Himnesk veisla á jörð

Elisabet Wood - Biblíumyndir
Elisabet Wood – Biblíumyndir

Ræðan Himnesk veisla á jörð var flutt á 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hún hefur verið margnýtt og endurskoðuð. Ræðan endurspeglar Kaupmannahafnarár okkar hjóna 1995 þar sem ég var við framhaldanám við guðfræðideildina og sjálfstæðar rannsóknir. Eftir að ég kom heim hlustaði ég á erindi dr. Gunnars Kristjánssonar um Jón Vídalín og postillu hans. Ég reyndi ræðulist Vídalínspostillu eða röklega framsetningu Jóns Vídalíns í nokkrum ræðum eins og þessari. Textarnir voru Jes. 55.1-5; Ef. 5. 15-21; Mt. 22. 1-14 – Boðið til brúðkaups.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1. Inngangur: Konunglegt brúðkaup

Ef óboðinn gestur hefði ruðst inn í mína brúðkaupsveislu í gallabuxum og strigaskóm, gengið að krásunum og fengið sér ríflega með óhreinum höndunum, þá er ég ekki í nokkrum vafa um mín viðbrögð. Ég hefði tekið í hnakkadrambið á honum og látið hann húrra út, hattur og stafur flakkarans hefði fylgt honum fast á eftir. Í dæmisögu Jesú er himnaríki líkt við konung sem gjörði brúðkaup sonar síns. Konunglegt brúðkaup er miklu mikilfenglegra en þegar ég var að standa í þessu um árið. Það vildi svo til að við hjónin vorum stödd í Kaupmannahöfn þegar Margrét Þórhildur danadrottning var að gjöra brúðkaup prins Jóakíms. Hann ætlaði að eiga kínverska stúlku frá Hong Kong, heillandi og glæsilega, Alexandra. Í boði fyrir brúkaupið gerðist einmitt þetta að boðflenna komst inn í móttöku án þess að nokkur yrði þess var og átti orð við prins Jóakim og engin tók eftir neinu, þrátt fyrir alla öryggisgæsluna. Maðurinn var svo bíræfin að hann fór í brúkaupið. Hann komst furðu langt. En hann hafði ekki fengið skilaboð um það að koma ekki í yfirhöfn í kirkjuna, svo að hann var eini maðurinn í frakka í brúðkaupinu. Hann skar sig þess vegna úr hópnum af heldra fólkinu sem skartaði sínu fínasta. Ekki komst dóninn lengra í þetta sinn en hann hafði fengist við það nokkrum sinnum að gerast boðflenna í veislum kongafólksins. Honum var vísað út og ekki gat hann troðið sér inn í brúðkaupsfagnaðinn mikla hjá kongafólkinu danska.

Í guðspjalli dagsins er fjallað um konung sem gjörði brúðkaup sonar síns. Í þessari dæmisögu Jesú er hann að segja söguna af samskiptum Guðs við mennina. Það gerist ýmislegt óvænt. Heldra fólkið sem var boðið í veisluna sinnti því engu. Konungurinn sendi þjóna sína aftur til að bjóða þá sömu til veislu sonar síns en það fór á sama veg og heldur ver því að nú drápu þeir sendiboða konungs. Þá gerist það óvænta sem lýsir himnaríki. Konungurinn segir: „Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir. Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum sem þér finnið.“ Þriðja atriðið sem kemur á óvart í dæmisögunni er gesturinn sem var ekki í brúðkaupsklæðum. Hvers vegna í ósköpunum var honum varpað út? Það er ýmislegt í þessari dæmisögu sem kemur á óvart en þegar upp er staðið þá er aðalatriðið að himnaríki er líkt konungi sem býður öllum til veislu en það er dauðans alvara að hafna boði hans eða þiggja það á fölskum forsendum.

2. Útlegging: Boðið í gleðilega veislu

1. Það eru allir boðnir til himneskrar veislu, svo við notum myndmálið úr guðspjalli dagsins, þar sem er gott að vera. Fagnaðarerindið um Jesú Krist er að allir eru boðnir, það er enginn hafður út undan. Kærleikur Guðs er slíkur að hann snýr sér að hverri mannssál til þess að allir fái að njóta hans, vera í nálægð hans og finna gæsku hans. Í guðspjalli Matteusar þar sem þessi dæmisaga er segir Jesú hvert markmið Guðs ríkis er. Það er: „Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, með því að skíra þá í nafni Föður og Sonar og Heilags Anda, og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá ég er með ykkur alla daga.“ Það fer ekkert á milli mála, með berum orðum er það sagt, að Guð vill að allir eignist lífið í honum, eilífa lífið, fögnuðinn sem aldrei tekur enda, fái að reyna hið góða, fagra og fullkomna. Þar af leiðir að erfitt er að hugsa sér Guð sem hafni nokkrum. Það er ómögulegt, óskiljanlegt, að kærleiksríkur Guð bregðist við eins og konungurinn í dæmisögunni og kasti mönnum út úr gleðskapnum. Nú megum við ekki láta myndmálið rugla okkur í ríminu. Það sem er aðalatriðið er að Guð eins og konungurinn býður öllum til sín, ríkum og fátækum, þeim sem áttu eitthvað undir sér og þeim sem voru á vegamótunum. Guðfræðingar hafa frá upphafi glímt við þennan vanda um kærleika Guðs. Í lofgjörð safnaðarins verður Guð ómótstæðilega góður, afl sem sigrar hið illa og náð sem linar dýpstu sárin í sálinni. Origenes kirkjufaðir gekk svo langt að halda því fram að fyrir rest myndi djöfullinn sjálfur láta af illri breytni sinni og gefa sig á vald kærleika Guðs. Og milli stríða hélt svissneski guðfræðingurinn Karl Barth því fram að allir myndu hljóta hjálpræði Guðs á efsta degi.

2. Auðvitað er það þannig að Guð vill að allir eignist hjálpræðið. Biblían segir frá upphafi til enda: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúi, glatist ekki, heldur öðlist eilíft líf“ (Jóh. 3:16). Þessi dæmisaga er hluti af ræðum Jesú sem hann flutti stuttu áður en hann var tekin fastur, dæmdur og krossfestur. Þar á meðal er lýst sorg hans yfir Jerúsalem. „Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi“ (Matt. 23: 37). Þessar hugleiðingar er líka að finna hjá Páli postula. Það var honum óskiljanlegt að menn skyldu ekki taka við Jesú þegar hann rétti út hendur sínar og boðaði þeim fagnaðarerindið um ást Guðs. Páli varð það ljóst eftir að hafa hafnað Kristi og ofsótt hann að kærleikur Guðs væri ómótstæðilegur og faðmaði alla menn að sér. En það vakti iðrun í hjarta hans að það hafði verið honum hulið um tíma, þar til Kristur birtist honum. Það kennir kristin trú að þegar dýpst er skoðað þá botnar tilvera okkar í kærleika Guðs. Í dæmisögunni er það sagt með orðunum: „Farið og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið… þjónarnir söfnuðu öllum sem þeir fundu, vondum og góðum“ (v. 9-10).

3. En það er rangt eins og Þorbergur Þórðarson gerir í Bréfi til Láru, þar sem hann lýsir því þegar hann kemur fyrir Guðs dóm og heldur sína varnarræðu. Guð getur ekki látið það góða í sér glatast með því vonda því að allir eru samsettir úr þessu tvennu. Ef hann gerði það þá væri hann ósamkvæmur sjálfum sér, þar sem hann er hið góða mundi hann glata sjálfum sér. Mönnum hefur löngum þótt það stórsnjallt ráð að draga Guð með sér í svaðið og ekki er það verra ef það tekst að vera fyndinn á Guðs kostnað. Við þurfum ekki að bíða eftir dóminum til að standa í þessu ströggli við Guð. Það gerum við í okkar daglega lífi. Jesú kennir okkur að lifa hér og nú, um það fjalla ræður hans og hann lifði í þessari veröld okkar. Við berum ábyrgð á tímanlegri og eilífri velferð okkar, ábyrðina fáum við ekki skrifaða á Guðs reikning. Eilíf velferð okkar veltur á því hvernig við erum við meðbræður okkar og systur hér og nú. Sá sem myrðir verður sekur fundinn, líka sá sem reiðist. Sá sem svíkur, fær ekki heiður fyrir, heldur skömm, líka sá sem hagræðir sannleikanum. Eða er það orðið þannig hjá okkur að sá sem er mest óforskammaður hlýtur mestan heiður? Þá höfum við gleymt kærleiksríkum Guði okkar og lífinu sem við erum sköpuð til. Þá höfum við glatað sjálfum okkur.

4. Kærleikur Guðs er svo mikill að hann neyðir engan að koma til sín með valdi. Það er ekki kærleikur sem neyðir og þvingar. Stundum spyr maður sig hvers vegna Guð snúi ekki heiminum til sín í almætti sínu, útrými því illa og birtist í mætti og mikilli dýrð. Ástæðan fyrir því að hann kom í litlu ósjálfbjarga barni, sem meistari sem gekk um kring og gerði gott, var að Guð er kærleikur. Fyrir okkur eru settir tveir kostir að gefa okkur á vald kærleikanum eða að bjarga okkur sem best við getum. Við tökum þar með fulla ábyrgð á örlögum okkar. Viðbrögð konungsins voru eðlileg fyrir konung austurlanda fyrir tvö þúsund árum, honum var sýnd fyrirlitning. En um leið liggur í orðunum spádómur um örlög Jerúsalem árið 70 e. Kr. þá var borgin lögð í rúst. Við Vesturlandabúar erum löngu hættir að hugsa okkur að það sé eitthvað samband milli handleiðslu Guðs og sögulegra atburða, að dómur Guðs getur komið fram í ógæfu samfélagsins. Það er næsta víst að efnaleg velferð er engin trygging fyrir velþóknun Guðs, aftur á móti heldi ég að fagurt mannlíf vitni um að við séum á réttri leið. Það er ábyrgð okkar að stuðla að betra mannlífi og kærleiksríkara.

5. Það er reisn yfir þeim sem þora að lifa frammi fyrir augliti Guðs. Það er til heilagur Guð, þess vegna veður maður ekki yfir þau mörk sem eru sett í siðum og venjum. Sá sem lifir fyrir augliti Guðs bindur sig þó ekki við ytri ramman heldur hefur kærleika Guðs að leiðarljósi, eins og Jesús þegar hann endurskoðaði venjurnar um hvíldardaginn, eða þegar hann talaði hörkulega við faríseana sem útilokuðu aðra frá Guðs ríki með allskonar reglum sem þeir gátu ekki einu sinni sjálfir haldið. Jesús setti mönnum engin skilyrði þó er ljóst að afstaða manna til hans skiptir sköpum eins og kemur fram í ótal frásögnum í guðspjöllunum. Hann birtir okkur kærleika Guðs, í því að við gefum okkur honum á vald, tökum í útrétta hönd hans, látum hann leiða okkur, trúum á hann, þannig erum við hans frá eilífð til eilífðar. Dæmissagan vísar til þess sem gerðist í píslarsögunni, sendiboðinn var drepinn af þeim sem boðnir voru. Það segir okkur sannleika um okkur menn að það eru margir sem kjósa að standa sperrtir frammi fyrir Guði í eigin réttlæti, frekar en að lúta Kristi. Hallgrímur okkar Pétursson beinir okkur á þann veg að leita skjóls hjá Kristi í þessu erindi í Passíusálmunum, þegar hann segir:

Burt tók Jesús þá blygðun hér,
beran því lét sig pína.
Réttlætis klæðnað keypti mér,
kann sá fagurt að skína.
Athvarf mitt jafnan er til sanns
undir purpurakápu hans,
þar hyl ég misgjörð mína. (Ps. 24. vers 3)

Það eru þeir sem eru fátækir í anda sem þiggja hjálp Guðs undir purpurakápu Krists. Jesús umgekkst tollheimtumenn og syndara. Hann útilokaði ekki, heldur breiddi út faðm sinn á móti öllum, böðlum sínum og þeim sem fyrirlitnir voru.

6. Þetta er dæmisagan að kenna með því að benda á að allir voru boðnir til brúðkaupsins. Sá sem laumaði sér inn án þess að vera í brúkaupsklæðum er dæmi um mann sem vill ekki þiggja kærleika Guðs en gjarnan krásirnar af borðum hans. Það var siður við brúkaup að veislugestir klæddust sérstökum klæðum, sem þeim voru útveguð. En þessi maður hafði ekki þegið þau. Þó segir konungurinn við hann: „Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?“ Hann segir „vinur“ eins og hann vilji gefa honum tækifæri að þiggja boð hans. Guð réttir sína hönd til okkar með því að senda Krist til okkar, hann býður okkur til samfélags við sig, það er samfélag, sem byggir á forsendum kærleikans. Kærleikurinn þrífst ekki þar sem eru svik.

7. Kærleikur Guðs birtist okkur í útbreiddum faðmi Krists, hann hafnar engum. Hann neyðir heldur engan til samfélags við sig. Það væri ekki kærleikur.

3. Heimfærsla: Heilög kvöldmáltíð veisla

Elisabet Wood - Biblíumyndir
Elisabet Wood – Biblíumyndir

Okkur er boðið til veislu í dag í heilagri kvöldmáltíð. Jesús stofnaði til þessarar máltíðar til þess að minna okkur á að hann dó á krossi og reis upp á þriðja degi okkar vegna. Það er merkilegt trúarsamfélag, kirkjan, að halda þessa minningu í heiðri með þessum hætti. Hún minnir á barnið sem fæddist, á meistarann sem gekk um kring og gerði gott, á kærleika sem þvingar ekki heldur býður fram sjálfan sig. Þegar Jesús talar um hold sitt og blóð, þá á hann við sjálfan sig sem hann hefur gefið okkur. Það er ákveðinn þyrnir í þessum orðum, sem píslarsagan birtir okkur, útrétt hönd Guðs er gegnum stungin, hann var festur á kross. En um leið er það sagt að kærleikurinn hefur sigrað og sigrar, ljós Guðs skín í myrkrinu. Guð opnar faðm sinn öllum, býður öllum fyrirgefningu syndanna, eilíft líf, að ganga innar til himneskrar veislu á jörð.

4. Niðurstaða: Kærleikur Guðs er frjáls

thorvaldsen_christus

Stytta Bertels Thorvaldssens „Komið til mín“ hefur fylgt mér frá því ég fyrst fór að gefa gaum að fagnaðarerindinu um Jesú. Við altarisgöngu í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn kraup ég við þessa styttu. Maður verður að krjúpa til að horfast í augu við Krist. Á fermingarmóti í Vatnaskógi, þar sem ég starfaði í nokkur ár, upplifði ég þessi sannindi. Við vorum með einn fermingartímann í lítilli kapellu sem þar er. Í henni er eftirmynd af þessari styttu. Eitt fermingarbarnið orðaði það svo: „Jesús þvingar mann ekki til að horfast í augu við sig“. Þannig er kærleikurinn sem mætir okkur í Kristi. Kærleikur Guðs er frjáls og skapar frelsi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleikur Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: