Persónur píslarsögunnar, 3. þáttur: Jóhannes annar af þrumusonunum verður postuli kærleikans

Þriðji þáttur um Persónur píslarsögunnar ber heitið: Jóhannes annar af þrumusonunum verður postuli kærleikans. Lesari er Fjalar Freyr Einarsson en höfundur þáttanna flytur bæn Jóhannesar postula. Hann er í varðhaldi í helli á eyjunni Patmos gamall maður og talar við Drottinn sinn um hugleiðingar sínar um guðspjall sem hann er að móta í huga sínum.

3. þáttur
Jóhannes annar af þrumusonunum verður postuli kærleikans

Hér má hlusta á þáttinn: 

Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, er orðin gamall maður. Hann er í haldi á Patmos nálægt Efesus þar sem hann hafði starfað síðustu árin. Nú er hann í haldi. Jesús gaf honum og bróðir hans Jakobi nafnið Boanergis sem merkir þrumusynirnir. En Jesús breytti þeim og Jóhannes hefur verið nefndur postuli kærleikans vegna þess að hann skrifaði mikið um kærleikann eins og þennan texta úr fyrsta bréfi hans:

7Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. 8Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð því að Guð er kærleikur. 9Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. 10Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar. 

11Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. 12Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur.  (1. Jóh. 4, 7-12).

Hefðin bendir á helli á Patmos þar sem Jóhannes var í haldi. Við heyrum hann tala við Guð sinn. Allir postularnir hafa dáið píslarvætti og hann veltir því fyrir sér hvort stund hans sé kominn. En Guð hefur ætlað honum verkefni sem er að mótast í huga hans, guðspjallið er í smíðum. Ævistarf hans hefur verið að boða Guðs orð. Hann hefur sig ekki mikið í frammi en fólk elskar að heyra hann prédika og kenna. Það stafar guðlegri hlýju frá honum.

Við heyrum hann biðja til Guðs

Drottinn minn og Guð minn, hér sit ég í varðhaldi í helli. Það hefur svo sem komið fyrir áður að ég hef verið fangelsaður vegna nafns þíns. Og félagar mínir postularnir eru nú allir fallnir frá. Við fórum vítt um veröldina að boða fagnaðarerindið eins og þú bauðst okkur. Við vissum allir af hættunni og vorum reiðubúnir að fylgja þér í dauðann. Saga Péturs í píslarsögunni, sem hann sagði margoft, varð okkur hvatning og ögrun, að svíkja ekki köllun okkar. Hann var krossfestur í Róm en fannst hann ekki verður að deyja á sama hátt þú, kæri Meistari, og bað að kross hann snéri öfugt.

Svo var það samtalið við þig, Jesú, sem hann átti um örlög sín og mín. Hann var að forvitnast hjá þér, dálítið fljótur á sér, eins og venjulega. Mikið þekkti ég hann vel orðið. Hann var mér kær. Við vorum góðir vinir. Þú hafðir okkur bróðir minn Jakob og Pétur með þér á mikilvægustu stundum í lífi þínu. Nú skil ég að það var til að við gætum sagt frá því sem gerðist, eins og á fjallinu, þegar þú ummyndaðist, varst bæði á himni og jörðu eitt augnablik. Það var merkileg sýn sem blasti við okkur og svo þú einn í skýinu. Þú gafst það í skin eftir að þú varst upprisinn að ég myndi ekki deyja eins og þeir áður en þú kæmir aftur. En nú veit ég ekki hvernig fer fyrir mér. Þessar ofsóknir eru skelfilegar. Svo margir bræður og systur eru tekin af lífi fyrir það eitt að tilheyra þér, trúa og játast þér.

En hvernig sem fer þá má ég til að ljúka við að skrifa guðspjallið sem þú hefur lagt mér á hjarta svo að allir geti trúað að þú sért Kristur, sonur Guðs, og í trúnni geti þau átt lífið í þínu nafni. (Jóh. 20, 31).

Ljóðið um orðið sem varð hold

Ég er alltaf að hugsa um orðin sem þú talaðir til okkar. Það var annað og meira en orð manna á milli. Þú varst orðið komið frá Guði. Þú komst af himni eins og manna í eyðimörkinni, þú varst vatnið sem spratt fram af klöppinni, þú ert lífið eilífa. „Efni okkar er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins“. (Jóh. 1, 1). Þú komst til okkar af himni. Já, við horfðum á þig, hlustuðum á þig og komum við þig. Oft hallaði ég höfði mína að barmi þínum eins og við síðasta kvöldmáltíðina sem við vorum með þér og neyttum páskamáltíðarinnar. Ég skildi það ekki alveg hvað það þýddi þá en nú má ég til með að orða það fyrir aðra eins og ég hef boðað í Efesus og öðrum söfnuðum hér í Litlu Asíu. Ég má halla höfði mínu í faðm Guðs eins og þú varst í faðmi Guðs frá eilífð. Þú gafst okkur barnaréttinn með þér. Svo elskaðir þú heiminn!

Frá unglingsárum hefur þetta orð lifað með mér eða orðið hefur lifað í mér. Nú er komið að því að koma orðum að því sem verður ekki sagt svo auðveldlega með orðum. Hvernig á ég að velja þau? Hvernig á ég að raða frásögunum upp? Þetta er vitnisburður um þig, vegna þess að þú ert orðið, þú varðst hold, maður af holdi og blóði. Þannig verður það best sagt.

Unglingur nefndur þrumusonur en breyttist

Þú gafst okkur Jakobi bróður viðurnefnið „þrumusynina“. Við vorum ungir og hugurinn brennandi og skapið óheft. Já, það var ástæðan. Svo gafstu Símoni nafnið „Pétur“ eða „Kefas“, kletturinn. Ætli þú hafir ekki verið að segja okkur sannleikann um okkur með mátulegu skopskyni. Ekki skil ég hvernig þú gast haldið út með okkur nemendum þínum. Við vorum svo skilningssljóir. En þú ætlaðir þér að leiða okkur og móta til að verða þjóna orðsins. Þegar yfir lauk og þú sendir okkur hjálparann, andann heilaga, þá vorum við breyttir. Auðvitaði togaðist á í okkur holdið og andinn. Við menn erum svo fastir við jarðnesk efni. Með því að lifa með þér hef ég lært að þekkja sjálfan mig og sé mig í ljósi þínu og sannleika. Ég kem með allt í ljós þitt, líka þessa skapbresti mína. Ég játa fyrir þér syndir mínar til þess að ég geti orðið fullkominn í kærleika þínum.

Við Andrés, bróðir Péturs, vorum farnir að fylgja Jóhannesi skírara út í eyðimörkina. Hann var vitni sannleikans. Oft sveið undan orðum hans. Við hrifumst af honum og litum á hann sem leiðtoga í Ísrael, nýjan spámann, ef ekki Messías, sá sem koma skyldi og spáð var fyrir um. Það kom okkur því á óvart þegar hann vísaði okkur frá sér og benti okkur á þig, Jesú. Hann kallaði þig Guðs lamb sem ber synd heimsins. Nú skil ég hvað hann átti við. Það var dálítið ankannalegt þegar við fórum á eftir þér. Þú snérir þér við og spurðir okkur: „Hvers leitið þið?“ Við vissum ekki alveg hverju við áttum að svara þér og sögðum við þig: „Hvar dvelst þú?“ Þá sagðir þú: „Komið og sjáið“. Og við vorum með þér þann dag. Það var ógleymanlegur dagur. Við nálguðumst þá ljósið og sannleikann. Andrés trúði því að þú værir Messías, sá sem spámennirnir höfðu talað um. Hann hélt því fram við Pétur, bróður sinn. Ég man vel allt það sem gerðist þessa daga, dag eftir dag. Þú kallaðir mig og ég fylgdi þér. Það var stór dagur þegar ég kvæntist konunni minni í Kana, þar sem þú gerði fyrsta táknið. Og við vorum þér svo þakklát. Táknin, já.

Það var svo sem ástæða fyrir því að þú nefndir okkur Jakob „þrumusynina“. Þegar við fórum með þér á leið til Jerúsalem í þorp eitt í Samaríu vildum við láta eld af himni falla á þorpið í reiði okkar vegna þess að fólkið tók ekki á móti þér. Svona vorum við en þú svaraðir okkur mildilega og leiddir okkur fyrir sjónir að þú varst ekki kominn til að toríma heldur til að frelsa, ekki til að drottna með valdi heldur til að þjóna og gefa líf þitt fyrir marga. Þetta var lexían sem þú settir okkur fyrir. Svo þegar Salóme móðir okkar Jakobs fór með okkur til að spyrja þig hvort við bræðurnir mættum ekki setja þér til hægri og vinstri handa þegar þú kæmir í ríki þínu, þá varð nú ekki lítið uppistand í lærisveinahópnum. Enn og aftur bentir þú okkur á, að það væri ekki á þínu valdi, heldur spurðir þú okkur um kaleikinn sem þú varðst að drekka af, hvort við gætum drukkið hann. Við höfðum eiginlega ekki hugmynd um hvað þú varst að tala um þá, en núna skil ég að þú varst að vísa til þess að þú áttir eftir að verða upphafinn á kross, eins og höggormurinn í eyðimörkinni. Þannig leiddir þú okkur og mótaðir svo að við gátum boðað orðið sem gefur frið sem heimurinn getur ekki gefið né frá okkur tekið.

Trúarþroski að vaxa saman með Jesú

Ég vil vera í þér. Ég man þegar þú talaðir um að þú værir vínviðurinn og við værum greinarnar. Seinna þegar ég gekk um vínekrurnar í kring rann það upp fyrir mér hvað þú varst að segja. Við eigum að vera fullkomlega sameinuð þér eins og vínviðurinn er einn og ber ávöxt, það þarf að hreinsa hann til að hann beri meiri ávöxt. Það minnir á það sem er sárt í samskiptunum við þig en þá erum við að nálgast sannleikann í lífinu. Þannig leiðir þú okkur. Þú vilt að við séum hrein eins og þú ert hreinn. Og svo er vínviðurinn lítið annað en greinarnar en þær geta ekki verið án stofnsins.“Ég er“, sagðir þú svo oft. Nafnið heilaga, Guð. Þú ert Guð og við erum tengd þér eins og greinar vínviðnum. Allt þiggjum við frá þér og þú gefur ávöxtinn sem er elskan. Eins og þú hefur elskað okkur elskum við. Það gerist þegar við erum í þér og þú í okkur. Allt jarðneskt verður þá minna virði og þú verður okkur lífið, lífið eilífa. Þessa líkingu verð ég hafa í guðspjallinu. Og fleiri: Um góða hirðinn. Hátíðirnar í Jerúsalem þar sem þú varst, líkingarnar um ljósið og vatnið á Laufskálahátíðinni. Svo er það vitnisburður samversku konunnar um lifandi vatn og Nikódemusar um að endurfæðast og að þú verðir hafinn upp á tré eins og höggormurinn í eyðimörkinni, svo elskaði Guð að hann gaf okkur þig. Góði  Guð, hjálpaðu mér að vitna um þig svo að þeir sem sáu þig ekki né mættu þér trúi fyrir vitnisburð minn og þeirra sem voru með þér. Sælir eru þeir sem sáu ekki en trúa fyrir vitnisburðinn um þig.

Bók táknanna – kraftaverkin og samtöl Jesú við fólkið

Ég er búinn að velja sjö tákn sem þú gerðir. Pétur og Jóhannes Markús hafa skrifað um kraftaverkin og Mattheus og Lúkas. En ég má til að byrja á brúðkaupinu í Kana þar sem María móðir þín var og lærisveinarnir, sem við buðum til veislu. María var svo elskuleg og góð. Hún bað þig um að hjálpa okkur í vandræðum okkar þegar vínið þraut í brúðkaupinu okkar. Ég ætla að byrja á þessu tákni. Ég kann ekki við að nefna mig á nafn en ég vil vitna þannig að trúað fólk getur sett sig í mín spor, fundið til með mér, eins og ég gerði þegar ég var með þér, heyrði og sá, hallaði höfði mínu að barmi þínum. Það er að trúa, að treysta þér og vera hjá þér, vera í samfélagi við þig og í þér.

Þau sem nutu þín í táknunum vitnuðu flest um þig en ekki allir. Þau eignuðust flest lífið í þér og hafa vitnað um þig í söfnuðunum. Ég vil skrifa þessi samtöl þín við þau vegna þess að um það snýst trúin að treysta á þig. Þú ert lífið og ljósið. Öll samtölin leiða okkur fyrir sjónir hver þú ert. Líka þau sem gerðu lítið úr þér, deildu á þig. Það er eins og dimmur bakgrunnur. Þú komst til þinna og þitt eigið fólk tók ekki við þér. Það eru svo margir sem kjósa frekar myrkrið en ljósið. Þó að þú hafir gefið öllum rétt til að vera þín börn sem trúa á þig, taka við vitnisburðinum um þig.

Þú gafst tveimur mönnum sjónina þannig að þeir sáu aftur. Ég ætla að stilla þeim saman. Annar, sá við Betestalaug, var ósnortinn og þó að hann gæti séð, þá sá hann þig samt ekki. Þú vannst það tákn á hvíldardegi og leiðtogar gyðinga notuðu það gegn þér, að þú skyldir lækna þennan mann á hvíldardegi. Hin frásagan og vitnisburðurinn er allt annar. Sá maður sá þig birtast sér. Hann hafði verið blindur frá fæðingu. Andstæðingar þínir ruku upp og spurðust fyrir hjá foreldrum hans. Þau af ótta við þá vísuðu á soninn sinn en blindi maðurinn sem hafði fengið sjónina vitnaði um það sem þú hafðir gert fyrir hann. Þeir voru ævir af reiði. Andstaðan gegn þér var að magnast upp. En svo mættir þú honum og hann sá þig og trúði. Þetta eru raunveruleg dæmi um myrkrið og ljósið. Orðaskipti þín við andstæðinga þína sem vildu þig feigan vitna um þessi átök en þú hefur sigrað myrkrið, þú ert ljósið.

Vitnisburður samversku konunnar hefur verið mér hugleikinn. Það var upphafið að vakningunni í Samaríu. Meistari, þú sagðir okkur að byrja að boða fagnaðarerindið í Jerúsalem, svo í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar. Og við fórum af stað með loforð þitt í huga að þú myndir vera með okkur í verki. Við vorum að ganga inn í verkið sem þú byrjaðir á í heiminum. Það var þín fæða að vinna verk þess sem sendi þig og það hefur verið okkar hlutverk að halda verki þínu áfram. Ég fór til Samaríu og heyrði vitnisburð þessarar konu. Hún sagði margoft frá því í söfnuðinum þegar þú mættir henni við Jakobsbrunninn. Og þegar fólkið kom til þín og þú dvaldir hjá þeim í nokkra daga. Það varð þeim ógleymanlegt. En það var líka þetta samtal hennar við þig. Hún var svo ærleg í vitnisburði sínum. Þannig er að mæta þér með sannleikann. Sannleikann um okkur og sannleikann um þig. Þú ert sannleikurinn og lífið. Það hafði samverska konan reynt. Þú mættir henni eins og blinda manninum, sem hafði verið blindur frá fæðingu. Þú birtist þeim sem sá sem þú ert. Þú ert, sonur Guðs, Messías. Það rann upp fyrir samversku konunni við brunninn. Svo hljóp hún inn í þorpið og skyldi eftir skjóluna en hún kom aftur og fólkið úr þorpinu. Það játaði trúna á þig. „Við trúum á hann ekki lengur fyrir orð þín heldur höfum við heyrt og séð sjálf“, sögðu þau við hana. Oft hef ég hugsað um þessi orð og farið í gegnum þau og fundið þau leiðbeina mér í trúarlífi mínu, í samtali mínu við þig, Meistari minn.

Samtöl þín við lærisveina þína eru okkur svo gagnleg, vegna þess að þau eru vitnisburður fólks um þig. Þannig geta þeir sem sáu þig ekki, öðlast trúna og lifað í þínu nafni. Það er margreynt í söfnuðunum. Koma þín til Betaníu til systkinanna þar verður að vera á sínum stað. Þér þótti svo vænt um þau, Mörtu og Maríu og Lasarusar. Það er sannur vitnisburður um þig. Þannig varst þú, nærgætin og mildur. Þú leiðbeindir okkur svo vel og það var gott að vera hjá þér. Þú komst inn í sorg þeirra og sársauka við fráfall Lasarusar. Þær voru svo ólíkar systurnar, Marta og María. Marta kom strax á móti þér en María var hljóð í sorg sinni. Þannig ert þú. Þú mætir hverjum og einum í aðstæðum þeirra. Þetta var allt annað en venjulegt þegar Lasarus gekk út úr gröfinni. Undrunin var svo mikil og systurnar misstu sig í gleði og fögnuði. En þetta varð vendipunktur hjá andstæðingum þínum. Þá einsettu þeir sér að taka þig af lífi.

Stundin komin að Mannsonurinn verði gerður dýrðlegur

Það var í Betaníu að það rann upp fyrir mér að hverju stefndi. Þú sagðir okkur það berum orðum en við skildum ekki hvað þú áttir við með því að mannsonurinn ætti að verða upphafinn. Andstæðingar þínar skildu það betur en við enda ætluðu þeir sér að deyða þig við fyrsta tækifæri. Við fylgdum þér áleiðis, urðum vitni að píslum þínum, en þú fullkomnaðir verkið. Þú sagðir að faðir þinn himneskur myndi gera nafn þitt dýrðlegt með því að þú yrðir upp hafinn og draga alla til þín. Orð þín voru okkur ráðgátur. Við bræðurnir höfðum ætlað okkur tignarsæti í ríki þínu en nú sáum við það allt hrynja. Hver gat ráðið í þessa vegferð þína? Hver gat skilað að þú varðst að ganga þessa leið í gegnum þjáningu og dauða? Hver gat annar drukkið kaleikinn sem faðirnn rétt þér?

Síðasta kvöldið sagðir þú svo margt við okkur. Þú sýndir okkur líka fordæmi þegar við gengum til borðs. Þú þvoðir fætur okkar eins og þjónarnir gera. Þú snérir venjum okkar á hvolf. Þú sem ert Guðs sonur beygðir þig niður, tókst fatið og klútinn og þvoðir fætur okkar. Pétur mótmælti þessu, fjótur að hugsa, eins og vanalega. Þú talaðir um hreinsun og að vera skildir að skiptum, ef þú fengir ekki að þjóna okkur. Svo sagðir þú okkur að við ættum að elska eins og þú. Hefðum við ætlað okkur að við yrðum miklir menn og voldugir þá fór það allt forgörðum við þessi orð. Pétur bað þig að þvo þá líka höfuð og hendur en þú sagðir að þeir sem hefðu laugast þyrftu þess ekki með. Ég fylgdist með þessu og þú þvoðir fætur mína.

Andrúmsloftið var ólýsanlegt, ógleymanlegt. Hvert andartak er ljóslifandi fyrir mér. Þegar ég leit til Péturs og hann gaf mér bendingu um að spyrja þig þegar þú sagðir að einn okkar myndi svíkja þig. Og ég spurði þig. Þú tókst brauðbita, vættir hann í víninu og réttir Júdasi Ískaríot. Og hann fór út. Við vissum ekki í hvaða erindagjörðum, sumir héldu til að kaupa meira til hátíðarinnar.

Svo hélstu áfram að tala um ofsóknir og erfiðleika en að þú myndir senda okkur annan hjálpara. Ekki skildir þú okkur eftir ein heldur gæfir þú okkur allt sem við þyrftum. Þú kenndir okkur leið bænarinnar. Þú sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið og að enginn kæmi til föðurins nema fyrir þig. Þú sagðir okkur að biðja til föðurins í þínu nafni. Þú kallaðir okkur vini. Við fundum hvað þér var annt um okkur. Ég hallaði höfði mínu að barmi þínum þegar við vorum við borðhaldið í loftstofunni og þú talaðir til okkar öll þessi dýrðlegu orð. Ég hef skrifað þau niður í samfellda ræðu, ljóðræn orð og sönn.

Æðstaprests bænin – Jóh. 17

Þetta kvöld talaðir þú til okkar orðið. Fyrst var það í líkingum. Þú sýndir okkur fordæmi hvernig við áttum að lifa, þjóna í kærleika eins og þú hafðir gert, með því að þvo fætur okkar, eins og þjónn. Svo talaðir þú til okkar í líkingum um vínviðinn og fæðingahríðir konu en í lok kvöldsins talaðir þú ekki lengur í líkingum. Þú sagðist vera að fara frá okkur, en við myndum sjá þig aftur. Þú sagðir að þú hefðir sigrað heiminn. Við skildum minnst af þessu en skynjuðum að eitthvað var í aðsígi. Þú sagði okkur að andinn myndi leiða okkur í allan sannleikann, nú vitum við hvað þú áttir við. Þú varst að undirbúa okkur í elsku þinni fyrir það sem var í vændum, krossfesting þín, dauði og upprisa. Nú sjáum við það ljóst. Þess vegna hef ég sett þessa ræðu á undan píslarsögunni. Þannig talaðir þú til okkar. Orð þín þetta kvöld eru ljóslifandi leiðsögn trúuðum manni um að lífið í heiminum.

Við lásum saman og sungum páskasálmana en svo baðst þú fyrir okkur. Aldrei hef ég verið nær Guði. Þú hafðir sýnt okkur Guð með veru þinni hjá okkur, við höfðum séð og heyrt, snert og lifað. Nú baðstu til föðurins. Þakkaðir fyrir það að hann hefði gefið þér okkur. Ég fann hlýju þína og elsku Guðs. Að þekkja föðurinn fyrir þig er eilífa lífið. Það þurfti ekkert að útskýra frekar því að það vorum við að lifa þessi augnablik með þér í bæninni. Oft höfðum við verið með þér í bæn en þarna eins og opnaðist hjarta þitt og við sáum Guð föður eins og þú birtir hann, sannleikann og lífið. Hvert orð þitt lifði með mér. Þú baðst fyrir framtíð okkar sem var ekki björt frá mannlegu sjónarmiði séð en út frá dýrð Guðs áttum við allt, sem skipti máli, þig, veginn til föðurins. Svo baðstu fyrir öllum sem myndu trúa án þess að sjá þig fyrir vitnisburð okkar. Þú baðst fyrir öllum að þeir kæmust til þekkingar á þér. Þú sagðir að Guð hefði sent þig og þú sendir okkur út í heiminn og baðst um að við myndum varðveitast í þér. Þarna tengdumst við órjúfanlega við þig að okkur fannst og við hvert annað. Við urðum vitni að kærleika Guðs en svo rann upp fyrir okkur staðreyndin að þú varðst að ganga síðustu skrefinn einn. Þú einn drakst af kaleiknum og lést okkur fara frá þér þegar þú hafðir gengið yfir lækinn dimma, Kedron, inn í grasgarðinn þar sem þú varst handtekinn. Þeir héldu að þeir færu með valdi, brynjaðir og vopnaðir, en það var vegna þess að þú leyfðir það.

Í hallargarði æðsta prestsins

Við Pétur fylgdum þér áleiðis. Ég var kunnugur Annasi tengdaföður Kaífasi æðstapresti. Þeir fóru saman með embættið eða skiptust á eftir árum. Ég fékk heimild til að koma inn í hallargarðinn með Pétur. Hann beið fyrir utan á meðan ég fékk heimildina en ég fylgdist með þér, Jesú, þegar hann var leiddur inn í hallargarðinn. Það stóð þerna við dyrnar þar sem við fengum að fara inn og gætti þeirra. Hún þóttist kannast við Pétur enda hafði hann talað fyrir munn okkar opinberlega en ég hafði haldið mig meira til baka. Pétur hefur oft sagt frá þessu í söfnuðunum, svo ærlegur við sjálfan sig og þig, en það er vegna þess að þú kenndir honum mátt fyrirgefningarinnar í gegnum þessa sáru reynslu. Orðin brenndu sig inn í samvisku hans þegar hann svaraði henni þegar hún spurði hvort hann væri ekki einn af lærisveinum Jesú: „Ekki er ég það“, sagði hann.

Það var kallt þessa nótt og kolaeldar loguðu í hallargarðinum. Æðsti presturinn spurði um fylgismenn þína og um kenningu þína. Þú svaraðir honum fullum hálsi að þú hefðir kennt í helgidóminum og samkunduhúsunum. Sagðir honum að spyrja þá sem höfðu heyrt. Ekkert sagðir þú til okkar vegna þess að þú vildir hlífa okkur, einn varðst þú að gang þess píslarleið, eins og æðsti presturinn Kaífas hafði spáð fyrir, „að betra er að einn maður dæi fyrir lýðinn“. Þá var það einn í varðliðið æðstaprestsins sem sló þig utan undir fyrir að svara æðsta prestinum svona. Það var fyrsta höggið, en þú baðst hann að sanna að svo hafi verið og spurði hann: „Hví slærð þú mig?“

Pétur stóð við eldana og var að verma sig þegar annar maður spurði til hans hvort hann væri ekki einn af þeim og enn svaraði Pétur: „Ekki er ég það.“ Og svo var það einn af þjónum æðstaprestsins sem var frændi þess sem Pétur sneið af eyrað í grasgarðinum sem spurði hann í þriðja sinn. Aftur neitaði Pétur og um leið gól hani eins og þú hafðir sagt fyrir. Ég fann til með Pétri og var sjálfur hræddur vegna þess að múgurinn var æstur.

Í höll Pílatusar

Þá var farið með þig frá æðstaprestunum til Pílatusar landsstjóra vegna þess að þeir máttu ekki framkvæma dauðarefsingu. Þeir stóðu úti fyrir höllinni vegna þess að þeir vildu ekki óhreinka sig með því að hafa samneyti við heiðingja rétt fyrir hátíðina, þá gætu þeir ekki neytt páskamáltíðarinnar. Pílatus kom út til þeirra og vildi leysa þetta auðveldlega en þegar hann heyrði að þeir vildu dæma þig til dauða yfirheyrði hann þig. Þá skildi ég að þú varst að ganga í dauðann. Pílatus yfirheyrði þig inni í höllinni. Hann spurði þig hvort þú værir konungur gyðinga. Hann vildi fá að vita hvað þú hefðir gert. Þú sagðir honum að ríki þitt væri ekki af þessum heimi, annars hefðu þínir menn barist. Þá skildi ég að vopnum verður ekki beytt ríki þínu til framdráttar. Pílatus ályktaði þá að þú værir konungur. Og þú sagðir honum það rétt vera: „Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er sannleikans megin heyrir mína rödd“. Þá hæddist Pílatus að þér: „Hvað er sannleikur?“, spurði hann.

Hann sá að þú varst saklaus og tilkynnti þeim það og ætlaði að komast hjá að dæma með því að vísa til sakaruppgjafar, því hann var vanur að láta einn bandingja lausan á páskum. Hann spurði þá: „Viljið þið nú að ég gefi ykkur lausan konung gyðinga?“ En þeir ærðust og hrópuðu: „Ekki hann heldur Barabbas“, en hann var ræningi. Þá varst þú hæddur og smáður, húðstrýktur og hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð þitt og lögð purpurakápu á herðar þér. Allt til að hæða þig fyrir orð þín og þá sem vildu fá þig dæmdann til dauða. Þannig leiddi hann þig út aftur til að sýna að enga sök fann hann hjá þér. Pílatus sagði við fólkið: „Sjáið manninn“.

Þá gerðist það óttalega. Fólkið hrópaði: „Krossfestu, krossfestu!“ En Pílatus svaraði: „Takið þið hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum“.

Og þá kváðu þeir upp að samkvæmt lögmálinu ættir þú að deyja vegna þess að þú hefði gert sjálfan þig að Guðs syni. Pílatusi var brugðið við þessi orð, hann áttaði sig á að þetta var óvanalegt mál. Hann fór aftur inn í höllina með þig og þú staðfestir við hann þegar hann leitaði eftir því með svara þínu hver þú ert. Og hann þóttist hafa vald yfir þér, að hann gæti látið krossfesta þig. En þú sagðir að hann hefði ekkert vald yfir þér nema honum væri það gefið að ofan. Eitthvað hafði Pílatus greint svo hann reyndi enn að láta þig lausan en þá skákuðu þeir því að hann væri engin vinur keisarans ef hann léti lausan mann sem gerði sig að konungi. Við það leiddi Pílatus þig út og dæmdi á steinhlaðinu til dauða. Gerði það að háðung: „Sjáið þar konung ykkar!“ Það endaði með því að prestarnir hrópuðu: „Við höfum engan konung nema keisarann.“ Þá seldi hann þeim þig í hendur þeirra og hermanna sinna til að láta krossfesta þig.

Krossfestingin

Ég var við krossinn með konunum sem höfðu fylgt þér. Þú varst látinn bera krossinn út á Golgata. Hamarshöggin nísta mig enn þegar þú varst negldur og festur á krossinn. Pílatus lét setja þessa háðslegu yfirskrift til að niðurlægja þá sem létu dæma þig: „Jesús frá Nasaret, konungur gyðinga“. Þeir vildu að hann breytti yfirskriftinni að þú hefðir sagt, en Pílatus vísaði því frá: „Það sem ég hef skrifað hef ég skrifað“, sagði hann við þá. Þannig varst þú krossfestur sem konungur heimsins

Hermennirnir köstuðu hlut um kyrtil þinn sem var ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir köstuðu frekar hlut um hann frekar en að eyðileggja hann. Þannig rættist spádómurinn: „Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn“. Þetta voru prestleg klæði þín tekin af þér, æðstaprestinum hæsta. Nakinn varst þú og niðurlægður. Þú hafðir talað um að vera upphafinn frá jörðu. Nú sáum við það með eigin augum gerast.

(Þar stóð ég með móður þinni og móður minni Salóme, Maríu, konu Klópa, og Maríu Magdalenu.) Í kvöl þinni horfðir þú til okkar og sagðir við mig af elsku þinni til mín og móður þinnar: „Kona, nú er hann sonur þinn“. Og við mig: „Nú er hún móðir þín“. Síðan fylgdi María móðir þín okkur. Það hefur verið dýrmætt að mega hafa hana hér árin í Efesus. Þannig var og er elska þín til okkar sem fygjum þér, stöndum undir krossi þínum, þar sjáum við þig upphafinn og eigum í trúnni lífið í þínu nafni, með sinn læknandi mátt. Þannig birtist elska þín í þessu mesta myrkri, þjáningu og kvöl, þar ert þú. Krossin birtir okkur það að ekki er það myrkur til að þú sért ekki þar til staðar að bjarga og hjálpa.

Þess vegna sagðir þú að lokum að þig þyrsti. Þig þyrsti eftir að hjálpa okkur börnunum þínum, börnum ljóssins. Þú fullkomnaðir það sem þú varst sendur til að gera að tæma bikarinn. Þannig gafst þú upp andann, sagðir orðin: „Það er fullkomnað“. Þannig gafst þú okkur anda þinn til að vera í okkur og draga alla til þín.

Þessi hræðilega aftaka endaði með því að fætur voru brotnir svo að fórnarlömbin köfnuðu undan eigin þunga. En þegar kom að þér sáu þeir að þú varst þá þegar dáinn enda hefði húðstrýkingin ein verið nóg til þess að deyða þig. Þá lagði einn hermannanna spjót í síðu þína og rann út blóð og vatn. Þetta sá ég með eigin augum og hef vitnað um það og hef látið alla um það vita. Þannig rættust ritningarnar: „Ekkert bein hans skal brotið“. Þannig gafst þú líf þitt og þess vegna streymir elska þín frá þeim sem á þig trúa. Og ég hef séð og heyrt þetta allt sjálfur. Ég má til að skrá þetta allt í bók þegar ég fæ tækifæri til.

 

 

Published
Categorized as Skrif

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: