Persónur píslarsögunnar. 1. þáttur: Pétur postuli, fljótfær og mistækur maður

Afneitun Péturs eftir Carravagio

Í tilefni af 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags 2017 samdi ég fjóra einþáttunga og samtöl. Ég nefndi þættina fjóra Persónur píslarsögunnar. Sama ár á páskadag lagði ég drög að fimmta þættinum um vitnisburð upprisunnar. Nú hef ég gengið frá þeim þætti og verða þeir allir fluttir á Lindinni nú á föstunni og páskum (2022). Þannig vonast ég til að boðskapur föstunnar og páskanna verði okkur ljóslifandi.

Hugmyndina fékk ég hjá herprestinum og aðventistanum dr. Richard Stenbakken og sótti fyrsta þáttinn að miklu leyti til hans. Hann flutti sína þætti sem leikrit og gerir það á einstakan hátt og um víða veröld. Þeir eru til á DVD diskum. En ég fékk starfsfólk hjá Lindinni til að flytja mína þætti í útvarpi. Von mín og bæn er að þættirnir hjálpi okkur að íhuga og biðja yfir píslarsögunni og vitnisburði upprisunnar. Birti ég hér textann og hlóðskrá sem ég fékk góðfúslega hjá útvarpstöðinni Lindinni fyrir vikið. Ég vil þakka öllum þeim mörgu sem gerði mögulegt að koma þessu á framfæri. Njótiði vel og blessi ykkur góður Guð.

Þættirnir eru á Lindinni á miðvikudögum kl. 9 og sunnudögum kl. 10.

Inngangur

Hér má hlusta á þáttinn: 

Nú verður fluttir fyrsti þáttur af fjórum sem ber heitið: Persónur píslarsögunnar. Eru þættirnir fluttir í tilefni af 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags.

Eintal sálarinnar hét bók ein og fjallaði um samtal mannsálarinnar við Guð sinn. Þannig samtöl er að finna í biblíunni. Segja má að öll samtöl Jesú, meira og minna, séu þannig samtöl sálarinnar við Guð. Með þeim hætti les trúaður maður orðið. Hann lifir sig inn í persónurnar, heyrir Guð tala til sín, trúarreynsla þeirra sem mættu Jesú augliti til auglitis er geymd í þessum frásögnum, orðaskiptum og lýsingum. Þannig er Biblían Guðs orð, lifandi orð, sívirkt og skapandi fyrir heilagan anda.

Í þessum fjórum þáttum, enþáttungum og samtölum, verður gerð tilraun til að lifa sig inn í samtal nokkurra persóna sem urðu vitni að píslargöngu Jesú frá Nasaret. Um leið og við hlustum á samtal þeirra við Guð sinn og okkur getur það orðið samtal okkar við Guð. Við nálgumst þannig hjarta trúaðs manns og vitnisburð þeirra sem voru viðstaddir píslargönguna og krossfestinguna. Þættinga byggi ég á guðspjöllunum sem best. En það er eins með leikrit og kvikmynd að það verður að skýra það sem liggur milli línanna og ákveða einstaka atriði sem skilja má með mismunandi hætti. Ætlunin er að þessi framsetning geri persónurnar ljóslifandi fyrir áheyrendur.

Fyrirmyndin er í einþáttungum sem aðventistinn séra Richard Stenbakken gerði og lék og kallaði Andlitin við krossinn (e. Faces Around the Cross). Við flytjum þennan texta í útvarpi svo hin sjónrænu áhrif skortir en von okkar sem flytjum þessar biblíulegu íhuganir er að andi guðspjallanna skili sér til áheyrenda. Í fyrsta þætti: Pétur postuli, fjótfær og mistækur maður er stuðst við leikrit Stenbakken. Í þriðja þætti: Jóhannes, annar af þrumusonunum verður postuli kærleikans, er bæn hans á Patmos þar sem hann lítur yfir farinn veg, gamall maður. Hann er að hugleiða að skrifa guðspjall. Til að hafa jafnræði milli kynjanna eru annar þáttur sem hefur yfirskriftina: Maríu, móður Drottins og íhugun orðsins, og fjórði þáttur: Marta og María frá Betaníu hugleiða dauðann og lífið eilífa. Þeir eru unnir út frá guðspjöllunum og ritskýringum. En nú er komið að fyrsta þættinum sem heitir: Pétur postuli, fljótfær og mistækur maður. Minni Pétur flytur Elvar Eiðsson en lesari er Fjalar Freyr Einarsson.

1. þáttur
Pétur postuli,
fljótfær og mistækur maður

Pétur lítur til baka þar sem hann er við Genesaret-vatnið að hvíla sig eftir langa prédikunarferð. Hann er reynslunni ríkari og hefur lært í eftirfylgdinni við Jesú að það er Drottinn Jesús sem leiðir. Í bréfi sínu skrifaði hann um reynslu sína af Jesú sem lesa má í 1. Pét. 5, 6-11:

6Fagnið því þótt þið nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. 7Það er til þess að trúfesti ykkar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó er reynt í eldi, geti orðið ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists. 8Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði 9þegar þið eruð að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar. 

10Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð sem ykkur mundi hlotnast. 11Þeir rannsökuðu til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti þá er hann vitnaði fyrir fram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir. (1. Pét. 5, 6-11).

Fiskimenn við Galíleuvatn

Pétur: Komið þið sæl. Hvað heitið þið? Ég heiti Pétur. Þið hafði vafalaust heyrt um mig. Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig Jesús kom inn í líf mitt. Sjáið til ég var fiskimaður. Netið sem ég er með kemur upp um mig. Einn daginn var ég að vinna við vatnið. Já, og bróðir minn, sem þið hafið kannski heyrt um. Hann var ekkert sérstaklega málgefin. Hann þarf þess svo sem ekki þegar ég er nálægur. Hann er frekar hljóðlátur en kannski er það vegna þess að hann færa aldrei tækifæri til að tala. Hvað um það?

Við vorum sem sagt að laga net okkar þegar Andrés, bróðir minn, kemur til mín og segir að hann og nokkrir aðrir vilja fara að hlusta á náunga sem var kallaður Jóhannes skírari. „Já, já, farið þið bara“, sagði ég, „það breytir engu, ég er hvort eð er að verða búinn að laga netin“.

Seinna um daginn kom Andrés, hljóðláti bróðirinn minn, og ég hef aldrei nokkurn tímann heyrt annað eins. Það var eins og hann væri ástfanginn. Líklega var hann það. Hann sagði við mig: „Komdu Pétur og sjáðu manninn sem við hittum, Jesús, hann er ábyggilega Messías“. Hann var yfir sig hrifinn.

Ég er þannig gerður að ég verð að sjá til að trúa. Ég sagði við Andrés bróðir að ég sæi að hann væri spenntur en ég sagði honum líka að við þyrftum að klára að undirbúa veiðiferðina, gera netin klár og setja allt í bátana. Maður getur ekki lifað á spennu.

Jesús prédikar við vatnið

Nokkru seinna, já, það var nokkuð um liðið. Þá var það eftir eina nóttina á vatninu, þegar við höfðum verið við veiðar alla nóttina án þess að veiða nokkurn skapaðan hlut. Við vorum með varpnet og köstuðum þeim út aftur og aftur í von um að veiða fisk. Þegar maður hefur staðið í því alla nóttina og ekki fengið bröndu þá eru það slæmar fréttir. Fiskimenn geta ekki selt von, þeir verða að selja fisk. Við veiðum fist til að selja. Við höfðum verið að alla nóttina og ekki veitt einn einasta fisk. Ekki eina bröndu. Ekkert.

Ég skal segja ykkur annað að þegar maður hefur verið að kasta neti alla nóttina sem er blautt og þungt, sökkurnar eru íþyngjandi, þá er maður þreyttur. Hendur og handleggir verða eins og blý, við vorum örmagna. Með tóm net lögðum við að landi.

Þá sagði Andrés við mig: „Komdu Pétur. Þetta er Jesús sem ég hef verið að segja þér frá“. Ég var að laga netin og undirbúa þau. Fyrst við höfðum ekkert veitt hlaut að vera eitthvað að veiðarfærunum. En það reyndist ekki vera.

Þá kom Jesús mér á óvart. Það var margt fólk við ströndina. Það var mannþröng sem þrengdi að bátunum við ströndina. Ég hafði lagt við eyru þegar hann var að prédika. Góður prédikari. En eins og ég segi, fiskimaður getur ekki selt von heldur verður að selja fisk. En Jesús sagði við mig: „Má ég nota bátinn þinn“. En ég sagði: „Ja, hvað ætlar þú að gera við hann“. Hann sagði við mig: „Leggðu lítið eitt frá landi“. Mér fannst þetta snjallt að fara aðeins út á vatnið þannig að rödd hans bærist til fólksins á ströndinni. Og nú var hábjartur dagur og ekkert að hafa á vatninu. Ástæðan fyrir því að við veiðum á næturnar er að þá geta fiskarnir ekki séð mann eins og á daginn og þá koma þeir að yfirborðinu að ná sér í fæði. Á daginn þegar fuglarnir eru á sveimi og bátarnir vagga í fjörunni fara þeir niður í djúpið.

Við lögðum lítið eitt frá landi og hann prédikaði. Ég hlustaði. Báturinn ruggaði rólega á öldunum. En þegar hann hafði lokið máli sínu sagi hann við mig: „Leggðu á djúpið! Kastaðu neti þínu hinu megin við bátinn og veiddu fisk“. Nú þarf ég að segja ykkur nokkuð. Ég hef gert mörg mistök um ævina. Ég var nærri búinn að gera mistök þá. Hann er góður meistari. Hann er góður kennari. En hvað veit hann um fiskveiðar? Hvað getur hann kennt mér sem ég kann ekki um fiskveiðar? En þegar Jesús talar er gott að fara eftir því. Ég vissi það svo sem ekki þá en nú veit ég það. Fiskar eru misstórir eins og þið vitið. En þarna var ég nærri búinn að gera stór mistök. Hvað veit hann um fiskveiðar? Hann skapaði að vísu allt, vatnið og fiskinn. Og ég kastaði út netinu með það í huga, hvað veit hann um fiskveiðar. Annars hugar fór ég draga netið inn og þá tók svo mikið í að ég gat varla dregið það að bátnum. Það var svo mikill fiskur að við gátum varla náð aflanum um borð. Ég stóð upp og hló við þegar ég horfði á Jesú. Svo kraup ég á hnén, þegar ég áttaði mig á hver hann er, og tók utan um fætur hans og sagði: „Farðu frá mér“. Hann gat svo sem ekkert farið. Hann var í bátnum mínum og ég hélt utan um fætur hans. Þegar þú segir Jesú að fara frá þér þá ertu að gera stór mistök. Það rann upp fyrir mér að hann var ekki aðeins meistari og kennari. Hann var einstakur. Í fyrstu trúði ég ekki bróður mínum. Þegar maður segir að maður þurfi ekki að trúa öðrum þá er maður að gera mikil mistök. Það var erfitt að kenna mér en Jesús gafst ekki upp á mér.

Jesús með lærisveinunum í Samaríu

Ég gerði mörg mistök. Einu sinni var Jesús á gangi og sagði: „Mig hungrar. Farið þið inn í bæinn og kaupið eitthvað að borða og ég bíð hér við brunninn“. Við lærisveinarnir gengum inn í bæinn og vorum að rökræða um ýmislegt. Svo komum við til baka. Og hvað haldið þið. Þarna var hann við brunninn og við hvern var hann að tala, samverska konu. Fyrst þetta. Við viljum ekki hafa neitt með Samverja að gera. Við erum betri en þeir, þannig hugsum við alltaf, betri en aðrir. Við voru að gera stór mistök vegna þess í augum Guðs erum við öll jöfn. Ef Guð er sá sem skapað hefur allt, þá hefur hann skapað okkur öll. Það þýðir að við erum öll börnin hans, þó að við tölum mismunandi tungumál, höfum ólíkan hörundslit. Og svo þegar ég sá að hann var að tala við konu þá hugsaði ég sem svo, hvað vita konur um guðfræði. Það voru líka mikil mistök. Jesús talaði við hana og hún reyndist meiri og betri en við lærisveinar hans. Hún leiddi alls konar fólk til hans á meðan við vorum að deila um það hver væri mestur okkar á meðal. Við vorum sífellt að gera mistök.

Jesús mettar mannfjöldann og undrin á vatninu

Svo var það öðru sinni sem ég gerði mistök. Það hafði aftur með vatn að gera. Jesús þurfti að fæða fimm þúsund manns. Andrés bróðir minn þekkti það sem bjó með fólki. Hann kynntist fólkinu í þessum stóra flokki. Meðan ég var að tala var hann að tengjast fólkinu. Hann benti á pilt sem kom með nestið sitt til Jesú, fimm byggbrauð og tvo fiska. Og Jesús sagði: „Takið þetta og gefið fólkinu“. Og við gerðum það. Það var stórkostlegt. Þetta var meiriháttar. Allir koma til með að vilja fylgja Jesú og við vorum með honum fyrst.

En Jesús sagði við okkur að fara yfir um vatnið. Hann sagðist hitta okkur handan við vatnið. Það voru vonbrigði fyrir okkur vegna þess að við vildum vera með fjöldanum og baða okkur í frægðinni. En Jesús sagði okkur að fara, við kvörtuðum, en fórum.

Ekki kvarta þegar Jesús biður ykkur um að gera eitthvað. Farið eftir því sem hann segir vegna þess að það eru mistök að streitast á móti.

Jæja, við fórum í bátinn og sigldum yfir vatnið. Nú verðið þið að átta ykkur á því að ég hef verið alla ævi á þessu vatni. Mér finnst þetta vera vatnið mitt. Ég veit að á augabragði getur vindurinn steypt sér yfir hæðirnar svo að vatnið breytist í ólgandi haf þegar stormurinn skellur á. Öldurnar rísa hátt og það var það sem gerðist þessa nótt. Fyrst sigldum við þöndum seglum en svo fóru þau að rifna. Vindurinn kvein í reiðanum. Þetta var skelfilegt. Aldrei hef ég verið í þvílíkum stormi. Við vorum hræddir. Við reyndum að róa svo að okkur verkjaði í hendurnar. Við héldum að við værum að farast þarna í storminum.

Þá í miðjum óveðrinu, ég held að það hafi verið Jóhannes sem gaf mér olnbogaskot og benti mér út í ólguna og sagði: „Sjáðu, Pétur!“ „Hvað?“, sagði ég. „Þarna“, sagði hann. „Hvað er þetta?“, sagði ég og skimaði út í storminn. Ef við vorum hræddir áður þá urðum við skelfingu lostnir núna. Við sáum einhverja veru, sem við héldum að væri vofa. En þegar við störðum út í öldurótið betur þá þekktum við Jesú þar og hann kallaði til okkar: „Verið hughraustir, þetta er ég, verið óhræddir“.

Þá fékk ég snjalla hugmynd. Ég hef reyndar lært það núna að þegar ég fæ snjallar hugmyndir og framkvæmi án þess að tala við Guð fyrst þá er ég að gera mistöku. Vitið hvaða hugmynd skaut niður í kollinn á mér. Ég kallaði til Jesú: „Ef þetta ert þú, Drottinn, leyfðu mér þá að koma til þín á vatninu“. Það var svo sem engin ástæða fyrir þessu. Ég fékk bara þessa hugdettu og fannst það snjallt. Ég veit ekki hvers vegna. Oft tala ég fyrst og hugsa svo eftir á. En Jesús sagði: „Gott og vel, komdu til mín“. Nú var ég kominn í dálítinn vanda. Sjáið til, þið vitið hvað ég heiti, Pétur, það þýðir klettur, steinn, þannig syndi ég eins og steinn. Og hann sagði við mig… Ég hafði reyndar stungið upp á því. En ég lét bara vaða og prófaði. Ég steig út fyrir bátinn. Gætti þess að hafa þungann á fætinum í bátnum og svo gekk ég á vatninu. Svo kom önnur hugsun upp í hugann. Meðan ég gekk á vatninu langaði mig til að sjá svipinn á hinum lærisveinunum. Öldurnar voru svo miklar. Ég mátti til með að líta til þeirra og velti því fyrir mér hvað þeir væru að hugsa. Þegar ég gerði það þá tók ég augu mín af Jesú. Um leið vissi ég að ég hafði gert stór mistök. Þegar þú lítur af Jesú ertu að gera mistök. Þá fór ég að sökkva eins og steinn. Jesús var kominn á augabragði. Ég hef lært það að stundum þurfum við að fara niður til þess að hann lyftir okkur upp. Ég kallaði: „Drottinn, bjargaðu mér!“. Þá var hann þar og dró mig upp. Tók um herðar mér og fór með mig í bátinn. Mér fannst leiðinlegt að svona skildi fara. Ég var glaður yfir því að Jesús bjargaði mér. Taktu ekki augu þín af Jesú. Það er mistök í lífinu. Sérstaklega þegar ég horfðist í augu við hina lærisveinana. Ég var náttúrulega glaður yfir að Jesús bjargaði mér. Taktu ekki augu þín af Jesú. Það eru mistök í lífinu. Sama hvað annað fólk segir eða hugsar. Horfðu á Jesú.

Um musterisgjaldið

Annað atvik átti sér stað við vatnið. Við lærisveinarnir sátum saman og ræddum um allt það góða sem Jesús hafði gert. Og um framtíðardrauma okkar. Þá komu farísearnir og lögvitringarnir til okkar. Þeir vissu að ég hafði gjarnana orð fyrir lærisveinunum svo þeir spruðu mig: „Borgar meistari ykkar ekki musterisskattinn?“ Hugsunarlaust svaraði ég: „Auðvitað geri hann það“. Svo fékk ég bakþanka og fór að velta því fyrir mér vegna þess að ég var ekki viss. Við eigum allir að borga musterisgjaldið, tvær drökmur á mann.

Svo ég fór inn í húsið þar sem Jesús var og hann sagði við mig áður en ég gat spurt: „Hvað segir þú Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar toll eða skatt? Af börnum sínum eða vandalausum?“ Ég svaraði um leið: „Af vandalausum.“ Æ, þá rann upp fyrir mér að ég hafði gert mistök og var í vanda. En Jesús brosti og sagði: „Farðu að veiða en notaðu línu og öngul í þetta sinn?“ Ég hugsaði sem svo að það væri lítil von til að fá fisk á línu, en sagði ekkert. Svo sagði Jesú við mig með bros á vör: „Taktu fyrsta fiskinn, sem þú dregur, opna munn hans og þú munt finna pening. Tak hann og greið þeim fyrir mig og þig.“

Ég var svo spenntur þegar ég fór út og hitta skattheimtumennina og þeir endurtóku spurningu sína um greiðslu meistarans á musterisskattinum. Ég sagði þeim að koma með mér og þeir spurðu hvert ég væri að fara. Ég sagði þeim að ég væri að fara að veiða og þeir spurðu undrandi hvort ég ætlaði að fara að veiða til að borga skattinn. Ég vissa hvað ég vara að fara að gera en þeir höfðu ekki hugmynd. Ég kastaði út línunni og getið þið ímyndað ykkur fiskurinn var að bíða eftir mér, hann var á mannaveiðum, vildi endilega losna við þennan pening sem hann var með upp í sér. Hann var að leita að önglinum til að ná til mín. Ég gerði eins og Jesús sagði mér, kastaði út línunni, náði í fiskinn, opnaði munninn, tók fjögurra drökmu peninginn og lét skattheimtumennina hafa hann, borgaði skattinn fyrir mig og Jesú. Ég hafði ekki einu sinni fyrir því að skola af honum og hló með sjálfum mér. Þannig er Jesús þó að maður geri mistök er honum svo annt um mann að hann hjálpar manni. Hann vill ekki að við gerum mistök en hann elskar okkur engu að síður, þó að við gerum mistöku. Þetta veit ég vegna þess að það hef ég margreynt að Jesús fyrirgefur.

Fótaþvotturinn

Enn eina sögu af vatni má ég til að segja ykkur. Það var síðasta vikan sem Jesús var á meðal okkar. Við Jóhannes vorum að undirbúa páskamáltíðina. Þið þekkið söguna. Ég átti að vera sá ábyggilegasti í hópnum. Ég var upptekinn við að tala, ánægður með mig, án þess að taka eftir því sem var að gerast. Ég gerði þau mistök að ég fékk ekki þjón til að þvo fætur veislugestanna. Það var venjan að þvo fætur gesta þegar þeir komu til veislumáltíðar, svo mér varð illa á. Ég reyndi að fá Jóhannes til að sinna því en hann var við hlið Jesú og engin leiða að fá hann þaðan og allir hinir voru ekki til í að leggjast svo lágt að gangi í verk þjónsins. Ekki ætlaði ég mér að fara í hlutverk þjónsins.

En þá stóð Jesús upp og fór að þvo fætur okkar. Hann byrjaði á Júdasi. Það var eitthvað farið að brjótast um innra með honum. Hann leit ekki vel út þetta kvöld. Jesús virðist alltaf byrja með þeim sem þurfa mest á honum að halda. Þegar hann kom að mér var mér ofboðið. Ég sagði: „Nei, Drottinn, aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Þetta var of lítilsvirt verk fyrir hann. Hann átti ekki að þjóna mér, en ég var náttúrulega ekki að þjóna honum. En þá sagða Jesús við mig: „Ef ég þvæ ekki fætur þína þá áttu enga samleið með mér.“

Það sem hann var að segja var þetta, ef ég má ekki gefa þér það sem ég vil, þá hefur þú ekkert að gefa öðrum. Ég skildi það ekki þá. Ég streittist á móti og sagði: „Nei, Drottinn“. Það á aldrei við að segja: „NEI, Drottinn“. Vegna þess að ef hann er Drottinn þá er rétt að segja JÁ við hann. Hann kenndi mér að komast úr þeim mistökum að segja nei við Drottinn. Segðu JÁ við hann. Þú þarft ekki að skilja en gerðu það sem hann vill að þú gerir. Leyfðu honum að gera það fyrir þig sem hann vill.

Stundum er erfiðara að vera sá sem þiggur en sá sem veitir. Þegar þú gefur ertu sá sem stendur hærra en þegar þú þiggur þarftu að vera auðmjúkur. Þannig var það í raun að ég var ekkert sérstaklega auðmjúkur. Þegar hann sagði mér að við ættum enga samleið ef hann fengi ekki að þvo fætur mína, þá sagði ég honum að þvo líka hendur og höfuð. Þá lét hann mig vita að ég þyrfti ekki að baðast, ég þyrfti aðeins að leyfa honum að komast að í lífi mínu. Svo þvoði hann fætur mína. Því gleymi ég ekki.

Afneitum Péturs og fyrirgefning

Undir máltíðinni sagði hann að einn okkar myndi svíkja hann. Og allir fóra að segja að það myndum við aldrei gera. Ég hafið stór orð í frammi. „Þó að allir hinir myndu yfirgefa hann myndi ég aldrei nokkurn tíman gera það“, það sagði ég og sárt við lagði. Mín stóru mistök voru þau að ég þekkti ekki sjálfan mig. Jesús þekkti mig, en ég þekkti ekki sjálfan mig. Þið vitið hvernig sagan fór.

Við fórum út í Getsemane garðinn. Hann bað nokkra okkar að vaka og biðja með sér. Við vissum það ekki þá en þetta voru hans síðustu stundir áður en hann var krossfestur. Hann bað okkur að biðja með sér. Vitiði hvað við gerðum? Við sofnuðum. Það eru stór mistök þegar við sofum þegar við eigum að vera að biðja, eins er það þegar söfnuðurnir eiga að vera að biðja og þeir sofa þá er hann að gera stór mistök. Þegar við vöknuðum heyrðum við í herfylkingu á ferð. Ég reyndi að verjast en Jesús stoppaði mig. Og við flúðum allir, burt frá Jesú. Það eru mistök að flýja frá Jesús í stað þess að koma til hans.

Jóhannes hjálpaði mér að komast inn í hallargarð Kaífasar, æðstaprests. Vondur maður þessi Kaífas, hrokafullur og skilningssljór, yfirlætislegur og stífur. Kannski er ég þannig líka.

Þegar við komum inn var kona við hliðið sem spurði mig hvort ég hefði ekki verið einn af lærisveinum Jesú. En ég neitaði því. „Ekki ég!“, sagði ég. Það var kalt um nóttina svo það voru kveiktir upp kolaeldar í garðinum. Mér var líka kalt í sálinni. Svo ég leitaði í eldana. Ég reyndi að hylja andlit mitt en ég var í ljósinu af eldunum þegar ég kom nær. Þar var annar sem hélt því fram að ég væri einn af lærisveinum Jesú. Aftur neitaði ég og notaði orðbragð fiskimannanna sem ég hafði ekki haft á vörum um tíma til að leggja áherslu á orð mín. „Orðfæri þitt kemur upp um þig“, var sagt við mig. Ég lét hann heyra nokkur vel valin orð. Jóhannes varð undrandi á mér, sá ég og ég skammaðist mín. Seinna þegar ég stóð við annan eld horfðist ég í augu við mann sem ég kannaðist við úr Getsemanegarðinu. Það var frændi Malkúsar sem ég hafði sneitt eyrað af í garðinum, vegna þess að ég ætlaði að fara mínar leiðir, þegar ég vaknaði og varðmenn æðstaprestsins komu að okkur óvörum. Ég ætlaði mér að verja Jesú. En það voru mistök. Ég var með veiðihnífinn á lofti meðan hermennirnir voru með almennileg sverð. Ég sá að hann þekkti mig. Svo ég var kominn í mikil vandræði. Hann horfði á mig og sagði: „Ég þekki þig, sá ég þig ekki í Grasgarðinum“. Og ég byrjaði að sverja og blóta að ekki þekkti ég Jesú.

Um leið heyrði ég í hana gala, þá mundi ég það sem Jesús hafði sagt. Ég sagðist ætla að deyja fyrir hann en hann sagði að áður en hani galaði myndi ég afneita honum þrisvar. Þá mundi ég orð Jesú. Þau komu eins og glóandi eldhnöttur á móti mér. Og ég horfði upp á svalirnar, þar var Jesús að ganga með vörðunum, hann hafði heyrt hvert einasta blótsyrði í afneitun minni. Hann leit til mín. Eitt augnablik horfðumst við í augu. Ég skammaðist mín. Og ég fór út grátandi. Ég hafði afneitað Jesú. Hann hefði svo sem getað snúið við mér baki. En hann hafnaði mér ekki þegar ég afneitaði honum, þannig var kærleikur hans til okkar.

Ég vissi þegar hann var festur á krossinn. Ég sá það álengdar. Ég gat ekkert sagt eða gert. Aldrei hef ég verið eins hjálparlaus. Ég var sekur um að svíkja hann.

Við vorum í loftstofunni á sunnudegi eftir krossfestinuna. Við vorum hrædd. Konurnar komu að dyrunum og sögðu: „Jesús er upprisinn“. Ég trúði þeim ekki. Hvað vita þessar konur, hugsaði ég. Það voru mistök mín. Þær vissu hvað þær voru að tala um því að Jesús var lifandi. Þær höfðu komið að tómri gröfinni. Loksins þegar þær gátu sagt það hlupum við Jóhannes út að gröfinni. Jóhannes er yngri en ég og léttari á fæti svo hann kom fyrst að gröfinni. Ég var ekki langt á eftir. Jóhannes stóð úti fyrir gröfinni en ég fór beint inn í gröfina og sá að gröfin var tóm. Konurnar flutti mér sérstök boð frá Jesú sem gerðu mér gott. Þær áttu að segja „lærisveinunum og Pétri“ frá því sem hafði gerst og að við ættu að mæta honum í Galíleu hér í okkar heimabyggð…

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: