Dramb er falli næst

Wahhyu Sukayasa - Indónesía
Wahhyu Sukayasa – Indónesía

Ræða flutt í Akureyrarkirkju 18. september 2016 sem var 17. sd. eftir þrenningarhátíð. Guðspjallið var Lk. 14. 1-11 um dæmi Jesú í húsi farísea nokkurs. Sungnir voru sálmar úr Sálmum 2013. Í guðspjallinu ræðir Jesú um hefðarsætin og þá leið sem hann valdi sér sjálfur með að þjóna í heiminum.

Upphafsorð: Endilega komið framar, kórinn og allir á fremstu bekkina, ekki sitja þarna yst og aftast. Komið nær altarinu, við skulum njóta nærsamfélagsins, við ætlum að læra saman nýja söngva úr Sálmum 2013. Það er tilraunaútgáfu fyrir væntanlega sálmabók sem kemur væntanlega út á 500 ára afmæli siðbótarinnar. Sumt í þessari bók er léttara og margt laglegt. Það skapar einingu að syngja saman, samhljóm í samfélaginu, en einnig samhljóm við Guð, og það er ekki minna virði.

Ræða:

Ég vakti athygli ykkar á því áðan hvernig fólk velur sér sæti í kirkjum, það er eins og fólk hafi lært þessa lexíu Jesú, að setjast í hið ysta sæti. – Þetta var dálítill gjörningur hér í upphafi þegar ég bað ykkur öll að færa ykkur nær. Það er eitthvað nýtt að setjast í fremstu sætin en það er vegna þess að þið voruð beðin um það, það skapar nærsamfélag, undirstrikar þá einingu sem á að vera meðal kristinna manna, eins og postulinn skrifaði úr fangelsinu í Efesus. Við eigum eitthvað sameiginlegt, sem er ofar öllu öðru. Við eigum Jesú og himneskan föður.

Wahhyu Sukayasa - Indónesía
Wahhyu Sukayasa – Indónesía

1. Dæmi Jesú í húsi Faríseans

Skoðum aðeins þessi kröftugu orð Jesú í guðspjalli dagsins.

Jesús tekur þrjú dæmi eða segir þrjár dæmisögur í húsi Faríseans til útskýringar á Guðs ríki. Fyrsta dæmið er í guðspjalli dagsins. Það voru ekki leiðbeiningar um það hvernig ætti að haga sér í veislum því síður um almenna mannasiði heldur leiðbeiningar fyrir þá sem vilja fylgja honum. Þar er hann til fyrirmyndar með lífi sínu sem var í samræmi við orð hans: „Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða“ (Lk. 14. 11).

Þorir þú að prófa þessi orð í lífi þínu! Jesús kennir okkur að taka á okkur hlutverk þjónsins og láta Guð um að finna manni svo stað í lífinu. Þér finnst það kannski ekki árennilegt. Og svo lofar Jesús ekki öðru en að vera nálægur fylgjendum sínum en hann var krossfestur fyrir þessa lífsstefnu sína!

Þessi þrjú dæmi sem hann tekur í húsi Faríseans er öll á sama veg – á þennan veg.

Fyrst er það dæmið um hefðarsætin. Það er ekki viturlegt að trana sér fram og vilja sitja í efsta sæti hjá gestgjafanum vegna þess að þá tekur maður áhættu að vera vísað á neðsta bekk. Eins og segir í góðu íslensku máltæki sem er reyndar úr Biblíunni eins og svo mörg önnur: „Dramb er fall næst“. Þess vegna lét ég ykkur koma hér á fremstu bekkina í kirkjunni í dag. Ekki til að vísa ykkur til baka. Það er ekki á mínu valdi. En ég get boðið ykkur enn betri stað. Það er við hásætið sjálft, að altarinu, þar sem ykkur er boðið æðsta staða kristins manns, að vera hjá Meistara sínum og Drottni, sem gaf okkur allt með sér, á þann veg að hann gerðist fátækur, varð einn af okkur.

Annað dæmið beinir Jesú að gestgjafa sínum, Faríseanum, sem bauð honum til veislu. Hann hafði ætlað að prófa Jesú ásamt félögum sínum en hann varð að hlusta á áminningaræðu hans. Þegar þú býður í veislu skaltu ekki bjóða þeim sem getur endurgoldið þér boðið heldur skaltu bjóða fátækum, fötluðum, lömuðum og blindum. Þeir geta ekki endurgoldið þér boðið en það mun færa þér blessun! Trúir þú því að það sé gæfulegt? Það er sem sagt ekki venjan að haga sér svona en þannig á kirkjan að vera griðastaður þurfalinga og vesalinga og aumingja eins og okkar. Það er ekkert skrýtið að sumir hafa brugðist við og ætlað okkur kristna menn stuðla að aumingjaskap. En við treystum betur á orð Jesú en skoðanir heimsins.

Þriðja dæmið beinir hann til Faríseanna þegar einn þeirra sem sat til borðs með honum talaði um blessunina að borða í hinni miklu veislu í Guðs ríki. Þá svaraði Jesús með því að hnykkja á að veislugleðin snýst um raunveruleikann og sagði þá dæmisöguna um að fara út að girðingunum og þrýsta fólki að koma inn til veislunnar þegar þeir sem voru boðnir höfnuðu boðinu vegna þess að þeir voru svo uppteknir við sitt. Þar er Jesús að sneiða nærri sjálfsöryggi Faríseanna sem töldu sig vera Guðs útvöldu og einstaka fólk, hinir réttlátu. Kirkjan má aldrei verða þannig klúbbur hinna guðlegu og réttlátu. Þá „Púff!“ hættir hún að vera til. Breytist í hættulegan „somby“. Kirkjan er fyrir aðra, kölluð til að þjóna í heiminum, eins og Jesús gerði. Ef við leyfum okkur að vera bara inn á við, lifa fyrir okkur sjálf, þá erum við ekki lengur kristin, heldur breytumst við í það sem Jesús gagnrýndi svo harkalega með þessari dæmisögu. En um leið setta hann fylgjendum sínum stefnu, sem er allt annað en aumingjaskapur, heldur LÍF í orðsins fyllstu merkingu, að standa með því sem er viðkvæmt og veilt, til að efla og styrkja, vera lífgjöf, eins og Jesús var það.

2. Dæmið af Bonhoeffer

Ég er að lesa Fangelsisbréf Dietrich Bonhoeffers sem komu út á íslensku í fyrra (2015). Hann var píslarvottur í seinni heimstyrjöldinni vegna þess að hann tengdist andspyrnuhreyfingunni  gegn nasismanum. Hann er líka höfundur að þeirri bók sem hefur haft hvað djúptækust áhrif á mig fyrir utan Nýja testamentið. Hann skrifaði um það að fylgja Jesú (e. The Cost of Discipluship). Það sem einkenndi líf þessa manns var að hann tók Jesú á orðinu. Hann heyrði hvað hann hafði að segja. Og það er frekar fágætt! Menn heyra aðallega það sem þeir vilja að Jesús segi eða Guð meini um lífið og tilveruna. Svo botna þeir ekkert í því þegar Jesús segir: „Heyrandi heyra þeir ekki!“

Fangelsisbréfin skrifaði Bonhoeffer úr fangaklefa sínum þar sem nánast allt var tekið frá honum en hann fékk að skrifa á 10 daga fresti til ástvina sinna. Hann fékk að hafa dálítið af bókum, fékkst við skriftir í klefanum sínum. En hann þjónaði samföngum sínum með sama hugarfari og Kristur. Hann varð einn áhrifamesti guðfræðingur 20. aldar með skrifum sínum. Hann fylgdi sem sagt Kristi og kenndi öðrum að gera það í bæn og þjónustu. Hann gerði sér grein fyrir neyðinni sem þjóð hans var í og ákvað að snúa aftur til Þýskalands þó að hann hefði getað verið flóttamaður í Bandaríkjunum. Það kostaði hann lífið. Hann var tekinn af lífi undir lok stríðsins.

Einhvern veginn verður lífsferill hans til að undirstrika stefnu Guðs ríkis, sem hann gerði svo sannarlega einnig í bókum sínum, að kirkjan er kölluð til að þjóna í heiminum en ekki til að vera þjónustustofnun með virðulegum embættismönnum.

Það var þetta sem Bonhoeffer lagði kirkjunni á hjarta að fylgja Kristi með því að þjóna í heiminum. Í trúnni eigum við Guð og allt með Kristi, eigum sæti hjá honum, hann er í okkar hópi, en það má ekki gera okkur sjálfsörugg og einangruð, heldur eigum við að lifa eins og hann, öryggi okkar er í honum einum.

3. Erfið lexía en nauðsynleg

Það er vafalaust einhver erfiðasta lexía að læra það að treysta á Jesú umfram allt. Sérstaklega þegar ekki er útséð um niðurstöðuna. En ef þið hugsið þetta aðeins með mér. Hvenær borgar það sig að elska aðra manneskju? Hvenær að tengjast þannig að maður verður varnarlaus? Þarna er okkar stóri brestur. Við treystum ekki og við treystum ekki öðrum eins og kemur fram í fangelsisbréfunum og í hugleiðingum Bonhoeffers að stríðið hafði skapað vantraust og leitt til svika jafnvel innan fjölskyldna. Þá fann hann traust í Jesú einum. Jesús skapaði traust í hjarta út yfir veröldina. Kristin trú er þetta traust til hans, Jesú, sem talaði á þennan hátt við fólkið og okkur, til þess að við gætum elskað eins og hann. Það er forsenda númer eitt. Það borgar sig ekkert að elska náunga sinn en vegna þess að Jesús segir okkur að gera það eigum við að þjóna þeim sem eru í kringum okkur í kærleika. Við eigum að halda okkur við Jesú og taka mark á orðum hans þannig er Guðs ríki nálægt okkur.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með oss öllum.

Sungnir sálmar úr Sálmum 2013:

Upphafssálmur sb. 825: Drottinn er minn hirðir

Lofgjörðarvers – kór syngur

Fyrir prédikun sb. 859: Athvarf mitt

Eftir prédikun sb. 826: Þú settir þig neðst

Fyrir altarisgöngu sb. 890: Hér er vítt og hátt

Lokasálmur sb. 893: Megi gæfan þig geyma

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: