Fjörutíu og þrjú ár (nú hálf öld) eru síðan ég var skírður
í nafni heilagrar þrenningar,
rétt áður en ég var fermdur
tveimur dögum seinna.
Gleðidagarnir eftir páska eru runnir upp.
Kristin trú er ögrandi.
Að ögra þeirri tilveru, sem manni er varpað inn í,
af þér Guð, þrátt fyrir allt og allt, játast ég þér,
því að þú ert betri en heimurinn.
Ég festi mig við guðspjallið,
eins og það kemur fyrir, annað get ég ekki,
trúi því að þar sjái ég þig, eins og þú ert,
en ég veit af reynslu minni af heimi þínum,
sem þú hefur skapað og stjórnar og leiðir eftir vilja þínum,
að þverstæður lífsins, þjáningin, dauðinn,
verður hlutskipti mitt með meðbræðrum mínum og systrum.
Einmitt þess vegna tek ég undir lífsögrunina með Páli postula:
„Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?
En syndin er broddur dauðans, og lögmálið afl syndarinnar.
Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn
fyrir Drottin vorn Jesú Krist.“ (1. Kor. 15, 55-57).
Hún er ekki skynsamleg þessi afstaða,
enda talaði Páll um hana
sem „gyðingum hneyksli“ og „hellenum heimsku“,
speki krossins og kraft upprisunnar,
í því sama bréfi.
Lofaður sért þú Guð og faðir
að þú hefur opinberast okkur
eins og þú ert í Jesú Kristi,
kærleiksríkur og umhyggjusamur,
og þannig gert okkur tilveruna bærilegri,
nei, dásamlega og góðan stað
til að vera á, sem ég berst fyrir,
vegna þess að hún er sköpun þín.
Þannig tengist fagnaðarerindið og heimurinn,
tilvera mín.
Er það að vera kristinn þá lífsfjandsamlegt?
Er það að vera kristinn að ganga með meinsemd mannkynsins?
Svari mér þeir sem halda slíku fram.
2. apríl 2013