Aðventuhugvekja á fullveldisdegi 1. des.

adventukvold_olafs2013Það er ekki oft að fullveldisdagurinn og 1. sunnudagur í aðventu ber upp á sama dag. Mér kom strax í huga þjóðskáldið Matthías Jocumsson þegar ég var beðinn að tala á þessu aðventukvöldi. Hann átti ekki í neinum vanda með að vera bæði þjóðlegur og kristilegur. Allt átti að hafa þjóðlegan grundvöll, eins og hvatningar hans í ljóðum til þjóðarinnar bera með sér, þegar dýpst er skoðað var það trúin og kærleikurinn sem fór um æðar allar, eins og sálmarnir vitna um.

Það fer ekki lengur mikið fyrir hinu þjóðlega, það er gull sem búið er að brjóta og týna, virðist manni. Á tímum Matthíasar, í það minnsta hjá honum, var það kristileg dyggð að berjast fyrir þjóð sinni, sjálstæði og velferð. Svo hætti hið þjóðlega að vera kristilegt og varð bara menningarlegt og tungan varð sameiningarafl þjóðarinnar. Nú er það varla svo lengur, heldur aðeins landið okkar og náttúran, það sem tengir okkur saman, heldur okkur saman sem þjóð. Þá er ágætt að vera eyjaskeggjar.

Hugvekjan flutt á Aðventukvöldi í Ólafsfjarðarkirkju 1. des. 2013 þar sem kirkjukór kirkjunnar söng
Hugvekjan flutt á Aðventukvöldi í Ólafsfjarðarkirkju 1. des. 2013 þar sem kirkjukór kirkjunnar söng

Ég ætla að leyfa mér að vera í það minnsta þjóðlegur ef ekki þjóðrækin í tölu minni. Eða jafnvel að stíga í fótspor Matthías og reyna að skýra hans þjóðlega kristindóm. Það er bæði hollt fyrir okkur og gagnlegt þegar alþjóðarmenningin gengur yfir okkur eins og öldufaldar og brot. Þá gæti nefnilega runnið upp fyrir okkur að við erum að sigla skipi en ekki hriplekum dalli.

1.

Matthías Jochumsson tengdist þúsund ára hátíðinni 1874. Hann átti þátt í því að gera hana að því sem hún varð með kjarki sínum og dirfsku. Hann gekk fram fyrir skjöldu, mærði konung í ljóði, eins og skáldin íslensku í konungahirðunum til forna. Þá lagði hann söfnuðinum Lofsöng til Guðs á varir sem varð síðar þjóðsöngur okkar Íslending.

En hvaða hugur lá þar að baki? Það er einn af grunnþáttunum í hans skáldskap að hann tengir saman trúna og þjóðina. Faðir andanna er ágætt dæmi sem er í sálmabókinni okkar nr. 523:

1. Faðir andanna,
frelsi landanna,
ljós í lýðanna stríði,
send oss þitt frelsi,
synda slít helsi,
líkna stríðanda lýði.

Þessi sálmur birtist í sálmabókinni 1886. Samherjar hans í sálmabókanefndinni eins og Björn Halldórsson í Laufási og Helgi Hálfdánarson prestaskólakennari höfðu samið þjóðlega sálma í tengslum við hátíðarhöldin 1874. Þeir töluðu því máli í ræðu, riti og ljóðum að kristin trú væri sameiningarafl þjóðarinnar til frelsis og góðra verka. En í þessari sálmabók er það aðallega í sálmum Matthíasar að þessi hugsjón kemur fram eins og í Faðir andanna.

Matthías Jochumsson á skrifstofu sinni á Sigurhæðum
Matthías Jochumsson á skrifstofu sinni á Sigurhæðum

En í þriðja erindi verður ljóst að hann er ekki aðeins að tala um litla Ísland heldu sér alþjóðlega vídd, yfirþjóðlega, Guðs ríki kærleikans þarf að ná til allra þjóða, þannig að þjóðirnar falli í faðma, brjóti sverð sín. Guðs ríki renni upp með kærleikans tíð. (Erindi 3)

3. Sælu njótandi,
sverðin brjótandi
faðmist fjarlægir lýðir.
Guðs ríki drottni,
dauðans vald þrotni,
komi kærleikans tíðir.

2.

Í öðrum sálmi Matthíasar sem er í núverandi sálmabók er samband trúar og þjóðar enn afdráttarlausara. Hann byrjar með hvatningarorðum: Upp þúsund alda þjóð. Hann er nr. 519. Birtist fyrst í sálmabók 1945. Trúin er sameiningarafl, kristnitakan árið 1000 virðist vera þar í huga skáldsins:

Kom, Jesú Kristí trú,
kom, kom og í oss bú,
kom, sterki kærleiks kraftur,
þú kveikir dáið aftur.
Ein trú, eitt ljós, einn andi
í einu fósturlandi.

Guð faðir, lífs vors líf,
þú lands vors eilíf hlíf,
sjá, í þér erum, hrærumst,
og af þér lifum, nærumst,
þú telur minnstu tárin
og tímans þúsund árin.

Þessar hugsjónir eru hryggjasúla þjóðkirkjunnar á þessum árum: Ein trú, eitt ljós, einn andi í einu fósturlandi. Á fyrstu árum 20. aldar var samstaða kirkju og þjóðar. En ýmislegt annað var á kreiki í samfélaginu, guðsafneitun, byltingarandi, kommúnismi, heimsvaldastefna. Í því ölduróti sér skáldaöldungurinn enn kristnu trúna sem grundvöll og heill þjóðarinnar og slagorð hans hljómar enn: sterki kærleiks kraftur.

3.

Matthías Jochumsson stóð báðum fótum í rómantísku stefnunni sem dróg fram tilfinningar, samstöðu og kjark. Lofsöngurinn – þjóðsöngurinn – er í þeim anda. Og lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar er svo sannarlega í rómantískum anda, tignarlegt lag og viðeigandi, þar sem Guði er þakkað þúsund ára vernd, land og þjóð er Guðs gjöf. Andstæðumálið kröftugt. Í samsetningunni „eitt eilífðar smáblóm“ blasir það við, eilífðin frá Guði, gefin smáblómi, sem stendu eitt sumar. Smáblómið með titrandi tár tilbiður Guð sinn.

4.

Hvaða trú var það sem stóð svona föstum fótum í brymróti tímanna? Hvaða ógnarvöld gátu haggað henni? Ekkert, vegna þess að þetta var bjargföst vissa skáldsins. Og það birtist í jólaljóði sem Matthías skrifar 1891. Barnatrúin haggaðist ekki þó að hann segði sjálfur að eftir áföll sem hann gekk í gegnum á þessum sömu árum og hann samdi þjóðsöngin þá hefði trúin tekið að bresta og aldrei orðið söm en í sömu andránni vísar hann til þessarar vissu barnatrúarinnar.

Hann lítur til baka til æsku sinnar þar sem fjórir bræður sitja með kertin sín og hlusta á móður sína flytja þeim jólaguðspjallið. Og hann skrifar: “… mamma settist sjálf við okkar borð; sjáið, enn þá man ég hennar orð”. Og hann festir ræðu móður sinna í ljóðstafi:

“Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð,
Guð hefur kveikt, svo dýrð hans gætuð séð;
jólagleðin ljúfa lausnarans
leiðir okkur nú að jötu hans”.

Svo lýsir hann sagnaþulinum móður sinni í himneskum ljóma jólasögunnar:

Síðan hóf hún heilög sagnamál,
himnesk birta skein í okkar sál;
Aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.

Á þeim árum sem hann skrifaði ljóðið gengu yfir straumar guðleysis og afneitunar trúarinnar á landinu og þá glímu tók Matthías í hugleiðingum sínum í þessu jólaljóði og veltir fyrir sér þekkingu sinni og lífsspeki en metur það allt sem innantómt miða við eitt hálmstrá frá jötu herrans: “Fyrir hálmstrá herrans jötu frá hendi ég öllu: lofti, jörðu, sjá.”

Þessi sögustund með móður sinni fyrir löngu síðan lagði lífgrundvöll skáldsins. Hann var að segja það. Kertljós flöktandi á baðstofuloftinu, móðurleg rödd, hlýja og innileiki, ytri umgjörð um kjarna lífsins. Í sögu eru sannindin skráð, en hún er ljóslifandi fyrir augum okkar, jólaboðskapur Lúkasar, þá eins og nú, þó að hún sé bundin við stað og stund, eru sannindi hennar hér og nú, við kertaljósin hér í kirkjunni.

5.

Trúin sem móðir hans hafði lagt honum á hjarta var það grundvallartraust sem dugði honum þó að áföll lífsins og hugmyndstefnur gengu nærri trausti hans, sá hann í guðspallinu ljósið eilífa, sem hann festi sig við. Líf Matthíasar minnir um margt á málverk eftir enska listamanninn Turner, eins og Gufubátur í hafnarmynninu. Hafrótið og stormurinn renna saman og óljós mynd af skipinu birtist. Einn af frumsömdu sálmum Matthíasar byrjar á orðunum: Legg þú á djúpið. Og það í Jesú nafni, með hann innan borðs. Kirkjan á þennan arf og á að halda fast í hann, kristin trú er blessun þjóðarinnar og hefur verið í meir en þúsund ár, því eigum við að trúa, við eigum að tilbiðja Guð, en ekki hjóm og glingur samtímans, lifa þann boðskap jólanna, að gefa af okkur, standa með þjóð okkar og fólki, öllum þurfandi í kærleika og þjónustu, láta kærleikan streyma um lífsins æðar allar.

Málverk eftir Turner
J. M. W. Turner: Snjóstormur – Gufubátur í hafnarmynninu

Boðskapur jólanna er sá að við eigum ekki að líta stórum augum á valdhafa, tignir og völd, heldur á það sem skiptir máli í lífinu. Það er ekki valdið, heldur kærleikurinn. Það var glóðinn sem brann í brjósti þjóðskáldsins forðum og móðir hans kveikti við kertaljós í lítilli baðstofu upp á Íslandi.

Það sem gerðist var að barn fæddist og var vafið reifum, lagt í jötu í gripahúsi vegna þess að það var ekki pláss fyrir þau í gistihúsi. Ef þú hefur einhverjar tilfinningar í brjósti þér, sanngirni og réttlætisást, ætti sú saga að kveikja í þér vandlæti, vilja til góðra verka, þó það væri ekki af öðrum ástæðum en þeim að börn fæðast enn við slík skilyrði.

Líf allra barna, mannkynsins alls, er helgað með þessari fæðingu, vegna þess að sá sem fæddist þá var Guð kominn til okkar. Guð lítur svo lágt að hann fer niður í hin lægstu kjör til að sýna okkur veg kærleikans. Þú verður að beygja þig til að elska.

Leonardo da Vinci: Tilbeiðsla vitringanna
Leonardo da Vinci: Tilbeiðsla vitringanna

Við okkur blasir myndin af móðurinni með barnið í faðmi sínum, mynd kærleikans. Ótal listaverk tjá þessa mynd, grunnmynd tilverunnar, eftir kristnum skilningi eða barnsins í jötunni ætti ég kannski frekar að segja. Festu hana í huga þér, gældu við hana í hjarta þér, vegna þess að með henni er Guð að tala við þig, segja, þegar hann fálmar eftir brjóstinu til að drekka, sýgur lífgjöf sína af mannheimi, ég er Guð þinn, kominn til þín í því viðkvæmasta í mannheimi, reifabarni, hvítvoðungi, til þess að þú vitir að ég snerti þig í raun og veru, líf þitt er mér falið.

“Ó, þá náð að eiga Jesú”, orti Matthías, “höfði halla í Drottins skaut”. Og í áðurnefndum jólasálmi heyrum við að guðspjall hans er nákvæmlega jólaboðskapur Lúkasar. Matthías biður Jesúbarnið að ljá sér litla fingur sinn, “ljúfa smábarn”. Stórt og smátt setur hann saman til að lyfta huganum, með öfgafullum andstæðum skýrir hann mál sitt. Hann finnur í jólasögunni “sálarfrið” æskunnar, grundvallartraustið, að Guð snertir tilveru okkar, heldur henni uppi í hendi sér, lítilli barnshendi, svo ég beyti fyrir mér dálitlum andstæðum, eins og þjóðskáldið kunni manna best. Einn af jólasálmum hans endar svo:  „Ég vil með þér, Jesú, þreyja, ég er strá, en þú ert ljós.“

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: