Raunsæi og rómantík eru engar andstæður heldur mismunandi sjónarhorn á tilverunni. Þetta ljóð um móðurástina sem ég helga minningu móður minnar ósjálfrátt er glettin ádeila á hönnun skaparans, skemmtileg snilld hjá honum, en um leið þakklæti fyrir ástina, móðurástina, lífið. Með fylgir mynd af henni og mér sem ég held mikið upp á og fjölskyldu minni.

I.
Hún gaf af ást sitt líf í hendur hans
er hún var ung og yndisfögur kona
og hann var kominn lítið meira’ til manns.
En margir byrja svona.
Í ástarfuna finna drauminn sinn
og fórna öllu að hann megi rætast.
Á augnabliki opnast himininn
og elskendurnir mætast.
En harmsaga er hlutskipti hvers manns.
Menn heillast fljótt en löng er píslarganga,
því heilsteypt ást þann hlýtur sigurkrans,
sem heldur ævi langa.
II.
Í móðurlífi kviknar saga sú
sem sérhver maður, karl og kona þekkir,
í móðurskauti mótast ímynd, þú,
þar mætast lífsins hlekkir.
Í móðurfaðmi barnið sýgur brjóst
og bráðum verður unaðskyrrðin rofin,
þá hvað það er, fljótt verður vinum ljóst,
að vera illa sofinn.
Og móðurástin verður vafasöm
og vesalingur karl í litlu koti,
því kerlingin er frekar fúl og gröm,
hann felur sig í skoti.
III.
En karlmanni og konu tekst það þó
í hversdagsleika yfirleitt að lifa
í kærleika, þótt krafan sé meir en nóg.
Af kærleik hjörtun tifa.
Hver bjó til þennan vef að veiða í
sem veslings bráðin ofar öllu setur?
Hve snilldarlega snýr sá hugur því
er skaðað lífið getur.
Það móðurástin veldur, verður til
úr veruleikans harmleik lífsins saga
svo skemmtileg, en ljúfsárt hættuspil.
Guð lífsins er það að aga.
IV.
Hún gaf af móðurást sitt eigið líf,
nú öldruð kona, virðuleg og vitur,
hún ber þess merki, baráttan var stíf.
Hjá börnum sínum situr.
Og móðurástin á sér takmark hátt
sem enginn getur skilið fyllilega.
Hún er af Guði gerð, á veikan mátt,
en elskar guðdómlega.
Svo trúfestin og ástin kyssast kært.
Þau krýna lífið æðstri tign og veldi.
Við ævilokin lýsa pörin skært
sem lifðu í ástareldi.

