Frelsi, siðbót eða bylting

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-004Ræða flutt á siðbótardaginn í Glerárkirkju 30. september 2016. Það var daginn eftir kosningar. Textar dagsins voru: Jer 31.31-34; Róm 3.21-28; Jóh 8.31-36. Þema ræðunnar voru orð Jesú í guðspjallinu: „Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls“. Og: „Ef sonurinn frelsar ykkur munið þið sannarlega vera frjáls“. Það voru sungnir sálmar eftir Lúther: Upphafssálmur sb. 335: Guð helgur andi; Lofgjörðarvers sb. 157: Í dauðans böndum. Fyrir prédikun sb. 284: Vor Guð er borg á bjargi traust; Við útdeilingu sb. 237: Jesús Kristur, lífsins ljómi. Nokkrar myndir lét ég fylgja til íhugunar efninu eftir Elisabet Wood, biblíumyndir sem fundust á háalofti Barnaskóla Íslands á Brekkunni, Málverk af Jesús blessar börnin úr Kaupangskirkju eftir óþekktan málara og Komið til mín eftir Carl Bloch.

Frelsi, siðbót eða bylting

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1. Inngangur

Ég var að reyna að fá ykkur til að sperra eyrun með þessari yfirskrift: „Frelsi, siðbót eða bylting“. Fyrst um frelsið. Ertu frjáls? Hugsaðu um það! Þú tilheyrir menningu sem hefur valið sér með einhverjum hætti, lýðræðislega eða sögulega, þetta orð, FRELSI, sem kjörorð. Svo þú ert eitthvað á skjön við samtíma þinn ef þú ert ekki frjáls eða í það minnsta vilt frelsi. Er ekki svo? Eða hvað?

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-001

Hvað er þetta frelsi sem allir eru að tala um í nútímanum?

Það er dálítið skondið að nútíminn er 500 ára gamall eða svo. Endurreisnin og siðbótin marka upphaf nútímans þegar tal um frelsi setti Evrópu á hliðina svo ekki sé meira sagt.

Tveir munkar af reglu Ágústínusar áttu í ritdeilu um frelsið, þeir deildu um frjálsan vilja eða þrælbundinn vilja. Ekki segi ég að það hafi verið upphafið að nútímanum en rit þeirra enduróma af nútímanum sem var að ganga í garð fyrir 500 árum. Það voru þeir Erasmus frá Rotterdam og Martin Lúther frá Wittenberg, siðbótarmaðurinn. Þannig þessi tenging við siðbótardaginn.

Það má segja að þá hafi einstaklingurinn orðið til. Ég á ekki við pólitískt, heldur sú hugsun að einstaklingurinn hafi gildi út af fyrir sig.

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-002

Þetta er farið að hljóma meira sem sögulegur fyrirlestur en prédikun hjá mér. Ertu ekki sammála?

En frelsið skiptir þig máli, er það ekki?

Í þessari ritdeilu og í deilu Lúthers við páfa kaþólsku kirkjunnar sem þeir báðir tilheyrðu komu fram hugmyndir sem áttu eftir að móta veröldina allt til okkar daga. Í litlu hefti sem Lúthers skrifaði páfa, lengdin breytir ekki öllu, útskýrði hann fyrir honum hugmyndir sínar. Bókin heitir: Um frelsi kristins manns. Þar er að finna frelsishugsjónir siðbótarinnar. Það er með því betra sem skrifað hefur verið um frelsið að mínu viti.

2. Frelsi eða fjötrar

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-003

Í guðspjalli dagsins segir Jesús að sannleikurinn muni gera okkur frjáls og svo heldur hann áfram: „Ef sonurinn frelsar ykkur munuð þið sannarlega verða frjáls“ (Jóh. 8). Það eru stór orð að frelsið sé algjörlega háð honum og sannleikanum. Það er út frá þessu sem Lúther skrifar bók sína um frelsið. Hann kenndi að frelsið eigum við í trú á Guð, frelsið eigum við í trú þegar við treystum því sem hann segir. Og það er einstæð, algjörlega óvanaleg hugsun um Guð, sem vaknar við lestur og íhugun á þessum orðum Jesú. Hún er svo öðru vísi að ég verð að álykta sem svo að hún hlýtur að eiga uppruna sinn í Guði.

Það eru til ótal margar skilgreiningar á frelsinu en hjá Jesú fær orðið nýja vídd. Það dregur Lúther fram í bæklingi sínum. Sannleikskrafan er algjör og hefur með Guð að gera. Það er sannleikurinn um Guð sem gerir okkur frjáls. Það lærðu lærisveinarnir af Jesú og um það skrifuðu þeir í guðspjöllunum.

Grundvallaratriðið er þetta að frelsið á maður í Guði, ekki einhverjum guði eða hugmyndum, heldur í Guði Abrahams, Ísaks og Jakob, Guði Jesú Krists eins og hann birtir okkur hann.

Við getum sagt að frelsið er eins og kvikasilfur. Maður ætlar að grípa það og þá er það horfið úr greipum manns. Frelsið er eins og Guð, óhöndlanlegt, aldrei í hendi. Það er því broslegt þegar heilu þjóðirnar og menningarheimarnir ætla sig eiga frelsið.

Frelsið getum maður ekki tekið sér heldur er það manni gefið. Frelsið getur þú átt innra með þér jafnvel þegar þú ert í fjötrum. Og á hinn boginn getur það verið. Þú getur verið í fjötrum innra með þér þó að það geti litið út fyrir að þú njótir frelsis í aðstæðum þínum.

Hvað er frelsi? Það eru til ótal skýringar eins og ég sagði. Sú skýring sem liggur í augum upp er að frelsi er að geta gert það sem maður vill! Nú, þá er það Guð einn sem er frjáls, hann einn getur gert það sem hann vill eða það er eiginleiki sem við ætlum Guði. En ef við sleppum Guði úr hugsun okkar þá er hugmyndin hin sama en verður draumkennt ævintýraástand, veruleiki, sem við höfum hugmyndir um handan við þann sem við lifum. Og ef við gerumst bara skynsöm þá er frelsið mest þar sem menn lifa sem frjálsast, geti veitt sér það helsta, og svalað flestum löngunum sínum.

Frelsið sem Nýja testamentið talar um er ýtrasta frelsið og bundið við hugsunina um Guð. Ég er ekki að tala um frelsi að velja milli kosta, ekki um frelsi hugsjóna og hugsæis, ekki frelsi handan þessa veruleika, heldur frelsið sem við eigum í Kristi, eins og Páll postuli segir í í bréfinu um frelsið, Galatabréfinu: „Til frelsis frelsaði Kristur ykkur, látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok“ (Gal 5.1). Hér er sagt við þig: Þú ert frjáls í Kristi.

Það er ljóst af þessum orðum að frelsið er okkur gefið enda höfum við talað um að það verður ekki tekið eða hrifsað til sín ekki frekar en það að hægt sé að heimta kærleika. Hvernig gerist þetta að Kristur frelsar? Hann tekur á sig ófrelsi okkar og gefur frelsi sitt. Lúther útskýri það svo í bók sinni að Jesús taki á sig fjötra okkar og gefur okkur með sér að vera Guðs börn, rétt eins og hann er sonur Guðs verðum við fyrir gjöf og náð börn Guðs. Honum var það í lófa lagið að gefa barnarétt sinn en það var keypt dýru verði með því að hann tók á sig sekt okkar, böl og þjáningu. Honum var það frjálst að gera það og með því gaf hann breyskum og brotlegum mönnum hlut í frelsi sínu eins og guðspjöllun segja frá. Fólk er ekki frjálst í sjálfum sér.

Kannski má ekki tala svona. Það á allt að vera svo slétt og fellt og gott hjá okkur en þegar betur er að gáð kemur ýmislegt annað í ljós. Leggðu hönd og brjóst, vertu ærleg(ur) við sjálfa(n) þig og aðra. Ertu fullkomin(n)? Stenst þú mælikvarða Guðs um fullkomleika? Stenst þú þína eigin mælikvarða um það sem er gott? Við erum sönnust í návist Guðs, ærlegust og heiðarlegust einmitt þar, til þess erum samankomin í helgidóminum. En það þarf áræði til að taka sér þá stöðu. Sannleikurinn er sá að við gerum það ekki nema við heyrum orð Jesú um fyrirgefningu þá leggjum við í það að viðurkenna, svona er ég, takk fyrir það Jesús, að þú vilt mig, vera Guð minn, frelsari. Takk.

Þannig eigum við frelsið í trúnni á Krist. Þegar við sýnum honum þá virðingu að taka það til okkar sem hann sagði og gerði. Þegar við segjum að það sem hann gerði var og er fyrir mig. Þá sýnum við honum viðurkenningu sem gefur okkur sjálfsvirðinguna aftur, manngildi og heiður, að honum er það fullkomlega frjálst að gera það sem hann gerði, hann átti rétt á því að segja það sem hann sagði, að hann er frelsarinn okkar. Það eru ekki merkingarlaus orð heldur orðið sem gefur okkur trú og traust.

Ég veit að ég er inn á mjög persónulegu og einstaklingsbundnu sviði, það al persónulegasta sem hugsast getur. Sambandi þínu við Guð þinn. Ef þú átt frelsið þar, og það veist þú, þá lítur veröldin öðru vísi út. Þá verður hún sköpun Guðs og allt fólk börnin hans sem þú vilt þjóna með gleði og ánægju. Þú færð kannski ekkert nema bágt fyrir en þá hlustar þú meira á Guð en úrtölu raddirnar í kringum þig.

3. Líf í trú – líf í frelsi

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-004

Lífið í þessari trú er líf í frelsi. Þú mátt eiga þetta frelsi í hjarta þínu, þar sem þú lifir og hrærist með Guði, sem elskar þig, vill þér ekkert nema gott, vill taka sér bústað í þér, ganga með þér á veginum og leiða þig til þess sem er best fyrir þig og heiminn. Það er trúin á góðan Guð.

Svo heldur þú af stað og mætir „fúl á móti“, andstöðu og erfiðleikum. Þá finnur þú að það er ýmislegt í þér sem segir nei við þessu góða sem Jesús hefur kennt þér og sýnt þér. Hvað gerir þú þá við frelsið sem þú átt í hjarta þér? Þú verður að leggja í það að takast á við sjálfan þig, glíma við girndina í þér, óvildina við nágranna þinn, orðin, sem eru komin fram á varir þínar, þegar gengið er á rétt þinn, að þér finnst. Ég er ekki að tala um að maður láti vaða yfir sig, heldur þetta að sigra illt með góðu.

Þetta kallaði Lúther lögmálið sem tyftar og agar. Þess vegna gifti munkurinn Lúther sig að eigin sögn. Það var ekki af tómri ást heldur af kirkjupólitískum ástæðum til að ögra öllu meinlæta vesininu sem kirkjan var uppfull af. Hann vildi ganga á undan og sýna gott fordæmi og takast á við hversdagslífið í trú. Þess vegna kvæntist hann Katrínu sinni sem var engu minni skörungur en hann.

Við erum ekki í neinum draumaheimi heldur raunveruleika með trú okkar. Það er ein svæsnasta lýgi um trúna að hún sé raunveruleikafyrt. Þú átt að lifa þar sem þú ert með Jesú að leiðarljósi í einu og öllu og skapa eins mikið frelsi í þessari merkingu og þú frekast getur, skapa það umhverfi sem lýsir af umhyggju og kærleika. Til þess átt þú að nota alla krafta þína, gáfur og efni.

Eins og þú heyrir þá er ég að ögra þér. Til að æsa þig upp til að ganga út í píslargöngu þína eða pílagrímagöngu, ekki til helgra staða til þess að þykjast vera heilagur, heldur til að breyta þínum aðstæðum og umhverfi til góðs, hér og nú. Og ég veit að þér verður innanbrjóst eins og mér að þetta get ég ekki til þess er ég allt of eigingjarn og sjálfhverfur. En þá er að hverfa aftur inn í hjarta sitt þar sem Jesús er með okkur og leggja málið í hans hendur og halda þannig af stað til betri framtíðar.

Það er engin blekking að lifa þannig, ekki einhvers konar andleg sjálfsfróun, heldur lífið sjálft, vegna þess að við höfum með Guð að gera og þá sannleika lífsins.

4. Frjáls til að þjóna

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-005

Þú klórar þér ábyggilega á bak við eyrað og spyrð þig: Er þetta eitthvað frelsi? Lúther siðbótarmaðurinn, sem ég er aðeins að kynna að nýju á siðbótardegi, kenndi að við erum frelsuð til þess að þjóna öðrum í kærleika. Æ, segir þú eflaust, og ég með þér. Ég átti von á vinningi með hinu kristna frelsi en fæ bara verkefni og erfiðleika. Kristin trú heldur nefnilega saman réttindum og skyldum, ýtrustu einstaklingshyggju og mestu félagshyggju, byltingakenndum hugmyndum um frelsi, sem stundum hafa sett heilu heimsálfurnar á annan enda, og rótgrónustu þjónustu við náungan, siðbót, félagsþjónustu og samfélagslega ábyrgð.

 

Kirkjan hefur svo sem gleymt þessu oft á tíðum en Jesús gleymir ekki sannleikanum og frelsinu sem hann hefur kallað okkur til. Það er hann einn sem hefur kennt þetta. Það er eitthvað guðlegt við þennan boðskap. Þess vegna er hann svona ögrandi. Það snýst um það að Jesús segir okkur sannleikann. Ekki ég. Ég er aðeins að útskýra orð hans.

frelsi-sidbot-eda-bylting_161030-006Stjórnmálin, pólitíkin, sem við höfum mörg hver vakað yfir í nótt, spennt yfir því hver beri sigur af hólmi, eins og þau hafi það hlutverk að sigra heiminn. Pólitískar stefnur geta nefnilega orðið okkur hjáguðir eftir orðum Jesú að dæma, hið ýtrasta í lífinu, en hún hefur það hlutverk að skapa frið og opinbert frelsi svo að lífið fái dafnað, svo að einstaklingarnir fái notið sín og samfélagið geti sinnt velferð allra sem er sameiginleg ábyrgð.

Lúther var því miður of bölsýnn á möguleika mannsins að skapa „velferðarsamfélag“ eins og við þekkjum þau. Tæpum þrjú hundruð árum síðar urðu byltingar sitt hvoru megin við Atlandshafið. Mannréttindi voru lögð þjóðunum til grundvallar. Kirkjan gleymdi sér í valdabrölti einu sinni enn og varð á eftir. Hún hefur svo sem iðrast þess og stendur nú víða með þeim fátæku í baráttu gegn alþjóðavæðingu þar sem henni fylgir víða kúgun auðvaldsins. Þá stöðu hefur lútherska heimssambandið tekið í stefnumörkun sinni. Frelsunarguðfræðingar og ACT  (Action Churches Together), alþjóðasamtök kirknanna í hjálparstarfi, ganga víða inn í aðstæður sem virðast vonlausar til að hjálpa í trú á Guð og betri framtíð.

Trúir þú þessum orðum sem Jesús sagði: „Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls“. Og: „Ef sonurinn frelsar ykkur munið þið sannarlega vera frjáls“. Þá skaltu fara og gera sannleikann, eins og Jesús kenndi, ekki aðeins að tala, heldur að „gera“ sannleikann. Óvanalegt orðatiltæki en þannig talaði hann. Þá gæti orðið bylting til hins betra ef Guði þóknast svo.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: