Einfaldar leiðbeiningar um bænina

Einfaldar leiðbeiningar um bænina

Í læri hjá Marteini Lúther

Guðmundur Guðmundsson, Héraðsprestur, 2017

lutherabaen

Saga kirkjunnar hefur að geyma frásagnir um bænarinnar menn. Þeir, sem báru hita og þunga dagsins í starfi kirkjunnar, leituðu til uppsprettulindanna, þar sem þeir fengu þrótt til að halda áfram á ofsóknartímum og á tímum andvaraleysis. Bæn og kristnilíf er eitt og hið sama.

Marteinn Lúther var einn af þessum bænarinnar mönnum.

Í þessari grein skoðum við  það sem hann sagði um bænina. Þar snertum við líftaug kristinnar trúar og geta verið okkur gagnlegar leiðbeiningar hvernig við getum farið að við bænargjörð. Ég ætla að leita svara við tveimur spurningum:

  • Hvað er bæn að skilningi Lúthers?
  • Hvernig á að iðka bæn?

Helstu rit sem ég byggi rannsókn mína á eru: Fræði Lúthers, Bréf Lúthers til Péturs bartskera og Schmalkaldisku greinarnar.

Fræðin eru að mati Lúthers uppistaða kristins bænalífs, eins og kemur fram í bréfi hans til Péturs bartskera. Auðvitað væri hægt að taka miklu fleiri rit til rannsóknar, því að bænin var Lúther hugleikið efni. Ég hef haldið því fram að hann væri meiri bænarinnar maður en kenningasmiður og einkennir það guðfræði hans. Ég takmarka mig að mestu við þessi rit, því að þar er að finna eitthvað það besta sem hann sagði um bænina. Í Fræðunum og bréfinu til Péturs bartskera er hann að leiðbeina mönnum í andlegum efnum (kristindómi). Fræðin minni og stærri urðu til, vegna þess að Lúther blöskraði fáfræði almennings í kristnum fræðum, þá skrifaði hann þessi snilldarverk, sem er víða notað enn þann dag í dag við uppfræðslu í trúnni. En Fræðin stærri skrifaði hann fyrir fræðarana til að leiðbeina þeim í kennslunni. Bréfið til Péturs var skrifað, vegna þess að Pétur rakarinn hans óskaði eftir leiðbeiningum um iðkun bænar, annríki og áhyggjur virðast hafa hamlað bænalífi hans. Mörg vandamál, sem Lúther dregur fram eru almenns eðlis og eiga erindi til okkar í dag. Hvaða bænaiðkandi finnur sig ekki í upphafi bréfsins til Péturs bartskera? Það er á þessa leið:

Kæri Pétur meistari. Ég gef yður eftir föngum mínum, segi yður, hvernig ég fer sjálfur að, er ég bið. Drottinn vor Guð gefi yður og öllum öðrum að gjöra það betur. Amen.

Fyrst þetta: Þegar ég finn, að ég er orðinn kaldur og tregur til bænar sökum annarlegra sýslanna eða hugsana (því að hold og djöfull reyna sífellt að hindra og hefta bænina), þá tek ég Saltarann minn og skunda inn í herbergi mitt eða, ef svo stendur á degi og stundu, í kirkju til þeirra, sem þar eru, og tek að lesa með sjálfum mér, rétt eins og barn, boðorðin tíu, trúarjátninguna, og þar næst, ef tími er til, einhver orð Krists, Páls eða Sálmanna. Því er það gott, að menn láti bænina verða sitt fyrsta verk að morgni og sitt síðasta að kvöldi og varist af alhug þá sviksamlegu, lævísu hugsun, er segir sem svo: Bíddu ögn, rétt í hendi ætla ég að biðjast fyrir, fyrst verð ég að koma þessu eða hinu frá. Því að slík hugsun leiðir afvega frá bæninni út í umsvif, sem hindra og fanga hugann, og verður ekkert úr neinni bæn þann daginn.[1]

Snúum okkur þá að fyrstu spurningunni:

1.   Hvað er bæn að skilningi Lúthers?

Við skulum láta hann sjálfan svara. Í þriðja hluta Fræðanna meiri segir hann:

En að biðja er eins og annað boðorðið segir, að ákalla Guð í allri neyð.[2]

Og á öðrum stað í sama kafla:

Þess vegna er og þessi bæn (Faðir vor) fyrirmynduð, að við sjáum og hugfestum þá neyð, sem þvingar og knýr okkur án afláts til bæna. Því sá sem biður verður að æskja (óska) einhvers, frambera og nefna eitthvað sérstakt, sem hann þráir. Ef ekki, þá er ekki hægt að tala um bæn.[3]

Bæn er að ákalla Guð í neyð

Af þessu er augljóst að bænin hefur tvær hliðar, tvo gagnstæða póla, að skilningi Lúthers.

Annars vegar er sú neyð, sem allt mannlíf er fallið í. Neyðin og skorturinn í eigin aðstæðum og lífi annarra þvingar og knýr til bæna. Bænarefnin verður þá ekki almenn eðlist, að Guð blessi allan heiminn, heldur eitthvað það, sem skiptir biðjandann máli, að Guð grípi inn í, taki málefnið að sér, snúi því til góðs, en forði frá illu.

Hins vegar er það takmarkalaust traust á að Guð, hinn sanni og elskulegi faðir, heyri og svari bæninni. „Þá svarar Guð þarna uppi: Já, kæra barn, það skal vissulega verða og rætast, gegn vilja djöfulsins og heimsins.“[4] Þannig skrifaði Lúther með kröftugum orðum.

Þar með erum við komin að kjarnanum, hvað bæn er í dýpsta eðli sínu, samfélag við Guð. Í Fræðunum minni er hnykkt á því: „Guð vill þar með laða oss til að trúa því, að hann sé vor sanni Faðir og vér hans sönnu börn.“[5]

Um þetta atriði snýst allur kristindómur Lúthers, áhersla á réttlætingu af trú einni stendur ekki í andstöðu við þá kenningu, að Guð sé okkar faðir, heldur er kjarni hennar. Hin trúarlega veruleikaskynjun, sem við fjöllum um síðar, er tileinkun á því að Guð sé okkar faðir. Lífið allt er skilið út frá þessari staðreynd og skoðast þannig í nýju ljósi, atburðir sögunnar, atvik daglegs lífs, allt sem gerist er skilið í ljósi þess að Guð sé himneskur faðir.

Í borðræðum Lúthers er að finna skoplegt og sláandi dæmi um þetta. Það rit var tekið saman af lærisveinum Lúthers eftir dauða hans, og á að gefa nokkra mynd af heimilislífi Lúthers, því sem hann sagði yfir borðum:

Hvaða maður skilur til fulls Guðs orðið: Faðir vor, þú sem ert á himnum? Sá sem skilur þessi orð í trú leggur í þau þessa merkingu: Þegar Guð er faðir minn og ég hans barn, hvað getur þá skaðað mig? Drottinn á bæði himinn og jörð, og allt sem í honum er.  Engillinn Gabríel er kaupadrengur minn, Rafael hlaupastrákur minn, og allir hinir englarnir eru þjónustubundnir andar í allri minni neyð, þeir eru sendir til þess af föður mínum á himnum, svo að ég steyti ekki fæti við steini. En þegar ég trúi þessu hleypir góður faðir minn upp ofsóknum og lætur varpa mér í fangelsi, stuttu síðar lætur hann hálshöggva mig eða drekkja til að prófa hve vel við höfum lært þessi orð, eða bar þetta: Faðir. Já, þá skelfist trúin í hjarta okkar, og veikleiki okkar hvíslar að okkur: Skyldi þetta vera satt? En ég þekki orð, sem er erfiðari en önnur í fyrsta boðorðinu, þar er: Þinn. Ég er Drottinn Guð þinn.

Þannig á Lúther að hafa talað yfir borðum.

Faðir-sonur eru þau orð, sem Lúther notar til að gera grein fyrir sambandi Guðs og manns, okkur er kannski tamara að tala um ég-þú samband, en þessi gamla góða mynd hefur alla þá merkingarþætti, sem skiptir máli. Maðurinn er gjörsamlega háður Guði, hann er af honum skapaður, frá honum hefur hann þegið allt, hann nýtur gæsku hans og varðveislu, og fyrir það er hann skyldugur að þakka. (Sbr. fyrstu grein trúarjátningarinnar í Fræðunum minni.) Þetta er grundvöllur þessa sambands, og forsenda þess að hægt sé að tala um bæn að skilningi Lúthers.

Bænin er að tileinka sér þessa staðreynd, að Guð sé faðir okkar. Athyglisvert er hvað Lúther leggur mikla áherslu á tileinkunina, í útskýringum hans við fyrstu fjórum bænum Faðir vorsins kemur þetta skýrast fram:

  1. “Guðs nafn er að sönnu heilagt í sjálfu sér, en vér biðjum í þessari bæn, að það verði einnig heilagt hjá oss.”
  2. “Guðs ríki kemur að vísu án vorrar bænar af sjálfu sér, en vér biðjum í þessari bæn, að það komi einnig til vor.”
  3. “Guðs góði náðugi vilji verður að vísu án bænar vorrar, en í þessari bæn biðjum vér, að hann verði einnig hjá oss.”
  4. “Guð gefur að sönnu daglegt brauð án vorrar bænar, jafnvel öllum vondum mönnum, en vér biðjum í þessari bæn, að hann láti oss við það kannast og með þakklæti þiggja vort daglega brauð.”[6]

Í bréfinu til Péturs bartskera eru allir þessir drættir, sem við höfum rætt hér, pólarnir tveir, ákall í neyð og traust til föðurins, tileinkun kristindómsins.

Þegar Lúther fer í bréfinu í gegnum bænir Faðir vorsins, boðorðin og trúarjátninguna, þá hefur hann séð og hugfest alla neyð og þörf sína og annarra. Hann hefur borið fram öll málefni, sem varða hann, og er það allur heimurinn fyrir rest. Þannig verður bænaþjónustan guðsþjónusta og dregur himininn niður í mannheim og/eða upphefur heiminn til Guðs, eða hvernig við orðum það, allt lífið helgast Guði í bænagjörðinni.

Lúther uppmálar neyð heimsins með dökkum dráttum. Í bréfinu til Péturs bartskera jaðrar við algjöru bölsýni. Að nokkru er skýringin lundarfar Lúthers, en veigameiri eru þó hinar sögulegu aðstæður. Ógn Tyrkjanna, spilling páfadómsins og arðrán þýsku þjóðarinnar er þung á metunum í neyð þeirri, sem Lúther telur upp. Eina vonin er Guð, að hann snúi heiminum á rétta vegu og aftri eyðingaröflunum að tortíma mannheimi. Bæn Lúthers er byggð á raunverulegum aðstæðum, hún er bæn manns í neyð og kærleika til þjóðar sinnar, sem trúir að Guð heyri. Það er bæn að skilningi Lúthers.

Bænin, lögmál og fagnaðarerindi

Hin dökka mynd af veruleikanum, sem Lúther virðist ganga út frá og er biðjandanum sífelld ástæða til bænar, er afleiðing erfðarsyndarinnar eða frumsyndarinnar. Alvarlegasta afleiðing erfðasyndarinnar er að maðurinn gerir sér ekki grein fyrir þörf sinni og neyð. Þess vegna kemur lögmálið til, sem annar póllinn í bænalífinu, það opnar augu mannsins fyrir stöðu sinni, þörf og neyð. Í Schmalkaldísku greinunum segir Lúther:

En stærsta hlutverk lögmálsins er, að opinbera erfðasynina með ávöxtum hennar og sýna manninum, hversu djúpt hann er fallinn og hversu botnlaus spillingin er orðin, þar sem lögmálið verður að segja honum, að hann hvorki hefur Guð né spyr eftir Guði, heldur tilbiður framandi guði, því hefði hann ekki trúað, ef lögmálið hefði ekki komið til. Fyrir það verður hann óttasleginn, auðmýktur, huglaus og örvæntingarfullur, þráir hjálp, verður ráðalaus og tekur að mögla og ásaka, fjandsamlega þenkjandi um Guð.[7]

Sönn bæn er sprottin upp af þessari neyð erfðasyndarinnar. Við sjáum í þessari tilvitnun þá spennu, sem myndast milli pólanna tveggja, og kröftug bæn fær þrótt sinn einmitt í þessari spennu. Annars vegar er lögmálið, sem lýkur upp fyrir manninum neyð hans og leiðir til ákalls, og hins vegar er fagnaðarerindið, fyrirheitið um elsku Guðs, sem gefur manninum traust og öryggi til að biðja. Síðar í þessum greinum segir Lúther:

En þar sem lögmálið vinnur þetta sitt verk án tilhlutans fagnaðarerindisins, þar er dauði og helvíti, og þar verður maðurinn að örvænta eins og Pétur og Júdas, eins og hinn heilaga Páll segir: „Lögmálið verður til dauða vegna syndarinnar.“ En fagnaðarerindið huggar okkur og fyrirgefur… með orðinu, sakramentinu og því öllu sem því fylgir.[8]

Þannig verður þessi spenna til að leiða og knýja menn til bæna. Bænin er eina rökrétta svar mannsins við Guðs orði. Bæði í Fræðunum og í bréfinu til Péturs bartskera er þessi spenna gegnum gangandi, enda annað óeðlilegt, því að kristindómsskilningur Lúthers einkennist einmitt af þessari spennu milli lögmáls og fagnaðarerindis.

Í Fræðunum minni í umfjölluninni um boðorðin koma þessar tvær hliðar vel fram. „Guð hótar að hegna öllum, sem þessi boðorð brjóta.“[9] Í því samhengi er vitnað í orð Sínaí-sáttmálans: „Ég Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já, í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn í þúsund liðu, þeirra, sem mig elska og boðorð mín varðveita.“[10] Önnur hlið á lögmálinu er sú réttmæta krafa Guðs að mennirnir elski hann og því fylgir loforð um náð og blessun. Hana er að finna í síðari hluta tilvitnunarinnar í skýringu Lúthers:: „En þeim öllum, sem þessi boðorð halda, lofar hann náð og öllu góðu.“[11] Þannig skiptir Lúther hverju boðorði með orðunum ótti og elska, annað boðorðið er bororðið um bænina, og er er tilvalið dæmi hér: „Vér eigum að óttast og elska Guð, svo að vér eigi biðjum óbæna í hans nafni, sverjum, fjölkyngi fremjum, ljúgum né svíkjum, heldur áköllum í allri þörf, biðjum, lofum og þökkum.“[12] Með þetta í huga verður skiljanlegt, hvers vegna borðorðin verða æskileg leiðbeining við bæn. Fagnaðarerindið er skilyrðislaust, loforð eða fyrirheit, sem gefið er af Jesú, af náð. Við því er tekið með því að treysta ytra orði sem á er hlýtt.[13] Lúther skýrir það svo í Fræðunum minni að hann geti ekki trúað með eigin skynsemi né krafti á Jesú Krist, Drottinn sinn, né til hans komist, heldur hefur heilagur andi kallað hann með fagnaðarerindinu, upplýst með gáfum sínum, helgað og varðveitt í réttri trú. Það er Guð sem gefur þá trú fyrir heilagan anda við boðun orðsins. Og það leiðir til þess að ávarp Faðir vorsins verða biðjandi manni hinn ljúfust orð eins og Lúther útskýrir þau í Fræðunum minni: „Guð vill með því laða oss til að trúa því, að hann sé vor sanni faðir og vér hans sönnu börn, til þess að vér skulum biðja hann örugg og með fullu trausti sem elskuleg börn sinn elskulega föður.“[14] Spennan milli lögmálsins og fyrirheitisins hvetur manninn til að biðja, og boðorðin draga upp í fáum dráttum þann veruleika, sem við lifum í. En fagnaðarerindið gefur okkur fyrirheit um himneskan föður sem hlustar á barnið sitt.

Í Fræðunum meiri er að finna margar bænir, eins og annars staðar í ritum Lúthers, t.d. ræðum hans og bréfinu til Péturs bartskera er að verulegu leyti bæn til Guðs. Þær benda ótvírætt til þess að bænin hefur verið Lúther nærtæk. Hann grípur til bænarinnar, þegar hann þarf að koma orðum að mikilvægum atriðum.

Þegar hann útskýrir ávarpið í Faðir vorinu í Fræðunum meiri bendir hann í fyrsta lagi á hlutverk boðorðsins um bæn og í öðru lagi um loforðið um bæn. Hann bendir á að boðorðið eigi við alla, hann jafnt og heilagan Pétur, og dregur með því fram huggunina, sem fólgin er í boðorðinu um bænina. Þar segir hann:

Ég vil gjarnan að hann sé heilagur, ef maður lítur á persónuna, en ekki ef maður lítur á boðorðið, því að Guð hefur ekki þóknun á bæninni vegna persónunnar, heldur vegna orðsins, þegar við hlýðnumst því. Og á sama boðorði, sem hinir heilögu byggja bæn sína, reisi ég líka mína.[15]

Hann sér alla undir sömu kjörum varðandi bænina, það er í hlýðni við boðorðið, en ekki vegna eigin verðleika. Þeir sem biðja ekki, segir Lúther, mega vita það að Guð lætur ekki að sér hæða, heldur reiðist og refsar, ef við biðjum ekki, eins og hann refsar allri annarri óhlýðni. Svo kröftuglega boðar hann lögmálið í bæninni, og ef þetta væri eina orðið, þá væri öllu lokið, við fylltumst vanmætti og uppgjöf. En hér kemur orð fyrirheitisins til hjálpar, eins og Lúther segir í framhaldinu:

Í öðru lagi lagi ættum við því frekar að laðast og knýjast til bæna, þar sem Guð hefur lagt til heit og ákveðið, að það skal vissulega og örugglega verða, sem við biðjum um, eins og hann segir í Sálmi 50. 15: „Ákalla mig í neyðinni, og ég mun hjálpa þér“.[16]

Svo dregur hann þennan lærdóm saman með eftirfarandi bænarorðum:

Hér kem ég, kæri faðir, og bið, ekki í eigin öryggi né í trausti til eigin verðleika, heldur vegna þíns boðorðs og loforðs, sem ekki getur brugðist né svikið mig’.[17]

Í þeirri trú getur biðjandinn verið öruggur, hann eignast Guð og næg bænarefni. Og hinu mikilvæga sambandi við Guð er komið á, fyrirheitið vekur trú, sem ákallar Guð í allri þörf.

Bréfið til Péturs bartskera er að miklu leyti bænir, þar er Lúther að taka dæmi, hvernig hann bað. En þar segir hann í upphafi: „Þú hefur boðið oss öllum að biðja og heitið að bænheyra oss“.[18] Það er spennan milli lögmálsins og fagnaðarerindisins, en hún er útfærð nánar í hverri bæn Faðir vorsins. Hann setur upp glögg skil í fyrstu fjórum bænunum. Í fyrstu bæninni er það Guðs nafn, sem á að helga, og það gera börn hans í kenningu og lífi, en heimurinn misnotar það og vanhelgar. Ekki verður spennan minni í annarri bæninni, þar er beðið um að Guðs ríki komi, en heimurinn stendur gegn konungsríki Guðs á allan hátt, það er varla að hann þoli Guðs börn á jörðinni. Hámarki nær spennan í þriðju bæninni, þar sem Guðs vilji er tekinn fram yfir eigin vilja, en vilji heimsins er allur annar og á ítök í hinum trúaða, og verður hann með þolinmæði að líða og standast þjáningar, svo að hann fái reynt hinn góða vilja Guðs. Þetta er sú spenna sem Lúther boðar að sé milli lögmáls og fyrirheits, Guðs og heimsins, ríki Guðs og ríki heimsins, vilja Guðs og vilja heimsins.

Af öllum þessum dæmum má ljóst vera að spennan milli lögmáls og fagnaðarerindis gerir bænina að bæn. Hún verður ákall úr neyð, sem lögmálið hefur opinberað, þar sem það talar um manninn. En fyrirheitið veitir manninum trú og vissu að hinn lifandi Guð heyrir bænir, vegna þess að hann hefur boðið bænina og heitið að bænheyra. Fyrirheitið talar um Guð og vekur öryggi og trú.

Þetta verður að sérstakri lífsafstöðu, sem er óhætt að kalla kristilega, grunntónninn er hin dökka mynd af veruleikanum, en hefur þó ljóst upphaf, kærleiksríkan Guð, sem opinberar sig í orði sínu.

Bænin og veruleikinn

Lífsafstaða er veikt orð, það nær ekki því sem ég vildi sagt hafa. Réttara væri að tala um að heimur bænarinnar sé nýr veruleiki. Þó ekki hvaða bæn sem er, heldur bænin, eins og hefur verið lýst hér að framan, bæn að skilningi Lúthers, eða réttast væri að tala um bæn í Jesú nafni.

Þessi nýi veruleiki, er sá veruleiki, sem Lúther gekk út frá að væri almennur meðal kristinna manna, það er trúin á hinn skapandi Guð, föðurinn. Því er ekki að heilsa í dag og því rétt að hnykkja á því, að þessi veruleiki bænarinnar er orðinn flestum framandi, jafnvel þeim sem vilja kalla sig kristna. Einkenni þessa veruleika er að öll atburðarrás sögunnar, öll atvik lífsins og sköpunin eru skilin út frá skaparanum, Guði. Allt líf biðjandans er að tileinka sér þennan veruleika, og auðvitað verður hann annar við það, tilveran breytist kannski ekki í eðli sínu, heldur er hún skoðuð í nýju ljósi, það er í ljósi Guðs, og fær þannig nýja merkingu, nýtt innihald. Orðið frá Guði er innihald veruleikans, það gerir manninum mögulegt að skilja tilveruna á réttan hátt. Þess vegna lagði Lúther svo mikla áherslu á orðið í bænargjörðinni, „þá tek ég Saltarann minn (Davíðs sálmana) … tek að lesa með sjálfum mér, rétt eins og barn, boðorðin tíu, trúarjátninguna, og þar næst, ef tími er til, einhver orð Krists, Páls eða Sálmanna.“[19] Fræðin minni og meiri byggjast á þessum sömu orðum, sem snúið er í bæn, og Faðir vorið fær sérstaka merkingu, bæn Drottins sjálfs til föðurins. Og þegar hjartað tekur að vermast við íhugun þessara orða, þá er það undirbúið að biðja Faðir vorið. Orðið lýkur upp staðreyndinni að Guð er að baki öllu, og þjálfað bænalíf leiðir af sér að biðjandinn skynjar Guð, sem ævarandi nálægan föður.

Reynsla kristins manns af lífinu er þess vegna sérstök, hún fær innihald sitt af boðskap Biblíunnar. Jesús Kristur verður mið alls, sem er og gerist, út frá guðspjallinu er lífið skilið og túlkað. Ekki þarf að rannsaka lengi Fræðin minni til að sjá þetta, í útskýringunni á trúarjátningunni, er að finna stórfellda, en fáorða lýsingu á þessum veruleika. Allt snýst um orðið trú, trú á Guð, sem gefur allt, lífið … o.s.frv., trú á Jesú Krist, Guð og mann, sem hefur frelsað glataða menn, endurleyst með blóði sínu, og gefur lífið með sér, trú á heilagann anda, sem kallar, vegna þess að við getum ekki tekið upp á því hjá sjálfum okkur að koma til Guðs, heldur verður heilagur andi að kalla okkur með fagnaðarerindinu og viðhalda trú okkar. Í stuttu máli sagt, eins og Lúther segir sjálfur í Fræðunum meiri, að trúin leggur allt fram fyrir okkur, hvers við megum vænta og taka á móti, með einu orði sagt, hún kennir okkur að þekkja Guð eins og hann er.

Við höfum áður talað um dökku drættina í þessari reynslu kristins manns eða veruleikaskynjun. Ef við tökum trúna alvarlega, viðurkennum við boðun lögmálsins um synd og neyð, tilveran er sannarlega dimm í augum trúarinnar. Og ekki upphefjast heldur allar andstæður með trúnni, heldur koma þær skýrar í ljós, baráttan við djöful, heiminn og holdið verða því átakanlegri, sem biðjandinn er þjálfaðri. En eins og við bentum á hér að framan styrkist bænin í þessari spennu milli lögmáls og fagnaðarerindis. Þess vegna eru dökku drættirnir mikilvægur bakgrunnur í þessari veruleikaskynjun.

En mikilvægasti þátturinn er þó andhverfan, vissan að Guð bænheyrir. Það segir óumræðilega stórkostlega hluti um Guð, hann er nálægur. Hann er hinn lifandi Guð, sem tekur þátt í lífi manna í Jesú Kristi, og er að skapa kirkjuna með sínum heilaga anda. Að baki þessari vissu liggur guðsmynd, sem er sérstök, ólík öðrum guðsmyndum, guðsmynd kristinnar trúar, sem Lúther kallaði föður, frelsara og Drottinn, huggara. Ekki má sleppa neinu grundvallaratriði kristinnar trúar án þess að þessi mynd verði bjöguð, bænin er sú þjálfun, sem tileinkar sér þessi sannindi, og þannig lifnar biðjandinn til samfélags við hinn sanna Guð, sem Biblían boðar.

Það mætti fara mörgum orðum um þessa veruleikaskynjun kristins manns og draga fram ótal dæmi, en hér er ekki hvorki rúm né tími til þess.

En snúum okkur í staðinn að næstu spurningu:

2.   Hvernig iðkar maður bæn?

Lúther álítur bænina vera þjálfun til að tileinka sér kristna trú, og ef árangur á að nást þarf að leggja stund á bænina daglega, já, oft á dag, lífið allt á að verða bæn. Lúther sagðist drekka af Faðir vorinu, eins og lítið barn, drekka og eta af því eins og gamall maður, og aldrei fengi hann nóg af því. Nauðsyn bænarinnar er mikil, því að okkur er þannig farið, að við höldum ekki boðorðin, þrátt fyrir trú okkar, og djöfullinn, heimurinn og hold okkar stendur gegn framgangi Guðs, þess vegna er nauðsynlegt að ákalla Guð, kalla og biðja, að hann auki okkur trú og uppfylli boðorðin, og taki allt úr vegi, sem hindrar okkur í því.[20] Og gagn bænarinnar er að hún myndar vegg úr járni milli biðjandans og óvinarins, svo að hinn trúaði fái staðist.[21] Iðkun bænar er þess vegna trúuðum manni lífsnauðsyn, og Lúther gefur haldgóðar og einfaldar leiðbeiningar varðandi þetta viðfangsefni: Hvernig á að iðka bæn?

Faðir vorið

Faðir vorið gerir Lúther að fyrirmynd allrar kristinnar bænargjörðar. Það er bæn Drottins sjálfs. Þess vegna jafnast engin bæn á við það. Hann segir: „En svo að við gætum vitað hvað og hvernig við eigum að biðja, hefur Drottinn okkur Kristur, eins og við munum sjá, sjálfur kennt okkur máta og orð.“[22] Og það sama segir hann í bréfinu til Péturs bartskera:

En þú hefur boðið oss öllum að biðja og heitið að bænheyra oss. Og að auki kennt oss bæði orð og aðferð í þínum elskaða syni, Jesú Kristi, Drottni vorum. Því kom ég eftir þessu þínu boði til þess að hlýðnast þér og treysta náðugu fyrirheiti þínu, og í nafni Jesú Krists bið ég með öllum þínum heilaga, kristna lýð á jörðu, eins og hann hefur kennt mér: Faðir vor, þú, sem ert á himnum, o.s.frv. (bænin öll orði til orðs).[23]

Síðar í þessu sama bréfi, þar sem hann er að leiðbeina Pétri bartskera, fer hann yfir hverja bæn Faðir vorsins. Það er auðfundið að hann er vanur að fara yfir beiðnirnar í huganum, bænarmaður mikill, sem hann var, komst hann samt aldrei frá þessari bæn, hún fól í sér öll helstu bænarefnin, hún varð honum rammi raunveruleikans, sem hann lifði í og gaf lífi hans merkingu.

Faðir vorið hefur að geyma ákveðin bænarefni, en það er einkenni góðrar bænar að mati Lúthers, biðjandinn verður að æskja eða óska einhvers af hjarta. Og bænir Faðir vorsins hafa að geyma það helsta, sem maður þarf í andlegu og líkamlegu tilliti, allur æviferillinn er ofinn inn í bænina. Þannig er hún stikkorð eða gátlisti áður en gengið er út í daginn rétt eins og flugmaðurinn fer yfir það helsta áður en hann tekur á loft.

En Lúther varar Pétur við, að festa sig í þeim orðum og bænum, sem hann spinnur í kringum Faðir vorið. Guðs orð á að hafa frelsi til að tala til hvers og eins á sinn hátt. Hér er að finna viðkvæmni og næmni hjá Lúther, sem ég tel að hljóti að vakna hjá hverjum biðjandi manni, næmi til að heyra raust Guðs og verða meira lifandi. Hann skrifar í leiðbeiningunum:

Ég bind mig ekki sjálfur, við slík orð og atkvæði, heldur falla orð mín á einn veg í dag, á annan á morgun, eftir því sem varmi og þörf í brjósti býr. Þó beini ég alltaf eftir megni hugsun minni í þessa sömu átt. Og oft verður svo að ég leiðist út í svo auðugar hugleiðingar út frá einu atriði eða einni bæn, að ég sleppi hinum bænunum sex. Og þegar slíkar auðugar, góðar hugsanir koma, þá skyldi maður sleppa hinum bænunum og veita þeim hugsunum rúm og hlýða til í hljóði og hindra þær ekki fyrir nokkurn mun, því að þá er heilagur andi sjálfur að prédika. Og eitt orð hans prédikunar er miklu betra en þúsund bænarorð vor. Og ég hef líka margsinnis lært meira í einni bæn en ég hefði getað aflað af miklum lestri og ástundun.[24]

Þarna tjáir Lúther einn dýpsta leyndardóm bænarinnar, „prédikun heilags anda“. Það er ekkert úr vegi að tala um það í umfjöllun um Faðir vorið. Guðs orð rís upp og verður lifandi í bæninni, svo að allt annað verður að víkja fyrir þeirri líftaug, sem binst milli Guðs og mannsins á slíkri stund. Faðir vorið fær svona mikla þýðingu fyrir Lúther, vegna þess að það er tengt „prédikun heilags anda“, þar hefur hann heilög orð Guðs, sem geyma dýrmætustu stundir lífs hans. Þetta er markmið allrar bænariðkunnar, ekki reynslan í sjálfu sér, heldur lífsbandið milli Guðs og manns, sem verður til er Guð er beðinn með orði Drottins, þegar maðurinn gengur til samfélags við Guð. Það gerist þar sem orð Guðs mætir bæn mannsins, þar vinnur andinn sitt verk.

Hlýðniskyldan

Það er skylda kristinna manna að iðka bæn, að skilningi Lúthers, annað boðorðið býður iðkun bænar, og er ekkert minna brot að óhlýðnast því boðorði en öðrum. Hann segir í bréfinu til Péturs bartskera: „Þú hefur boðið oss að biðja“. Það boðorð nýtir hann sér til að geta öruggur gengið fram fyrir Guð, margoft höfðar hann til boðorðsins, Guð hefur boðið, þess vegna  getur hann komið, en ekki á grundvelli eigin verðleika. Í inngangi bréfsins til Péturs bartskera framgengur hann í hlýðni við boðorðið, það ber ekki mikið á gleðinni til bæna til að byrja með, mannshjartað er í eðli sínu fráhverft slíkri iðkun eða iðju, en þegar búið er að brjóta ísinn, hjartað komið til sjálfs sín fyrir tilverknað Guðs orðs, vaknar þörfin að biðja. Hlýðniskyldan er í fyrsta lagi krafa lögmálsins, en í öðru lagi ávöxtur fyrirheitisins, það verður yndislegt og mestu unaðsstundir lífsins að skunda til móts við Guð, ein sog við ræddum um hér að framan.

Í inngangi ritgerðarinnar var vitnað í upphaf bréfsins til Péturs bartskera, og kom þar fram nauðsyn þess að láta ekki hina daglegu bæn undir höfuð leggjast. Allir bænaiðkendur vita að þetta er mikilvægur þáttur í öllu trúaruppeldi. Ef bænin hverfur, þá er harla lítið eftir, nema dauð kenning, ekkert líf. Þess vegna leggur Lúther þessa miklu áherslu á hlýðnina við boðorðið. Við eigum ágætt orð á íslensku um þessa hlýðniskyldu, orðið guðrækni.

Guðræknin þarf að vera í föstum skorðum. Lúther lagði mikið upp úr morgun-, kvöld- og borðbænum. Hann gerði tilraun til að koma á tíðargjörð meðal almennings, en það tókst ekki eins og efni stóðu til. Hann gerði sér betur grein  fyrir því en flestir aðrir að nauðsynlegt væri að ramma lífið inn með bænagjörð, þannig dafnaði best hin trúarlega vitund, nærvera Guðs. Vafalaust á afhelgun Vesturlanda rætur að rekja til þess, að guðræknin og bænalífið komst ekki í nægilega fastar skorður. Í bréfinu til Péturs vitnar hann í Hieronymus, hann á að hafa sagt að öll iðja trúaðra væri bæn, í framhaldi af því segir Lúther:

Trúarlega unnið er tvöföld bæn, sem að sjálfsögðu byggist á því, að trúaður maður óttast og heiðrar Guð í iðju sinni og minnist boða hans.[25]

Þannig vildi Lúther að allt lífið væri rammað inn með bænagjörð, að Guð yrði nálægur í mannlegu lífi. Það var hlýðni hans við annað boðorðið, hlýðniskyldan.

Hins vegar gagnrýndi Lúther bænir, sem væru ekki annað en ytri hlýðni án hjartans þátttöku, „því að þá fyrir rest verður þetta aðeins innantómt blaður, innantóm orð lesin úr bók“.[26] Boðorðið er miklu róttækara en svo í kröfu sinni, það krefst alls, að menn noti Guðs nafn á réttan hátt, ákalli í allri þörf, lofi og þakki. Hlýðniskyldan nær til hjartans, annað væri háð og spott að Guði. „En nú“, segir Lúther, „Guði sé lof, sé ég það að maður hefur ekki beðið vel, ef maður hefur þegar gleymt því sem um var beðið, því að sönn bæn er vandlega hugsuð, hvert orð og hugsun frá upphafi til enda“.[27] Maðurinn hefur því nóg að gera, þó að það væri ekki nema það eitt að hlýðnast þessu eina boðorði um bænina.

Framgangsmáti

Hér verður fjallað um nokkur viðeigandi atriði, sem er að finna í bréfi til Péturs bartskera. Öll eru þau einfaldar leiðbeiningar um bænaiðkun.

Í innganginum er bent á, að það mikilvægasta er að staldra við, að taka sér tíma til bæna, „því að öðrum kosti verður ekki af neinni bæn þann daginn“. Þetta er fyrsta og ef til vill eitt erfiðasta skrefið, það er svo margt, sem tekur tíma okkar áður en bænin fær sinn tíma. Leyndardómur er fólginn í þessu, því ef við náum að taka okkur stund til bæna er eins og eilífðin verði hlutskipti okkar, við eignumst allan heimsins tíma. Allur tími okkar verða helgar eilífðarstundir.

En áfram verður freistingin til staðar að gefa sig á vald tímaleysinu en með því er lífið vanhelgað. Því er það svo brýnt að halda fast í ákveðna stund dagsins, hún stendur sem hornsteinn, eins og altari kristninnar, á sínum stað og á sína stund.

Einnig var talað um stað og stund í inngangi bréfsins, það er að fara inn í herbergi sitt, eða til kirkju ef svo stendur á degi og stund. Mikilvæg festa fæst með ákveðnum bænarstað, við þurfum að eiga okkar eigið altari, bænastað, hvort sem það er skrifborðið okkar eða einhver steinn niður í fjöru, það skiptir ekki mestu máli, heldur hitt að fasta bænastundin á sér ákveðin stað, þar sem hægt er að staldra við um stund í ró og næði.

Á einum stað í bréfinu skrifar Lúther:

Þegar hjartað tekur að vermast af slíkum orðum varanna og kemst til sjálfs sín, þá skaltu krjúpa eða standa með spenntar greipar og augu mót himni og segja eða hugsa í sem stystu máli: „Himneski faðir o.s.frv.“.[28]

Tvennt er hér athyglisvert:

Í fyrsta lagi að ákveðnar stellingar eru gagnlegar. Þær geta hjálpað við einbeitinguna, og ekki þarf mikla sálfræðilega þekkingu til að skilja það. Látbragð líkamans er tjáning, að krjúpa eða horfa til himins er látbragð bænarinnar, í því er fólgin játning og ávarp, eins og andvarp til himins getur verið bæn, eins og segir í Rómverjabréfinu 8. kafla. Af sömu ástæðum elskaði Lúther signinguna og notaði hana mikið. Næturnar reyndust honum bestar til bænaiðkunar, þá stóð hann með upplyftum höndum við opinn glugga og baðst upphátt fyrir, stundirnar liðu fljótt hjá við gluggann, en þegar hann hafði lokið sér af var hann sem nýr maður.

Í öðru lagi á bænin að vera stuttorð og gagnorð. Það er alls ekki sama hvernig er beðið til Guðs, hvaða orð eru notuð, en smátt og smátt lærist það. Guðs orð hlýtur að móta bæn kristins manns, hann biður með Guðs orði til Guðs. Það dugar ekki að bænin sé langorð, hún er ekki heyrð vegna lengdar, heldur vegna þess að bænin er beðin í neyð af hjarta, sem treystir fyrirheiti Drottins. En það á ekki að gera okkur óörugg þvert á móti getum við komið til Guðs sem elskuð börn hans. Við tökum því ef Guð leiðréttir, vitum að hann vill að við séum ærleg við sig. Ekki vill hann að við bælum niður tilfinningar okkar heldur að við séum uppréttar manneskjum að tala við Guð sinn. Það er ekki lítil virðingarstaða að mega ávarpa skapar himins og jarðar sem föður sinn. Lúther notaði mikið Davíðssálma eða Saltarann í bænalífi sínu sem er ágætt dæmi um notkun Guðs orðs við bænagjörðina. Um það hef ég fjallað á öðrum stað.

Faðir vorið, eins og við höfum rætt um, er mikilvægasta Guðs orð bænarinnar, að mati Lúthers. Það er sá rammi, sem biðjandinn getur best stuðst við, enda af Meistaranum sjálfum kennt. Það er sá rammi sem hann setur í Fræðunum minni og meiri og Bréfinu til Péturs bartskera. Læt ég duga það, sem sagt hefur verið um það hér að framan.

Lúther segist hafa þann sið, að þegar hann væri búinn að fara í gegnum Faðir vorið, tæki hann til við boðorðin og trúarjátninguna. Hann byggði sem sagt bænalíf sitt á fræðunum, og taldi kristindóminn koma þar fram í hnotskurn, og honum var nauðsyn að þjálfa sjálfan sig í honum daglega. Ég hef sjálfur ákveðin tímabil notast við þessa aðferða að biðja með þessum hætti og auðgaði það bænalífið. Faðir vorið fékk ótal blæbrigði eftir því hvernig stóð á hjá mér og varð uppistaðan í sambandi mínu við Guð. Þá öðlaðist maður þessa innsýn sem ég trúi að Lúther hafi haft að kristin trú er bænalíf fyrst og fremst.

Hann kenndi Pétri fjögur stikkorð til hjálpar við að tileinka sér boðorðin og trúarjátninguna:

  1. “Það er, ég tek hvert boðorð fyrst sem lærdóm, hvað það í sannleika er, og íhuga, hvað Drottinn Guð okkar svo ákaft krefst af mé”
  2. “Í öðru lagi, geri ég það að þakkargjörð.”
  3. “Í þriðja lagi, að játningu.”
  4. Í fjórða lagi, að bæn með þessum eða svipuðum hugsunum og orðum…”[29]

Það er ákveðið röklegt samband milli þessara stikkorða eða hringrás hef ég stundum kallað það eða spírall trúarlífsins ef við notum orð úr kennslufræðinni. Lærdómurinn leiðir til þakkargjörðar, en hugurinn snýr þá að manninum, hann gerir sér grein fyrir synd sinni og játar hana, og biður svo Guð að hjálpa sér í neyð sinni, sem hann hefur komist að raun um við það að nálgast Guð. Spennan milli lögmáls og fagnaðarerindis kemur þannig einnig fram í yfirferð hans á boðorðunum og trúarjátningunni. Um þessi stikkorð hef ég fjallað og þróað nánar í umfjöllun minni um Davíðssálma og bænlíf.

Efi og vissa

Lokaorð Faðir vorsins er „amen“ og í öllum útskýringum sínum hnykkir Lúther á því, hann segir:

Að lokum, taktu eftir því, að þú gerir amen þitt kröftugt, efist aldrei um það að Guð hlusti á bæn þína í allri náð og segi, já, við bæn þinni.[30]

Lúther líkir þeim manni, sem efast við betlara, sem heldur ekki betlibauk sínum kyrrum, og enginn gefur honum neitt. Efinn gerir Guð að lygara, og fær svo mikið rúm hjá mönnum, þegar þeir horfa á eigin verðleika í staðinn fyrir á fyrirheit Guðs. Og efinn vinnur gegn bænalífinu, það verður að berjast geng honum. „Anfektung“ er annað samkvæmt orðaforða Lúthers, það er trú í erfiðleikum, en efinn er trúlaus, varpar sér ekki út á fyrirheitið og biður. Trúin aftur á móti biður og endar bæn sína með “amen”, það skal verða.

Þannig leiðbeindi Lúther fólki um bænina á einfaldan og skýran hátt. Það er leið sem er margreynd og hefur gefið góða raun, að biðja í neyð sinni góðan Guð sem heyrir bænir eftir fyrirheitum sínum.

Tilvitnanir og heimildir:

[1] Sigurbjörn Einarsson, Coram Deo. Fyrir augliti Guðs. Greinasafn gefið út í tilefni sjötugsafmælis dr. theol. Sigurgjöns Einarssonar, biskups 30 júní 1981. Bókaútgáfa Örn og Örlygur, 1981, bls. 247

[2] Lutherskirfter i urval. Luters katekeser med kort inledning af Ruben Josefson, Stockhom, 1957, bls. 156

[3] Sama bls. 159-160

[4] Sama bls. 162

[5] Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar, 1980 bls. 184

[6] Sama bls. 184-185

[7] Svenska kyrkans bekännelseskrifter. Utgivna af Samfundet Pro Fide eet Christianismo, Sockholm, 1957, bls. 324

[8] Sama bls. 325

[9] Einar Sigurbjörnsson, 1980 bls. 182

[10] Sama bls. 180. Sbr. 2. Mós. 20. 5, 6.

[11] Sama bls. 180?

[12] Sama stað bls. 180

[13] Svenska kyrkans bekännelseskrifter, 1957, bls. 333. Guð gefur andann og gáfur hans með ytra orði.

[14] Einar Sigurbjörnsson, 1980 bls. 184.

[15] Luters katekeser, 1957 bls. 158

[16] Sama bls. 158

[17] Sama bls. 159

[18] Sigurbjörn Einarsson, Coram Deo, 1981 bls. 439

[19] Sama bls. 247

[20] Sbr. Luthers katekeser bls. 161

[21] Sama bls. 161

[22] Luters katekeser bls. 155

[23] Sigurbjörn Einarsson, Coram Deo, 1981 bls. 249

[24] Sama bls. 257

[25] Sama bls. 250

[26] Einföld leiðbeining um bænina bls. 444

[27] Sama bls. 445

[28] Einföld leiðbeining um bænina bls. ?

[29] Sama bls. 447

[30] Sama bls. 443

Published
Categorized as Skrif

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: