Kraftaverk, sköpun eða náttúran eintóm

sigling_eyrarvatnRæða á bænadegi að vetri í Glerárkirkju 29. janúar 2017. Ræða flutt á bænadegi að vetri við messu í Glerárkirkju 29. janúar 2017 sem var 4. sd. eftir þrettándann. Textaröð (B): Guðspjall: Matt 14.22-33

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Nýja testamentið segir frá nokkrum undrum á Genesaretvatninu. Guðspjall dagsins er af einu slíku. Frásagnarstíllinn er lifandi og skemmtilegur. Það er í anda hebresku frásagnarlistarinnar sem við höfum nokkuð af í okkar sögum. Saga Péturs postula er einkennileg. Hann hlýtur að hafa sagt þessar sögur sjálfur því ef einhver annar hefði gert það væri það móðgun við leiðtoga safnaðarins eða sneið til hans. Hann var fljótur á sér og hvatvís og kom sér oft í vandræði út af því eins og þarna á vatninu. Fyrst þetta, þeir verða dauðskelkaðir þegar Jesús birtist þeim í storminum miðjum gangandi á vatninu og þeir kalla upp yfir sig: Vofa. Þetta er almennileg draugasaga eins og við þekkjum. En svo sjá þeir að veran er eitthvað kunnugleg. Þá biður Pétur Jesú um að leyfa sér að koma til hans. Dálítið fljótur á sér. En þegar hann fer að líta í kringum sig á öldurnar sekkur hann eins og steinn. Jesús gaf honum nafnið klettur og þarna sökk hann. En Jesús kemur honum til bjargar.

Það kemur til mín nagandi spurning þegar ég les söguna: Trúi ég á kraftaverk? Einu sinni heyrði ég biskup útskýra eða snúa spurningunni á þennan veg: Ég trúi ekki á kraftaverk en ég trúi á Guð sem vinnur kraftaverk. Það er ekki alveg það sama. Annar biskup á Indlandi benti á að Nýja testamentið segir frá kraftaverkum til að ögra skynseminni svo við treystum ekki á hana í einu og öllu. Þó að þetta séu snjallar nálganir þá setjum við upp með spurninguna: Getur eitthvað svona átt sér stað?

 1. Fullyrðing og dæmi: 

Síðustu sumur tók ég upp á því að taka nokkra tíma í siglingum á skútu. Á sjónum breytist sjónarmið hjá manni þegar aldan er stíginn og öldurnar rísa við stafn. Svo þessi dásamlega tilfinning að beita seglum í vindi, finna kraftana og verða hluta af náttúrunni, rista sjóinn, eins og Einar frændi á Lóðsinum í Vestmannaeyjum sagði. Hann frændi minn hafði lent í ýmsu á sjó og þegar hann sagði frá hlustaði ég sem barn og unglingur með undrun. Einu sinni var hann að sigla í dimmviðri, þá sá hann veru skjótast fram með stjórnborða og fara útbyrðis. Hann stöðvaði Lóðsinn og kveikti ljósin, þá var þverhnípt bjargið beint framundan. Hann kallaði þessa veru Nissa, sem hafði bjargað þeim frá bráðum lífsháska. Sögurnar um engilinn við Strandakirkju sem leiðbeindi skipum í höfn var ljóslifandi fyrir manni. Hann sigli Vonarstjörnunni milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja.

Sigling á Eyrarvatni teikning sem ég gerði af skútunni góði
Sigling á Eyrarvatni – teikning sem ég gerði af skútunni góði með þöndum seglum

Ég á svo sem minningar um björgun úr háska. Einhverju sinni var ég eitthvað illa stemmdur og fór á skútu út á Eyrarvatn við Vatnaskóg. Ég var ágætlega búinn en það var farið að hausta og rökkva. Ég var þarna ásamt pari, vinum mínum, en þau voru eitthvað að gera inn í húsi. Það vildi svo illa til að í Norðaustan áttinni hvolfdi ég bátnum og svamlaði bjargarlaus við hliðina á bátnum. Það vildi til að vinir mínir komu gangandi á ströndinni og komu mér til bjargar. Þetta var náttúrlega glannaskapur í mér svo mér veitir ekki af námskeiðinu í siglingum.

 2. Andstæðan og skýringar:

Nú á tímum virðist mér ríkjandi sjónarmið á Vesturlöndum vera einhvers konar náttúrhyggja. Alheimurinn lýtur náttúrlögmálum sem sýnt hefur verið fram á með vísindalegum aðferðum. Öll önnur þekking verður að lúta þessari lokuðu heimsmynd, svo að eitthvað annað getur ekki átt sér stað. Kraftaverk eru því útilokuð úr raunveruleikanum. Það er bara alheimurinn, er hugsunin, ekkert annað. Kraftaverk eru þá flokkuð sem ævintýri og goðsagnir. Auðvitað höfum við gaman af þeim eins og góðri sögu og ótrúlega margir gæla við svo kallaða yfirnáttúrulega hluti. Þannig séð er ákveðinn tvískinnungur í gangi.

Sumir guðfræðingar hafa aðlagað sig að þessum sjónarmiðum. Ég skil það alveg. Stundum hef ég gripið til þess til að koma boðskap frásagnanna til skila. Eins og þessi saga af undrinu á vatninu hefur fyrst og fremst trúarlega vídd eða er bænasaga eins og ég segi oft. Það er trúarreynsla geymd í frásögunni. Ytri lýsingin er fjörleg og skemmtileg eins og ég sagði en í grunninn er verið að segja og kenna okkur að setja traust okkar á Jesú og biðja hann um hjálp og styrk þegar tilveran verður ógnarleg og skelfileg. Þá erum við áður en  við vitum af komin í öruggt skjól.

Þetta er bæn samkvæmt skilgreiningu að ákalla Guð í neyð sinni. Þegar náttúröflin og hamfarir, ógnir og ógæfa blasir við okkur svo að náttúran eins og hún getur verið er að hræða líftóruna úr okkur eigum við og megum við ákall Jesús, horfa á hann, til að öðlast traust og  öryggi. Vissulega eru þetta trúarleg sannindi sem standast alveg út af fyrir sig og eru trúarlegur lærdómur frásögunnar.

 3. Rökleiðsla um kraftaverk: 

En það vantar eitthvað upp á þessa útskýringu. Það vantar raunveruleikann og sannleikann! Þessi togstreita tímans hefur endað í einhverskonar samkomulagi um að aðgreina andlegt og veraldlegt fullkomlega. Andlegt er á persónulegu sviði en veraldlegt fæst við raunveruleikann.

C. S. Lewis, breski bókmenntafræðingurinn, trúmaðurinn og guðfræðingur skrifaði bók um þetta sem hann kallaði einfaldlega: Kraftaverk. Hann byrjar á langri umfjöllun um forsendur hugsunar okkar um kraftaverk. Hann greindi á milli náttúrulegrar og yfirnáttúrlegrar skoðunar á alheiminum. Þar tekst hann á við vanda kirkju og kristni í nútímanum. Ef við gefum okkur það sem forsendu að það er bara náttúra, alheimur, samansettur af stjörnukerfum, óravíddum, en frá öreindum til alheims gilda náttúrlögmál, þá verður vitund mín um mig afrakstur af þróun, hugsun mannsins og skynsemi, æðsta stig vitsmunalífs sem við þekkjum. Það vildi svo til að þannig fór, á bláu plánetunni varð það til fyrir tilviljun eða úrval, þannig verður náttúrhyggjan að álykta. Við erum hugsandi verur sem hefðum alveg eins getað verið óhugsandi, en fyrst við hugsum reynum við að ná tökum á náttúrunni, nota skynsemina, en það er líka allt og sumt.

Gegn þeirri náttúruhyggju setur hann fram yfirnáttúrlega skoðun á alheiminum. Þá er gert ráð fyrir æðri veruleika, annars konar, handan við náttúruna, yfirnáttúrlegan. Eftir kristinni trúarhugsun gerir hann ráð fyrir tengslum milli þessarar veru og náttúrunnar. Hann hafnar tvíhyggju sem lítur svo á að til sé andlegur veruleiki og svo líkamleg tilvera eða holdleg. Það verður einhverskonar stigveldi. C. S. Lewis hins vegar talar út frá kristinni trúarhugsun að Guð er skapari náttúrunnar, alheimsins alls, en er annað en hann, sjálfstæð vera. Það sem við sjáum og skoðum og rannsökum er sköpun Guðs, það sem við erum er sköpun Guðs, við erum hugsun Guðs og verk, endurspeglum tilgang hans í hugsun okkar og lífi, en erum þó annað en Guð. Þó að ég hugsi þá er ég ekki Guð heldur aðeins dauft endurskin af Guði.

Þá getum við haldið áfram með það sem er forn og góð kristin hugsun. Þú ert einstakur og einstök í alheimi. Það er enginn sem hugsar þína hugsun nema þú. Það er engin önnur eða enginn annar sem er þín vitund nema þú. Trúin segir að þú ert skapaður til samfélags við Guð, það er tilgangur okkar, þar þekkjum við okkur sjálf í raun. Samfélagið við skapara okkar og Drottinn leggjum við rækt við í bæninni. Í bæn horfumst við í augu við Guð og sköpunina eins og hún er í raun, leggjum neyð okkar og náunga okkar, heimsins alls, fram fyrir Guð í bæn, biðjum fyrir öðrum og okkur sjálfum, tengjumst þannig í lífinu og Guði í öruggu trausti sem hefur alheim í höndum sér.

 4. Staðfesting um undrið og kraftaverkið: 

Er þessi skoðun C. S. Lewis og mín eitthvað síðri en ríkjandi skoðun náttúruhyggjunnar að það sé ekkert annað til en náttúran og lögmál hennar? Vandinn við þá skoðun er að hún þrengir svo að lífinu sem Jesús kallar okkur til í trú, von og kærleika að hún verður óþolandi fyrir trúuðum manni. Þeir sem hallast að náttúruhyggju ná heldur ekki að vera samkvæmir sér vegna þess einfaldlega að mannlegt líf þarf meira en vísindalega þekkingu, eins og t.d. visku, ég tala nú ekki um von og kærleika. Þess vegna lifa líka goðsagnirnar, mýturnar og ævintýrin góðu lífi hjá okkur í kvikmyndum og skáldsögum. C. S. Lewis og félagi hans J. R. R. Tolkien lögðu líka sitt af mörkum til þess með Narníubókunum og Hringadrottinssögu.

Kristin afstaða til náttúrunnar byggist á  / nærist á undrun og þakklæti til skaparans. Á einum stað lýsir C. S. Lewis hvernig hann hafnaði, þegar hann var guðleysingi, að nokkuð annað væri til en náttúran. Skrifaði hann um það ljóð þar sem hann virti sólarupprásina fyrir sér og vildi að hún væri ekkert annað en sólarupprás. Svo lýsir hann afstöðu sinn sem trúmanni að náttúran hefði orði miklu stórkostlegri sem sköpun Guðs, sem hann undraðist og þakkaði fyrir. Þarna er frelsunin frá ógninni, grimmri náttúru, eins og hún getur verið, en jafnframt undursamleg. Náttúran er gjöf en ekki Guð sjálfur. Lífið er gjöf. Orðfærið er nánast ævintýralegt. Kristur kom, hann kom af himni, eins og hann væri konungsonur sem kemur úr konungshöll. Það er svo sem líking við goðsagnirnar en er þó annað og meira. Kristin trú er öðru vísi en önnur trúarbrögð vegna þess að hún byggir á kraftaverki, því að Guð varð maður, æðri veruleiki birtist í alvöru, sem manneskja, sem talar skynsamleg orð við okkur menn og gerði undursamlega hluti fyrir okkur.

5. Niðurstaða: 

Þess vegna er kristin trú í hrópandi andstöðu við náttúruhyggju samtímans, sem er að breytast í trúarbrögð, í neikvæðri merkingu. Sú trú á sér trúarjátningu þó að ég hafi ekki séð hana orðaða. En hún er eitthvað á þessa leið:

Alheimurinn er einn og gengur samkvæmt náttúrlögmálum.

Við erum ekkert annað en efnahvörf og rafboð, hugsun okkar hefur enga samsvörun við alheiminn, við verðum að nota skynsemi okkar til að lifa af í ógnvænlegum alheimi, reyna sem best að ná tökum á honum, án þess að vita til hvers.

Lýðræðislegt samfélag sem byggir á mannréttindum er besti kosturinn fyrir samfélag manna en það er líka allt og sumt sem einstaklingarnir verða að reiða sig á.

Ég kýs þá frekar postullega trúarjátningu sem viturlegri texta fyrir lífið og samfélagið.

Ég undrast sköpun Guðs, stjörnukerfin öll, alheim og öreindir, þá staðreynd að Guð hefur gefið okkur ljós skynseminnar og vitund um okkur, til að þakka honum og þjóna.

Ég sé minn Krist koma til hjálpar, standa með mér í þjáningu og erfiðleikum, sigra með upprisu sinni allt ill, þannig beinir hann okkur á friðarveg.

Ég trúi að heilagur andi gefi okkur trú, von og kærleika, sem umbreytir kirkju og samfélag á betri veg sem hann vísar okkur á.

Og að lokum undrin á vatninu sem Pétur upplifði voru raunveruleg en ekki aðeins bænamál eða falleg saga til að láta okkur líða vel í skelfingunni. Ég trúi því að Jesús hafi bjargað honum eins og vinir mínir mér á sínum tíma frá drukknum á vatninu. Um það vitnaði hann í söfnuðinum og hafði gaman af að segja þessar sögur af sér og samskiptum sínum við Jesú. Það er meira vit í því að trúa því frekar en að trúa því ekki. Amen.

 

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: