Lyst-serían

Í vetur hef ég stundað nám við Myndlistaskólann á Akureyri. Verkefni í janúar var m. a. að skipuleggja sig og þjálfa í sjálfstæðum vinnubrögðum. Ég ákvað að klára þriggja mynda seríu sem ég fékk hugmynd að á skemmtikvöldum á Kaffi Lyst í Lystigarðinum í desember sl. Helga María dóttir mín stakk upp á nafninu „Lyst-serían“, fannst mér það vel til fundið. Læt ég liggja milli hluta hvaða listafólk var málað. Höfum það til gamans að þeir sem vilja mega geta upp á því. Myndirnar heita: Söngkonan, uppistandarinn og gítarleikarinn. Hér með er fyrsta myndin: Söngkonan.

Markmiðið var að klára þessar þriggja mynda seríu. Ég var með hugmyndina í kollinum á staðnum og tók myndir af viðburðunum. Teiknaði myndirnar hér að neðan eftir myndunum og minni og ákvað að mála þær eftir litapallettu Anders Zorn, þ.e. með mjög þröngri pallettu, svörtum, cadmium rauðum, gulum okur og hvítum. Myndirnar voru málaðar með olíulitum. Fyrstu myndina teiknaði ég aftur því teikningin náði ekki kankvísum svip söngkonunnar og grunnaði með litunum sem urðu eftir við að útbúa litakortið. Aðra myndina grunnaði ég með dökkbrúnum og reyndist það best og lagði mig í líma að ná glettnissvip uppistandarans sem tókst þokkalega. Gítaristann málið ég með svipuðum hætti og fyrstu myndina nema lagði meira í bakgrunninn og prófaði þar bláa og græna litatóna úr pallettunni. Ætlaði að mála „alla prima“ og gerði það nema með þessum undirbúningi og smá snertingu daginn eftir meðan málningin var blaut. Velti því fyrir mér að bæta við örlitlum bláum í miðmyndina þar sem fötin voru mjög litríki. Allt voru þetta skemmtileg kvöld sem ég vona að skíni í gegnum myndirnar, hvert á sinn hátt. Hugmyndin var að þær rímuðu saman varðandi liti, birtu og staðsetningu. Lýsingin var mjög áhugaverð.

Hér koma teikningarnar:

Í bók Juliette Aristides Lessons in Classical Painting eru leiðbeiningar um mismunandi pallettur og ráðlagt að byrja að hafa hana þrönga. Þar er einnig tilvísun í hvernig megi blanda 120 litbrigði sem Zorn vann með. Það eru ótrúlega mörg litbrigði sem fást úr þessum tveimur litum, svörtum og hvítum. Kom mér á óvart þar sem ég hef forðast svartan. Svona lítur litakortið mitt út með fjöldamörgum blæbrigðum húðlitar:

Lyst-serían: Söngkonan

Lysta-serían: Uppistandarinn

Lyst-serían: Gítarleikarinn

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd