Bláhúsið við Seyðisfjörð

elin_julianna_amma
Teikning af Elínu Júlíönnu ömmu

„Bláhúsið við Seyðisfjörð“ er minningarljóð um föðurömmu og afa og þeirra börn samið og flutt á ættarmóti og þorrablóti ættarinnar 3. febrúar 2006. Þau bjuggu í litlu bláu húsi á Seyðisfirði, Jóhannes Sveinsson, úrsmiður og Elín Júlíanna Sveinsdóttir ættmóðirin.

 I.

Nú er liðin öld og ár,
ættfeðurnir horfnir.
Öldufaldur fellur hár,
fjörusteinar sorfnir.
Seyðisfjörður fagurblár,
fellur á í sæinn,
heillar, eins og ættmæður
áður fyrr um bæinn.

Bláhús lítið bakatil
ber af húsum hærri,
þröngt var búið, það ég skil,
þætti í húsum stærri.
Úrsmiðurinn Jóhannes
og Elín Júlíanna,
kona hans, í húsi því
hugsa um heill barnanna.

II.

Úr og klukkur, tæki og tól,
tifa, eilífð, hringur.
Situr úrsmiður á stól,
ættjarðarljóð syngur.
Verkstæðið er veröld hans,
vélræn sálin, höndin
hreint og beint, sem hugur manns,
hljóðlát, stillt er öndin.

Glampi í augum, úrverkið
aftur fer að ganga.
Hlær við smiður, – handverkið
hans snillingsins hugfanga
kemur fram með klukkuna,
karli glaður færir,
skrafar létt um lukkuna
lengi dags og mærir.

Situr einn af sonunum,
skrúfar, lagar, fægir,
er að læra af öldungnum
iðn, þótt kalli ægir.
Handlagni er lífvænleg,
lof það eigi þagni.
Ættargáfa gæfuleg
er geysimikil lagni.

III.

Kona hans er fögur, fríð,
fagur barnaskari,
húsmóðirin heyir stríð
svo hallloka ei fari.
Rekur þráð úr rokkinum,
raunir sínar felur,
ber hún harm í heiminum,
huggun æðri velur.

Margoft fór til myndasmiðs,
mynda lét hún börnin,
– nokkur dóu,  hún leitar liðs
í ljósheima sem örninn.
Stóð hún af sér stormahret
stýrði um nóttu svarta.
Draumaheimana sig leiða lét,
ljósastiku bjarta.

Hversdagshetja, ættmóðir,
er sem viti sjómönnum,
festa lífsins, ferskur byr,
fjölskyldunnar að sönnu,
leit í huga Langholtið
ljúfa æskudrauma,
baslið henni blasti við
en bugast ei við strauma.

Lifði hún þau lífsins orð
að láta í té með gleði,
varð úr litlu veisluborð
veitt með ljúfu geði.
Margt var gert til gamans þá,
Glaðværð þótti betri,
brosið lyfti brúnum á
börnunum að vetri.

VI.

Nú er liðin öld og ár
en ennþá minning talar
Bláhússins svo björt og klár,
enn bára í fjöru hjalar.
Minning þeirra magnað ljóð
meitla ég í rími,
ég er fólkið mitt, þessi þjóð,
þeirra liðni tími.

Guðm. G.

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: