prestarnir og höfðingjarnir hefðu dæmt hann til dauða og krossfest hann. Við sögðum við hann að við hefðum vonað að hann myndi frelsa Ísrael. Svo á þriðja degi, sögðum við við hann sem gekk þarna á veginum með okkur hefði það borið við að nokkrar konur úr hópi okkar hefðu gert alla undrandi vegna þess að þær hefðu ekki fundið líkama hans og sögðust hafa séð engla í sýn sem sögðu hann lifa.
Það er merkilegt að hann hlustaði á alla þessa ræðu okkar sem við lýstum með mörgum orðum og kröftugum lýsingum. Svo bættum við því við að nokkrir af lærisveinunum hefðu farið út að gröfinni og fundið allt eins og konurnar sögðu en hann sáu þeir ekki.
Þarna vorum við nokkuð berskjaldaðir fyrir Drottni okkar. Ótti okkar og uppnám var svo augljóst af ræðu okkar. Þá talaði hann til okkar svo undursamleg orð að við höfum ekki heyrt annað eins, samt voru augu okkar haldinn. Við þekktum hann ekki. Hann var strangur við okkur og sagði okkur skilningslausa menn og að við værum tregir til að trúa öllu því sem spámennirnir höfðu sagt. Hann útlagði hvern spádóminn af fætur öðrum að Kristur átti að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína.
Í djúpum þönkum komum við til þorpsins sem við ætluðum til en samferðamaður okkar lét sem hann vildi halda lengra. Það var eitthvað við ræðu hans og nærveru sem gerði það að verkum að við urðum að heyra og vita meira. Við báðum hann innilega að vera hjá okkur enda væri farið að kvölda og degi halla. Hann fór þá inn til að vera með okkur. Þá gerðist það þegar hann gerði borðbæn, þakkaði og braut brauðið og fékk okkur, að augu okkar opnuðust og við þekktum hann. Og þá sáum við hann ekki lengur.
Við horfðum hvor á annan og undruðumst það sem við höfðum reynt. Hjartað brann í okkur á meðan hann útlagði ritningarnar. Við snérum samstundis við og fórum til Jerúsalem og fundum þá ellefu og þau er voru þar saman kominn. En þau staðfestu það sem við höfðum reynt: „Sannarlega er Drottinn upprisinn og hefur birst Símoni.“ Við sögðum þá frá reynslu okkar og því sem borið hafði við á veginum og að við hefðum þekkt hann þegar hann braut brauðið.
Vitnisburður Péturs
Pétur: Þakka þér fyrir þinn vitnisburð. Nú vitum við að hann er upprisinn. Og þegar við brjótum brauðið í samfélaginu þá er hann mitt á meðal okkar eins og hann gaf okkur fyrirheiti um. Hann er í brauðinu og víninu, líkami hans og blóð. Og við erum hans. Orð hans kveikja eld andans í brjósti okkar, lífsins lindirnar streyma frá hjarta þess sem trúir.
Ég var eins og svo margir aðrir í hópnum efins. Ég hafði yfirgefið bátana hér við vatnið og fylgt honum. Nú var allt í óvissu. Drottinn birtist reyndar af og til. Við lærisveinarnir vorum í miklu ráðaleysi og ótta áður en andanum var úthellt. Við þessar kringumstæður ákvað ég að fara að veiða. Lærisveinarnir komu með mér. Við veiddum alla nóttina en fengum ekkert. Það hafði ég reynt áður. Þegar dagur rann sáum við mann á ströndinni sem við könnuðumst ekki við. En hann kallaði til okkar og spurði hvort við hefðum nokkurn fisk. Það er frekar óþægileg spurning þegar maður hefur veitt alla nóttina og ekki fengið neitt. Svo sagði hann okkur að kasta netinu hægra megin við bátinn og að við myndum verða varir. Þetta hljómaði eitthvað kunnuglega í mínum eyrum en við gerðum eins og hann sagði og netin fylltust á auga bragði svo við urðum að fá lærisveinana á hinum bátnum til að taka aflann inn með okkur. Þá sagði Jóhannes við mig: „Þetta er Drottinn“. Þegar ég heyrði það kastaði ég yfir mig flík og stakk mér í vatnið í fljótræði að vanda og synti í land til hans. Hinir lærisveinarnir voru að draga fiskinn upp í bátana. Þegar þeir komu að landi var fiskur lagður á hlóðir og brauð. Jesús sagði við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða“. Þá fór ég í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum. Ég taldi þá, eitt hundrað fimmtíu og þrír voru þeir. Mér fannst það skrýtið að netið rifnaði ekki þó að þeir væru svo margir. Jesús sagði okkur að koma og matast en það var enginn sem spurði hver hann væri enda vissum við það. Hann var Drottinn okkar. Jesús kom og tók brauðið og gaf okkur, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja skiptið sem Jesús birtist okkur lærisveinunum sínum upp risinn frá dauðum.
Svo spurði hann mig hvort ég elskaði hann. Þrisvar sinnum spurði hann mig þó að ég reyndi að koma mér undan og spyrja um Jóhannes lærisveinin sem hann elskaði. Hann fól mér að gæta lamba sinn. Hann kallaði mig til þess að leiða söfnuð sinn sem ég hef kappkostað að gera síðan, vegna þess að hann kallaði mig til þess og ítrekaði það upprisinn í dýrð sinni. Nú fer ég þangað sem hann sendir mig.
Jóhannes nú vil ég biðja þig að leiða okkur í bæn áður en við neytum saman kærleiksmáltíðarinnar.
Bæn Jóhannesar postula
Jóhannes postuli leiðir bænagjörðina:
Drottinn okkar og frelsari þú hefur kallað okkur til fylgdar við þig. Þú hefur tekið þér bústað í okkur og við erum í þér. Þú ert dýrlegur orðinn, upphafinn á kross, til þess að draga okkur til þín, gera okkur eitt í þér, binda okkur við þig, svo við séum frjáls í þér, þín erum við frá eilífð til eilífðar, vegna þess að þú hefur gefið okkur þekkingu á föðurnum eilífa, föður þínum og okkar, Guði þínum og Guði okkar, sem við lifum í fyrir orð þín. Þakka þér fyrir að þú komst og bjóst á meðal okkar, við erum þín frá eilífð til eilífðar.
Brauðið sem við brjótum er hið lifandi brauð sem gefur heiminum líf. Láttu líf þitt streyma í gegnum okkur að heimurinn megi þekkja þig. Send okkur þinn heilaga anda að við megum vinna ljóssins verk meðan dagur er. Þú hefur sigrað heiminn því erum við óttalaus í þjónustunni við þig. Amen.
Lokasálmur og upprisukveðja
Í bæninni og tilbeiðslunni er Drottinn mitt á meðal þeirra, lærisveinanna og fylgjendanna. Meir en fimm hundruð voru vitni að upprisu hans í einu. Hann sagði sömu orðin og áður: „Ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar.“ Og söfnuðurinn syngur elsta lofsönginn um Krist sem ofsækjandinn Sál skrifaði síðar í Filippíbréfinu eftir að hafa mætt Drottni sem ótímaburður á veginum til Damaskus, og varð postuli heiðingjanna, nefndur Páll. Hann hvatti alla að vera með sama hugarfari og Kristur þegar hann var snúin við:
Hann var í Guðs mynd.
Fil. 2. 5-11
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.
Engin ræða, engin orð ná að skýra það fyllilega hvað upprisa Drottins felur í sér, en atburðurinn sjálfur, að Guðs sonur varð maður, gekk dauðans veg til að leiða alla með sér til lífsins, er merking veraldar, leyndardómur, sem var hulinn og þráður, en birtist í honum til þess að vera opinber og öllum augljós sem heyra orðið. Því er páskakveðjan forna þessi lífsjátning og trúarjátning, í henni játast trúin Guði lífsins, hún er grunntónn lífsins í laginu sem lífið er: „Drottinn er upprisinn. Hann er sannarlega upprisinn.“ Þannig heilsaði fólk vegarans, kristið fólk, hvert öðru á upprisudeginum um páska. Látum þá kveðju berast áfram.
Endum við þessar hugleiðingar um upprisuna með sálminum: Drottinn vor er upprisinn. Sálmurinn er aðeins endurómur af vitnisburði þeirra kvenna og karla sem Drottinn birtist og öllum trúuðum sem reyna nærveru Guðs í orðinu.
Drottinn vor er upprisinn.
Upphaf nýtt það merkir.
Hann lifir, sigrar, Lausnarinn,
losna fjötrar sterkir.Öldum saman óljós þrá
um að Drottinn birtist
er uppfyllt nú er upp rís sá
er í glötun virtist.Sköpunin sér bjarta brún
birta yfir löndum,
því leyst er hennar leynda rún,
losna skal úr böndum.Allar þjóðir hylli hann,
himna ljósið skæra,
sem frelsa mannkyn fallið kann,
Frelsarann vorn kæra.Sannarlega upprisinn
Guðm. G.
er vor Drottinn Kristur,
með honum rís upp heimurinn,
hverfur dauðans mistur.
Akureyri á páskadegi 2017 og endurskoðað 2022