Ræða flutt í Ólafsfjarðarkirkju 19. sunnudag eftir þrenningarhátíð 2. október 2016. Kirkjukórinn söng í guðsþjónustunni sálminn minn Vísa mér, Guð, á vegu þína, sem ég birti hér á vefnum fyrir nokkrum dögum. Guðspjallið var úr Matteusarguðspjalli 9: 1-8 um lama manninn sem borinn var til Jesú. En Jesús fyrirgaf honum syndirnar og sagði: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar“. Hér má hlusta á ræðuna af hljóðskrá.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Inngangur:
Sálmurinn sem ég þýddi eða íslenskaði og kórinn söng áðan Vísa mér, Guð, á vegu þína hefur fylgt mér síðan ég var um tvítugt. Ég fór á biblíuskóla eftir menntaskólann. Þar var ég á heimavist og eignaðist góða vini. Herbergisfélagi minn var „emmiser“ eins og það heitir upp á norsku – ferðaprédikari. Hann var sagður prédika best í svefni og ekki laust við að ég hafi kynnst því. Við lifðum eins og munkar við bæn og lestur. Á laugardagskvöldum fengum við okkur eplasafa og harðfisk. Það var allur munaðurinn. Nokkrum árum seinna átti ég annan svona vetur í þröngum bænaklefa við framhaldsnám í guðfræði. Það var sjálfvalið, einhverskonar fangavist, eins og fræðimennska er í eðli sínu. Mér var stundum hugsað til Marteins Lúthers, siðbótarmannsins, sem var þó alvöru munkur í sínum sex fermetra munkaklefa.
Þessi reynsla í bænaklefa í tvo vetur hefur vafalaust sett spor í persónuleika minn. Hvað fær mann til að leggja út í slíkt líferni? Það er til þess að leita Guðs og samfélags við hann. Þennan fyrsta vetur minn sungum við bekkjafélagarnir þennan sálm í upphafi dags og fólum svo Guði daginn með orði og bæn. Ég komst að merkilegri niðurstöðu við þessa iðju sem er gleðileg: Þegar þú leitar Guðs í bæn og hlustar á fagnaðarerindið þá sérð þú að það er Guð sem hefur leitað þín allan tímann og gert allt til að þú megir vera í samfélagi við hann sem elskað barn hans. Þá hugsun hef ég fest í þessi bænavers.
1. Leisögn Guðs í lífinu
Það er gott að byrja daginn með bæn. „Láttu það verða þitt fyrsta verk“, kennir meistari Lúther. Í fyrsta erindinu er Guð beðinn um leiðsögn: „Vísa mér, Guð, á vegu þína“. Þannig eigum við og megum við opna okkur fyrir skapara okkar og lausnara. Það er eins og stilla hljóðfæri sitt áður en maður byrjar að spila, stilla sig eftir góðum vilja Guðs. Baða sig í morgunsól hans – morgunstund gefur gull í mund af andlegum auð. Ásetningurinn er góður í upphafi. Svo heldur maður út í heiminn og hann er oft á tíðum annars konar. Góði ásetningurinn dugar skammt, finnst manni, stundum, oft. Erfiðleikarnir koma og vandamálin. Leiðirnar sem blöstu svo bjartar við manni lokast en þá er að snúa sér enn og aftur til Guðs í bæn. Trúarreynslan er þessi að Guð leiði mann í gegnum erfiðleika: „Á einhvern hátt ég áfram þokast um ófær skörð uns sólin skín“.
2. Trúarþroski
Þetta eru fyrstu skref trúarinnar sem er leiðin til að vaxa í trú. Það veldur foreldrum áhyggjum þegar barnið þeirra þroskast ekki eðlilega. Sömuleiðis er það sorglegt þegar hjón sem eru saman hætta að lifa saman kannski vegna þess að þau áræða ekki að takast á við sársaukan sem lífinu fylgir. Það er meira varið í ást sem er reynd. Ég vil ekki gera lítið úr hrifningunni í upphafi. Hana má ekki vanmeta en ást sem er reynd er fegurri, í veikleika sterkari.
Hugleiðingarnar í öðru versinu eru í þessa veru. Það er ástríða í því að leita Guðs, að vilja hvíla í orði hans, láta það móta líf sitt og hugsanir. Fyrr en varir kemur að þessari togstreitu milli vilja Guðs og eigin vilja. Það er okkur svo eðlislægt að neita Guði þrátt fyrir að hann játist okkur.
Trúarreynsluna eigum við ekki að forðast heldur að takast á við hana. Það er óhjákvæmilegt að ganga í gegnum hana, vegna þess að við erum annars konar en Guð, viljum annað. Þá birtist okkar innri maður: „Þegar molna mannleg ráðin, í myrkri ég mig sjálfan finn“. Það er orð Guðs sem kemur með lausnina inn í trúarglímuna. Guð boðar okkur NÁÐ. Blessaða náð Guðs er að finna í orði hans, annars staðar er hana ekki að finna. Auðvitað er margt jákvætt í lífinu, en það er aðeins hjá Guði að við finnum það sem hjarta okkar þráir dýpst og mest. Það að vera í vilja Guðs, vera eftir hjarta hans. Það er ekki á mannlegu valdi. Því er það svo auðvelt að sleppa því alveg. En kærleikur Guðs þvingar engan. Það er á móti eðli hans. Það er ranghugmynd flestra um Guð að hann sé ranglátur, snýr lífi okkar í ógæfu. Þó að við trúum læðist þessi hugsun síendurtekið að okkur. Aftur á móti vill hann okkur ekkert nema það sem gott er. Þannig kenndi Jesús okkur að þekkja hann.
3. Að þekkja Guð Jesú Krists
Síðasta erindið er um það að þekkja Guð Jesú Krists. Við þekkjum Guð eins og hann er í gegnum Jesú. Hins vegar segir veröldin, reynsla okkar og mannlífið oft annað. Þarna er lífsvandinn. En áræði ég að treysta Jesú. Þá öðlast ég nýja þekkingu á Guði. Við getum ekki einu sinni af eigin mætti treyst honum heldur kemur hann okkur til hjálpar, kallar okkur og laðar með loforðum sínum og anda að trúa. Þá komum við aftur að upphafinu, leyndardóminum, að við komumst í gegnum ófær skörð uns sólin skín.
Hvað merkir það að hljóta að einkavini Frelsarann? Það þýðir að við þekkjum Guð sem elskar, jafnvel þann sem er að brjóta æðstu boðorð hans um að treysta honum einum og elska hann og náunga sinn. Það er í þessu sambandi við Guð fyrir Jesú að við þekkjum Guð og eilífa lífið. Það er alfarið Guði að þakka að við getum þekkt hann þannig og verið í samfélagi við hann í bæn.
Þegar við erum úrræðalaus og köllum á hann í neyð okkar þá er hann þegar hjá okkur, faðmar okkur og segir: „Ég fyrirgef þér brotin þín“.
4. Náð dýru verði keypt
Það er ekki ódýr náð heldur dýr. Vegna þess að sambandið við Jesú breytir þar öllu. Það er hann sem vinnur hjálpræðisverkið, gefur okkur allt með sér, þannig að við, sem erum breysk og brotleg við boð Guðs, erum orðin elskuð börn hans. Þetta finnst flestum lítið mál og kannski sjálfgefið, án þess að gefa því gaum, en í því er lífið í trú fólgið. Að lifa þá náð, í blessun Guðs, líta svo á að Guð vilji mér ekkert nema það sem gott er. Það er bænaafstaðan til Guðs. Alla ævi erum við að tileinka okkur þá hugsun, þann vilja Guðs, náð hans, sem hann gefur með syni sínum.
Þessi boðskapur kemur fram í guðspjalli dagsins. Þar heyrum við fagnaðarerindið boðað með krafti. Ef ég tæki upp á því að fyrirgefa syndir sem einhver annar hefði drýgt gegn þér, ætli þú yrðir móðgaður eða móðguð? Er það ekki út í hött af mér að gera það? En það var einmitt það sem Jesús gerði þennan dag. Það varpar ljósi á það hvernig Jesús leit á sjálfan sig. Hann fyrirgaf syndir vegna þess að þegar við erum að fást við Jesú eins og farísearnir þennan dag þá erum við að eiga í samskiptum við Guð sjálfan. Það sem við brjótum gegn meðbræðrum okkar og systrum, það sem við vanrækjum gagnvart þeim, kemur Guði við. Jesús er því algjör ruglukollur eða Guðs sonur. Það er annað hvort eða. Það er niðurstaðan og líka forsenda fyrir því að geta talað um fyrirgefningu syndanna, annars setjum við upp með það eins og endranær að reyna að standa okkur eins vel og við getum. En þá er engin Guð eða skrípamynd af honum í huga okkar. Fagnaðarerindið boðar okkur góðan Guð sem kaupir það dýru verði að frelsa okkur frá sjálfum okkur, sekt okkar og myrkri, með komu Jesú til okkar, svo við eigum Guð fyrir vin en ekki fjandsamlegt ofurvald.
Það er hugsunin í síðasta erindinu:
Og þegar heimsins böl mig beygir
og blasir við mér sektin mín,
þá faðmar þú mig fast og segir:
„Ég fyrirgef þér brotin þín“.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Amen.