Vísa mér, Guð, á vegu þína

fjellhaug_fullÞessi sálmur hefur fylgt mér í nær fjörutíu ár. Nú er ég að ljúka þýðingu á honum og verður hann sunginn við guðsþjónustu á Ólafsfirði næst komandi sunnudag 2. október 2016. Það er 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, prédikunartextinn er um lama manninn sem borinn var til Jesú. Jesús sagði við hann: „Barnið mitt syndir þínar eru þér fyrirgefnar“ (Mt. 9, 1-8). Fyrirgefning syndanna er kjarninn eins og fyrirmyndin norski textinn eftir J. Paulli tjáir svo sterkt. En það eru fleiri stef og sálmar sem ég söng með bekkjarfélögum mínum á biblíuskóla í Osló við morgunandakt þennan vetur fyrir fjörutíu árum sem fléttast inn í textann hjá mér. Þar heyrði ég fagnaðarerindið hvað skýrast og reyni að tjá það í þessum sálmi. Lagið er í Norsku kóralbókinni.

Vísa mér, Guð, á vegu þína

Vísa mér, Guð, á vegu þína,
að vilji þinn sé einnig minn.
Lát ljós þitt yfir lífið skína
á leiðinni í himin þinn.
En ef að mínar leiðir lokast,
þá lít ég upp í bæn til þín.
Á einhvern hátt ég áfram þokast
um ófær skörð uns sólin skín.

Kenn mér að hugsa hugsun þína,
að hvíla þínu orði í.
Ég veit að margar vonir dvína
og viljinn segir nei við því.
En þegar molna mannleg ráðin,
í myrkri ég mig sjálfan finn,
þá boðar þú að blessuð náðin
sé björgun mín og vilji þinn.

En veit mér umfram allt að hljóta
að einkavini Frelsarann.
Þú elskar mig, sem er að brjóta
þín æðstu boðorð, syndarann.
Og þegar heimsins böl mig beygir
og blasir við mér sektin mín,
þá faðmar þú mig fast og segir:
„Ég fyrirgef þér brotin þín“.

Guðm. G. eftir fyrirmynd J. Paulli
– Lær meg og kjenne dine veie

Lagið er eftir óþekktan höfund en útsetningu gerði T. Andersen. Hér má hlusta á hljóðskrá á Mp3 formi. Ef einhver hefði áhuga að nota sálminn við helgihald get ég sent nóturnar með textanum. Þá hefur Sissel Kyrkjebø sungið sálminn á tónleikum og sagt söguna sem tengist honum. 

 

visa-mer-gud_mynd

 

 

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

1 athugasemd

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: