Jesús og samverska konan við Jakobsbrunn – Ræða á Hólum

Ný þáttaröð mín á útvarpsstöðinni Lindinni hófst í febrúar. Þættirnir eru flutti á miðvikudögum kl. 9 og sunnudögum kl. 10. Þetta er fjórði þátturinn sem endaði að hluta sem ræða á Svalbarði og Grenivík sunnudaginn 13. febrúar. Ég fékk að láni heiti á erindaröðini titil á bók eftir Øivind Andersen I sjelesorg Hos Jesus eða Í sálgæslu hjá Jesú. Þar útskýrði hann samtal Jesú og samversku konunnar við Jakobsbrunn. Í Svalbarðskirkju er málverk af Jesú og konunni við brunninn. Sjaldan hefur fangnaðarerindið um fyrirgefningu syndanna verið boðað mér með meira innsæi.

Stundum verða á vegi manns fólk sem hefur djúpstæð áhrif á mann. Það skilur eitthvað eftir sig sem verður ómetanlegt. Þannig reynslu á ég af einum kennara mínum. Það var norskur maður sem kenndi mér og samnemendum mínum sálgæslu á biblíuskóla sem ég var á eftir stúdentspróf. 

Það var upplifun að hlusta á Øivind Andersen sem þá var orðinn blindur. Hann kunni Nt. utan að. Eflaust var það sú raun hans sem hafði kennt honum þegar hann sagði við okkur að þú kannt það sem þú kannt utan að. Hann hafði fengið þann úrskurð að hann væri að missa sjónina. Þá fékk hann nemendur sína til að lesa Biblíuna fyrir sig og gríska Nt. Það var stórkostlegt að hlusta á hann. Hann heilsaði okkur alltaf eins: „Hvordan har dere det? Ja, ja det er bra, at dere har det bra“. Sem þýðir eitthvað á þessa leið: Hvernig hafi þið það? Það er vel að ykkur farnast vel. Hljómar skemmtilegar á norsku. Þannig tengdi hann við okkur nemendur sína með alúð. Fyrst fór hann með norska textann á Nt. þegar hann var að kenna okkur svo tók hann grískuna fyrir, og frummerkingu orðanna. Hann kunni líka gríska textann. Hann var svo sannarlega til fyrirmyndar í því að læra Guðs orð og varðveita það! 

Ég fékk hugmyndina frá honum að fjalla um Sálgæslu hjá Jesú þaðan hef ég heitið á þessum erindum. Það heitir bók sem hann skrifaði og það var hann að kenna í þessum tímum sem ég sótti hjá honum. Það eru meir en fjörutíu ár síðan en kennsla hans hefur fylgt mér síðan. Hann var íhaldssamur guðfræðingur í norskri vakningahreyfingu en þar heyrði ég samt fagnaðarerindið best útskýrt og boðað. Meðal annars útskýrði hann frásögninni af samversku konunni við Jakobs brunn í Síkar, sem var borg í Samaríu. Það er eitt af samtölunum í guðspjalli Jóhannesar, í fjórða kafla. Það er enn ljóslifandi fyrir mér þegar hann útskýrði að Jesús varð að fara í gegnum Samaríu. Það er smáorðið „dei“ á grísku. Gyðingar forðuðust það frekar og fóru hjáleið vegna þess að þeir höfðu ekki samneyti við þessa villutrúarmenn, sem höfðu rangsnúið Guðs orði að þeirra dómi, þó að þeir héldu í Mósebækurnar. En Jesús varð að fara þar í gegn. Hann átti erindi sem Jóhannes segir frá. Þannig leitaði Jesú uppi sálir sem voru týndar og leið illa. 

Ég ætla að fylgja útskýringum hans en fyrst skulum við heyra þessa frásögn af samtali Jesú við samversku konuna við brunninn:

Jesús og samverska konan 

Altaristaflan í Svalbarðakirkju í Eyjafirði

Farísear höfðu heyrt að Jesús fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes. Reyndar skírði Jesús ekki sjálfur heldur lærisveinar hans. Þegar Jesús varð þess vís hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu. Hann varð að fara um Samaríu.
Nú kemur hann til borgar í Samaríu er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu sem Jakob gaf Jósef syni sínum. Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður og settist þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: „Gef mér að drekka.“ En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
Þá segir samverska konan við hann: „Hverju sætir að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“ [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]
Jesús svaraði henni: „Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir hver sá er sem segir við þig: Gef mér að drekka, þá mundir þú biðja hann og hann gæfi þér lifandi vatn.“
Hún segir við hann: „Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn? Ertu meiri en Jakob forfaðir okkar sem gaf okkur brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?“
Jesús svaraði: „Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind sem streymir fram til eilífs lífs.“
Þá segir konan við hann: „Drottinn, gef mér þetta vatn svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa.“
Hann segir við hana: „Farðu, kallaðu á manninn þinn og komdu síðan hingað.“
Konan svaraði: „Ég á engan mann.“
Jesús segir við hana: „Rétt er það að þú eigir engan mann því þú hefur átt fimm menn og sá sem þú átt nú er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt.“
Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“
Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“
Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: „Hvað viltu?“ eða: „Hvað ertu að tala við hana?“
Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: „Komið og sjáið mann er sagði mér allt sem ég hef gert. Skyldi hann vera Kristur?“ Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
(Meðan þessu fór fram báðu lærisveinarnir hann: „Rabbí, fá þér að eta.“
Hann svaraði þeim: „Ég hef mat að eta sem þið vitið ekki um.“
Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: „Skyldi einhver hafa fært honum að eta?“
Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“ )
Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar sem vitnaði um það að hann hefði sagt henni allt sem hún hafði gert. Þegar því Samverjarnir komu til hans báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
Og miklu fleiri tóku trú þegar þeir heyrðu hann sjálfan. Þeir sögðu við konuna: „Það er ekki lengur sakir orða þinna að við trúum því að við höfum sjálfir heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“

Jóh 4.5-29

Aðdragandi og lifandi vatn – níu atriði

(1). Það er athyglisvert að átta sig á hvenær dags Jesús sest við brunninn og konan kemur þar að. Jesús varð sem sagt að koma þangað vegna þess að samverska konan var vansæl og jaðarsett í samfélaginu í þorpinu og utangarðs. Við heyrum svo að það var vegna lífernis hennar að hún var í þessari stöðu og leið augljóslega illa. (Samkvæmt Mósebókunum var hún bersyndug og eflaust hafði hún auk þess bakað sér illvilja kvennanna í þorpinu.) Hún fór að brunninum að sækja vatn um hádegið þegar sól var hæst á lofti í hitastækju þegar engir aðrir voru á ferð. Hún vildi engan hitta við brunninn þegar hún fór að sækja vatn.  

(2). Hún varð hissa á beiðni Jesú um vatn vegna þess í fyrsta lagi var hann gyðingur og þeir voru yfirleitt ekki að hafa samneyti við Samverja og í öðru lagi var hann karlmaður að ávarpa ókunna konu. Lærisveinunum fannst það óviðeigandi þegar þeir komu aftur úr þorpinu þangað sem þeir höfðu farið að kaupa mat. Það er ekki laust við háð í rödd hennar, finnst mér, Jesús hafði ekkert ílát, hjálparlaus og á skjön við siðvenjur síns tíma. Líklega hefur hún frekar átt von á skömmum og fyrirlitningu en þessari bón. Með því að virða hana viðlits og ávarpa hana opnaði Jesús fyrir samtalið. Með því að Jesús bað hana um greiða, að gefa sér að drekka, þá fékk hann tækifæri til að hjálpa henni. Þannig eigum við líka að nota tækifærin sem okkur gefast til góðra samskipta og að virða hvert annað eins og Jesús gerði.

(3). Enn frekar getum við lært af Jesú af því að hann mætti leitandi fólki ekki með fordæmingu heldur með gjöf Guðs: „Ef þú þekktir gjöf Guðs,“ sagði hann, „og vissir hver segir við þig: Gef mér að drekka myndir þú biðja hann að gefa þér lifandi vatn.“ Hann gerði ekki kröfu né lagði ströng boð á herðar hennar. Því miður hættir okkur fylgjendum að gera það í stað þess að boða fagnaðarerindið. Um hvaða gjöf var Jesús að tala eða öllu heldur hver er þessi gjöf Guðs.

Það er eins og ég heyri Andersen segja:

Guðs gjöf er fyrst og fremst Jesús sjálfur. Guð hefur sent og gefið son sinn einasta syndugu og föllnu mannkyni. Með þessum sínum syni hefur hann veitt okkur frelsi frá öllum syndum okkar, og gefið okkur eilíft líf. (Bls. 12)

Mesta ógæfa manna er ekki synd þeirra heldur að taka ekki á móti gjöf Guðs sem hann réttir að okkur og gefur okkur. Jesús frelsar frá öllum syndum og yfirtroðslum og gefur eilíft líf. Hann kom færandi hendi en ekki með kröfur né áskoranir um að standa sig betur.

Konan áttaði sig á að Jesús væri að tala um annað vatn en það sem var í brunninum. Eitthvað sem hún þráði en áttaði sig ekki fyllilega á hvað það var.

(4). Þannig vakti Jesús tvær spurningar í huga konunnar: Um hvað ertu eiginlega að tala? Og: Hver ertu eiginlega? Jesús notaði myndmál þegar hann bauð konunni lifandi vatn. Jakobsbrunnur hafði að geyma rennandi vatn en um leið er lifandi vatn tákn fyrir heilagan anda. Hún spurði hann hvort hann væri meiri en Jakob sem hafði gefið þeim brunninn.

Þau eru á góðri leið sem spyrja þannig: Hvað er Guðs orð að gefa mér? Hver er Jesús? Er hann sá sem Biblían segir að hann sé?

Þannig vaknaði hjá henni dýpsta þrá hennar, nokkuð sem hún hafði gefið upp alla von um að yrði svalað.

Andersen segir: 

Þetta er sannleikurinn um Jesú og orð hans. Hann er það sem fólk mest af öllu þarfnast og þráir innst inni. En það sér það ekki. Svo það snýr sér frá Jesú og orði hans og leitar eftir því sem á að gefa lífi þeirra tilgang og merkingu þar sem hana er ekki að finna. Þess vegna er það stórkostlegt þegar fólk fer að spyrja um hver Jesús er, og hvað hann hefur að gefa. (Bls. 14).

Svar Jesú snéri að þessari dýpstu þörf og þrá hennar. Vatnið sem Jesús bauð henni var með þeim hætti að þau sem af því drekka þyrstir ekki aftur, aldrei að eilífu, vatnið sem hann gefur verður að vatnslind sem sprettur fram til eilífs lífs.

Jesús gefur með þessu tvöfallt loforð. Vatnið sem hann gefur veitir eilíft líf og svalar dýpstu þrá mannsins. Þorsti er orðið sem Jesús notar og vísar til Slm 42 um hindina sem þráir vatnslindir. Hitt loforðið er að þau sem taka við því sem Jesús býður eignast ekki aðeins sjálf eilíft líf heldur að lífið sem þeim er gefið nær til annarra. Jesús segir: „Ég er komin til að þið hafið líf og gnægtir“ (Jóh 10.10).

Ég held mikið upp á sálm Bjarna Eyjólfssonar Ég leitaði þyrstur að lind þeirri hér. Sálmurinn geymir trúarreynslu hans en á svo vel við þessa djúpu þrá sem við höfum eftir Guði þó að við áttum okkur ekki fyllilega á henni. Það er Guð einn sem getur svalað þeim þorsta. Það er sálmavinafélagið sem flytur lagið Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, Rúna Þráinsdóttir og Bjarni Gunnarsson.

Ég leitaði þyrstur að lind þeirri hér
er lægt gæti eilífðarþorstann í mér
en svikull var brunnur er bergði ég af,
við brennandi þorsta ei svölun hann gaf.

Þá ómaði rödd mér í eyrunum mild:
„Kom, örþreytta sál, ég mun veita þér hvíld.“
Það Drottinn var sjálfur er flutti mér frið,
hann fann mig og lagði mig hjarta sitt við.

Þar óhultur hvíli´ eg af einskærri náð
þótt aldrei ég skilji Guðs miskunnarráð:
Mér hjálpræði, réttlæti´ og helgun er veitt,
hans heilaga blóð hefur sekt mína greitt.

Mig þyrsti´ eftir svölun á þrá minni hér
og þúsundfalt Drottinn það veitt hefur mér.
Með fögnuði´ eg lindum hans ausið fæ af,
sig allan hann þurfandi sál minni gaf.

Bjarni Eyjólfsson

Sönn tilbeiðsla og þekking á föðurnum

(5). Konan brást við orðum Jesú um gjöf Guðs að biðja: „Drottinn gef mér þetta vatn svo ég þurfi ekki að þyrsta og koma hingað til að ausu upp vatni“. Hér tala þau saman með myndmáli sem var venjulegt fyrir þeim í Austulöndum en óvanalegt fyrir okkur á Vesturlöndum. Við hugsum röklegar og stærums af því. Hún sá fyrir sér að gagn af bæn hennar væri að hún losnaði undan því lífi sem hún lifði. Æ, að verða laus undan dómi og ásökunum, verða laus við fyrirlitningu fólksins. Líf eftir girnd og löngun leiðir til tómleika og angurs. Fólk er eins og fiskar í neti sem komast ekkert þó þeir sprikli fyrir lífi sínu. Það er aðeins ein leið út úr ófærunni: Jesús Kristur! Hann kom til að leita að hinu týnda og frelsa það. Án hans erum við án undantekninga týnd, þó að það fara algjörlega þversum í okkur, að viðurkenna þá stöðu okkar.

(6). Jesús heyrði og svaraði bæn konunnar. En viðbrögð hans hljóma undarlega. Jesús sagði við konuna: „Farðu og kallaði á manninn þinn og komdu svo hingað!“ Til að skilja þetta verðum við að skoða það nánar hvað fór á milli þeirra. Jesús snerti á viðkvæm máli í lífi konunnar sem við fáum aðeins innsýn í. Gjöf Guðs fylgir að lifa í ljósinu með Drottni og þá koma syndir okkar skýrar fyrir hugskotssjónum okkar. Þannig er sálusorgun Jesú. Samhliða gjöfinni góðu sjáum við sannleikann um okkur sjálf. Þá verður syndin það sem hún er í raun synd gegn Guði. Jesús er ekki siðaprédikari. Hann fer ekki fram á að við tökum okkur saman og stöndum okkur betur. Slíkar ræður eru ekki frá Jesú heldur frá mönnum og hugmyndum þeirra um trúarbrögð. Nokkuð sem hefur ekkert með Guð að gera, heldur þvert á móti, hindrar það fólk frá því að reyna frelsið og eignast samfélag við Guð. Það sem skiptir mestu varðandi syndajátningu okkar er ekki fjöldi synda okkar sem við teljum upp og alvarleiki heldur að við sjáum að við erum vonlaus án Jesú og leitum til hans til að eignast lífið. Sannleikurinn verður að koma í ljós vegna þess að Guð er sannleikurinn.

(7). Við heyrum af orðum konunnar að hún viðurkenndi sannleikann um sig: „Ég á engan mann“. Varlega var það tjáð en játning engu að síður. Jesús tók svari hennar og sagði: „Satt segir þú, þú hefur átt fimm menn og sá sem þú ert með nú er ekki maðurinn þinn. Það sagðir þú satt.“ – Samkvæmt lögmáli Móse, sem var sameiginlegt trúarrit Samverja og Gyðinga, lifði hún ekki í samræmi við það. Jesús tók undir að ákveðin skikkan skaparans sé varðandi hjónaband, skilnaður var vegna „þverúðar“ manna (Mt 19.8). Skilnaður hefur oftast sársauka í för með sér. Það má líkja því við að tvö blöð hafa verið límd saman og skilnaður er eins og að rífa þau í sundur aftur. Konan virðist hafa valdið slíkum sársauka og bakað sér óvildar í þorpinu. 

 Það þarf ekki mörg orð af okkar hálfu til að játa sannleikann um okkur sjálf. Játning er ekki spurning um djúptæka rannsókn heldur að viðurkenna það sem Guðs orð segir um okkur og heilagur andi afhjúpar í lífi okkar. Syndajátning er að viðurkenna að Guðs orð segir sannleikann um okkur en ómögulegt er að gera sér fullkomna grein fyrir öllum syndum sínum en með tímanum vöxum við vonandi í því að þekkja okkur sjálf.

 Pétur Þórarinsson, vinur minn og prófastur, var einn ærlegasti maður, sem ég hef kynnst. Við gengum saman í gegnum Tólf spora starf og ræddum þar um breyskleika okkar. En það er svo gott að mega koma til Drottins eins og við erum. Hann nær að tjá það svo vel í þekkta sálminum sínum sem felur í sér syndajátningu sem við tökum ekki alltaf eftir: Í bljúgri bæn og þökk til þín.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ Drottinn minn.

Pétur Þórarinsson

(8). Eftir þetta er komið nýtt upphaf hjá konunni. Hún sá að Jesús er að birta henni ný sannindi um hana sjálfa og sér sig í nýju ljósi þegar hún segir: „Ég SÉ að þú ert spámaður!“ Einnig uppgötvaði hún nýja hluti um Jesú og hver hann er. Þegar Jóhannes notar orðið SJÁ er það eins og við notum orðið að reyna eða reynsla. Það er samspil milli þessa að við viðurkennum hver við erum eftir Guðs orði og að við reynum nýtt samband við Drottin Jesú Krist.

Þá eigum við til að gera eins og konan að okkur hættir til að halla okkur að fölsku öryggi okkar sem m.a. er fólgið í trúarbrögðum okkar og væntingum um framhaldslíf, sem við notum til að hugga okkur og aðra. Hún tekur það upp við Jesú í framhaldinu: „Feður okkar tilbáðu á þessu fjalli en þið (gyðingar) segið að tilbiðja eigi Guð í Jerúsalem“. Undirleg spurning við þessar aðstæður en það birtir falskt öryggi okkar í nýju ljósi. Flestir biðja af og til jafnvel þeir sem trúa ekki á að við séum annað en efnahvörf og rafboð. Menn gera sér vonir um góðan endi á sögu okkar hvers og eins og veraldarinnar. Þegar við stöndum frammi fyrir Guði afhjúpast þessar hugsanir okkar að þær duga ekki. Jesús svarar henni: „En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur mun tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er anda og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“

Þetta svar Jesús tekur frá konunni og reyndar okkur þá von að bænir hennar muni koma henni til hjálpar eða nokkuð sem hún gerir. Það á þá líka við okkur. En hún hefur beðið eina bæn í „anda og sannleika“ sem er „Drottinn, gef mér þetta vatn!“ Bæn í anda og sannleika verður ekki án þess að andi Guðs fyrir orð hans komi því til leiðar í hjarta manns. Það er þessi hjálparlausa og ráðvillta afstaða sem Jesús leiðir okkur til sem er syndajátning og iðrun hjartans sem andinn kemur til leiðar. En hvað svo?

(9). Þá gerist nokkuð merkilegt. Án þess að konan gerir sér fyllilega grein fyrir því leiðir Jesú huga hennar að því sem hann vill, til Messíasar. Gegnum sálusorgun sína hefur Jesús beint huga hennar og hjarta að fyrirheiti Guðs um frelsun. Konan segir: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“ Þá birtir Jesús konunni hver hann er og með því gefur hann henni lifandi vatn sem hann hafði boðið henni og hún hafði beðið um. Það gerir hann með orðunum: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“ Þá sá konan við hvern hún var að tala. Hún reyndi að Jesús hefur vald til að fyrirgefa og frelsa. 

Eilíft líf er að þekkja Jesú og þann sem hann sendi, föðurinn á himni. Þekking í Biblíunni merkir að vera í samfélagi við en ekki bara þekkingaratriði. Það er Guðs orð að kenna okkur, eins og þessi frásaga af konunni við brunninn, og vekja með því trú okkar og traust til Drottins og að hann einn getur frelsað okkur frá syndum okkar. 

Það var nýtt upphaf fyrir þessa konu því hún flýtti sér inn í bæinn, til fólksins sem hafði fyrirlitið hana, og sagði: „Komið og sjáið manninn sem sagði mér allt sem ég hef gert! Skyldi hann vera Kristur?“ 

Það var upphafið að vakningu í Samaríu og orðin rættust að vatnið sem Jesús gaf henni varð að lind sem spratt fram til eilífs lífs. Hún varð til að miðla þessu lifandi vatni til fólksins í Síkar. Þetta er sagan um hvernig söfnuðurinn í Samaríu varð til. Sagt er frá því að Jesús dvaldi þar í tvo daga. Margir tóku trú fyrir vitnisburð konunnar. Vitnisburður fólksins í Síkar var þessi: „Það er ekki lengur sakir orða þinna að við trúum því að við höfum sjálf heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“

Published
Categorized as Ræður

Eftir Guðmundur Guðmundsson

Héraðsprestur í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: