Faðir vorið markmið trúarinnar og lífsins

Altaristafla á Hálsi
Altaristaflan á Hálsi. Jesús í Gesemani þar sem hann ákallaði Guð: Abba, faðir.

Faðir vorið markmið trúarinnar og lífsins eru hugleiðingar sem ég hef tekist á við aftur og aftur í gegnum tíðina, að bæn Drottins hafi að geyma markmið trúarinnar og kirkjunnar í heiminum. Þannig hugsaði hann bænina, eðlilega, tel ég. Það er efni sem ég hef unnið mikið með í sérgrein minni í guðfræði, missiologiu eða kristniboðsfræðum, um útbreiðslu kirkjunnar og sögu í þriðja heiminum. En hér er það í anda bænalífsins sett fram eins ljóst og mér er unnt. Njóttu vel.

Faðir vor
Markmið trúarinnar og lífsins

Íhugun um bæn Drottins – mark og mið lífsins

Faðir vor, bæn Drottins, er augljóslega þau bænarorð, sem kristnum mönnum eru kærust, enda lögð á varir þeirra frá blautu barnsbeini og hjarta ævina alla, sú bæn, sem beðin er við dánarbeð og við hinstu kveðju. Meistarinn kenndi okkur þessi orð, sem viljum kenna okkur við hann, en þau eiga við alla. Faðir vor er bæn Drottins fyrir heiminum öllum, sem hann elskar og vill ekkert nema það besta. Þess vegna fela þau í sér markmið hans með lífið, kirkjuna og heiminn.

Fyrst er það ávarpið: Faðir vor!

Í því er kjarni trúarinnar, samband við Guð, Guð og maður – Guð sem ávarpar mig, þú maður, og ég ávarpa hann Guð, ÞÚ. Samband: ÞÚ – ÉG. Það er fagnaðarerindið að við, allir menn, geti og fái að vera í slíku sambandi við Guð fyrir Jesú Krist, hann, sem var og er í einstöku sambandi við Guð, eingetinn sonur hans. Jesús hefur gefið okkur hlut í því með sér af örlæti sínu og ást sinni. Þess vegna kennir hann okkur að biðja: Faðir vor – Faðir okkar. Ég er í þessu sambandi við Guð vegna góðvildar hans og ég á það með öðrum, öllum.

Það er ekkert smáatriði, heldur það sem fylgir því að eiga Guð fyrir FÖÐUR og alla menn fyrir systkini, bræður og systur. Þá komum við að því sem er, ég vil segja, hugsun Jesú með bænina, að leggja okkur á hjarta verk Guðs – “missio Dei” – þannig að við tökum þátt í því. Markmið kristniboðs kirkjunnar er: Dýrð Guðs – “gloria Dei” – um það biðjum við í dýrðarbænunum þremur, sem snúa allar að Guði – “coram Deo” – frammi fyrir augliti Guðs.

Dýrðarbænirnar þrjár

Frammi fyrir augliti Guðs gildir trúin ein á orð Jesú og þar með á ég allt með honum, er frjáls í hjarta mínu. Ekkert læt ég raska ró minni í þeirri trú að ég eigi Guð fyrir föður og Jesú sem bróður. Í hans nafni bið ég með orðum Faðir vorsins, trúi og segi: AMEN! Það hebreska orð merkir: Vissulega, það skal verða.

Þannig bið ég þá að nafn Guðs helgist, að það verði heilagt í lífi mínu og í veröldinni, svo að það fræ sem ég á í hjarta mínu vaxi fram og beri ávexti í því að ég noti nafn Guðs með bæn og beiðni og þakkargjörð, en misnoti það ekki mér til framdráttar, heldur samferðafólki mínu til blessunar.

Þá bið ég að ríki Guðs komi, að það komi hjá mér, að ég lifi eins og það sé að bresta á, njóti þess innra með mér, að það megi móta öll samskipti mín við aðra. Nú hef ég lagt orð mín þannig að Guðs ríki sé innra með mér, en í ytra lífi mínu sé ég allt annað. Ég geri mér grein fyrir því, en læt það ekki trufla innilegt samband mitt við Guð í bæninni. Það er rétt að hugsa svo, vegna þess að Guðs ríki er í vændum. Þannig kýs ég að lifa. Það er bjartsýni trúarinnar.

Svo bið ég að vilji Guðs verði, ég finn fyrir öðrum vilja í mér, en ég stilli hann af, því að ég veit nú af reynslu, en til að byrja með var það fyrir trú, að vilji Guðs er mér fyrir bestu. Guð vill mér ekkert nema gott. Með Jesú bið ég þessa bæn með þverstæður lífsins fyrir augum, eins fáránlegt og það kann að virðast í augum heimsins, skynsemin á það til að ærast við þessar hugleiðingar, en það er veikleiki hennar, en trúin grípur í hönd Guðs og reynir að leiðsögn hans er gæfuleg. Svona er þetta með þversagnir lífsins, þær birta okkur það ógnardjúp er Kristur horfðist í augu við á krossinum og við með honum án þess að drekka þann bikar tortímingarinnar til botns, sem að hann tæmdi.

Samfélagsbænirnar tvær

Næst koma svo samfélagsbænirnar tvær. Fyrsta markmiðið og fremsta er dýrð Guðs – við eigum að gefa Guði dýrðina. En þá snúum við okkur að mannlegum veruleika, ekki eins og hann sé annar en hinn guðlegi, nema að við köstum okkur í djúpið, frá sambandi við Guð. Guð forði okkur frá því. En þá verður heimurinn guðlaus og við í bæninni í sífeldum vandræðum að koma Guði fyrir í lífi okkar, finna honum afsökun fyrir að vera til, sem er mjög svo skoplegt, stórkostlega hlægilegt út frá trúnni. Trúin gengur út frá því að Guð hafi með lífið að gera, en ekki bara hugmyndaflugið. Frammi fyrir mönnum – “coram hominibus” – er tvö svið fyrir kristnum manni, annars vegar er það samfélag trúaðra í kirkjunni og hins vegar hið veraldlega samfélag. Hér kemur boðorðið til um kærleikann, en varðandi Guð er aðeins boðorðið um trúna, þessi tvö boðorð sem postulinn Jóhannes nefndi snúa annars vegar að Guði – trúin og hins vegar að veröldinni – kærleikurinn. Markmið lögmálsins og leiðbeining er kærleikurinn, boðorðin tíu beina huga okkar að öllum víddum mannlegs lífsins, þar á kærleikurinn að fá að vaxa bæði í kirkjunni og heiminum. En í kirkjunni gildir brotning brauðsins og fyrirgefningin.

Fyrri samfélagsbænin er beiðnin um daglegt brauð. Sá ritháttur er líka til að biðja um brauð fyrir framtíðina, sem vísar þá til brauðsins eilífa. (Jesús talar um það í guðspjalli Jóhannesar (kafli 6) og á þá við sjálfan sig. Hvort sem við álítum réttara, þá er brotning brauðsins við altarið í kirkjunni og daglegt brauð okkar til að lifa tengt grundvallarþörfum mannlegs lífs. Brauðið er handa öllum, að deila brauði er kærleiksathöfn, eins og samfélagið í kringum borðið er það bæði í kirkju og á heimili. Jesús er í mun að við leggjum stund á kærleikann og sinnum með þessum hætti, eins og hann gerði, kærleika, sem skapar samfélag samábyrgðar og umhyggju.

Við erum í mannlegu samfélagi, menn meðal manna, það þarf líklega að segja það. Mannúðin er ræktuð í samfélagi kirkjunnar og nær út fyrir veggi hennar að sjálfsögðu, kristnir menn hafa skyldu við samferðafólk sitt, að deila með sér þeim gæðum sem Guð hefur gefið þeim af öllu tagi, bænin er nefnilega gef oss í dag. Þannig beinir bænin okkar til annarra, í samfélagi manna elskum við Guð með því að elska náunga okkar.

Síðari samfélagsbænin er um að Guð fyrirgefi okkur eins og við og fyrirgefum öðrum. Samfélag trúaðra er samfélag fyrirgefningarinnar. Mannúðin hefur dýpri hlið, andlega, eins og kemur fram í sögunni um lama manninn, sem borinn var til Jesú af vinum sínum. Synd og sekt er þverstæðan dýpsta í mannlegu lífi, að valda þeim sem maður elskar sársauka, þannig er kirkjan samfélag syndara, sem stenst vegna þess að þar er fyrirgefning og sáttargjörð.

Eftirfylgdin við Krist, krossferillinn, er þessi ganga manns á móts við manneskju sem hefur brotið gegn manni eða það sem erfiðara er að biðja manneskju fyrirgefningar sem maður hefur sjálfur brotið í gegn. Fyrirgefning endurnýjar traust eða hefur í sér fræ til þess. Á því bjargi byggir kirkjan, sem er Jesús sjálfur, fyrirgefning syndanna. Það er þá líka hlutverk kirkjunnar að endurreisa brotin tengsl og traust í mannlegu samfélagi og tala máli sáttargjörðar. Ekki kann ég að tala fyrir önnur trúarbrögð en mín, en augljóslega ætlast Jesús til þess að við lifum í sátt og samlyndi, og vinnum með þeim öllum hverrar trúar sem þeir eru sem vilja skapa frið og sátt í mannfélaginu, að skapa betri heim.

Frelsunarbænirnar tvær

Síðast koma svo freslunarbænirnar tvær. Kirkjan, þó að stundum séu veggir hennar rammgerðir, það er til að sýna að hún sé örugg borg, þá eiga þeir að hverfa þegar kemur að hinu mannlega, þá er hún og á að standa berskjölduð með orð Jesú ein sem skjöld sinn og vopn, rétt eins og hann var í Getsemane. Hlutverk kirkjunnar í heiminum er að vinna verk Guðs og það er ekkert “apparat” eða “kerfi” að styðjast þar við, heldur er það hver einstaklingur, við hvert og eitt, ég og þú, sem elskum og verðum fyrir freistingum, sigrarnir eru ekki málaðir upp á töflur, heldur eru þeir skráðir í mannlegar sögur, þar sem kærleikurinn náði yfirhöndinni yfir illskunni og mannvonskunni. Vissulega má skipuleggja sig í baráttu við ranglæti, kúgun og ofbeldi, en þeger upp er staðið er sú barátta maður á mann, þar sem tekist er á við illskuna, til að leysa manninn og frelsa hann. Í hinu stóra endurspeglast sú barátta fyrir kristnum manni í frelsunarverki Jesú á krossinum, þar sem illskunni voru settar skorður og játuð er trú á sigur hins góða, óbilandi, að Kristur hefur risið upp frá dauðum og sigrar.

Fyrri frelsunarbænin snýr inn á við, eigi leið þú oss í freistni eða í slíka raun að við fáum ekki staðist í trúnni. Það er svo miklu auðveldara að loka sig af en að ganga út fyrir veggina, hvað þá að vera í óvinveittu landi, en það eru kjör kristinna manna og hafa alla tíð verið, að ganga með Drottni til móts við alls kyns freistingar og mótlæti, en varðveita þó trúna og þjóna í kærleika, finna það jafnvægi, sem maður ræður við, standa saman og styðja hvert annað í verki Guðs, sem er að vinna gegn illu í mannlegu félagi.

Síðari frelsunarbænin og síðasta beiðni drottinlegrar bænar er svo almenn bæn: Frelsa oss frá illu! Það var verk Guðs í Jesú Kristi, sem þau sem fylgja honum ganga inn í. Sú bæn felur í sér meira en mannlegt samfélag, hún felur jafnframt í sér beiðni um frelsun veraldarinnar frá illu, sem er að verða stærsta viðfangsefni mannkynsins á okkar tímum, þeirri þverstæðu sem líf okkar hefur í sér, að vera eilíf meðvitund í baráttu við ill öfl, ranglæti og hatur, og vera sjálf jafnvel orsök illskunnar, svo að biðjandinn er með tilverunni allri gagnvart Guði ákall í neyð: Frelsa oss!

Jesús lagði okkur það mark og mið á hjarta

Allt þetta lagði Jesús okkur á hjarta með bæn sinni sem setur líf okkar inn í stóra samhengið á hjálpræðisverki Guðs – “missio Dei”. Og lokaorð bænarinnar, lofgjörðin – “doxologian” – leiðir að upphafi bænanna um dýrð Guðs: “Þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin, að eilífu. Amen.” – Og guðspjallið sem geymir þessi orð Jesú endar á orðum hans: “Allt vald er mér gefið á himni og jörðu… farið því og gjörið…”

Allur réttur áskilinn © Guðmundur Guðmundsson

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: