Um frelsi kristins manns

husblessunEftirfarandi örerindi var flutt í Kirkjubæ, sem var kirkjumiðstöð á Akureyri um nokkurra ára skeið. (Mynd frá húsblessun þar). Á föstudögum í hádeginu voru haldin „sálarstaldur“ þar sem flutt voru stutt erindi og umræður í frammhaldi af þeim yfir hádegishressingu. Þetta erindi var flutt á siðbótardegi 31. október 2006 um bók Lúthers Um frelsi kristins manns.

Sú bók sem ég vil vekja athygli á í dag á sálarstaldrinu hér í Kirkjubæ, sem er siðbótardagurinn, er bók Marteins Lúhters Um frelsi kristins manns.* Hún er mér kær sú bók og gengur næst Biblíunni í mínum huga. Ástæða þess er, að hún hafði djúpstæð áhrif á mig sem ungling, þegar ég var leitandi ungmenni í mikilli sálarangist. Ég drakk hana í mig og veitti hún mér innsýn í fagnaðarerindið, sem ég hef síðan reynt að túlka frá 16-17 ára aldri, þ.e. í nær 35 ár. Bókin var á sínum tíma afdrifarík fyrir höfundinn. Hún var hógvær tilraun Lúthers að túlka fyrir páfanum trúnna eins og hún leit við honum og tilraun hans að rétta fram sáttarhönd, enda er hann óvanalega varkár í orðavali í bókinni. En útskýring Lúthers dugði ekki til. Hann var gerður útlægur og réttlaus af páfanum árið eftir útkomu hennar, vegna kenningarinnar um réttlætingu af trú. Mér finnst vel við hæfi að fjalla aðeins um þessa bók á siðbótardeginum 31. október.

Í upphafi bókarinnar setti Lúther fram tvær, að því er virðast, andstæðar fullyrðingar, sem hann kemur svo heim og saman. Með þeirri rökleiðslu leiðar hann fram trúna eins og hann skildi hana. Setningarnar eru:

    • Kristinn maður er frjáls drottnari allra hluta og engum manni undirgefinn.
    • Kristinn maður er þræll allra hluta og öllum mönnum undirgefinn. (s. 11)

Í bókinni byrjar hann að fjalla um trúna sem snýr að fyrri setningunni og svo kærleikann sem snýr að seinni setningunni. Hann tengir saman orðið – trúna – andann í fyrri hluta bókarinnar. Þ. e. a. s. að í trú er maðurinn frjáls í anda sínum fyrir orðið. Og það er Jesús Kristur sem gerir það mögulegt. Það er að segja að trúin tengir saman manninn og Krist, þannig að allt mitt er hans og allt hans er mitt. Það kallar hann gleðileg umskipti. Guðs verk var að koma því þannig í kring. Manni veitist það ókeypis, fyrir náð, að trúa, það er að uppfylla fyrsta boðorðið, þannig og aðeins þannig gerist það, vegna þess að fyrsta boðorðið fer fram á að maðurinn heiðri Guð með því að trúa því sem hann hefur sagt. Allt hið ytra, líkamlega, hefur ekkert með trúna að gera. Hugsunin er sú að andi mannsins er gerður fyrir Guð og Guð einan. Þar sækir Lúther í smiðju Ágústínusar kirkjuföður, að sálin er óró uns hún hvílir í Guði. Í trú sameinast maðurinn Guði sínum í orðinu eins og járnið sameinast eldinum í smiðjunni. Þar með eru verkin útilokuð, að þau geti réttlætt manninn, enda það algjörlega ástæðulaust að reyna það, þar sem Guð hefur sjálfur útilokað þá leið með því að leggja fyrir manninn boðorðið: “Þú skalt ekki girnast”. Það tekst engum að uppfylla. Boðorðið, gamli sáttmálinn, lögmálið, gerir það eitt að verkum að maðurinn finnur sig í örvæntingu sinni. En fyrirheitið, nýi sáttmálinn, Jesús, Drottinn og frelsari, kemur til mannsins og gefur honum allt með sér, sitt eilífa réttlæti og frið og frelsi. Svo í anda sínum er hann frjáls eins og Jesús. Á köflum finnst manni bókin ganga langt út yfir það, sem er viðeigandi að segja um frelsi mannsins, en þar er Lúther að íhuga frelsið, sem maðurinn á með Guðs syni. Hann er að tala þar um frelsi Guðs, sem er fullkomið, hann getur gert það sem hann vill, í bæninni er kristinn maður í þeirri stöðu, og allir kristnir menn eru kallaðir til þeirrar bænaþjónustu, sem heilagt prestafélag. Í þessum köflum virðist manni Lúther kominn að mörkum hroka og yfirdrepsskapar, en þar talar hann um upprisuna og Guðs ríkið, sem maðurinn á hlut í fyrir Krist. Kristinn maður er frjáls nú þegar í trúnni í anda sínum vegna þess að hann er sameinaður Kristi. Þannig staðfestir hann fyrri fullyrðinguna.

En þá komum við að síðari hlutanum. Vegna þess að maðurinn hefur þessa stöðu gagnvart Guði og meðbræðrum og systrum sínum verður honum ljúft að skuldbinda sig fullkomlega þeim. Ástæðan er sú, að allt verður að þjóna honum til góðs, synd og dauði, ekkert getur skilið trúaðan mann frá Guði sínum. Í seinni hlutanum leggur hann grunn að kærleiks-siðfræði, allt verður kristnum manni ljúft að gera, vegna þess að hann fylgir þar Drottni sínum, lifir eftir hugarfari hans. Þetta er ekki baráttulaust, heldur er í líkamanum, (holdinu samkvæmt Páli postula, sem Lúther vísar í), allt sem andmælir þessari ljúfu afstöðu til lífsins og annarra, í hinu ytra. Kristinn maður lifir því í átökunum milli frelsis og áþjánar, en í anda sínum, yfirstígur hann þrautina. Sá kærleikur sem Lúther lýsir hér er kærleiki Guðs sem ætlar sér ekkert endurgjald, gefur ókeypis, er til staðar án skilyrða, elskar eins og Guð elskar. Og vegna frelsisins sem Jesús gefur manninum er kærleikur Guðs raunverulegur ávöxtur trúarinnar, en það er algjörlega að snúa hlutunum á hvolf, að ætla sér að ávinna velþóknun Guðs með verkum sínum. Þess vegna leggur Lúther þessa ofuráherslu á fagnaðarerindið á þennan hátt. Það er um líf og dauða að tefla, sannleika Guðs. Hér endurómar guðfræði Páls postula hrein og klár. Ekki sem kredda heldur sem grundvöllur lífsins, lífsins með Guði. Og þannig lauks það upp fyrir mér á unglingsárum mínum.

Þannig fléttar Lúther saman þessar tvær setningar í bókinni og nær að skýra það sem virðist vera þverstæða, en eru í raun átök lífsins, snertir grundvöll tilveru okkur, ekkert minna. Við okkur blasir Kristur frelsarinn, sem var og er þessar tvær setningar í lífi kirkju sinnar á jörð, frjáls þjónn lífsins, barnanna sinna og heimsins. Þannig erum við frjáls í trúnni til að þjóna með kærleika Guðs í raunveruleikanum.

_______

*Dr. Marteinn Lúther, Um frelsi kristins manns. Útgefandi: Heimatrúboðið í Reykjavík, 1967. Þýðingu gerði séra Magnús Runólfsson eftir þýzka textanum.

Published
Categorized as Erindi

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: