Guð og merking

Heilagur Patrekur, dýrlingur Írlands

Þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum“. Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.

1. Jóh 1.5-7
Hugvekjan á hljóðskrá

Guð hefur með merkingu að gera. Ekki svo að hann sé merking orða eða prentsverta á blaði, nei, síður en svo. GUÐ ER. Í helgihaldinu er margendurtekið að Guð er frá eilífð til eilífðar. Það er merking að tengjast. Með orðunum tengjumst við svo að til verður merkingarsvið getum við sagt. Tökum dæmi af tónlist, svona til að skoða að merking er meira en orð, laglínan hefur í sér spennu og lausn, hljómarnir leggjast til svo að myndast flæði, takturinn heldur þessu öllu gangandi. Tónlistin hefur í sér tímaþátt. Auðvitað má orða þetta öðru vísi en hvert lag er listaverk og tengir fólk saman vegna þess að merkingarsvið lagsins höfðar til tilfinninga og hugsanna hópa og lífsstíls. Gott og vel en hvað þá með Guð? Guð tengist okkur með orði sínu þannig lifum við í samfélagi við hann um leið er hann, fyrri en við, sem skapari okkar og lausnari, umlykur hann okkur með merkingarsviði sínu, sem við æfumst í með bænaiðkun og íhugun. Það er ekki frekar neinn heilaspuni en tónlistin sé það né heldur merking orðanna. En það sem er óþægilegast er að Guð er merking orðsins sannleikur, þó er hann meira en sannleikur, en sannur er hann í orðsins fyllstu merkingu, eins og við komumst að orði. Þá stöndum við frammi fyrir æðri veruleika sem er ofar okkur sjálfum og þeim merkingarsviðum sem við erum inni í og kannski getum við sagt innikróuð inni í. Þá erum við farin að tala um Guð sem getur átt samfélag við okkur vegna þess að honum er enginn hlutur um megn.

Hvernig fer hann að því að ná sambandi við okkur? Það er aðallega með tvennum hætti. Í fyrst lagi liggur það í hlutarins eðli að Guð er í sambandi við okkur. Ef hann er skapari okkar sem er stöðugt að þá eigum við hvert einasta andartaka undir honum komið. Það kann sumum að finnast dálítið ógnvænlegt enda er talað um að óttast Guð. Trúarbrögð eru sprottinn af þessari djúpu hugsun að vera háð æðri veruleika. Hvernig getum við útskýrt LÍFIÐ öðru vísi? Ekki höfum við búið það til? Þrátt fyrir framfarir í vísindum höfum við ekki ennþá í það minnsta tekist að vekja LÍF á tilraunastofu en við getum farið með það á ýmsa vegu. Hin hliðin á þessari tilfinningu að vera háð Guði með LÍFIÐ er grundvallartraust. Við getum falið okkur Guði, eins og hann hafi hendur sem varðveita okkur, útbreiddan faðm sem umlykur okkur. Í keltneskri kristni er það hugsunin að Guði feli mann á bak og brjóst eða í kvöldbæninni góðu er Guð yfir og allt um kring. Þannig er Guð í eðli sínu í sambandi við okkur. 

En, í öðru lagi, þó að það sé eðli Guðs að vera í tengslum við okkur og við upplifum það stöku sinnum, þá er ekki hugur okkar vakandi fyrir Guði. Það er frekar eins og við fáum guðlega glampa öðru hvoru, sjáum skýrt eitt andartak, en lifum svo að mestu leyti í einhverskonar rökkri, ef ekki myrkri hvað Guð varðar. Eðli okkar er ekki beint að treysta Guði og það veit Guð óskaplega vel. Sumum finnst það kannski ódýr skýring á ógæfu okkar að við treystum ekki Guði. Auðvitað virðast skýringar sálfræðinnar og djúpsálarfræðinnar miklu nærtækari en þar birtumst við fólk sem margslungin og flókin fyrirbæri, sem enginn botnar eiginlega í, allir þessu myrku og dularfullu þættir sálarlífsins og samfélagsins. Maður bara klórar sér á bakvið eyrað og botnar ekkert í þessu! 

Guð birtist! Þá varpar hann skörpu ljósi á eðli okkar, að við treystum honum ekki, þrátt fyrir það að eiga allt undir Guði, eins og ég sagði áðan. Þegar Jesús gekk hér um á jörð og hélt því fram að hann væri sonur Guðs, það fer ekkert á milli mála að þannig talaði hann um föður sinn á himnum og að hann og faðirinn væri eitt, þá snérist boðskapur hans mikið um traust til Guðs. Hann var í raun kominn til að vekja það traust og laða það fram með veru sinni hér. Honum mætti skelfilegur kross og það var og er krossinn okkar. Fólkið hans treysti honum ekki síst þegar hann hélt því fram að hann væri sendur af Guði og það krossfesti hann. Um leið krossfestum við okkur sjálf og þá er ég að tala um allt mannkynið gagnvart Guði. Jesús var um leið fulltrúi okkar og föðurins, talsmaður okkur gagnvart Guði, mannsbarn, einn af okkur, sem lifði eins og ber að lifa eftir vilja Guðs, um leið og hann tók á sig mein okkar, synd okkar, vantrú okkar, dauða okkar, til þess að við skyldum lifa með honum. Guð er að segja þér með orði sínu að tilvera okkar er í grunninn þetta að lífið sigrar dauðann með þessum hætti. Tilvera okkur núna er aðeins skuggaveröld af því sem koma skal með Guðs ríki. Það mun rísa dagsbrún með sól þegar tilvera okkur verður það sem Guð hafði hugsað sér, harla góð.

Þegar þú setur traust þitt á orð Guðs gengur þú inn í þetta merkingarsvið Guðs og tengist þannig Guði. Þú sérð þá líf þitt í nýju ljósi, ljósi Guðs, vitandi það að þú ert ófær um að treysta Guði, en nýtur samfélags við Jesú, fyrir orð hans í bæn þinni þar sem andi Guðs fæðir þig að ofan. Með þessum hætti tengist Guð þér eilífum böndum sem aldrei rofna. Þau eru sterkari en allt í þessum heimi vegna þess að þetta er það sem Guð hefur gert fyrir þig. Þitt er aðeins að ganga inn samfélagið við Guð sem þér er gefið með Jesú, um það máttu biðja í hans nafni.

Biðjum saman með bænarorðum heilags Patreks:

Kristur sé með mér,
Kristur fyrir framan mig,
Kristur fyrir aftan mig,
Kristur inni í mér, 
Kristur fyrir neðan mig,
Kristur fyrir ofan mig.

Kristur hægra megin við mig,
Kristur vinstra megin við mig.
Kristur með mér þegar ég ligg,
Kristur með mér þegar ég sit,
Kristur þegar ég rís á fætur:
Kristur veri í hjarta allra sem hugsa um mig,
Kristur á tungu allra sem tala um mig,
Kristur í augum allra sem sjá mig,
Kristur í eyrum allra sem hlýða á mig.

Ég rís upp í dag; styrktur mætti og ákalla þrenninguna, trúi á þríeiningu og játa einingu skapara sköpunarverksins.

Því Drottins er hjálpræðið.
Og Drottins er hjálpræðið.
Og Krists er hjálpræðið.

Veri hjálpræðið þitt,
Drottinn, með  okkur ávallt. 

Þýðing bænar, Gunnþór Þ. Ingason
Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: