Guð einn sem skapar lífið og elskar

asgrimur_jonssonRæða flutt í Glerárkirkju 4. september í kvöldmessu. Guðspjallað úr Fjallræðunni um að horfa á fuglana og liljur vallarins í Mt. 6, 24-34. Jesús áminnir þar um að vera ekki áhyggjufull en um leið er þetta ögrandi ræða um að treysta á Guð. Jesús segir þar: „Enginn getur þjónað tveimur herrum“.

„Enginn getur þjónað tveimur herrum“, segir Jesús í Fjallræðunni. Það er ein áhrifamesta ræða sem flutt hefur verið. Ólíkir menn með að því er virðist andstæð sjónarmið mátu hana mikils eins og Marteinn Lúther, siðbótarmaðurinn, kenndi trúna á Guð einan, Leó Tolstoy, rússneski rithöfundurinn, endurómaði af félagshyggju Austur-Evrópu, Mahatman Gandhi, indverski þjóðarleiðtoginn, sem barðist með óvirkri andstöðu fyrir sjálfstæði þjóðar sinnar, Sören Kirkegaard, danski heimspekingurinn, sem endurómar af einstaklingshyggju Vestur-Evrópu, Didriech Bonhoeffer, þýski guðfræðingurinn og andspyrnumaðurinn gegn nasismanum, kenndi skilyrðislausa eftirfylgd við Meistarann. Allir voru þeir undir áhrifum frá þessari ræðu og hugsunum úr henni í lífi sínu og starfi. Og enn reynist hún ögrandi fyrir menn, stundum heldur mikil ögrun, finnst mörgum.

Fjallræðan, altaristafla eftir Ásgrím Jónsson í Lundarbrekkukirkju í Bárðardal.
Fjallræðan, altaristafla eftir Ásgrím Jónsson í Lundarbrekku kirkju í Bárðardal.

 

1. Guð einn

Hvað þýðir það að eiga Guð? Eða að viðurkenna tilvist hans? Guðspjallið er ekkert froðusnakk um hluti sem skipta engu máli, heldur fæst við lífið sjálf, það sem skiptir mestu máli. Guð er það eða sá sem þú treystir á. Þorir þú að prófa þessa hugsun á sjálfum þér. Hverjum treystir þú eða á hvað treystir þú? Ef tilvera þín er guðlaus þá endar það með því að þú treystir á sjálfan þig, félagslegt umhverfi þitt og eigur. Þá er ekkert annað! Í Fjallræðunni kennir Jesús okkur að treysta á Guð einan, okkar himneska föður.

Þér finnst það kannski ekki árennilegt að treysta á Guð sem þú þekkir varla. Ekki stuðlar íslenskt samfélag að því að við vitum hver hann er. Maður má ekki nefna hann, þá er hrópað: „Þú sagðir bannorðið! Djöfullinn hafi það.“ Leo Tolstoy lýsir því í játningum sínum að Guð er eini bláþráðurinn sem við höfum til að halda okkur í. Annars föllum við í djúpið, merkingarlaust hyldýpið. Á miðöldum var það kallað helvíti. Við menn verðum að treysta á eitthvað til að eiga grundvallartraust innra með okkur.

Fyrir Jesús er það himneski faðirinn sem gefur lífið. Við sungum áðan sálm eftir Brorson í þýðingu Helga Hálfdanarsonar sem segir mikið um hver Guð er. Hann leikur sér þar með þá hugsun að Guð er sá sem gefur lífið. Við menn getum ekki búið til líf hversu voldugir sem við þykjumst vera:

Þótt kóngar fylgdust allir að
með auð og veldi háu,
þeir megnuðu’ ei hið minnsta blað
að mynda’ á blómi smáu.

Magnaðar andstæður er dregnar hér upp, þó að allir þjóðarleiðtogar heimsins kæmu saman, (eins og á umhverfisráðstefnunni í París), þá megna þeir ekki að búa til blað á blágresi né nokkuð annað líf. Það er nefnilega málið að við erum algjörlega háð lífinu sem okkur er gefið. Það er Guð þinn hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eða ekki. Allt í einu stendur allt mannkynið frammi fyrir því að lífið á plánetunni bláu er okkur gefið. Á því berum við ábyrgð að viðhalda því. Við þurfum ekki að verða guðir sem búum það til heldur verðum við að varðveita það ef nokkur framtíð á að gefast. Það eru stóru áhyggjur samtímans og barnanna okkar.

En Jesús gengur lengra en að við eigum að gera okkur grein fyrir þessum sannindum lífsins. Hann ætlar okkur að setja allt traust okkar á Guð einan. Þá finnst flestum of langt gengið og melda pass en einmitt í því er lífgjöfin, hamingja og heill að treysta Guði.

2. Áhyggjur og bæn

Hvar er fjársjóður þinn? Hvað er það sem gefur lífi þínu gildi? Eru það fjölskylda þín, eignir þínar, félagsleg staða, vinir, vinnan, frami, hæfileikar? Í Fjallræðunni prófar Jesús bæði andlegar og veraldlegar hliðar lífsins hjá okkur. Maður stendur óneitanleg uppi berskjaldaður, afhjúpaður, í raunveruleikanum, eins og hann er. Gagnvart kröfu Guðs hugsar maður annað hvort á þennan veg: Guð getur ekki gert svona mikla kröfu til mín, eða á hinn veginn: ég verð að halda mig við blekkinguna. Við erum öll á sama báti, hvað þetta varðar. Svo heldur maður áfram. Það er verst að ljós hans skyldi lýsa svona inn í innstu sálarfylgsnin.

Það sem mér finnst verst er að ég get ekki treyst Guði fyrir lífi mínu. Ég verð að bjarga mér sjálfur. Jú, maður biður en svo tekur maður í árarnar til að komast yfir sjávarkambana sem brotna við ströndina. Mannleg tilvera er ekkert grín.

Þá segir Jesús við okkur: „Lítið til fugla himinsins og á liljur vallarins!“ Já, hvað á maður að segja við því. Er verið að grínast með mann. Á maður þá að leggja hendur í skaut og fela Guði að bera mann yfir öldurnar.

Hér kemur siðbótarmaðurinn Lúther mann til hjálpar. Að eiga Guð og treysta algjörlega á hann þýðir ekki að við gefumst upp og látum leika á reiðanum heldur að við tengjumst uppruna lífsins, kjarna og inntaki. Guð er lífið og ljósið. Við erum líkamar okkar, við erum menn, af jörðu, í þessari tilveru okkar upplifum við neyð og erfiðleika, en ef við setjum von okkar á Guð, þá treystum við því að hann sé með okkur. Traustið til hans vekur þakklæti fyrir allt sem hann gefur og allt sem við þiggjum úr hans hendi.

Sjötti kaflinn í Fjallræðunni, þaðan sem guðspjallið er tekið, fjallar fyrst um bænina, svo föstu og ölmusu, það er andlega sviðið, en hér í guðspjalli dagsins er veraldlega sviðið, ef við notum þá skiptingu, tekið til umfjöllunar, eignir, vinna, föt og matur. Það er ekki þannig að Guð býr aðeins í kirkjuhúsinu, hann býr í fólkinu sínu. Þeim sem treysta á hann, hjá þeim er hann, eins og hann hefur sagt og lofað.

Breytir það nokkru að hafa Jesú um borð í bátnum sínum þegar maður rær yfir öldurnar?

Ég hef verið að sigla skútu aðeins í sumar og þá uppgötvar maður nýjan fararmáta. Andinn blæs þar sem hann vill og maður verður að beita seglunum á réttan hátt eftir vindi. En það er vindurinn sem ber mann áfram eða dregur. Það væri hlægilegt að blása sjálfur í seglin og ætla að komast þannig úr stað. Eins er það með Guð, Jesús og anda hans. Það er miklu líkara því að sigla en róa. Bænin er að leggja líf sitt í Guðs hendur og halda svo af stað út í veröldina, sem getur verið alla veganna. Ef maður hefur ekkert annað en félagslegt umhverfi og náttúruna, þá gæti maður ályktað sem svo að það er engin Guð eða ef hann er til þá er hann ranglátur, eins og reynda siðbótarmaðurinn Lúther skrifar á einum stað. En í Jesús, þeim sem hélt þessa ræðu, birtist okkur Guð eins og hann er. Og þá reynist hann vera himneskur faðir sem elskar. þannig frelsumst við frá áhyggjunum, þegar við treystum á hann.

3. Guð elskar

Lexían úr Gamla testamentinu líkir Guði við móður sem getur ekki gleymt barninu sínu sem hún er með á brjósti. Það er stórkostleg mynd. Guði er líkt við móður. Og Pétur skrifar í bréfinu sínu þessa áminningu til safnaðanna: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur“. Guð ber umhyggju fyrir þér. Heyrir þú það sem er sagt við þig í gegnum allar áhyggjur þínar og vanda. Guð ber umhyggju fyrir þér, hann elskar þig sem besta móðir. Myndirnar af foreldrunum er notuð örugglega vegna þess að það samband ef heilbrigt er byggist á trausti og öryggi, vörn gegn hverri ógn, sem upp kann að koma. Þannig er Guð, það er Jesús að segja við þig. Undir það tekur hann svo sannarlega í Fjallræðunni:

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!

Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. 

Taktu þessi orð Jesú til þín. Farðu með þau út í veröldina þína og lifðu eftir þeim. Treystu Guði því að hann gengur með þér, talar til þín, leiðir þig, elskar. Jesús segir í lok Matteusarguðspalls: „Ég er með ykkur alla daga“. Þér er óhætt að treysta þeim orðum. Þannig eignast þú Guð sem skiptir máli í lífinu.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með oss öllum.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: