Tal við Guð um traust

Ég trúi á þig, Guð minn, á því byggir líf mitt,
að treysta því að þú segir sannleikann.
En hver er ég að láta mér detta það í hug
að það sem ég segi eða geri hafi áhrif á það
hvort þú sért sá sem þú segist vera
eða að þú hverfur mér út í blámóðuna.

Auðvitað ert þú og ég á tilveru mína alla undir þér
ella hverf ég eins og skuggi þegar sólin sest.
Traust mitt á þér á upphaf sitt og staðfestu í þér,
eilífi Guð, sem ert frá eilífð til eilífðar.

Áræðið að framganga í trú er frá þér komið,
eins og grundvallartraustið sem þú viðheldur
af náð þinni og ást.
Í trausti til þín varpa ég mér
í náðarfaðm þinn,
vegna þess að þú hefur sýnt mér hver þú ert,
ef ég hefði enga vitund um það myndi ég falla,
því að þá myndi klettur minn breytast í dimmblátt djúp,
en nú ert þú sá sem þú segist vera.

Er það þá val mitt og hvers manns að ákveða
hvort þú sért fyrir hann eða ekki?
Ég er spurður: Hvað er sannleikur?
Ég get ekki mótað neitt eitt og ljóst svar
en ég fyrir mitt leyti bind mig við þig,
fyrir Drottinn vorn Jesú Krist,
ÞÚ ert mér sannleikurinn og lífið. 

Því hirði ég minna um rök trúarinnar en þig, ljós mitt,
engu að síður eru þau vit þitt í tilverunni.
Það skiptir mig minna máli
að gera það sem rétt er en að þjóna þér,
engu að síður og þess vegna er það gleði mín
að gera öðrum gott,
því að þú ert kærleikurinn manna á milli.

Published
Categorized as Bænir

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

%d bloggurum líkar þetta: