Góði Guð, ástin er undursamleg gjöf þín. Þegar illa liggur á mér, skil ég ekki að nokkur skuli elska mig. Þegar ég er einmana, geri ég allt til þess að verða sem elskulegastur. Æ, hvað ég þrái að vera elskaður! Hvort er auðveldara, að vera elskaður eða að elska?
Eigingirndin truflar ástina illilega, þannig að mér finnst að aðrir eigi að elska mig frekar en að ég elski þá, skrýtið, en svona virðist mér þetta vera. Lífið hefur kennt mér, að með elskusemi nýt ég frekar ástar á móti, en samt er ekkert sjálfgefið í þessu frekar en öðru varðandi mannlífið. Ég get ekki knúið fram ástina, hún er ekki vélræn, heldur lífræn.
Þá breytir þú öllu, Guð minn, í augum mínum. Þú elskar, þú ert kærleikurinn, um ást þína vil ég nota það sterkast orð sem ég þekki, sem lýsir innilegasta sambandi á jörð, þegar fólk gefst hvort öðru, skilyrðislaust í trausti, án þess að vænta einhvers á móti, nýtur þess eins að vera fyrir hvort annað, rétt eins og þú ert, ÞÚ, ég er þinn og þú ert Guð minn.
Ég á það ekki skilið, mér hefur ekki tekist að vekja athygli þín á mér, en ég uppgötvaði fyrir Drottinn minn Jesú Krist, að þú elskar mig. Það kveikir í mér, loga, innileika, tilfinningar, þakklæti, gleði, lofsöng um þig, ástina. Sú ást er svo góð í mannlegu samfélagi, vegna þess að hún gefur af sér, án þess að spyrja um verðleika, af örlæti, eins og þú ert, Guð minn. Ástin er undursamleg gjöf.