Að gera eða vera

bibliumynd-minnstRæða flutt í Akureyrarkirkju 7. ágúst 2016 að kvöldi dags. Sungnir kvöldsálmarnir Nú hverfur sól í haf (Sb. 592) og Ó, vef mig vængjum þínum (Sb. 594). Textinn var um Faríseann og tollheimtumanninn sem fóru upp í helgidóminn að biðja í Lk. 18. 9-14. Við erum svo upptekin við að gera allt mögulegt að trúin snýst um það að vera.

Það er komið kvöld. Ágústmánuður kemur með rökkrið eftir langar sumarnæturnar. Við erum hér samankomin til að eiga stund í helgidóminum, þessari fallegu kirkju og heilaga stað á hæðinni. Stundum hef ég komið hér og sitið einn í rökkrinu með Guði mínum, hugsað um líf mitt og tilveru. Það er gott að taka sér slíkar stundir með Guði. Um það snýst kristin trú umfram allt að biðja, að tala við Guð og að hlusta á Guð.

Til þess að það eigi sér stað þurfum við að slökkva á mörgu rásunum sem dynja á okkur, ekki bara í hinu ytra í öllum þeim skjáum og tækjum sem við erum umlukin, heldur líka innri rásunum. Leita kyrrðar! Það hefur kirkjan gert í gegnum aldirnar í tíðargjörð og helgihaldi. Þess vegna völdum við sálma til að syngja í kvöld sem slá á þá strengi.

Við skulum sitja stutta stund núna í kyrrðinni. Það er í þögninni að við heyrum Guð tala. Orðin mörgu þreyta okkur þannig að við hættum að heyra. En ef við látum hugsanir okkar líða hjá eins og fljót án þess að ausa af því þá förum við að finna hvíldina í því að vera.

Biðjum Guð að gera okkur hljóð, finna kyrrðina í návist hans í helgidóminum.

akureyrarkirkja_75ara

1.

Jesús kenndi okkur að biðja. Hann sagði: „Biðjið!“ Þannig séð var það það eina sem hann kenndi. Það hljómar kannski dálítil einföldun á boðskap hans og erindi en með árunum hallast ég meira að meira að því að sú ályktun mín sé rétt. Hann kom til að kenna okkur að biðja. Þá dettur okkur fyrst í hug að við eigum að fara að gera eitthvað mikið en það er í raun andstæða bænarinnar eins og starf er andstaða hvíldar.

Stöldrum aðeins við. Leggjum allt frá okkur sem streymir um huga okkar, öllum þessum rásum heilans og snúum okkur að hjartanu. Það að vera hér í helgidóminum með Guði. Það getur verið gott. Það getur líka verið óþægilegt ef samviskan er óróleg, kvíði getur gert vart við sig um óvissa framtíð. Guð tekur við því öllu sem við felum honum. Þannig æfumst við í því að treysta Guði, en trúin er traust á Guði. Að leggja allt í hendur hans. Einnig dýpsta kvíða okkar og ótta við dauðann, að verða ein. Guð er hér og hefur sagt við þig í skírninni og orði sínu að hann er alltaf með þér, alltaf. Hann getur ekki brugðist vegna þess að hann er Guð og talar aðeins sannleika.

Getur verið að þetta sé að biðja? Þarf ég ekkert að gera aðeins að vera hjá Guði, eins og barn við föður kné? Já, þannig er það. Öll Ritningin kennir þetta og bænarinnar menn eins og Valdimar Briem sem við sungum sálminn eftir sem segir: „Ég bið…, ég bið…, ég bið… brjóst mitt fyllist þinni náð“ (Sjá Sálmabók nr. 189  á kirkjan.is). Að biðja er að lifa náð Guðs. Náð er stórt orð, stærra en við getum ímyndað okkur, merking þess er persóna, sem kemur til okkar, er hjá okkur, ósigrandi og sannur, Jesús. Andvörp okkar heyrir hann þó að við kunnum ekki einu sinni að orða þau. Reyndu að átta þig á þessu orði, náð. Það gerir sálinni gott, það er hjálparráð.

Björn Halldórsson er annar bænarinnar maður og hann skrifaði þetta einstaka bænavers:

Að biðja sem mér bæri
mig brestur stórum á.
Minn Herra, Kristur kæri,
æ, kenn mér íþrótt þá.
Gef yndi mitt og iðja
það alla daga sé
með bljúgum hug að biðja
sem barn við föður kné.

2.

En hvort er ég nú sem Faríseinn eða tollheimtumaðurinn? Um það erum við spurð í kvöld af guðspjalli dagsins í helgidóminum okkar. Og Valdimar Briem hefur ítrekað spurninguna í guðspjallssálminum.

En hvað var það sem Faríseinn gerði sem var ekki í lagi? Hann var ekki hljóður fyrir Guði heldur taldi upp öll þau ósköp sem gerðu hann einstakan og sérstakan svo að Guð yrði nú að líta sérstaklega til hans. Ef þú gerir tilraunir á sviði bænarinnar þá áttu eftir að rekast á þessar tilfinningar. Þær eru ótrúlega sterkar í okkur mönnunum vegna þess að við byggjum traust okkar ekki á Guði heldur á samfélaginu eða eigin ágæti. Þess vegna erum við bókstaflega að drepast úr þreytu og streitu, berjast fyrir rétti okkar og annarra, verða hamingjusamasta samfélag í veröldinni, Ísland best, sigrar og vinnur. Allt gott og blessað eða hvað? Ef við kunnum ekki að hvíla í Guði og finna traust okkar í honum getur það besta snúist í böl. Það er Jesús að benda okkur á með þessari krassandi dæmisögu sem er miklu beittari og dýpri en maður ætlar í fyrstu. Fæstir heyra hvað hún er að segja. Tollheimtumaðurinn fór réttlættur heim vegna þess að hann fór hina leiðina, þröngu, hann viðurkenndi hver hann var, þurfamaður, syndari, brotlegur. Hann hafði ekki staðið sig sem skyldi. Þannig kom hann og barði sér iðrandi á brjóst. Hér er ekki verið að tala um aumingjaskap og sjálfsvorkunn heldur að ærlega viðurkenna og horfast í augu við hver maður er vegna þess að maður fer í helgidóminn til að eiga stund með Guði sem talar sannleikann um mann sjálfan og heiminn.

Það eru líklega ekki margir sem þora þessa nálgun við Guð sannleikans. En það er lækningaleiðin. Læknar verða stundum að skera burt meinsemdina til þess að lækningin hefjist. Djúpstæðasta meinsemd okkar er að við lifum flest í þeirri trú að við verðum að standa okkur annars förumst við og töpum í mannlegu samfélagi, verði útskúfuð, ein. Ég tel að nútímasamfélagið sé allt of mikið á þann veg. Það sjáum við þegar okkur auðnast að skoða í gegnum hjúpinn sléttan og felldan. Jesús kennir okkur að treysta Guði fyrir lífi okkar og örlögum, að biðja. Bænin tengir okkur saman. Við erum tekin gild af Guði eins og við erum og þannig erum við hans.

3.

Þess vegna stofnaði Jesús til heilagrar kvöldmáltíðar. Síðasta kvöldið sem hann var með lærisveinum sínum borðaði hann páskamáltíð með þeim. Það var heilög stund. Loftstofan varð að helgidómi þar sem Jesús var með þeim, eins og hvert heimili kristinna manna er helgidómur eins og kirkjan er það. Hann gaf sjálfan sig þeim og öllum sem taka vilja við honum, til þess að tengjast okkur, vera í okkur eins og hann sagði í anda sínum. Það er að lifa í náðinni, í þessu trausti til Guðs. Það eru því engir galdrar að ganga til altaris heldur treystum við orðum Jesú að hann sé með okkur og þá getum við „verið“.

Verið hljóð og hlustið! Þá heyrið þið orðin hans sem hann sagði þá og segir enn. Ég er með ykkur, hjá ykkur, meðal ykkar, í ykkur. Ég gef sjálfan mig, fyrirgef, þangað til þið sjáið mig aftur, minnist mín, þess sem ég gerði fyrir ykkur, til þess að þið getir hvílt í mér, sjáið hver ég er, treyst mér fyrir lífi ykkar.

„Komið til mín og ég mun veita ykkur hvíld“, sagði Jesús og það segir hann við þig eins og alla sem vilja heyra það.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með oss öllum.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: