Hugvekjur og bænalestur í útvarpi í sumar 2017

lutherabaen
Lúther á bæn

Í sumar annaðist ég bænalestur í útvarpi 30. júní – 13. júlí. Það voru ritningarlestrar, hugvekjur og bænir. Ég byggði þessa fjórtán lestra á erindi sem ég flutti og er að finna hér á vefnum: Sálmar og bænir. Tilfinningar og stef Davíðssálma og sálma kirkjunnar. Viðfangsefni sem ég vonast til að geta fullunnið þegar fram líða stundir. Það var ágæt reynsla að semja stuttar hugvekjur en ég tel mig hafa náð að setja fram í þeim trúarlegar tilfinningar á einfaldan hátt en um leið ærlega. Birti ég þessa lestra hér ef einhver vill njóta þeirra leiðbeiningar um bæn sem lestrarnir hafa að geyma. Það er hægt að hlusta á efnið á sarpinum á ruv.is til 28. sept 2017.

1. dagur: 30. júní
Lífsins tré og uppsprettan

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningalestur

Ég les fyrsta Davíðssálm:

Sæll er sá maður,
–  er eigi fer að ráðum óguðlegra,
–  eigi gengur a ́vegi syndaranna
–  og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
heldur hefir yndi af lögmáli Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum,
er ber ávöxt sinn á réttum tíma,
og blöð þess visna ekki.
Allt er hann gjörir lánast honum.
–  Svo fer eigi hinum óguðlega,
–  heldur sem sáðum, er vindur feykir. 

Hugvekja

Að morgni dags erum við hvött til að biðja í þessari gömlu bænabók kristinna manna og um miðjan dag og að kveldi. Kristnir menn eiga hana sameiginlega með gyðingum. Næstu morgna ætla ég að lesa valda kafla úr Davíðssálmum sem mótað hefur kristnina frá upphafi. Næsta víst er að María móðir Drottins hafi kennt honum að biðja með orðum Davíðssálma. Jesús sá sjálfan sig og hlutverk sitt í ljósi bænabókarinnar. Hann notaði myndmálið úr sálmunum, talaði um veginn, lífsins tré og lifandi vatn.

Sumum finnst eflaust erfið þessi afdráttarlausa kenning Jesú um vegina tvo, breiða og þrönga, eins og við höfum í sálminum. Við lifum í fjölhyggjusamfélagi og dagurinn ber það í skauti sér að við mætum fólki af ólíkri trú og lífsskoðunum í dag. Vegirnir mörgu leiða til þess að við verðum, eigum og megum virða ólíkar skoðanir án þess þó að afneita eða slá af eigin trú. (Það er óskynsamlegt að slökkva það litla ljós sem manni er gefið.) Umhyggja Jesú nær miklu dýpra. Hann talar alltaf fyrir lífinu, gróskunni og gæfunni. Hann leiðir okkur að uppsprettu lífsins, að sannleikanum, sem við getum hvorki tekið höndum né náð fullu valdi á. Sannleikurinn er eins og kvikasilfur. Hann leiðir okkur fyrir sjónir að það er alvarlegt að hæðast að lífinu, gera lítið úr samferðafólki sínu, meiða með orðum og verkum. Með sársauka horfum við upp á fólk drepa hvert annað vegna þess að það lítilsvirðir lífsskoðanir hvers annars. Það er að „hæða Guð“ hverrar trúar eða lífsskoðunar sem við erum.

Á þessum síðustu tímum hefur lífsins tré fengið endurnýjaða merkingu. Við erum eitt mannkyn á einni jörð í alheimi sem er langt fyrir ofan okkar skilning. Myndmálið af trénu er að finna í ólíkum trúarbrögðum og í mörgum kvikmyndum og kenningum um samfélagið. Valdimar Briem eitt af sálmaskáldum okkar orðar þetta svo vel á einum stað. Hann tók sér fyrir hendur að yrkja Davíðssálmana upp á nýtt með íslensku ljóðamáli. Láttu þessa mynd fylgja þér út í daginn:

Sem eik hann blómgast ung og bein,
upp er vex á bakka grænum,
og limi þjettu’ á laufgri grein
lyptir hátt í morgunblænum,
speglar sig í fögru fljóti,
fagurt brosir sólu móti,
angar blítt af grænum greinum,
glitrar skært af döggum hreinum.
Hún aldin ber í tæka tíð
og traust hún stendur ár og síð.

Bæn

Guð, opnaðu augu okkar fyrir lífinu, fjölbreytileika þess og grósku. Hjálpaðu okkur að lifa saman þó ólík séum og umgangast jörðina okkar með nærgætni og umhyggju eins og hvert annað. Leiddu okkur að uppsprettu lífsins að við fáum drukkið af henni á vegferð okkar. Láttu okkur sjá ljósið í greinunum á lífsins tré að við verðum sem þú, gæskan og góðvildin, berum þér ávöxt. Amen.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

2. dagur: 1. júlí
Fjallið og traustið

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les hundrað tuttugast og fyrsta Davíðssálm sem er helgigönguljóð:

Ég hef augu mín til fjallanna,
hvaðan kemur mér hjálp?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.

Hann mun ekki láta fót þinn skriðna,
vörður þinn blundar ekki.
Nei, hann blundar ekki og sefur ekki,
hann, vörður Ísraels.
Drottinn er vörður þinn,
Drottinn skýlir þér,
hann er þér til hægri handar.
Um daga mun sólarhitinn ekki vinna þér mein
né heldur tunglið um nætur.
Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu,
hann mun vernda sál þína.
Drottinn mun varðveita
útgöngu þína og inngöngu
héðan í frá og að eilífu.

Hugvekja

Með þessum orðum byrjar hver guðsþjónusta í evangelisk lúthersku kirkjunni: „Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá skapara himins og jarðar.“ Svo er ítrekuð sex sinnum í þessum sálmi sama hugsunin. Guð verndar þig, hann er vörður þinn. Þess vegna er þessi fallegi sálmur einn af sálmunum um trúnaðartraustið. Trúin er ekki viðurkenning á nokkrum trúarsetningum heldur snýst um það sem við hvert og eitt setjum traust okkar á í lífinu. Út frá mannlegu sjónarmiði á hver manneskja sinn Guð. Ég hef mína hugmynd og þú þína eða þú hefur ekki nokkra einustu hugmynd um Guð. Engu að síður setur þú traust þitt á eitthvað eða einhvern.

Það er dálítið vandræðalegt að boða trú á sama tíma og maður heldur því fram að enginn geti af sjálfum sér treyst á Guð. Guð er sá sem hjálpar, skapari himins og jarðar. Varðandi traustið er engin munur á dýrlingi og þeim sem getur ekki fengið sig til að trúa. Trúleysið á mannkynið sameiginlegt og lætur sig dreyma um festu. Þess vegna líta ólíkir trúarhópar til fjallanna, Fujiyama í Japan, Kiliminjaro í Kenía, Sínaí meðal Gyðinga, moskunnar í Jerúsalem á musterishæðinni. Við búum til kerfi, trúarkerfi eða hugmyndakerfi, föllum fram fyrir þeim og tilbiðjum. En Guð er meiri en svo að við fáum höndlað hann með huganum.

Guð kemur til okkar í persónu, manni, fyrir löngu, hann segir við okkur: Ég er … Guð þinn. Þú ert óróleg/ur þangað til þú sérð að ég er hjá þér, ég sem skapaði himinn og jörð. Ég ætlast ekki til að þú grípir mig með hugsun þinni eða náir að ráða alla leyndardóma og gátur lífsins, en þér er óhætt að treysta því að ég segi þér satt.

Þegar ég horfi á fjöllin mörgu sé ég Guð að baki þeim öllum, skapari himins og jarðar, ofar, hærri, annar en ég hafði hugsað mér. Hann laðar mig til að treysta því að hann er þarna eins og Hallgrímur Péturson segir í versinu góða:

Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.

Bæn

Góði Guð, hjálpaðu mér að trúa, treysti því að þú ert sá sem þú segist vera, skapari himins og jarðar. Ég reyni að gera mér í hugarlund að þú sért sá eða sú sem stendur fyrir allt sem gott er í tilveru allri. Ég reyni með táknum og myndum að sjá þig en það er allt svo brotakennt, móðir, faðir, vinur, hirðir sem gætir mín, verndar fyrir öllu illu, sem ég reyni og berst gegn í veikum mætti. Varðveittu útgöngu mína og inngöngu héðan í frá og að eilífi. Amen.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

3. dagur: 2. júlí
Dalurinn dimmi og angur

Í nafi Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr þrettánda Davíðssálmi sem er angurljóð:

Hve lengi, Drottinn, ætlar þú
að gleyma mér með öllu?
Hve lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
Hve lengi á ég að hafa beyg í brjósti,
sorg í hjarta dag frá degi?
Hve lengi á fjandmaður minn
að hrósa sigri yfir mér?
Lít til mín, svara mér, Drottinn, Guð minn.
Tendra ljós augna minna
svo að ég sofni ekki svefni dauðans
og fjandmaður minn geti ekki sagt:
„Ég hef sigrast á honum,“
og óvinir mínir fagni ekki yfir því
að mér skrikaði fótur.
Ég treysti gæsku þinni,
hjarta mitt gleðst yfir hjálp þinni.
Ég vil syngja Drottni lof
því að hann hefur gert vel til mín. 

Hugvekja

Davíðssálmar eru nefndir lofsöngvar en hér er komið annað hljóð í strokkinn. Guð er spurður áleitinna spurninga: „Hversu lengi ætlar þú að gleymi mér með öllu?“ Það er sársauki lífsins, ótti og angist, sem brýst hér fram. Bænin er ekki óraunsæ bjartsýni, þvert á móti horfist biðjandi maður í augu við tilveruna eins og hún er, tjáir sárustu tilfinningar sínar fyrir Guði sínum. Það er að finna til. Þeir eru margir angursálmarnir í Davíðssálmum en aðeins einn endar í myrkri. Aðrir enda eins og þessi með bænheyrslu: „Ég treysti gæsku þinni, hjarta mitt gleðst yfir hjálp þinni. Ég vil syngja Drottni lof því að hann hefur gert vel til mín.“

Þannig takast á andstæðar tilfinningar í bænalífinu. Martin Lúther siðbótarmaður var mikill bænarinnar maður og skrifaði Ritskýringu við Davíðssálma. Þar segir hann á einum stað:

“Í þeim lítur þú inn í hjarta dýrlinganna eins og inn í fagran garð, já, eins og inn í himininn sjálfan; og í garðinum sérðu spretta upp fögur, björt og heillandi blóm, blóm allra gerða af fallegum og gleðilegum hugsunum um Guð og náð hans. Aftur á móti, hvar er að finna orð sem tjá sorg á dýpri hátt og mála upp þjáningu og umkomuleysi á meiri talandi máta en orðin sem mynda harmljóð sálmanna?” 

Martin Lúther King var nefndur eftir siðbótarmanninum.  Hann barðist fyrir mannréttindum blökkumanna og vitnaði oft í Davíðssálm 13 þar sem Guð er spurður: „Hversu lengi?“ Honum fannst biðin erfið. Í þekktasta Davíðssálmi sem er 23 er talað um að ganga í gegnum dimman dal en að Drottinn er nálægur. Bænin er þetta samtal þar sem við tjáum Guði sem við treystum á allar þær tilfinningar sem með okkur bærast. Það er gott að eiga Guð sem maður getur talað þannig við. Og dæmin sanna að margur hefur þannig komist í gegnum myrkrið til ljóssins á ný.

Ég leiði okkur nú í bæn sem er frá samkirkjulegri ráðstefnu í Brasilíu þar sem hvatt var til þess að bundin yrði endi á fátækt með bæn í þessum anda til að skapa frið með réttlæti:

Bæn

Guð lífsins, þú sem gætir allrar sköpunarinnar og kallar okkur til réttlætis og friðar, megi öryggi okkar ekki felast í vopnum, heldur í virðingu.​
Megi máttur okkar ekki felast í ofbeldi, heldur í kærleika.​
Megi auður okkar ekki felast í peningum, heldur í því að deila með öðrum.​
Megi braut okkar ekki liggja til frama, heldur til réttlætis.​
Megi sigur okkar ekki leiða til hefnda, heldur til fyrirgefningar.​
Megi eining okkar ekki felast í eftirsókn eftir valdi, heldur í veikburða vitnisburði um vilja þinn.​
Megum við með opnum huga og full trúnaðartrausts vernda alla sköpunina, deila með öðrum, í dag og að eilífu, brauði einingar, réttlætis og friðar.​
Þess biðjum við í nafni Jesú, þíns heilaga Sonar, bróður okkar, sem varð fórnarlamb ofbeldis, og fyrirgaf okkur öllum, jafnvel þegar hann sjálfur hékk á krossinum, Drottin vor, Jesús Kristur. Amen.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

4. Dagur: 3. júlí
Mynd neyðarinnar og bæn

Í nafi Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr hundraðasta og sextánda Davíðssálmi sem er þakkarsálmur:

Ég elska Drottin,
– af því að hann heyrir grátbeiðni mína.
– Hann hefir hneigt eyra sitt að mér,
– og alla ævi vil ég ákalla hann.
Snörur dauðans umkringdu mig,
– angist Heljar mætti mér,
– ég mætti nauðum og harmi.
Þá ákallaði ég nafn Drottins:
– „Ó, Drottinn, bjarga sál minni!“
Náðugur er Drottinn og réttlátur,
– og vor Guð er miskunnsamur.
Drottinn varðveitir varnarlausa,
– þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.
Verð þú aftur róleg, sála mín,
– því að Drottinn gjörir vel til þín.

Hugvekja

Þessi sálmur sýnir okkur hvað það er að biðja. Það er að ákall Guð í allri neyð, biðja Guð að hjálpa sér og láta hann vita af vandamálum sínum. Einhver gæti andmælt og sagt: Hvað ert þú að trufla almættið með hvabba um þína smámunum miðaða við það að stýra stjarna her? Það er einmitt það sem við eigum að gera til þess eigum við Guð sem við treystum á. Við megum tjá honum allar okkar tilfinningar bæði góðar og vondar, kærleika og hatur. Ætli Guð leggi á flótta þó að við segjum honum frá því sem býr innra með okkur, eins og hann viti ekki af því?

Slm 116 kennir það sama og Martin Lúther skrifaði einu sinni hrelldum vini sínum: “Þú verður að láta þér lærast að ákalla og ekki sitja auðum höndum og láta hugsanirnar naga hugskot þitt … Nei, upp með þig, letingi, krjúptu á kné, lyftu höndum og augum til himins, lestu einn Davíðssálm eða Faðir vor og leggðu neyð þín fram fyrir Guð”. Lærdómurinn sem Lúther hafði dregið af angurljóðum sálmanna var þessi að „leggja neyð sína fram fyrir Guð“. Lýsingin á neyðinni, angur sálmaskáldsins, er stundum svakaleg, en raunveruleg. Þannig megum við tjá neyð okkur og það er sáluhjálp í því, „græðandi friður“. Í bæn er tekist á við lífið eins og það er.

Í bæninni eigum við samband við Guð eins og sálmaskáldið segir: „Ég elska Drottin… Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér. Verð þú aftur róleg, sála mín, – því að Drottinn gjörir vel til þín.“ (v. 1, 6-7).

Bæn

Drottinn, ég bið þig að vera mér nálægur, þegar ég geng í gegnum dimma dali, erfiðleika og hættur. Þú hefur gengið veginn á undan mér í gegnum þjáningu og dauða. Öll neyð heimsins liggur á hjarta þínu, hvert andvarp heyrir þú frá þeim sem eru rangindum beytt og ofsótt. Þú ert hjá þeim sem eru heimilislaus á flótta eins og þú varst sjálfur í Egyptalandi. Þú heyrir bænir mæðra og feðra sem týnt hafa börnum sínum eða misst á flótta frá stríði og ofbeldi. Þú finnur til með þeim sem þjást vegna ofríkis valdamanna og misréttis. Vísaðu okkur á veg lífsins þegar við sjáum hann ekki lengur í mannlífinu. Bjarga þú okkur, frelsarinn góði, með ljósinu þínu eilífa að við sjáum heiminn eins og hann er. Verði frelsi þitt okkar leiðarljós. Amen.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

5. Dagur: 4. júlí
Hjartað og iðrun

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr fimmtugasta og fyrsta Davíðssálmi sem er iðrunarsálmur:

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar,
– afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
– Þvo mig hreinan af misgjörð minni,
– hreinsa mig af synd minni,
– því að ég þekki sjálfur afbrot mín,
– og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
– og veit mér nýjan, stöðugan anda.
– Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
– og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
– Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
– og styð mig með fúsleiksanda…

Hugvekja

Iðrun er ekki óljóst samviskubit heldur þekking þess sem hefur verið sleginn af ofurþunga ábyrgðar sinnar. Lúther orðaði þessi sannindi svo í Minni fræðunum: “Ég trúi, að Jesús Kristur, sé minn Drottinn, sem mig, glataðan og fyrirdæmdan mann, hefur endurleyst…” Trúaður maður með þessi afstöðu hættir að blekkja sjálfan sig þó að freistingin sé nærri og sér hlutina eins og þeir eru í raun. Við erum hér að tala um samvisku sem er upplýst af Guðs orði. Það þarf hugrekki til þess að taka sér þessa stöðu, að takast á við sjálfan sig ærlega, meðvitaður um takmarkanir sínar og dæma eigin orð og verk í ljósi Guðs. Sá sem gengur fram fyrir Guð í bæn nálgast þessa stöðu og þegar þangað er komið verður hann þar, vegna þess að hann hefur mætt hinum lifanda Guði, í augum sínum er hann glataður samt er hann Guði bundinn órjúfanlegum böndum.

Bæn um endurnýjað samband við Guð fylgir svo (v. 12-15): „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda…“ Fyrirgefning syndanna og endurnýjun samfélagsins við Guð þýðir ekki að iðrunarleiðinni sé lokið. Sálmskáldið hefur öðlast nýja afstöðu til lífsins, það er orðið jákvætt, sem liggur á bakvið þessi orð þar sem hann tjáir iðrun sína með hjartanlegri löngun. En meira en það, hann hefur í gegnum bitra reynslu sína komist að raun um að hann sé vanmegnugur að bæta sig, því snýr hann sér til Guðs og biður hann að skapa í sér hreint hjarta. Guð er sá sem gefur stöðugan anda, það er Guð sem gefur nýtt hjarta (Jer. 31:31nn.; Esek. 11:17nn.; 36:25nn.). Þau sannindi eru meðtekin í þessum versum og sálmaskáldið tileinkar sér þau.

Bæn

Í nýjum sálmi eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson sjáum við inn í hjarta manns sem glímir í nútímanum þegar hann spyr: Hvar ertu, Guð minn, nú? Ég les tvö erindi úr þessum iðrunarsálmi nútímans:

2. Ég treysti ekki lengur að takir þú við mér
og traðka því á öllu sem mönnum heilagt er.
Í gleymsku get ég horfið en gleði skortir mig.
Hvað ertu, Guð, að gera?
Ég gleymdi´ að spyrja þig.

4. Þú lýsir mér í dimmu og læknar hverja sorg.
Mig leiðir fram um vegu og ert mín trausta borg.
Mér undur lífsins færir þá ást sem best ég skil.
Svo ef ég opna augun þá ertu, Guð minn, til.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

6. Dagur: 5. júlí
Fólkið, fyrirbæn og þakklæti

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr áttugasta Davíðssálmi sem er angursálmur þjóðarinnar og fyrirbæn (v. 4-8):

Guð, snú oss til þín aftur
– og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
Drottinn, Guð hersveitanna,
– hversu lengi ætlar þú að vera reiður
– þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
– Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta
– og fært þeim gnægð tára að drekka.
– Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra,
– og óvinir vorir gjöra gys að oss.
Guð hersveitanna leið oss aftur til þín
– og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Hugvekja

Í þessum sálmi birtist okkur aftur myndin af trénu. Nú er þjóðin tréð sem óvinirnir naga og eyðileggja. Næg er ástæðan að biðja Guð að hjálpa sér, nágrannarnir gera gys að þjóðinni. Það fer ekki mikið fyrir fyrirbæn í Davíðssálmum en hér er eitt dæmi, fyrirbæn fyrir þjóðinni að hún megi frelsast, fyrirbæn fyrir konunginum: „Láttu hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa, þá skulum vér eigi víkja frá þér“ (v. 18-19). Konungurinn var fulltrúi þjóðarinnar og þannig lítum við á Krist að hann er fulltrúi kirkjunnar og Guð er með honum. Okkur er það náttúrlegt að segja við Guð og náunga okkar, ef þú gerir þetta, þá skal ég… Það er enn ein ranghugmynd okkar um Guð. Jesús kenndi okkur að þekkja náðugan og góðan Guð sem gefur af örlæti.

Þess vegna kenndi Kristur lærisveinum sínum að biðja fyrir öðrum og heiminum öllum. Það má kalla það einkenni kristinnar trúar. Ástæðan er þekkingin á Guði sem Jesús gaf okkur og um leið að hver einasta manneskja er óendanlega dýrmæt í augum Guðs. Það eru allir kristnir menn kallaðir til að biðja fyrir nágrönnum sínum, fyrir þeim sem bera ábyrgð í samfélaginu, fyrir þeim sem minna mega sín, fyrir samfélaginu öllu og fjarlægum þjóðum. Í gegnum þennan forna sálm lýsir bænin til Guðs miskunnseminnar og kærleikans sem lætur ásjónu sína lýsa yfir fólkið, „að við megum frelsast“. Það er fyrirbænaþjónusta sem kirkjan rækir í bæn og gengur svo út til að þjóna með Guðs hjálp. Því á kirkjan að taka þátt í mannréttindabaráttu og umhverfisvernd sem verður meira knýjandi með hverjum degi sem líður. Biðjum og höldum af stað.

Bæn

Matthías Jochumsson þýddi fyrirbænasálm Brorsons. Á ferðum mínum mætti ég einu sinni konu sem hafði lært þessa bæn í fermingarfræðslunni og gerði hana að sinna morgunbæn. Þar með hafði hún lært að biðja. Sálmar Matthíasar birta okkur eldheitan anda hans, tengsl hans við Guð og samferðafólk sitt. Biðjum með orðum hans fyrir þjóð okkar og okkur sjálfum og öllum þurfandi:

Lát þitt ríki, ljóssins Herra,
ljóma skært um jörð og sjá,
láttu meinin þjóða þverra,
þerrðu tár af hverri brá.
Sannleiksorðið sigurbjart
sigri villumyrkrið svart,
syndafár og fjötrar víki
fyrir þínu náðarríki.

Föðurlausra vörður vertu,
viðrétt þann, sem aðrir smá,
veikum ekkjum athvarf sértu,
ellimóðum stattu hjá,
gef þeim snauðu björg á borð,
birt þeim dauðu lífsins orð,
hyl þitt auglit elskubjarta
engu sundurkrömdu hjarta.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

7. Dagur: 6. júlí
Hátíðin og lofsöngurinn

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr hundraðasta og þriðja Davíðssálmi sem er lofsöngur (v. 1-5, 10-13):

Lofa þú Drottin, sála mín,
– og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
– lofa þú Drottin, sála mín,
– og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
– læknar öll þín mein,
– Hann mettar þig gæðum,
– þú yngist upp sem örninn….

Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum
– eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni,
– svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum,
– eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

Hugvekja

Upphaf sálmsins felur í sér löngun að koma fram fyrir auglit Guðs enn og aftur. Sálmaskáldið vill hlusta á orðið, koma fram fyrir auglit Guðs og opna sál sína fyrir áhrifum af nærveru Guðs. Það er ekki nægilegt að uppfylla skyldur sínar við Guð í helgihaldi og daglegu lífi, sálmaskáldið vill nálgast Guð með öllum sér, allt á að lofa nafn Guðs.

Löngunin er tvíhliða og samsvarar tveim hliðum guðdómsins. Sálmaskáldið mætir heilagleika Guðs með ótta og virðingu en um leið gefur hann Guði sjálfan sig í kærleika vegna þess að Guð hefur opinberast honum í hjálpræðissögunni. Guð hefur ekki breytt við hann eftir syndum hans eins og hann hefði átti skilið heldur hefur hann fyrirgefið og „eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann“ (Salm 103.13). Þessar tvær tilfinningar spinnast saman í þennan stórfenglega sálm.

Frelsið og friðinn eigum við í lofgjörðinni þegar hugurinn er allur hjá Guði. Sambandið við Guð stígur ekki yfir þau mörk sem okkur eru sett sem manneskjur, Guð er Guð, og við menn erum menn, en í Guði, í samfélaginu við hann lifum við hann. Þær tvær djúpu tilfinningar sem liggja hér að baki eru undrun og þakklæti. Undrun, tilbeiðsla og dýrkun Guðs eru frelsandi tilfinningar og þessi hugsun að Guð er faðir, myndin af móðurinni er einnig að finna í Gt., foreldrinu, sem elskar, fyllir okkur undrun og þakklæti, tengir okkur við Guð. Af þeim tilfinningum sprettur fram lind sem flæðir yfir barma sína. Bænalífið streymir fram af þessum tilfinningum.

Sálmaskáldið sér Guð hátt upp hafin sem vekur samviskuna svo að syndin verður stór en um leið Guð nærri sér sem er annt um hann. Viðfangsefni sálmsins er þessi spenna milli þessara ósamstæðu tilfinninga sem fara þó saman í bænalífinu. Það stafar af því að Guð er hinn sama þó að hann virðist okkur samtímis fjarri og nærri. Það er í trú að okkur tekst að halda þessum gagnstæðu tilfinningum saman en skynsemin ræður ekki við þessa þverstæðu hugsunarinnar. Þetta er hið guðlega við Guð að hann þar sem menn sjá aðeins hyldjúpan aðskilnað brúar bilið með brennandi ást sinni. Það er í ást Guðs fyrir syndaranum að einskær heilagleiki Guðs birtir sig og sú ást fær afl sitt og frelsandi kraft sinn af þeirri staðreynd að þetta er ást heilags Guðs.

Bæn

Það var ekki aðeins Valdimar Briem sem orti út frá Davíðssálmum. Það gerði líka Jón Þorsteinsson píslarvottur á undan honum. Hann gerði heildarþýðingu á Davíðssálmum og Matthías Jochumsson umorti þessi erindi. Í lofsöng enda Davíðssálmar og lifum þá tilfinningu gleði og frelsis í lofsöng með orðalagi þjóðskáldsins:

        1. Sé Drottni lof og dýrð,
          hans dásemd öllum skýrð,
          hann lofi englar allir
          og æðstu ljóssins hallir,
          hann lofi hnatta hjólin
          og heiðri tungl og sólin.

        2. Hann lofi líf og hel
          og loftsins bjarta hvel,
          hann lofi lögmál tíða,
          sem ljúft hans boði hlýða
          og sýna veldis vottinn,
          ó, veröld, lofa Drottin.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

8. Dagur: 7. júlí
Konungurinn og játning

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr nítugasta og fimmta Davíðssálmi sem er þakkarsálmur (v. 1-7):

Komið, fögnum fyrir Drottni,
látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
Komum með lofsöng fyrir auglit hans,
syngjum gleðiljóð fyrir honum.
Því að Drottinn er mikill Guð
og mikill konungur yfir öllum guðum.
Í hans hendi eru jarðardjúpin,
og fjallatindarnir heyra honum til.
Hans er hafið, hann hefir skapað það,
og hendur hans mynduðu þurrlendið.
Komið, föllum fram og krjúpum niður,
beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
því að hann er vor Guð,
og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. 

Hugvekja

Einu sinn var upphrópunin „komið“ þýtt „hananú“ á íslenskri biblíuþýðingu. Það vekur óneitanlega athygli eins og upphrópun á að gera. Við þurfum að sjá fyrir okkur söfnuðinn að ganga inn til musterisins, lofsyngjandi Guði og vafalaust dansandi af gleði. Því miður vantar stundum upp á gleðina í helgihaldi safnaðanna en þessi sálmur ber það með sér að það hefur verið gaman að dýrka Guð í þá daga sem sálmurinn var notaður. Þetta er augljóslega himni sem gegndi sínu hlutverki við helgihaldið og við vitum að margskonar hljóðfæri voru notuð og sungið hástöfum.

„Komið, fögnum fyrir Drottni, látið gleðióp gjalla… komum með lofsöng… syngjum gleðiljóð“. Í morgunhugvekjunum hef ég verið að benda á tilfinningaflóru trúarlífsins. Gleðin yfir Guði er eins og hryggjasúlan, kjarninn og inntak trúarinnar. Ástæðan er ekkert smáræði. Það er oft gott að veita smáorðum athygli eins og hér. „Því að“, segir í sálminum. „Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum“ (v. 3). Aftur er það skaparinn sem er tignaður og hann einn, ekki hugsjónir okkar, ekki stórkostleg tónverk og ljóð, heldur er Drottinn konungur orðinn.

Þá getur maður séð fyrir sér að söfnuðurinn krjúpi niður, beygi kné sín fyrir Drottni. Ástæðan er sú að hann er vor Guð. Þar kemur játning trúar á skaparanum. Trúartraustið er í þessum brennidepli að ekkert annað fær þá stöðu en Guð, hann er klettur hjálpræðis vors sem traustið byggir á. Hann er bæði frelsið og ábyrgðin. Hann ávarpar hvern mann með nafni sem barnið sitt um leið er sú ábyrgð lögð á herðar okkar að lifa í samræmi við það með þeim sem eru í kringum okkur.

Bæn

Játning Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum kemur víða fram en hvað sterkast í játningunni: „Víst ertu, Jesús, kóngur klár“. Guð er meiri, hærri og voldugri en við getum ímyndað okkur eða hugsað okkur. Játning er að gefast Guði svipað og ástin gefst annarri manneskju. Biðjum með orðum Hallgríms:

Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.

Jesús, þín kristni kýs þig nú,
kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðar frið.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

9. Dagur: 8. júlí
Auður og viskan

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr fertugasta og níunda Davíðssálmi sem er spekiljóð (v. 2-7):

Heyrið þetta, allar þjóðir,
hlustið á, allir heimsbúar, …
Munnur minn talar speki,
og ígrundun hjarta míns er hyggindi.
Ég hneigi eyra mitt að spakmæli,
ræð gátu mína við gígjuhljóm.
Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum,
þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,
þeir sem reiða sig á auðæfi sín
og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi. 

Hugvekja

Sálmaskáldið ræður gátu sína við gígjuhljóm (v. 4) þetta er eitt besta dæmið í Davíðssálmum um spekiljóð. Vísdómsljóðin fjölluðu um leiðsögn í daglegu lífi. Þau tilheyra vísdómsbókmenntunum sem er sérstakar bókmenntir fornheimsins. Við höfum þetta bókmenntaform í Orðskviðum Salómons og Prédikaranum. Það sem einkennir vísdómsljóð Biblíunnar er trúarleg leiðsögn í daglegu lífi. Vandamál eða ráðgátur hins trúaða (sbr. slm. 49 og 73).

Einkenni Davíðssálma er að þeir snúast um Guð sköpunarinnar og hjálpræðissögunnar sem útvelur sér einstaklinga í söfnuð sinn. Af því sprettur ráðgáta sálmaskáldsins sem hann hefur íhugað og komist að niðurstöðu um sem er sett fram í þessu vísdómsljóði við undirleik. Höfundurinn einn af hinum auðmjúku í landinu hefur verið kúgaður af auðugum drottnara en hann hefur sigrast á ótta og öfund yfir valdi voldugs andstæðings. Hér skýrir hann hugleiðingar sínar með jafnaðargeði. Í grunninn er sálmurinn íhugun á því hvernig auður og völd skulu metin út frá siðferðilegu og trúarlegu sjónarmiði og hvaða viðhorf trúaður maður á að hafa í sínu daglega lífi. Hann beinir huga sínum frá jarðneskum hlutum að því sem skiptir mestu máli, það sem óttast ber og treysta á. Hann finnur hvíld í Guði sem ræður yfir lífi og dauða. Jesús sagði einu sinni dæmisögu um heimskan ríkan mann sem ætlaði að byggja sér stærri skemmu fyrir auð sinn en á þeirri nóttu var sál hans heimtuð af honum.

Rómantísku sálmaskáldin okkar tóku þessa glímu eins og Valdimar Briem og Matthías Jochumsson. Í einum sálma Matthíasar stendur aðeins eitt eftir, allt annað er í þoku, það er trúin á Drottinn sem kemur með ljósið.

Veiki maður, hræðstu eigi, hlýddu,
hreyk þér eigi, þoldu, stríddu.
Þú ert strá, en stórt er Drottins vald.
Hel og fár þér finnst á þínum vegi.
Fávís maður, vittu, svo er eigi,
haltu fast í Herrans klæðafald.
Lát svo geysa lögmál fjörs og nauða,
lífið hvorki skilur þú né hel.
Trú þú: upp úr djúpi dauða
Drottins rennur fagrahvel.
(Sb. 1945 – M. Joch.)

Bæn

Drottinn minn, ég skil ekki hvers vegna er vitlaust gefið í mannheimi. Það er ekkert víst þó að ég vandi líf mitt, leggi stund á bænir og íhugun, bóklestur og visku, að mér farnist neitt betur en þeim sem vill bara njóta og hrifsa til sín af gæðum lífsins. Hvaða vit er í þessu? En forða mér frá að hugsa um of um þetta, legðu ekki of stóra raun á mig, að ég missi trúna á að þú, góður Guð, hafir allt í hendi þinni. Lát mig sjá þjáningu mína í ljósi þjáningar hans sem gekk píslargönguna til enda. Í Jesú nafni. Amen.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

10. Dagur: 9. júlí
Ógæfan og blessunin

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr sjötugasta og öðrum Davíðssálmi sem er fyrirbæn fyrir konunginum (v. 1-6):

Guð, sel konungi í hendur dóma þína
og konungssyni réttlæti þitt,
að hann dæmi lýð þinn með réttvísi
og þína þjáðu með sanngirni.
Fjöllin beri lýðnum frið
og hálsarnir réttlæti.
Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum,
hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
Þá mun hann lifa meðan sólin skín
og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
Hann mun falla sem regn á slægjuland,
sem regnskúrir, er vökva landið. 

Hugvekja

Eitt af því sem við óttumst helst er ógæfa. Ef til vill biðjum við vegna þess, við biðjum Guð að blessa okkur. Þetta er skrýtið ljóð og vafalaust framandi fyrir okkur sem ég las. Þetta er fyrirbæn fyrir konunginum, valdhafanum, að allt blessist, að þjáðir nái rétti sínum og hann hjálpi þeim fátæku. En þess ósk er okkur nær en við höldum. Vesturlönd sjá fyrir sér hagsæld og hagvöxt endalaust og valdhafar eru reistir upp sem lofa því og þeir felldir sem ná því ekki fram. Það stíngur nokkuð í augu að hann á að „kremja kúgarann“. Í sumum Davíðssálmum er óvinum beðin bölbæn. Auðvitað brjótast þar fram mannlegar tilfinningar. Sálmarnir urðu til í fornheiminum þar sem styrjaldir brutust oft út, ógæfa stríðsins vofði yfir fólki, tortíming, stundum gjöreyðing. Við höfum lifað við góðan frið lengi en nú eru blikur á lofti, við óttumst hryðjuverk, óttinn við raunverulega óvini læðist að okkur. Fornheimurinn andar köldu og okkur hryllir við.

Kannski geta þessir gömlu sálmar gert okkur raunsærri, opnað augu okkar, fyrir alvörunni, en líka lausnunum. Jesús á erindi við tilveruna eins og hún er þegar hann segir okkur að elska óvini okkar. Guðfræðingurinn Zephana Kameeta frá Namebíu barðist gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og hjá eigin þjóð. Hann orti í anda Davíðssálma m. a. í bókinni: Hvers vegna Guð? Þar er þessi bæn fyrir mannréttindafrömuðinum Mandela og félögum hans sem höfðu verið fangelsaðir á Robben eyju, fyrir foreldrunum sem misstu börnin sín í Soweto og hann fór til að hugga. En hann sá von, bað um lífsins anda. Það er nokkuð langt síðan þetta var en síðast þegar ég vissi af þessum manni var hann ráðherra fátækramála í heimalandi sínu.

Bæn

Þú veist, Drottinn, hvað er að gerast, á þessari stundu,
í hjörtum Toivo ya Toivo, Nelson Mandela og Aaron Mushimba.
Þú þekkir vissulega hjörtu bræðra minna og þjáningu þeirra, þar sem þeir eru yfirgefnir í óbyggðum, á meðal sauðanna.
Þú sérð að þeir eru fyrirlitnir og hafnað, að launum fá þeir smán, þú lest hugsanir þeirra djúpt niðri í fangaklefunum, þar sem þeir þræla fyrir ekkert.
Drottinn, þú þekkir grafirnar mörgu þar sem börnin frá Soweto eru jörðuð,
og tár foreldra þeirra og vina.
Þú lætur ekki blekkjast af rökum og hræsni Turnhalle;
þú hefur séð hundruðir fanga sem farið er illa með í fangabúðum í Norður Namibíu…
Hvers vegna, hvers vegna, Drottinn?
Friður.
Fylltu fyrirlitnar og tómar hendur okkar með góðum gjöfum.
Brjóttu niður koparhliðið og járnlásana í Robben eyju.
Opna þú fangabúðirnar þar sem bræður okkar eru í haldi
og pyntaðir, hjálpa þeim, Drottinn!
Við áköllum þig, frelsaðu okkur undan banvænum ótta okkar!
Við skjálfum og veiklumst.
Taktu framtíð okkar í þínar sterku hendur, lát heiminn sjá undur þín á okkur!
Gef okkar lífsins anda svo við megum rísa upp.
Hjálpaðu okkur svo að standast, óþreytandi,
undir leiðsögn þinni, heiður ríkis þíns meðal þjóðar okkar. Amen.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

11. Dagur: 10. júlí
Boðorðin og þjáningin

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr sjötugasta og þriðja Davíðssálmi sem er spekiljóð (v. 21-26):

Þegar beiskja var í hjarta mínu
og kvölin nísti hug minn
var ég fáráður og vissi ekkert,
eins og skynlaus skepna frammi fyrir þér.
En ég er ætíð hjá þér,
þú heldur í hægri hönd mína,
þú leiðir mig eftir ályktun þinni
og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
Hvern á ég annars að á himnum?
Og hafi ég þig hirði ég eigi um neitt á jörðu.
Þótt hold mitt og hjarta tærist
er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

Hugvekja

Fólk hefur tilhneigingu til að bera sig saman. Það á ekki aðeins við um hús og fatnað heldur líka varðandi hamingjuna. Íslendingar eiga að vera nokkuð hamingjusamir miðað við skoðanakannanir. Auðvitað höfum við þessa samanburðaríþrótt í Davíðssálmum. En vandinn þar er að sá sem vandar líf sitt og heldur hjarta sínu hreinu á það ekki víst að honum farnist vel. Frysti sálmurinn, sem fullyrðir að þeim farnist vel sem tekur leiðsögn Guðs, virðist vera einum of sléttur og felldur þegar reynslan af hörðum heimi mætir. Það getur valdið innri sársauka, „beiskju“, og margt samferðafólk okkar er níst þjáningu, ef ekki við sjálf. Þá verður vandinn meiri en ytra prjál.

Þetta er vafalaust einhver erfiðasta trúarraunin að skilja að sólin skín jafnt yfir réttláta sem rangláta eins og Jesús bendir á, þó að það sé deginum ljósara. Þeir sem ganga fram með ofríki og kúgun virðast standast og ná fram. Þá er samanburðurinn orðin heldur sárari. Við megum ekki láta það leiða okkur út í þær ófærur að hugsa sem svo að það skiptir engu máli hvernig við breytum. Þá verður allt afstætt. En og aftur er okkur beint að trúartraustinu, að gæskan sigrar, að vonin á sér framtíð. Sálmaskáldið finnur sér samastað hjá Guði. Barnsleg mynd er dreginn upp af Guði sem leiðir barnið sitt, heldur í hönd skáldsins. Og þar hættir samanburðurinn og við verðum bræður og systur í sömu stöðu: „Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig hirði ég eigi um neitt á jörðu. Þótt hold mitt og hjarta tærist er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.“

Er það nokkuð svar við þjáningu lífsins þegar við spyrjum: Hversu lengi, Guð? Hvers vegna, Guð? Stundum er betra að sleppa því að spyrja. Valdimar Briem tók þessa glímu í lífi sínu, varð maður þjáningarinnar og yrkir út frá þessum sálmi. Hið guðlega svar er hvorki meira né minna en að Guð er með í þjáningunni, ekkert myrkur er til að Guð sé ekki þar. Gerum bænarorð Valdimars að okkar.

Bæn

(1) Lítið vantar einatt á
að mjer taka’ að skeika fætur,
er jeg hugsa’ um hörmung þá,
hvernig þessi veröld lætur,
hvernig allt er öfugstreymi
illt og gott í þessum heimi. 

(6) Ef jeg, guð minn, æ er trúr,
alla mína braut þú greiðir,
síðan heimsins eymd mig úr
upp til þinnar dýrðar leiðir.
Þótt um stund sje þungt í geði,
þú ert hjartans traust og gleði.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

12. Dagur. 11. júlí
Kristur í Davíðssálmum

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les úr tuttugasta og öðrum Davíðssálmi sem er angurljóð einstaklings og þakkarsálmur (v. 2-3, 23, 25):

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig?
Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
Guð minn! hrópa ég um daga, en þú svarar ekki,
og um nætur, en ég finn enga fró…

Þú hefir bænheyrt mig!
Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt,
í söfnuðinum vil ég lofa þig!
Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða
og eigi hulið auglit sitt fyrir honum,
heldur heyrt, er hann hrópaði til hans. 

Hugvekja

Þannig byrjar einn áhrifamesti Davíðssálmurinn og seinni versin sem ég las eru með síðustu erindum sálmsins. Jesús fór með þessi orð á dauðastund sinni. Þetta er átakanleg bæn. Hún ómar með mannkyni í gegnum aldirnar. Þráin eftir lausn og frelsi í erfiðum aðstæðum er þar tjáð en um leið bæn Drottins á krossinum. Það fer allt í kross. Jesús er fulltrúi mannkyns og tekur stöðu með öllum þjáðum, hann gefur allt með sér, við erum börn Guðs eins og hann er einasti sonur Guðs. Kann að hljóma eins og reikningsdæmi en er gleðileg umskipti. Með orðum sálmsins skildi Jesús hlutverk sitt og guðspjallamennirnir skrifa píslarsöguna með m. a. þennan sálm í huga.

Hún hefur tvær hliðar eða saga sú hefur tvo þræði. Ég kalla þá gjarnan rauða þráðinn, þjáningin endar á krossi, þjáning mína sé ég í þjáningu Krists á krossinum, en svo er gylltur þráður. Guð bænheyrði hann og boðskapurinn er fluttur um að Guð, gæskan og góðvildin sigrar, lofsöngurinn byggir á bjargi trúarinnar, að Guð hefur gert það sem gera þarf. Við höfum þessa sögu, þar sem það er sagt. Á því byggir tilbeiðsla og lofsöngur kirkjunnar. Drottinn er upprisinn, hann er ljósið sem lýsir í myrkri, hann er bjargið.

Þannig hefur trúin tvær hliðar eina sorglega og aðra gleðilega, eða raunverulega og trúarlega. Bænalífið hrærist í þessari spennu og starfar í þeirri trú að það sé vit í því að gera ráð fyrir því að ljósið sigri, trúin, vonin og kærleikurinn. Í Hóladómkirkju er róðukross einn mikill sem blasir við allstaðar í kirkjunni. Trúin tekur sér stöðu undir krossinum og sér að við þurfum ekkert að gera til eignast góðan Guð, heldur hefur hann birt gæsku sína í syni sínum í raunveruleika okkar til að gefa okkur trúnaðartraust á að það sem hann hefur gert standist. Hann hefur ekki hulið auglit sitt þó að tilvera okkar kunni að virðast segja annað heldur lætur auglit sitt lýsa yfir okkur með blessun sinni.

Bæn

Dr. Sigurður Pálsson, prestur og kennari, orti sálm út frá þessum Davíðssálmi eftir dótturmissi. Þannig er það að fagnaðarerindið um Jesú er alltaf reynsla trúarinnar, einstaklingsbundin, en öllum er gefið þetta ljós.

1. Þú Guð minn, er gafst mér svo mikið,
ég gladdist og hélt fyrir vikið
að lífið æ léki við mig,
að lífið æ léki við mig. 

2. Svo dimmdi og dapur ég sagði,
úr dimmunni hrópaði að bragði:
Þú, Alvaldur, yfirgafst mig!
Þú, Alvaldur, yfirgafst mig!

5. Guð, sefaðu svíðandi hjarta
að sjái ég ljósið þitt bjarta
og gef mér þinn græðandi frið
og gef mér þinn græðandi frið. 

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

13. Dagur: 12. júlí
Hirðirinn góði og nærveran

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Ég les tuttugasta og þriðja Davíðssálmi sem er himni eða sálmur trúnaðartrausts (v. 1-6):

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína
og í húsi Drottins
bý ég langa ævi.  

Hugvekja

Ein elsta táknmynd kristninnar er mynd af hirðinum sem ber lamb á herðum sér. Myndin er í katakompunum í Róm. Drottinn Kristur er hirðirinn góði og þannig les kristinn maður þennan sálm gjarnan. Hann kallast á við sálminn á undan þar sem dýpstu angist er lýst sem við lásum úr í gærmorgun. Bænaákall Krists á krossinum. Hér er trúnaðartraustið alsráðandi. Sálmaskáldið finnur öryggi hjá Guði jafnvel þó að hann fari um dimman dal óttast hann ekkert illt. Orð sem hafa gert þennan sálm eins vinsælan og hann er. Oft er hann lesin við dánarbeð ástvina, vegna þess að traustið er ekki á því sem við blasir heldur á Drottni, góða hirðinum, sem leiðir sauði sína til hvíldarinnar við lífsins vatn. Hann leiðir um réttan veg. Hann er með á veginum líka þegar dimmir.

Það er önnur mynd í seinni hluta sálmsins sem er ennþá stórkostlegri. Guð er gestgjafi. Hann býður þér til veislu, býr þér borð. Hann smyr höfuð þitt með olíu eins og værir þú konungsborinn. Svo réttir hann þér bikar sem er barmafullur, einginlega flæðir yfir barma. Þvílík lífsjátning og gleði, öryggi og trúnaðartraust. Sú mynd er ekki gripin úr lausu lofti heldur byggir á þeirri trú að Kristur er upprisinn, að orð hans eru sönn, þegar hann segir: „Ég er með ykkur alla daga“. Þannig verður þessi sálmur lífsjátning um trú, von og kærleika, sem mætir hverju sem vera skal. Kannski af þrjósku eða staðfestu en hún byggir á orði Guðs eins og bjargi: „Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi“ (v. 6).

Bæn

Hallgrímur Pétursson íhugar þennan sálm og umorðar á hressilegan máta. Hann hefur tjáð manna best bænaandann á landinu okkar. Látum það verða okkar morgunbæn í dag.

Drottinn, minn hirðir held eg þig,
hér fyrir brestur ekkert mig
mín gleði síst því sjatni.
Leiðir mig gæska Guðs með sann
grashaga út í lystugan
og fram að fersku vatni.
Sá mest má best
hugann hræra, endurnæra og rétt leiða,
vegna nafns síns veginn greiða.

Og þó að ég í dauðans dal
döprum ráfi og myrkran sal,
ólukkan ei mig hræðir.
Víst því er með mér vernd þín hýr,
vöndurinn þinn og stafur skír
heita mín huggun bæði.
Trúr hýr tilbýr
sitt því orðið sætt matborðið sálu minni,
móti þeim mig hrella kynni.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

14. Dagur. 13. júlí
Á veginum í bæn

Í nafni Guðs föður og sonar og heilags anda.

Guð geymi mig og varðveiti mig á sálu og lífi þennan dag og alla tíma í Jesú nafni. Amen.

Ritningarlestur

Í upphafi þessa bænalestur gaf ég til kynna að við ætluðum að lesa úr bænabók Jesú, það er Davíðssálmum, sem hann hafði lært frá blautu barnsbeini. Þeir voru í flokka bóka sem kallaðar voru Ritningarnar. Ég vil enda þennan bænalestur með að lesa kafla út Lúkasarguðspjalli þar sem Jesús leiðréttir lærisveina sína með að útskýra fyrir þeim Ritningarnar á veginum til Emmaus (Lk. 24. 13-:

Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta sem gerst hafði. Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. Augu þeirra voru svo blinduð að þeir þekktu hann ekki… (Þegar þeir höfðu rætt saman góða stund segir hann við þá:)„Skilningslausu menn, svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum. 

Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir ætluðu til en hann lét sem hann vildi halda lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá okkur því að kvölda tekur og degi hallar.“ Og hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf þeim sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“  

Hugvekja

Þessa stund með lærisveinunum útskýrði Jesús með sálmunum meðal annars það sem hafði gerst í Jerúsalem. Um það er ennþá talað og útskýrt og deilt. En ekkert af því verður meðtekið nema í bæn með því að ákalla Guð, biðja hann um hjálp í neyð sinni, eins og þessi tveir menn sem voru á flótta, hræddir við ástandið í Jerúsalem, eins og við óttumst ástandið í heiminum í dag. Má vera að augu okkar opnist, að við sjáum Drottinn með okkur á veginum. Þá er um að gera að biðja hann að dvelja hjá okkur. Útskýringar hans eru öllu betri en langlokur okkar prestanna.

Aftur kemur myndin af borðhaldinu. Það er eins og Jesú hafi boðið þeim í mat á gistihúsinu. Þegar hann brýtur brauðið þekkja þeir hann og átta sig á því að heilagur andi hefur prédikað fyrir þeim meðan þeir voru á veginum. Það rennur upp fyrir þeim ljós, Jesús er sá sem hann sagðist vera. Trúnaðartraustið, nærveran, angistin, þjáningin, gæfan, viskan, játningin, lofið, þakklætið, iðrunin, angrið, öryggið, uppsprettan er hjá Drottni Guði. Allar þessar tilfinningar þroskast og vaxa í bæninni í glímu lífsins og þar er Guð á veginum með okkur.

Bæn

Íslendingar eiga keltneskan uppruna að nokkru. Meðal þeirra þróaðist rík bænahefð og lífsglöð. Ég enda þessa bænagjörð með sálmi sem ég samdi út frá keltneskri bæn sem fjallar um vegferð okkar með Guði og er bæn um blessun hans.

Blessa mér, góði Guð, þá jörð
sem geng ég á í sköpun þinni,
gjafirnar þigg með þakkargjörð,
þér þjóna ég með glöðu sinni.

Blessa mér, Guð, þann vonar veg
sem vísar þú mér, gæfusporin.
Í morgunsól mig signi ég
og sofna í bæn á höndum borinn.

Blessa mér, Guð, hvern dýrðar dag,
með dögun lífsins mér í hjarta
mæti ég fólki, hugsa um hag
og heill þeirra og framtíð bjarta.

Blessa mér, Guð á himnum, heim
að hamingja og gæfa dafni
veraldar allrar, okkur geym
í öruggri hendi’ í Jesú nafni.

Faðir vor, þú sem ert á himnum,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn
og dýrðin að eilífu. Amen.

Guð gefi okkur góðan dag.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: