Mannréttindabarátta Jóhannesar og Jesú

leonardo_mariaklettRæða var flutt í Akureyrarkirkju 4. sunnudag í aðventu 2013 út frá Jóh. 1 um vitnisburð Jóhannesar skýrarara. Guðspjöllin lögðu grunn að ákveðnum grundvallargildum fyrir mannlegt samfélag, í dag eru mannréttindi sett samfélögum til grundvallar sem eiga þó rætur að rekja nokkuð til guðspjallanna. Jóhannes og Jesú lögðu grunn að mannréttindabaráttu á sínum tíma eins og Nelson Mandela í seinni tíð. Málverk Leonardo da Vinci af Maríu við klettana gefur til kynna samband Jesú og Jóhannesar.

Undanfarið hafa menn leitt hugann að mannréttindabaráttu Nelson Mandel í Suður Afríku. Minning hans hefur vakið athygli á regnbogahreyfingu hans á ný. Hans framlag var sú hugsun að fólk á að geta lifað saman í samfélagi þó að það sé ólíkt. Fjölbreytileikinn á að auðga okkur frekar en að gera okkur fátæk og einangra okkur. Það er merkilegt að slíkar hugsanir fæðist í fangelsi og undir kúgun. Boðskapur um fyrirgefningu, sátt og frið, er okkur boðaður.

Í guðspjalli dagsins mætir okkur óheflaður útilegumaður sem flutti boðskap frá Guði úti í eyðimörkinni. Þangað fór fólkið að hlusta á hann. Jóhannes skírari var í baráttu fyrir trúflokki og þjóð sem var kúguð af rómversku hervaldi, spilltum ráðamönnum og hræddu prestaveldi. Og eins og svo margir baráttumenn fyrir réttlæti og frið var hann settur í fangelsi. Þar var hann hálfshöggvinn án dóms og laga. Þannig endaði eyðimerkurganga hans og barátta. En það var upphaf að einhverju nýju, nýrri hugsun, nýjum grundvelli samfélags.

Faðir hans, sem var aldraður prestur, hafði komist við þegar hann fæddist þeim Elísabetu konu hans, sem var einnig hnígin að aldri. Hann lofaði Guð fylltur heilögum anda og spámannlegri andagift:

Og þú, sveinn, munt nefndur verða spámaður Hins hæsta,
því þú munt ganga fyrir Drottni að greiða veg hans
og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu
sem er fyrirgefning synda þeirra. (Lúk. 1.76-77).

Þetta var fyrir tvö þúsund árum.

1. Nýungar eða hvað?

Nútíminn hrósar sér af mannréttindinum. Allt frá mannréttindayfirlýsingu Bandaríkjanna og franska lýðveldisins hafa þau verið aðalsmerki Vestrænnar menningar ef svo má að orði komast. Vafalaust má skoða þær hugsanir sem drifkraft í sögu okkar og þróun menningar síðustu tvö hundruð árin. Þau fengust fyrir barátta sem kostaði blóð, tár og svita. En við megum ekki sofna á verðinum því að þetta er arfur sem auðveldlega glatast, eins og draumur í svefnrofunum.

Það voru sláandi fréttirnar í vikunni um nútímaþrælahald á Bretlandi og löggjöf sem breska þingið var að setja um strangari refsingum við því. Þrælahald er þar við lýði til að halda gangandi kannabis framleiðslu. Bretland var eitt fyrsta ríkið sem barðist fyrir afnámi þrælahalds í heiminum á sínum tíma og kristnir menn gengu þá fram fyrir skjöldu. Þá var sagt frá barnahermennsku í (miðlýðveldinu) í Afríku. Sumir drengirnir voru sjálfboðaliðar reyndar, en breytir það nokkru? Ég þekkti kristniboða frá Eþíópíu sem sagði mér sláandi frásögn á stjórnarárum Mengistu hvernig drengjum hefði verið smalað saman á vörubíla í þorpunum. Þeir fengu síðan byssur og fáein skot, smá leiðsögn í að nota vopnin. Svo var farið með þá að vígvellinum, settir í fremstu víglínu og látnir vita að hermennirnir fyrir aftan hefðu skipun um að skjóta þá ef þeir reyndu að flýgja. Þannig ráku stríðsherrarnir baráttuna við Eritreu. (Krossinn frá Destu, milli landa, á flótta).

Mannréttindi í stjórnarskrá eru dauð nema til sé fólk sem vill fylgja þeim eftir. Nógu eru það margir sem vilja krefjast þess að aðrir uppfylli mannréttindi sín og það er ágætt en það dugar ekki ef menn vilja ekki að leggja hönd á plóg. Sú sjúklega einstaklingshyggja sem verður víða vart gerir út af við samfélagið að lokum og við endum í ófriði.

Jólavæmnin rann af mér þegar ég var illa minntur á það að við höfum fátækt á meðal okkar. Okkar eigin samfélag er ekki réttlátt. Fólk er hneppt í skuldafjötra. Við virðumst hafa meiri trú á lögmálum fjármálanna sem með engu móti má raska en skipan Guðs um réttlæti og miskunnsemi.

2. Kirkja í baráttu – Hin stríðandi kirkja

Fyrir mörgum árum, 1996, kom faðir Martin frá Indlandi hingað í heimsókn. Hann hefur verið frá því einn af samstarfsmönnum Hjálparstarfs kirkjunnar. Ég man það þegar hann gekk niður tröppurnar í safnaðarheimilinu. Lítill maður vexti enda Inverji svo mér fannst ég vera stór eitt augnablik þegar ég heilsaði honum. Í gegnum árin þegar ég hef fylgst með starfi hans hef ég komist að raun um að faðir Martin er mikill maður.

fadir_martin

Hann stofnaði SAM, Social Action Movement, með það að markmiði að skapa betri lífsskilyrði fyrir stéttlausa fólkið í prestakalli sínu og héraði. Hann og samstarfsfólk hans var iðulega í hættu í þessari baráttu. Hann segir í ræðu sinni yfir kaþólskum kollegum sínum að hann vonist til að nýr páfi muni leiða kaþólsku kirkjuna meira að raunverulegum verkefnum. Hann gagnrýndi kirkjuna fyrir að flýgja frá raunverulegum inn í helgihald í stað þess að tengja það við baráttu kirkjunnar í samfélaginu.

Í þessari ræðu nefnir hann nokkur dæmi úr baráttu SAM. Eitt af því sem hann vann að var að hinir stéttlausu í samfélaginu fengju land til eignar sem hafði verið ákveðið af yfirvöldum en landeigendur stóðu gegn því. Landeigendur höfðu gengið svo langt í því að berja niður alla tilburði hinna stéttlausu að þeir drápu einn þeirra. Hræðslan var mikil í hópnum kvöld eitt þegar átti að hefja kröfugerðina að þeir voru að örvænta og gefast upp. Það var ekki fyrr en faðir Martin leiddi hópinn í eitt hof þeirra og féll á kné fyrir einum guði þeirra og gerði þar heit að berjast allt til enda fyrir rétti hinna stéttlausu að andinn í hópnum breyttist og þeir lögðu í þessa hörðu baráttu. Þessi atburður sem var ekki hjáguðadýrkun heldur birting á samstöðu með hinum stéttlausu að mati föður Martins varð til að snúa baráttunni við.

Hann keypti laus þrælabörn í spunaverksmiðjum og grjótnámum og menntaði þau fyrir m. a. framlag Íslendinga. Það fól í sér samkomulag við foreldra að þeir styddu við börn sín í þessu. Hann kom á barnaþingum þar sem börnin og unglingarnir ræddu mál samfélagsins eins og mengun sem hafði alvarlegar heilsufarlegar afleiðingar fyrir suma í hópnum, hvernig hreinsibúnaður verksmiðjanna við árnar voru ekki eins og bar þó að kveðið var á um það. Einu sinni heyrði ég íslenska sjálfboðaliða sem höfðu verið hjá SAM segja frá þessu og augljóst að félagslegur þroski þessara barna var til fyrirmyndar.

Nú þessum árum síðar er faðir Martin að leggja niður þetta starf því að markmiðum hefur verið náð. Yfirvöld eru að framkvæma það sem var baráttumál SAM svo að 30 þúsund börn eru nú frjáls úr skuldaánauð. Þá vill hann tryggja samstarfsfólki sínu öryggi eftir að hafa fórnað starfskröftum sínum í þessi baráttu, oft í lífshættu, en fús að fórna öllu til að málinu yrði framgengt.

3. Boðskapur Jóhannesar og Jesú um Guðs ríki

Einhverjum finnst kannski boðskapur Jóhannesar skírara úreltur en menn og konur eins og faðir Martin opnar augu manns fyrir því að það er alls ekki. Félagslegt réttlæti er hluti af hinum kristna boðskap, meira að segja stjórnsýslulega. Ágæti söfnuður, þið hafið gert samning um að verja rétt ekkna og munaðarlausra og þeirra sem minna mega sín. Og þið eigið að etja prestum ykkar út í það frekar en að lifa fyrir helgidóminn. Það er boðskapur Jóhannesar sem hafði bera kletta í eyðimörkinni fyrir ræðustól og mörgum árum síðar faðir Martin á götum Indlands. Það er nefnilega talað um þetta í vígslubréfi prestanna sem er líka stefnuyfirlýsing safnaðarins, langt í frá að vera einkamál prestanna. Það er reyndar eitt atriði þar sem þarf ef til vill að fara að endurskoða og það er hvort prestar eigi að heita því að hlýða yfirvöldum. Það getur komið sá tíma að berjast þarf við óréttlát yfirvöld á forsendum trúarinnar.

Spámannsrödd kirkjunnar byggir á nýjum mælikvarða á mannlegu samfélag. Kannski getum við sagt að það sé hin glataða vídd í dag. Það er hin guðlega vídd sem er forsenda kirkjunnar til að gagnrýna samfélagið sem hún lifir í. Og það er líka hin guðlega vídd sem gefur mönnum kjart til að berjast fyrir rétta og betra samfélagi, sem vilja kalla sig kristna.

Trúin hefur afleiðingar í lífinu, hún ber ávöxt. Þannig séð styrkir trúin mannréttindi og átti þátt í því að þau voru sett fram. Má þar nefna gildi manneskjunnar og hugsjónir um frelsi og bræðralag allra manna. Sömuleiðis er samfélagshugsjónir kirkjunnar að mörgu leyti yfirfærðar á mannlegt samfélag í nútímanum og er það vel. En köllun kirkjunnar gengur lengra og er það nokkuð sem faðir Martin með þeim frændunum Jóhannesi og Jesú dregur fram í ræðu sinnni. Við erum kölluð til að fylgja Jesú, jafnvel í píslargöngu og dauða ef þörf krefur vegna kærleikans. Við eigum að hafna því þegar samfélag gerir ítrustu kröfu til okkar, þá er verið að neyða okkur til hjáguðadýrkunnar, Guð einan eigum við að dýrka. Það á trúfrelsisi að tryggja okkur í hinum mannlega samfélagi, en vegna Krists eigum við að vera fús að fórna, leggja meðbræðrum okkar lið og styrkja samfélagið eftir kristnum kærleikshugsjónum með kirkju og kristni í heiminum öllum.

Þá ætla ég að vera pínulítið jólalegur, vonandi hef ég ekki skemmi fyrir ykkur jólahaldið, en ég ætla mér að vekja ykkur aðeins til umhugsunar. Jólaboðskapurinn er svo sannarlega spámannlegur. Í forsögu Lúkasarguðspjalls eru einhver rótækustu orð Biblíunnar og hnykkir á spámannlegri prédikun kirkjunnar. Þar er meir að segja í lofsöngur Maríu sem kirkjan hefur sungið í hart nær tvö þúsund ár. Hann er eins og broddur í síðu hennar, ef hún sinnir ekki hlutverki sínu, og ætlar að gleyma sér í helgihaldi og hátíðarstemmingu:

Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara. (Lúk. 1.52-53).

Það er ástæða fyrir því að við hugsum um Jóhannes skírara á 4. sunnudegi í aðventu sem borgaði með lífi sínu fyrir vitnisburð sinn og á annan dag jóla er Stefánsdagur, þá minnumst við fyrsta píslarvottsins. Hátíðarhald kirkjunnar á ekki að gera okkur fjarræn heldur leiðir okkur jafnóðum inn í raunveruleikann. Það er kraftur fagnaðarerindisins. Hirðarnir fóru til Betlehem og fundu Jesú í lágum stalli.

Við kristið fólk erum kölluð til að berjast fyrir rétti og mannúðlegu samfélagi til þess höfum við samtök eins og Hjálparstarf kirkjunnar. En hvorki Jóhannes né Jesú leyfa okkar að friða okkur með framlagi til þessara aðila. Við eigum að halda vöku okkar í samfélaginu sem við erum sett í til að gera það betra, mannúðlegra og réttlátara. Við eigum ekki að láta aðra segja okkur að við eigum ekki erindi þegar Guð okkar hefur kallað okkur og sýnt okkur fyrirmynd í syn sínum um leiðina sem við eigum að ganga. Gerast fátæk til að hjálpa þeim fátæku, vera smá til að geta stutt hina smæstu, gefa okkur í þjónustu kærleikans við náunga okkar og samferðafólk, þannig verður samfélagið mannúðlegra.

Japanski guðfræðingurinn Kasuke Koyama bendir á í bókinni um hinn óhöndlanlega kross að öll megintrúarbrögð heimsins hafa að markmiði elsku til náungans og gera siðferðilegar kröfur til fylgjenda sinna um sjálfsafneitun. Við höfum mörg líknarfélög sem vilja skapa mannúðlegra samfélag. Við eigum samherja víða þó að við gefum okkur ólíkar forsendur þá er samfélagslegt markmið hið sama. Við kristnir menn eigum ekki að fyrirverða okkur fyrir það sem okkur er gefið, erindið er kröftugt og hjálplegt, við eigum að halda því fram og fylgja því eftir í okkar eigin samfélagi.

Hugsaði um það sem þú getur gert, hverju þú getur breytt! Tími Jóhannesar var stuttur en boðskapur hans á erindi við okkur. Hann benti á Krist og kenndi fólki að fylgja honum í auðmýkt og þannig varð hann til að leggja grunn að mannúðlegra og betra samfélagi.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun.

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: