Lof heimskunar – ræðan sem ég þorði ekki að flytja

Erasmus_lof heimskunnarEftir lestur á bók Erasmusar Lof heimskunnar skrifaði ég þessa ræðu án þess að hika, smálagfæringar eftir á, en hún passaði ekki sem hugvekja í Taizé messu. Eða þorði ég ekki að flytja hana, þess vegna birti ég hana hér, til að ögra mér og þeim sem leggur í það að lesa ræðuna. 

Lof heimskunnar – ræðan sem ég þorði ekki að flytja

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Bækur eru flokkaðar á mismunandi hátt. Ég hef eytt mörgum stundum á bókasöfnum og leitað að bókum. Einn flokkur er þarna þó ekki flokkaður saman sem slíkur heldur dreifður um allt. Það eru hættulegar bækur. Ég veit ekki hvað það myndi vera kallað í dag, líklega hættulegar vefsíður. Það er enginn vafi að þær eru til. En ég er að hugsa um bækur sem eru svo beittar að þær bíta. Eina slíka hef ég verið að fást við: Lof heimskunnar. Höfundurinn var Erasmus frá Rotterdam. Bókin er meir en 500 ára en aldurinn dæmir ekki efnið. Hann skrifaði hárbeitta gagnrýni á kirkju og samfélag út frá stefnu sem kölluð hefur verið mannúðarstefnan eða húmanismi. En hann var kristinn maður og skrifaði gagnrýni sína út frá þeirri hugsun að Kristur væri höfuð kirkjunnar og mannúð hans ætti að móta samfélagið. Þannig séð er heiti stefnunnar ágætt.

Mér datt í hug að beita þessu hárbeitta sverði hans eða skurðhníf læknisins á okkar samfélag og tíma. Það er hættulegt fyrirtæki með svo beittan hníf, eins og hann nefnir á einum stað að það getur verið vafasamt að fara í uppskurð því að gagnið af aðgerðinni á sárinu geti gert út af við líkamann allan.

Lof heimskunnar, hvað þýðir það? Er verið að lofa heimskuna? Nei, það er heimskan að lofa sjálfa sig. Hún talar fyrir sjálfri sér og er að sjálfsögðu kvenkyns. Æ-i! En Erasmus skrifar sem kona, svo langt gengur hann, en hún talar og tekur dæmi af Erasmusi sjálfum, sem var mjög virtur rithöfundur og háskólamaður á sínum tíma. Svo gagnrýnin gengur í allar áttir, inn á við, út á við, niður á við og upp á við. Svo nú fer spennan að aukast.

Hvar á ég að byrja? Byrjum upp á við hjá þeim háu herrum, langt frá okkur sjálfum eða er einhver höfðingi hér í dag? Þeir sem réðu ríkjum á hans tíma, keisarar, furstar, páfi, biskupar, prelátar, ábótar, munkar, menntamenn. Hverjir eru þeir í dag? Þjóðarleiðtogar sem ráða ríkjasamsteypum. Það hefur ekki mikið breyst á 500 árum. Nema nú er ekkert eitt höfuð sem ræður á jörðinni heldur er allt ráð manna í svokölluðu lýðræði, að mestu. Í þá daga var Kristur Drottinn settur æðstur í kristninni, sem í allri hógværð var kölluð hinn menntaði heimur, og mannúð Krists átti að ráða ferðinni, en það tókst mis vel að fylgja fordæmi hans. Það sem lifði áfram af þessu er mannúðin sem við viljum að stjórni lífi okkar og að nokkru þökk sé Erasmusi. Við höfum skráð það á nýjar lögmálstöflur sem við köllum mannréttindayfirlýsingar. Það hafa líka verið reist tákn um frelsið eða gyðjur og goð eins og frelsisstyttan í Ameríku, lík Leníns sem var lengi á Rauðatorginu og hvað er Effelturninn annað en dýrkun frjálsrar þjóðar. Þá er líka hofið yfir guðinum Abraham Lincoln sem situr íhugull í valdastóli sínum þar sem grunnsetningarnar umkringja hann: frelsið, jafnréttið og bræðralagið. Allir lofa frelsið og á hátíðlegum stundum fyllast menn andagift og hrífast af eigin ræðum um frelsið og framlag frelsishetjanna til mannkynsins. Leiðtogarnir koma keyrandi á drossíum sínum með lífverði bak og fyrir, upphafnir í eigin dýrð, skáldin mæra þá kannski ekki lengur, en marga hafa þeir á bakvið sig til að lofa og gera meira úr en ástæður eru til. Lofið er þeim kært. Eigin dýrkun er heimskan í hnotskurn. Hvers vegna óttast þeir þegna sína? Er það vegna þess að þeir þjóna ekki fólki sínu heldur eigin hégóma? Þeir tala um frelsi en eru með fólk í fjötrum eigin skrums og stóryrða, ef ekki í fangelsum, en hvar er réttlæti þeirra, frelsi og jafnræði? Sumir byggja múra, ekki um borgir sínar, eins og í gamla daga, heldur á landamærum. Sumir hafa rifið þá niður, aðrir vilja byggja. Leiðtogar eru kallaðir til þjónustu en ekki til drottnunar samkvæmt lýðræði okkar, en hvernig stendur þá á því að þjóðarleiðtogar standa öllum ofar, nema forseti okkar.

En hvað með páfa, biskupa og aðra andlega leiðbeinendur? Vald þeirra er ekkert miðað við það sem það ein sinni var. Þeir naga sig í handabökin að hafa gefið eftir. Andlegt vald er ekki neitt neitt nú eins og var enda ræður hver trú sinni og samvisku eins og hverjum og einum sýnist. Það er réttur og með réttu. Fagnaðarerindið er þeim gefið í hendur en veitir það frelsi eða helsi? Er óttinn við að missa orðin að þráhyggju svo menn byggja að nýju valdastofnanir trúarbragða til að ná tökum á samvisku fólks með ódýru blaðri í staðinn fyrir kenningu Jesú um mannúðina? Allt er selt í dag. Trúarbrögðin líka. Þau snúast ekki lengur um Guð eða Krist heldur eigin dýrkun líkamans, hof líkamsræktarinnar, þar sem guðir og gyðjur hnykla vöðva, brún og blaut á hörund. Dálítil líkamsdýrkun! Menn drýfa að líkamsræktarstöðvunum. Fótboltaliðin eiga sér fylgjendur sem eru tilbúnir að berjast ef ekki leggja líf sitt í hættu fyrir liðið sitt. Víkingaklapp Íslendinga er dýrkun eigin ágætis og rembingur, eins og hermenn sem öskra, þenja sig og þykjast meiri en óvinirnir, og vilja hrekja þá í burtu eins og öskrandi ljón fyrir átökin, vegna þess að þeir eru dauðhræddir, engu að síður æða þeir út í opinn dauðann. Heimskulegt! Og páfin fer um og vinkar eins og drottning. Kallar sig Frans en fetar hann í fótspor hans eða Krists? Sumir segja já, en getur hann það í þessu tignarsæti og veldi. Og biskupinn yfir Íslandi, svo við tökum minniháttar höfðingja, heldur enn í þá von að þjóðkirkjan hafi eitthvað að segja í íslensku samfélagi sem slær við skollaeyrum við fagnaðarerindinu og kaupir sér friðþægingu sálarinnar í búðunum og verslunarmiðstöðvunum, sem selja sáluhjálp eins og forðum daga. Því þessi eða hin sápan er lífsnauðsynleg fyrir sálarlausa líkama. Samt deyja allir að lokum með eða án sápu! Fáránleiki!

Förum þá niður á við til smælingjanna, þeirra fátæku og þeirra sem verða undir í lífsbaráttunni. Allir eiga rétt en bara mismikinn. Sumir eru bara svo óheppnir að fæðast fátækir og verða fátækir eins og forfeðurnir og mæðurnar, kynslóð eftir kynslóð. Menntamennirnir greina vandann sundur og saman, sálirnar niður í frumeindir, liggur mér við að segja, læknarnir gefa meðul sín, lögfræðingarnir ráð sín og koma svo í annarri mynd sem innheimtumenn, prófessorarnir ræða og deila í gáfulegum ritum sínum og ritdómum, hagfræðingarnir búa til líkan. Enginn tekur á vandanum. Kannski hjálpræðisherinn og aðrir „aktívistar“, en þekkingin og raunveruleikinn eru löngu búinn að skilja, vegna þess að allir verða fá laun sín og sinna bara vinnunni. Svo lifa áfram menntamenn og ráðamenn í vellystingum en fátækari verða fátækari. Og heilagur Frans páfi og Kristur svelta við dyrnar, sitja saman í fangaklefa, einmana á sjúkrahúsi eða dvalarheimili aldraðra eftir að dauðinn komi að sækja þá og samferðafólk sitt og lini þjáningum þeirra.

Ennþá erum við ósnert sem hér sitjum þó eflaust höfum við einhver embætti eða stöður að gegna en það er sunnudagur eða frídagur. Lítum aðeins út á við. Hver er náungi minn, var Meistarinn frá Nasaret spurður. Þá sagði hann dæmisögu um ferðalang. Öll erum við ferðalangar og það vill til að við erum öll samferða eða á sama báti. Jörðin er samastaður okkar allra þó að hún bjóði upp á mismunandi aðstæður þá erum við af þessari tegund sem mannveran er. Samsemdin er hinn lífsgrundvöllurinn okkar en veröldin sá fyrsti. Það er aumt að eiga ekki vin. Það er vináttan og tengsl okkar sem gerir okkur að mönnum. Sumir halda að það sé hægt að kaupa sér vináttu og sumir reyna að selja vináttu sína en það verður aldrei raunveruleg vinátta. Þarna fær guðstrúin smá lofbólu að anda í, kærleikurinn er dýrmætur. Guð er kærleikur, sagði postulinn. Nú er meir að segja vináttan orðin rafræn, maður „gúglar“ sér vin eða vinkonu, talar sjaldan augliti til auglitis við vini sína, heyrir í þeim á fésbókinni, „snapchattar“, eins og það heitir á alþjóðamáli nútímans, og blæs út sínar skoðanir og tístir með forseta Bandaríkjanna. Sálaróvinurinn versti, einsemdin, situr við skjáinn, þegar enginn „líkar“ við mann, enginn skoðar síðuna hjá manni, enginn brosir við manna, vináttan gufar upp, þá verður maður einstaklingur, í orðsins verstu merkingu, einstæðingur. Eplið og smámildin (þýðing mín á Microsoft) lofuðu öllu fögru að sælan væri í tækninni og áfram snýst peningavélin, mammon, sem er orðinn alsherjardrottinn, hlær að heimsku mannanna.

Þá er komið að því, inn á við. Hér ætla ég að gera smá hlé, svo þeir sem vilja forða sér frá lofi eigin heimsku geti komið sér í burtu. (Hlé). Af hverju setur þú traust þitt á eitthvað annað en það sem er Guð? Það er bæði hlægilegt og heimskulegt. Þar fær lof heimskunnar annan tón. Hjartað eða samviskan eða þú finnur viskuna í Kristi. Páll postuli gerði sér grein fyrir að það væri heimspekingum heimska. Nú veit ég vel að einhver annar gæti beitt þessu sverði gagnrýni á móti mér og hoggið mig í spað fyrir þessa fullyrðingu mína. Vonandi hef ég ekki sært neinn, þó að ég hafi forðast að nefna menn á nafn. Engu að síður í trúnni öðlast við hvert og eitt Krist sem er viska fyrir mannlífið til að lifa eins og sæmir okkur mönnum. Það verður áframhaldandi samtal sálarinnar við sjálfa sig og Guð um allt það sem við erum að glíma við. Bæn er það kallað þegar ég tekst á við veröldina og samferðafólk mitt. Þar áttu frelsi í Guði til að sjá og greina, finna leiðir og lausnir. Eins og Erasmus gerði hef ég gert með því að benda þér á þær, ef þú hefur hlustað á ræðu mína, heimskuna sem hefur lofað sjálfa sig, til að komast að þessari niðurstöðu. Við mannkynið og við þar með, þú og ég, verðum í nokkurri þoku, þangað til að birtir og við sjáum allt í nýju ljósi, í Guðs ljósi á efsta degi, eins og segir í guðspjallinu. Þangað til getum við leitað til uppsprettu ljóssins í bæn. Gangi þér vel í lífinu, bróðir og systir, Guðs barn ertu eins og ég, frjáls í Kristi til að lifa.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.

 

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd